Almannatryggingar

14.12.2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 120/2016

Miðvikudaginn 14. desember 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. febrúar 2016 um breytingu á búsetuhlutfalli við útreikning á bótaréttindum hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fær greiddan skertan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins vegna búsetu hans á B og í C. Með bréfi, dags. 30. desember 2015, óskaði kærandi eftir breytingu á viðmiði við útreikning á búsetutíma hans og fór fram á að miðað yrði við búsetutíma fyrrverandi eiginkonu hans hér á landi á tímabilinu frá árinu 1993 til X 1997 en þann dag gekk lögskilnaður þeirra í gegn. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2016, var beiðni kæranda þar um synjað á þeirri forsendu að hann væri ekki í hjúskap. Í bréfinu segir að til þess að lífeyrisþegi geti miðað við búsetutíma maka þurfi lífeyrisþegi að vera í hjúskap með öðrum lífeyrisþega á þeim tíma sem sótt sé um. Ekki sé heimilt að miða við búsetutíma fyrrverandi maka.  

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. mars 2016. Með tölvubréfi 30. mars 2016 óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Þann 1. apríl 2016 bárust úrskurðarnefnd viðbótargögn frá kæranda. Með tölvubréfi úrskurðarnefndar sama dag voru þau kynnt Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 20. apríl 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Kærandi lagði fram gögn frá Þjóðskrá hjá úrskurðarnefnd 27. maí 2016 og voru þau kynnt Tryggingastofnun ríkisins með tölvubréfi nefndarinnar sama dag. Með bréfi, dags. 20. júní 2016, bárust upplýsingar frá Tryggingastofnun ríkisins um að með hliðsjón af nýjum gögnum kæranda hafi búsetuhlutfall hans verið leiðrétt. Bréfið var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júní 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að tekið verði tillit til áranna 1993 til 1998 við útreikning á búsetuhlutfalli hans á Íslandi.

Í kæru segir að kærandi fái ekki greiddan lífeyri annars staðar frá. Á sínum tíma hafi hann gengið í lífeyrissjóð, en verið færður þar sem hann hafi færst á milli starfsgreina. Kæranda hafi verið sagt að þessi réttindi myndu flytjast með honum, en seinna hafi komið í ljós að þau gerðu það ekki og honum ásamt öðrum atvinnurekendum verið vísað úr lífeyrissjóðum launþega. Einhverjum árum síðar var haft samband við kæranda og honum boðin aðild á nýjan leik sem ekki hafi orðið af. Síðar hafi komið í ljós að inneign kæranda hafi ekki verið færð og komið honum til góða nú, þótt upphæðin væri ekki há.

Þá gerir kærandi grein fyrir aðstæðum sínum og fyrrverandi eiginkonu á árunum 1993 til 1997.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun um hækkun búsetuhlutfalls ellilífeyris í samræmi við búsetu fyrrverandi eiginkonu kæranda.

Ellilífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu 67 ára eða eldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skuli vera [297.972 kr.] á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutíma. Heimilt sé þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fái lífeyri, við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár hafi kærandi verið búsettur í D frá 8. október 1989 til 27. mars 1990, á B frá 1. júní 1990 til 10. júlí 1999 og í C (þar sem hann sé nú búsettur) frá 1. ágúst 2002. Fyrrverandi eiginkona kæranda hafi á hinn bóginn verið búsett á B frá 1. júní 1990 til 15. mars 1993 og síðan þá á Íslandi, samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár.

Hjónabandi kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans hafi lokið með skilnaði að borði og sæng 30. apríl 1996 og lögskilnaður gengið í gegn X 1997.

Búseta kæranda á Íslandi reiknist frá sextán ára aldri miðað við eftirfarandi tímabil, þ.e. frá 6. febrúar 1961 til 8. október 1989, frá 27. mars 1990 til 1. júní 1990 og frá 10. júlí 1999 til 1. ágúst 2002 eða í samtals 31,83 ár. Á grundvelli búsetu reiknist kærandi því með 79,58% ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Þar sem hann hafi hafið töku ellilífeyris 1. maí 2015 fái hann greidda aldurshækkun vegna frestunar á töku lífeyris og greiðsluhlutfall nemi því 94,7%.

Með bréfi, dags. 30. desember 2015, hafi kærandi óskað eftir hækkun búsetuútreiknings ellilífeyrisgreiðslna hans á grundvelli þess að fyrrverandi eiginkona hans hafi verið búsett hér á landi frá árinu 1993 og hann hafi verið hér á landi meira og minna öll ár frá árinu 1994.

Samkvæmt upplýsingum í umsókn um ellilífeyri, sem hafi borist 31. júlí 2015 frá C þar sem kærandi sé nú búsettur, hafi hann verið búsettur þar í landi frá árinu 1995. Honum virðist hafa verið synjað um ellilífeyri í C vegna þess að hann uppfylli ekki tryggingatímabil þar sem hann hafi aldrei gefið upp atvinnutekjur þar í landi. Einnig komi fram að hann sé kvæntur frá X 2011, þótt ekki komi fram aðrar upplýsingar um núverandi maka hans.

Með bréfi, dags. 16. febrúar 2016, hafi kæranda verið synjað um hækkun á búsetuútreikningi á grundvelli heimildar í lokamálslið 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar til að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fái lífeyri, við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma. Synjunin byggist á því að til þess að heimildin eigi við þurfi lífeyrisþegi að vera í hjúskap á þeim tíma sem sótt sé um með öðrum lífeyrisþega. Ekki sé heimilt að miða við búsetutíma fyrrverandi maka.

Tryggingastofnun telji að ekki verði litið á kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans sem hjón í skilningi lokamálsliðar 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar og heimild til þess að miða við búsetutíma þess sem eigi lengri réttindatíma sé því ekki fyrir hendi.

Í athugasemdum stofnunarinnar segir að borist hafi staðfesting Þjóðskrár um búsetu kæranda þar sem gerð hafi verið sú breyting að í stað þess að hann sé skráður búsettur á B frá 1. júní 1990 til 10. júlí 1999 sé hann skráður á B frá 1. júní 1990 til 17. nóvember 1995, í C frá 17. nóvember 1995 til 13. nóvember 1997 og á Íslandi frá 13. nóvember 1997 til 1. ágúst 2002.

Með hliðsjón af upplýsingum Þjóðskrár hafi búsetuútreikningur kæranda verið leiðréttur. Vegna búsetuskerðingar hækki greiðsluhlutfall kæranda úr 79,58% í 83,75% sem vegna aldurshækkunar geri hækkun úr 94,7% í 99,66% greiðslur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um hækkun búsetuhlutfalls með hliðsjón af búsetu fyrrverandi eiginkonu hans hér á landi á tímabilinu frá árinu 1993 til 9. maí 1997.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rétt til ellilífeyris eigi þeir sem séu 67 ára og eldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Fullur ellilífeyrir skal vera [297.972 krónur] á ári og greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, í að minnsta kosti fjörtíu almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs, sbr. þó 2. mgr. Sé um skemmri tíma að ræða greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri beggja hjóna, sem bæði fá lífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.

Samkvæmt framangreindu ákvæði eru fullar greiðslur ellilífeyris fyrir hendi þegar um búsetu í að minnsta kosti fjörtíu almanaksár er að ræða frá 16 til 67 ára aldurs. Þar sem kærandi uppfyllir ekki búsetuskilyrði að fullu vegna búsetu erlendis á nefndu tímabili nýtur hann skertra lífeyrisréttinda hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár var kærandi búsettur hér á landi á eftirfarandi tímabilum frá 16 til 67 ára aldurs: Frá 6. febrúar 1961 til 8. október 1989, frá 27. mars 1990 til 1. júní 1990 og frá 13. nóvember 1997 til 1. ágúst 2002. Útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins leiðir því til þess að búsetuhlutfall hans hér á landi sé 83,75% og taka bótagreiðslur mið af því en greiðslur hafa verið hækkaðar í 99,66% vegna frestunar á töku lífeyris, sbr. 23. gr. laga um almannatryggingar.

Í máli þessu snýst ágreiningur um hvort Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að hækka búsetuhlutfall kæranda með hliðsjón af búsetu fyrrverandi eiginkonu hans hér á landi á tilteknu tímabili. Kærandi greinir frá því að hún hafi verið búsett hér á landi frá árinu 1993 og fer því fram á að miðað verði við tímabilið frá árinu 1993 fram til 9. maí 1997 en þann dag gekk lögskilnaðar þeirra í gegn. Kærandi nefnir að á þessu tímabili hafi hann meira og minna verið hér á landi.    

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála á ákvæði 4. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar við þegar hjón eru lífeyrisþegar. Eins og áður greinir gekk lögskilnaður kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans í gegn X 1997. Því er ljóst að þau eru ekki hjón. Þegar af þeirri ástæðu telur úrskurðarnefnd að ekki komi til greina að miða bótaútreikning kæranda við búsetutíma fyrrverandi eiginkonu hans hér á landi.  

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um breytingu á búsetuhlutfalli hans með hliðsjón af búsetutíma fyrrverandi eiginkonu hans hér á landi á tilteknu tímabili.

Kærandi byggir á því í gögnum málsins að hann hafi verið meira og minna hér á landi á árunum 1993 til 1997. Úrskurðarnefnd telur því rétt að benda kæranda á að hann geti kannað möguleika á leiðréttingu á lögheimilisskráningu á því tímabili hjá Þjóðskrá Íslands, telji hann skráningu stofnunarinnar ranga. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni A, um breytingu á búsetuhlutfalli hans með hliðsjón af búsetutíma fyrrverandi eiginkonu hans hér á landi er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir