Almannatryggingar

8.2.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 107/2016

Miðvikudaginn 8. febrúar 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 9. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. desember 2014 um endurskoðun á búsetuhlutfalli hans, ákvörðun stofnunarinnar frá 19. desember 2014 um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá Noregi og ákvarðanir stofnunarinnar frá 19. október 2015 annars vegar ákvörðun um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2014 og hins vegar ákvörðun innheimtu ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2014, var kæranda tilkynnt um að við endurskoðun á réttindum hans hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hafi ekki verið rétt skráð. Fram kemur að lífeyrir hans hafi verið 100% þrátt fyrir að hann hafi einungis búið á Íslandi í rúm 11 ár á aldrinum 16 ára fram að fyrsta örorkumati. Með framreikningi bætist við 24,9 ár sem gefi 91,8% búsetuhlutfall. Greiðslur verði endurreiknaðar frá 1. febrúar 2015. Kærandi gerði athugasemd við framangreinda ákvörðun með tölvubréfum til stofnunarinnar þann 14., 16. og 17. desember 2014. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. desember 2014, var ákvörðun stofnunarinnar um breytingu á búsetuhlutfalli kæranda ítrekuð. Þá var greint frá því að í janúar 2015 myndu greiðslur til hans lækka vegna þess að stofnuninni hafi verið tilkynnt um greiðslur til hans frá NAV í Noregi og þær greiðslur hefðu áhrif á greiðslur hans frá Tryggingastofnun. Kærandi andmælti þeirri niðurstöðu með tölvubréfi 19. desember 2014 og Tryggingastofnun sendi honum fyrrgreinda ákvörðun með tölvubréfi sama dag.

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. október 2015, var kæranda tilkynnt um endurreikning og uppgjör vegna ársins 2014. Með bréfi, dagsettu sama dag, var hann jafnframt krafinn um endurgreiðslu bóta, samtals að fjárhæð 50.047 krónur. Með tölvubréfum kæranda 21., 22., 26., og 27. október 2015, óskaði hann rökstuðnings fyrir ákvörðunum stofnunarinnar. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. nóvember 2015, var umbeðinn rökstuðningur veittur. Í bréfinu kemur meðal annars fram að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli það sem ofgreitt sé dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til. Þá segir að kærandi hafi ekki upplýst stofnunina um greiðslur hans frá Noregi sem væru um 180.000 krónur á mánuði. Upplýsingar þar um hafi borist frá stofnuninni NAV í Noregi í lok árs 2014. Þar að auki hafi borist upplýsingar um lagabreytingar þar í landi sem tóku gildi 1. janúar 2015. Þar sem nýtt kerfi NAV, tilkomið með hliðsjón af nefndum lagabreytingum, byggi alfarið á launatekjum telji Tryggingastofnun að lífeyrisgreiðslur NAV, að undanskildum bótaflokki sem nefndist „minsteyelse“, hafi sömu áhrif á bætur Tryggingastofnunar og greiðslur íslenskra lífeyrissjóða. Kærandi fái greiddar bætur frá NAV sem nefnist „uføretrygd“ og þar sem stofnunin hafi ekki haft upplýsingar um tekjurnar hafi bætur verið ofgreiddar og mánaðargreiðslur frá Tryggingastofnun lækkað af sömu sökum. Að lokum var ítrekað að greiðslur kæranda frá Noregi myndu hafa áhrif á framtíðargreiðslur hans frá stofnuninni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. mars 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. mars 2016, var kæranda gefinn kostur á að veita útskýringar á því hvers vegna kæra barst nefndinni að liðnum lögboðnum þriggja mánaða kærufresti, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Með tölvubréfi kæranda 23. mars 2016 bárust umbeðnar skýringar og vottorð Dr. B, dags. 22. mars 2016, sem staðfesti geðræn veikindi kæranda. Málið var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndarinnar þann 6. apríl 2016 þar sem ákveðið var að taka hluta málsins til frekari efnislegrar skoðunar þrátt fyrir að lögboðinn kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. apríl 2016, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. maí 2016. Með bréfi, dags. 12. maí 2016, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með tölvubréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. maí 2016. Viðbótargreinargerð, dags. 20. maí 2016, barst frá stofnuninni og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. maí 2016. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfum 5. og 18. júlí 2016 og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. ágúst 2015. Þá voru fyrri rök að nokkru ítrekuð með tölvubréfi frá kæranda 2. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en af gögnum málsins má ráða að hann óski eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði ákvarðarnir Tryggingastofnunar frá 11. desember 2014, 19. desember 2014 og 19. október 2015.

Í kæru segir að Noregur, sem hafi byrjað greiðslur á 13.000 krónum, greiði nú fyrir fjögur og hálft ár 600€/9 = 73,33 x 23 = 1686,59€ sem samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar frá árinu 1997 ættu að vera bætur kæranda. Hann hafi fengið 875,00€ á árinu 2014, sem jafngildi því að Ísland hafi greitt honum vegna tæplega sex ára í stað ellefu og hálfs. Það sé tæplega 100% minna en ef íslensku bæturnar hefðu fylgt þeim norsku sem þær eigi að sjálfsögðu að gera. Íslenska krónan hafi ekki fallið um 97,5% á móti þeirri norsku. Stofnunin hafi skipulega lækkað bætur hans um 100% síðastliðin nítján ár og geti ekki flúið undan þessum tölum.

Kærandi hafi orðið alvarlega veikur um leið og hann hafi fengið bréf Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. desember 2014, og byrjað að kvarta á Facebook, í gegnum heimasíðu stofnunarinnar og með fjölmörgum tölvupóstum. Það hafi ekki verið fyrr en um mánaðamótin desember 2015 og janúar 2016 sem hann hafi fengið upplýsingar um að hann gæti kært til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá hafi hann hvorki fengið eyðublað né upplýsingar um hvernig hann gæti komið kæru til nefndarinnar fyrr en 7. mars 2016. Í einu bréfinu sé því haldið fram að kærandi fái 180.000 krónur á mánuði frá Noregi. Það sé ekki rétt. Kærandi hafi átt þriggja kosta völ frá því að hann varð bótaþegi. Í fyrsta lagi hefði hann getað fengið lítið herbergi með morgunverði. Í öðru lagi íbúð og ekkert. Í þriðja lagi að búa úti og borða. Á árinu 2008 hafi hann verið í íbúð í augnablik. Síðan hafi hann flúið til hlýrra lands til að lifa á götunni. Kærandi efi ekki að úrskurðarnefnd velferðarmála lagi þetta fyrir hann.

Kærandi fer fram á að misgjörðir í bréfum, sem hafi með öllu verið tilhæfulausar, verði strokaðar út. Hann veltir því upp hvort 370€ munur á greiðslum frá Íslandi og Noregi sé réttur. Kærandi fer fram á að byrjað verði að leiðrétta árið 2014, 12 x 55.000 = 660.000. Þá skuli greiðslur leiðréttar úr 169.000 í 178.000 sem hafi verið áætlun Tryggingastofnunar um tekjur hans á árinu 2015 í bréfi til skattstofu. Síðan skuli hækkunin á árinu 2016 tekin og leiðréttir liðnir mánuðir og gangandi bætur.

Horfa skuli til þess að sautján árum frá upphafi greiðslna segi einhver að tryggingabætur kæranda hafi ekki verið rétt reiknaðar. Hann veltir því upp hver skýringin sé á því að það sé yfirleitt hægt.

Í útskýringarbréfum segi að um mistök hafi verið að ræða. Kærandi sé bara til frá 16 til 32 ára aldurs. Þegar Tryggingastofnun og NAV hafi reiknað út bætur hans hafi hann verið á 33-8 aldursári. Því skilji kærandi ekki það bréf. Í öðru bréfi hafi komið fram að reiknuð hafi verið 24,5 ár og svo hverfi 33% þann 1. janúar 2014.

Kærandi greinir frá því að hann hafi á árinu 1997 orðið óvinnufær vegna […] og annarra kvilla og lýsir umsóknarferlinu ítarlega. Einnig lýsir kærandi ítarlega fjárhagslegum og félagslegum erfiðleikum sínum.

Þá segir að þegar kærandi hafi fengið fyrstu mánaðargreiðslurnar frá Noregi hafi þær verið 14.000 krónur, síðan rúmlega 13.000 krónur í upphafi. Sé reiknað í hálfum árum níu fyrir fjögur og hálft ár í Noregi sem sé samt 15% skattur. Kærandi hafi orðið óvinnufær 32 ára gamall en unnið utan skóla á fimmtánda aldursári. Hann hafi frá 16 til 32 ára aldurs verið 4 og hálft eða 9 og hálft ár í Noregi og á Íslandi í 11 og hálft ár eða 23 og hálft ár. Þetta geri því 14.000/9 = 1555.55 x 23 = 35.777 + 8000 rúmar í heimilisuppbót sem geri þær um 43-4000 sem hann hafi fengið [19]97 frá Tryggingastofnun ríkisins eða nákvæmlega rétt. Icesave hafi breytt hlutföllunum verulega. Í nóvember 2014 hafi greiðslur hans staðið og hér eftir reiknað í evrum. Noregur 525/9 = 58.333 x 23 = 1341.66667. Kærandi hafi verið að fá greiddar 1070.00000 eða alls 371.66667€ minna en upphaflega hafi verið greitt á mánuði. Um sé að ræða tölur án skatts.

Þann 21. desember 2014 hafi kærandi fengið ruglingslegt bréf þar sem fram hafi komið að hann hefði einungis verið lifandi frá 16 til 32 ára aldurs og ekki upplýst Tryggingastofnun ríkisins um norskar bætur. Þá hafi komið fram í öðru bréfi að hann hefði verið í Noregi, en stofnunin hafi verið búin að sækja um bæturnar og framlengja þær. Samkvæmt bréfinu hafi kærandi því átt að upplýsa stofnunina um hvað hún hefði gert. Af bótum hans hafi verið teknar nærri 55.000 krónur á mánuði. Í október 2014 hafi bæturnar verið 169.000 krónur á mánuði og síðan verið lækkaðar í 122.000 krónur 1. janúar 2015. Þá gerir kærandi athugasemdir við starfsfólk stofnunarinnar. Kærandi hafi ekki verið hress með að bíða í tvö ár eftir fyrstu greiðslu frá Noregi. Ekki nóg með það heldur hafi átt að taka skatt af þessum 122.000 krónum. Því noti kærandi 55.000 lækkunar töluna sem og áætlun stofnunarinnar um 178.000 krónur fyrir árið 2015.  Þá skuli litið til greiðslna á árinu 2014 og nota heildarupphæð með skatti.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að hann hafi séð að á einum stað komi eftirfarandi fram „hann hefur alveg rétt fyrir sér“ og þar sé heilbrigð manneskja að tala. Þá hafi stofnunin fullyrt að ekki hafi verið sótt um bætur fyrir hann. Stofnunin hafi sent launaseðla frá NAV, sem kærandi hafi raunar sent stofnuninni með skattaskýrslu, og hann sent þetta til þeirra fyrr eða áður en fullyrt hafi verið að hann hafi aldrei upplýst um norskar bætur sínar. Þar að auki hafi stofnunin í tvö skipti sótt um bæturnar fyrir hann. Samkvæmt þeim launaseðli hafi hann haft 4593 norskar krónur á mánuði, en stofnunin haldi einnig fram að hann hafi 180.000 krónur á mánuði frá Noregi. Það geri norsku krónuna að 39.10 íslenskum. Internetið segi 15.3. Kærandi veltir upp hvor hafi rétt fyrir sér Tryggingastofnun eða gengið.

Fullyrðingum Tryggingastofnunar um að lífeyrissjóður greiði honum 178.000 krónur á ári hafi hann þegar mótmælt með sannleikanum. Í upphafi ársins 1997 hafi hann fengið 2300 úr lífeyrissjóði sem hafi aukist með árunum í um 8000. Þá hafi sjóðurinn hætt að borga á þeirri forsendu að upphæðin væri of lág. Þetta hafi verið fyrir um tíu árum síðan. Hann hafi hringt í bankann sem hafi fullyrt að einu tekjur hans væru frá Tryggingastofnun. Hann hafi í tvö skipti sent stofnuninni þessa yfirlýsingu. Greiði hún inn á annan banka hafi bankinn ekki upplýst hann um það. Hann hafi ekki heyrt frá lífeyrissjóðnum síðan fjárhæðin 8000 krónur hafi verið of lág til að greiða.

Kærandi hafi nú séð bréf NAV en kannist ekki við að hafa séð það áður. Þetta sé engin vörn hjá stofnuninni. Tölur, sem séu varla nokkrar, styðji fremur kæru hans. Kærandi hafi sent beiðni til NAV um að senda úrskurðarnefnd velferðarmála upplýsingar um sendanda fyrstu umsóknar um örorkubætur og framhaldsumsókn um bæturnar. Hafi stofnunin ekki þær upplýsingar, þ.e.a.s. viti ekki hvaðan þær komu, en stofnunin hafi bæði útbúið og sent þessa pappíra, þá muni kærandi biðja NAV að senda þessa pappíra til norsku lögreglunnar.       

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að rekja megi mál kæranda til ársins 2014 þegar borist hafi upplýsingar um örorkulífeyrisgreiðslur frá Noregi og fyrirhugaðar lagabreytingar. Tilkynningin hafi meðal annars haft í för með sér að breytingar urðu á búsetuhlutfalli kæranda ásamt lækkun greiðslna til hans frá stofnuninni.

Í október 2014 hafi Tryggingastofnun borist upplýsingar um greiðslur kæranda frá NAV Pension í Noregi og fyrst verið kunnugt um greiðslurnar þá. Kæranda hafði borið að upplýsa stofnunina um þessar greiðslur, sbr. 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Einnig hafi fylgt upplýsingar um lagabreytingar á örorkugreiðslum í Noregi.

Umræddar lagabreytingar hafi haft í för með sér að örorkulífeyrir sé nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur höfðu áður notið voru afnumin. Réttindi þeirra sem fengu örorkulífeyri frá NAV fyrir 1. janúar 2015 hafi verið endurreiknuð með tilliti til fyrri lífeyrisgreiðslna. Lífeyrisgreiðslur NAV skiptist ekki lengur í „grunnpensjon“, „tilleggspensjon“ og eftir atvikum „særtilleggspensjon“. Nú heiti bæturnar „uforetrygd“ og séu reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þeir sem uppfylli ekki fyrir fram ákveðið lágmark, sem sé breytilegt eftir hjúskaparstöðu og búsetuhlutfalli, fái greitt „minsteyelse“ sem hafi ekki áhrif á bætur Tryggingastofnunar þar sem slík greiðsla sé sambærileg íslenskum grunnlífeyri. Þar sem nýtt kerfi NAV sé nú alfarið byggt á launatekjum telji Tryggingastofnun að lífeyrisgreiðslur frá NAV, að undanskyldu „minsteytelse“, hafi áhrif á bætur stofnunarinnar eins og um væri að ræða greiðslur íslenskra lífeyrissjóða.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. desember 2014, hafi kærandi verið upplýstur um fyrirhugaðar lagabreytingar á norskum örorkulífeyrisgreiðslum. Einnig hafi hann verið upplýstur um að réttindi hans hafi verið endurskoðuð með hliðsjón af ákvörðun um réttindi hans frá NAV og upplýsingum um búsetuskráningu frá Þjóðskrá. Endurskoðun á réttindum hans hafi leitt til þess að búsetuhlutfall var lækkað úr 100% í 91,8% vegna búsetu hans í Noregi. Samkvæmt skráningu Þjóðskrár hafi hann verið búsettur í Noregi frá X 1986 til X 1990.

Réttindi kæranda hafi verið endurskoðuð vegna upplýsinga um lagabreytingar frá NAV en stofnunin hafi ekki verið meðvituð áður um að kærandi væri að þiggja greiðslur frá Noregi.

Með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 14. og 19. október 2015, hafi kæranda verið tilkynnt um uppgjör vegna ársins 2014 á grundvelli skattframtals 2015. Niðurstaða endurreikningsins hafi leitt í ljós ofgreiðslu til innheimtu að fjárhæð 50.047 krónur. Í bréfi stofnunarinnar hafi verið veittur frestur til að andmæla eða leggja fram beiðni um rökstuðning til og með 23. nóvember 2015.

Samkvæmt gögnum málsins hafi tekjur (lífeyrissjóðstekjur) á árinu 2014 verið mun hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Upphaflega hafi verið reiknað með 178.332 krónum en í uppgjöri hafi komið í ljós að þær voru 916.339 krónur vegna lífeyrisgreiðslna frá Noregi. Heildargreiðslur til kæranda á árinu 2014 hafi verið 2.067.992 krónur en réttindi samkvæmt skattframtali 2015 (gögnum frá NAV) 1.988.173 krónur. Mismunurinn sé 79.819 krónur og af þeirri upphæð hafi verið teknar 29.772 krónur í staðgreiðslu skatta. Til innheimtu hafi staðið eftir 50.047 krónur.

Þess beri að geta að erlendur lífeyrir hafi byggt á gögnum frá NAV þar sem um hafi verið að ræða 754.289 krónur í tilleggspensjon, sem hafi áhrif á tekjutryggingu, og 450.793 krónur í „grunnpensjon“ sem hafi ekki áhrif á tekjutryggingu.

Örorkulífeyrisgreiðslur kæranda frá Noregi séu 6.013 NOK á mánuði á árinu 2016.

Kærandi hafi óskað rökstuðnings með tölvupóstum 21., 22., 26. og 27. október 2015. Stofnunin hafi metið það svo að hann væri að óska eftir rökstuðningi fyrir greiðslum frá stofnuninni og uppgjöri en ekki skatttöku líkt og tilgreint sé í tölvupóstum hans.

Í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. nóvember 2015, sé meðal annars vísað til þess hvað hafi áhrif á greiðslur stofnunarinnar og segir að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda endurreikni stofnunin bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Þá hafi stofnunin ítrekað að ekki hafi verið upplýst um greiðslur kæranda frá NAV fyrr en í lok árs 2014.

Vísað sé til þess í bréfi stofnunarinnar að greiðslur frá NAV séu um það bil 180.000 krónur á mánuði sem stofnunin óski eftir að leiðrétta þar sem greiðslur á mánuði á árinu 2015 hafi verið um 5.600 NOK á mánuði. Allar forsendur við útreikning og uppgjör hafi verið réttar.

Frekari tölvupóstar hafi borist frá kæranda 21., 22. og 23. janúar 2016. Starfsmaður stofnunarinnar hafi haft samband við hann símleiðis og vísað í bréf stofnunarinnar frá 4. nóvember 2015 ásamt því að upplýsa um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í kæru vísi kærandi meðal annars til þess að hann hafi fyrst í mars 2016 verið upplýstur um úrskurðarnefnd velferðarmála og að unnt væri að kæra ákvarðanir stofnunarinnar þangað. Þó segi kærandi á öðrum stað í kæru að hann hafi ekki fengið upplýsingar um slíkt fyrr en í desember 2015/janúar 2016. Stofnunin vísi þessu alfarið á bug þar sem hann hafi meðal annars verið upplýstur um kæruheimild með bréfum stofnunarinnar, dags. 11. desember 2014 og 4. nóvember 2015.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar miðist réttur til örorkulífeyris við þá sem hafi verið búsettir á Íslandi, séu á aldrinum 16-67 ára og hafi verið búsettir á Íslandi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn var lögð fram. Við ákvörðun búsetutíma greiðist örorkulífeyrir í samræmi við sömu reglur og ellilífeyrir, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna, sbr. þó 5. mgr. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna, skuli reikna tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda. Líkt og fram komi í 17. gr. teljist fullur ellilífeyrir einstaklings sem hafi verið búsettur hér á landi að minnsta kosti fjörtíu almanaksár frá 16-67 ára aldurs. Sé um skemmri búsetutíma að ræða greiðist ellilífeyrir/örorkulífeyrir í hlutfalli við búsetutíma.

Í 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um skerðingu lífeyris fari tekjur umfram ákveðin mörk og um framkvæmdina fari samkvæmt 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. sömu laga skuli greiða þeim tekjutryggingu sem fái greiddan örorkulífeyri samkvæmt lögunum. Tekjur skerði tekjutryggingu örorkulífeyrisþega, sbr. 3. mgr. 22. gr. laganna. Einnig segi að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. laganna skuli skerða tekjutryggingu um 38,35% þeirra tekna uns hún falli niður.

Til tekna samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Eftirlaun og lífeyrir séu þar á meðal, sbr. A-lið, 7. gr. síðastnefndu laganna. Í 3. og 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um tekjur sem ekki hafi áhrif og örorkulífeyri og tekjutryggingu.

Greiðsluþega sé rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta. Þá sé jafnframt skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur, sbr. 39. gr. laganna.

Stofnunin óski árlega eftir upplýsingum um tekjur ásamt staðfestingu frá skattyfirvöldum. Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli stofnunin endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Komi í ljós við endurreikning bóta að þær hafi verið vangreiddar eða ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör bóta og vistunarframlags skuli tekjur, sem aflað sé erlendis og ekki taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi. Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli það sem sé ofgreitt dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Ofgreiðsla bóta til kæranda hafi fyrst og fremst verið vegna greiðslna frá NAV sem stofnuninni hafi ekki verið kunnugt um fyrr en í lok árs 2014. Upplýsingarnar frá NAV hafi bæði haft áhrif á búsetuhlutfall kæranda og greiðslur frá Tryggingastofnun. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að kæra niðurstöður breytinganna, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 11. desember 2014. Í október 2015 hafi kærandi fengið niðurstöður uppgjörs fyrir árið 2014 og óskað eftir rökstuðningi. Stofnunin hafi svarað þeirri beiðni með bréfi, dags. 4. nóvember 2015, þar sem einnig hafi verið bent á kæruheimild.

Greiðslur frá Noregi hafi áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun en líkt og rakið sé hafi nýjar reglur tekið gildi 1. janúar 2015 um greiðslur örorkulífeyris í Noregi. Lagabreytingarnar hafi haft í för með sér að örorkulífeyrir sé nú skattlagður sem launatekjur, þ.e. skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur höfðu áður notið hafi verið afnumin. Tryggingastofnun telji að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi og telji því að þær skuli skerða tekjutryggingu kæranda. Örorkubætur séu skattlagðar sem launatekjur og reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Þar sem tekjurnar séu alfarið byggðar á launatekjum skuli þær hafa áhrif á tekjutryggingu kæranda eins og um væri að ræða greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum og falli því umræddar tekjur ekki undir undantekningarreglur 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Sambærilegt mál hafi farið fyrir úrskurðarnefnd […] nr. 86/201[5] sem nefndin hafi staðfest.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að sú krafa sem hafi myndast við uppgjör ársins 2014 sé réttmæt miðað við fyrirliggjandi gögn. Hin kærða ákvörðun sé byggð á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er ítrekað að allar forsendur við útreikning greiðslna frá stofnuninni hafi miðast við 5.600 NOK á mánuði, um það bil 84.000 krónur.

Vegna mótmæla kæranda um að hann hafi fengið 178.000 krónur í lífeyrisgreiðslur hér á landi segir að samkvæmt upplýsingum í staðgreiðsluskrá hafi kærandi fengið 248.233 krónur í greiðslur frá lífeyrissjóði hér á landi á árinu 2015.

Þess beri að geta að uppgjör vegna ársins 2015 fari fram haustið 2016. Þá hafi kæranda verið send greiðsluáætlun fyrir árið 2016 og þar séu áætlaðar 174.000 krónur. Kærandi geti ávallt sent inn gögn, til dæmis frá lífeyrissjóðum, sé sú upphæð vanáætluð.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 11. desember 2014, hafi kæranda verið tilkynnt um fyrirhugaðar lagabreytingar á norskum örorkulífeyrisgreiðslum. Þá hafi kærandi einnig verið upplýstur um að réttindi hans hefðu verið endurskoðuð með hliðsjón af ákvörðun um réttindi hans frá NAV ásamt upplýsingum um búsetuskráningu frá Þjóðskrá. Við endurskoðun á réttindum kæranda hafi búsetuhlutfall verið lækkað úr 100% niður í 91,8% vegna búsetu hans í Noregi. Samkvæmt skráningu Þjóðskrár hafi hann verið búsettur þar í landi frá 7. maí 1986 til 15. desember 1990. Þá hafi tekjuáætlun jafnframt verið send með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. desember 2014, og kæranda þá verið tilkynnt um áætlaðar norskar tekjur fyrir árið 2015, nánar tiltekið 70.800 NOK.

Réttindi kæranda hafi verið endurskoðuð út frá lagabreytingum frá NAV en líkt og fram hafi komið hafi stofnunin ekki talið sig vita að kærandi væri að þiggja greiðslur frá Noregi. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 19. desember 2014, segi að kærandi hafi aldrei tilkynnt um greiðslur hans frá NAV. Við nánari skoðun eldri gagna hafi komið í ljós að Tryggingastofnun hafi verið upplýst um rétt kæranda í Noregi. Stofnunin biðjist því velvirðingar á því að hafa haldið öðru fram. Þess beri þó að geta að greiðslur frá Noregi hafi ekki verið teknar inn í uppgjör kæranda og því ekki haft áhrif á greiðslur frá stofnuninni á árunum 2003 til loka ársins 2013. Kærandi hafi notið góðs af því öll þessi ár.

Vegna upplýsinga um breytt fyrirkomulag í Noregi á örorkulífeyrisgreiðslum á árinu 2014 hafi réttindi kæranda hér á landi verið endurskoðuð. Kærandi hafi verið skráður með 91,8% búsetu hér á landi sem hafi tekið gildi í febrúar 2015. Líkt og fram komi í 2. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sé stofnuninni heimilt að endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem er.

Í viðbótargögnum kæranda sé vísað til þess að undanfarin ár hafi stofnunin sent bréf til kæranda þar sem óskað sé eftir erlendum tekjuupplýsingum ásamt lífsvottorði og furði hann sig á því að honum hafi ekki borist slíkt bréf. Þá vilji stofnunin upplýsa kæranda um að mismunandi hafi verið hvenær stofnunin sendi umrætt bréf en kæranda muni berast bréf í lok maí [2016] þar sem óskað verði eftir umræddum gögnum.

Að lokum vísi stofnunin til þess að kærandi hafi hvorki upplýst stofnunina í tekjuáætlunum sínum síðastliðin ár um örorkugreiðslur hans frá NAV né sent upplýsingar um þær þegar kallað hafi verið eftir upplýsingum um erlendar tekjur. Kæranda sé skylt að tilkynna um þær greiðslur sem hafi áhrif á bótarétt og fjárhæð bóta, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála fylgdu ýmsar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, meðal annars ákvörðun frá 11. desember 2014 um endurskoðun á búsetuhlutfalli kæranda, ákvörðun stofnunarinnar frá 19. desember 2014 um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna til kæranda vegna tekna frá Noregi og ákvarðanir stofnunarinnar frá 19. október 2015, annars vegar ákvörðun um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2014 og hins vegar ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af gögnum málsins að kæra lúti að framangreindum ákvörðunum.

Kærufrestur

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að þegar aðili fari fram á rökstuðning samkvæmt 21. gr. laganna hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið tilkynntur honum. Tryggingastofnun ríkisins veitti kæranda rökstuðning með bréfi, dags. 4. nóvember 2015. Í bréfinu er vikið að skyldu Tryggingastofnunar til að endurreikna bótafjárhæðir og innheimta ofgreiddar bætur. Þá er rökstutt hvers vegna bætur til kæranda hafi lækkað vegna greiðslna frá NAV. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur með hliðsjón af framangreindu að rökstuðningur Tryggingastofnunar ríkisins lúti að ákvörðunum stofnunarinnar frá 19. desember 2014 um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna og ákvörðunum stofnunarinnar frá 19. október 2015 um endurreikning á tekjutengdum bótum ársins 2014 og innheimtu ofgreiddra bóta.

Samkvæmt gögnum málsins liðu rúmlega fjórir mánuðir frá því að rökstuðningur Tryggingastofnunar ríkisins var tilkynntur kæranda með bréfi, dags. 4. nóvember 2015, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. mars 2016. Þá liðu fimmtán mánuðir frá því að ákvörðun Tryggingastofnunar um endurskoðun á búsetuhlutfalli kæranda, dags. 11. desember 2014, var tilkynnt kæranda þangað til kæra barst úrskurðarnefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Úrskurðarnefnd gaf kæranda kost á að leggja fram skýringar á því hvers vegna kæra barst að liðnum lögboðnum kærufresti. Kærandi greinir frá því í skýringum sínum að hann hefði ítrekað verið í samskiptum við Tryggingastofnun ríkisins vegna málsins og einnig lýsir hann verulega bágbornum félagslegum aðstæðum sínum. Þá byggir hann á því að stofnunin hafi ekki leiðbeint honum um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála. Einnig fylgdi vottorð læknis í C sem staðfestir geðræn veikindi hans.

Fyrir liggur að kæranda var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndar almannatrygginga, eins af forverum úrskurðarnefndar velferðarmála, í rökstuðningi Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. nóvember 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því að stofnunin hafi upplýst kæranda nægjanlega um kæruheimild. Hins vegar telur úrskurðarnefndin afsakanlegt að kæra vegna ákvarðana frá 19. desember 2014 og 19. október 2015, rökstuddum 4. nóvember 2015, hafi borist að liðnum kærufresti vegna geðrænna veikinda kæranda og í ljósi þess að kæra barst um það bil mánuði eftir að kærufresti lauk. Sá hluti kæru verður því tekinn til efnislegrar úrlausnar. Hins vegar skal þeim hluta kæru sem varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. desember 2014, um endurskoðun á búsetuhlutfalli kæranda, ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þeim hluta kæru er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Lækkun bóta

Með bréfi, dags. 19. desember 2014, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda um þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða tekjutengdar bætur hans vegna bóta sem hann fær greiddar frá NAV í Noregi. Í bréfi frá NAV, dags. 8. október 2014, kemur fram að kærandi fái greiddar örorkulífeyrisgreiðslur frá stofnuninni. Greiðslurnar kallast „uføretrygd“. Kærandi er ósáttur við að greiðslurnar komi til skerðingar á greiðslum hans frá Tryggingastofnun en fyrir liggur að tekjutrygging kæranda hefur verið skert af Tryggingastofnun vegna greiðslnanna.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laganna. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna.

Þá hljóðar 4. mgr. 16. gr. laganna svo:

„Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 22. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatrygginga og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Hins vegar skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutrygginguna og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna.

Um „uføretrygd“ er fjallað í 12 kafla í lov om folketrygd (LOV-1997-02-28-19). Samkvæmt ákvæðum 12-11 og 12-12 ræðst fjárhæð „uføretrygd“ af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetid“. Með „trygdetid“ er átt við tímabilið sem viðkomandi hefur verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Ef viðkomandi bótaþegi hefur verið með lágar eða engar tekjur á hann rétt á ákveðinni lágmarksframfærslu („minsteytelse“) frá NAV sem fjallað er um í ákvæði 12-13.

Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum með þeim rökum að „uføretrygd“ sé reiknað í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur. Hins vegar telur stofnunin að „minsteytelse“ hafi ekki áhrif á bætur Tryggingastofnunar þar sem slík greiðsla sé sambærileg íslenskum grunnlífeyri.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að „uføretrygd“ sé ekki alveg sambærilegt örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda ráðast örorkulífeyrisgreiðslurnar einungis af búsetu bótaþega hér á landi en ekki fyrri tekjum líkt og „uføretrygd“. Hins vegar telur úrskurðarnefndin „uføretrygd“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og hann er notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla lov om folketrygd. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar nr. 86/2015, dags. 19. ágúst 2015, féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „uføretrygd“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og að tekjurnar féllu því ekki undir 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Með vísan til þess og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að skerða tekjutryggingu kæranda vegna lífeyrisgreiðslna frá NAV staðfest.

Endurreikningur og innheimta

Með bréfum, dags. 19. október 2015, var kæranda annars vegar tilkynnt um ákvörðun Tryggingarstofnunar um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum ársins 2014 og hins vegar ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta.

Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árinu 2014 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Á grundvelli 7. mgr. þeirrar lagagreinar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreiking og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Niðurstaða endurreiknings vegna ársins 2014 var sú að kærandi hefði fengið ofgreidda tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót  á tekjutryggingu samtals að fjárhæð 50.047 kr., að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þessarar ofgreiðslu var sú að tekjuáætlun kæranda vegna ársins 2014 gerði eingöngu ráð fyrir 178.332 kr. í lífeyrissjóðstekjur en það var mat Tryggingastofnunar ríkisins að kærandi hefði haft 916.339 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu 2014. Eins og áður hefur verið rakið hefur umræddur tekjustofn áhrif á bótarétt, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatyggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Tryggingastofnun byggði framangreinda niðurstöðu um raunverulegar lífeyrissjóðstekjur kæranda á árinu 2014 á íslensku skattframtali hans vegna ársins 2014 og greiðsluseðli frá NAV vegna nóvembermánaðar 2014 þar sem kærandi skilaði ekki skattframtali í Noregi. Samkvæmt framangreindum greiðsluseðli fékk kærandi greiddar örorkulífeyrisbætur í nóvember 2014 frá NAV, annars vegar „grunnpensjon“ og hins vegar „tilleggspensjon“. Tryggingastofnun lagði „tilleggspensjon“ til jafns við lífeyrissjóðstekjur og margfaldaði fjárhæð „tilleggspensjon“ sem fram kom á greiðsluseðlinum með tólf til þess að fá út árstekjur kæranda.

Fyrir 1. janúar 2015 skiptist örorkulífeyrir frá NAV annars vegar í grunnlífeyri (grunnpensjon) og hins vegar viðbótarlífeyri (tilleggspensjon). Lífeyrisþegar sem áttu ekki rétt á viðbótarlífeyri eða ekki nægan rétt fengu aftur á móti sérstaka uppbót (særtillæg). Til þess að eiga rétt á „tilleggspensjon“ þurftu lífeyrisþegar að hafa verið á vinnumarkaði og greiðslurnar reiknuðust út frá áunnum lífeyrisstigum sem reiknuðust út frá launatekjum. Tryggingastofnun telur því að „tilleggspensjon“ sé sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að „tilleggspensjon“ sé ekki alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Líkt og áður hefur komið fram telur úrskurðarnefndin hins vegar að nefndin komist ekki hjá því að flokka greiðslur kæranda frá NAV, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um rétt kæranda til bótagreiðslna vegna ársins 2014. Það var mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að „tilleggspensjon“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skyldi skerða bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins lögum samkvæmt, sbr. úrskurð nr. 32/2012 frá 3. október 2012. Með vísan til þess, og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að „tilleggspensjon“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Þá gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við þá framkvæmd Tryggingastofnunar að margfalda fjárhæð „tilleggspensjon“, á greiðsluseðli kæranda frá NAV vegna nóvembermánaðar 2014, með tólf til þess að fá út árstekjur hans. Úrskurðarnefndin telur þó rétt að benda kæranda á að hann geti lagt fram frekari gögn um tekjur sínar frá NAV á árinu 2014 telji hann framangreint tekjuviðmið Tryggingastofnunar rangt og óskað eftir endurupptöku málsins.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi borið að endurreikna bætur kæranda vegna ársins 2014 með hliðsjón af upplýsingum um tekjur hans frá NAV og upplýsingum úr skattframtali, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá bar stofnuninni að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2014 og þá ákvörðun að krefja kæranda um endurgreiðslu þeirrar ofgreiðslu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að vekja athygli kæranda á því að hann getur lagt inn beiðni um niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar til Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, telji hann skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.

Með hliðsjón af öllu framangreindu eru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá NAV í Noregi, um endurreikning og uppgjör á bótum ársins 2014 og um innheimtu ofgreiddra bóta, staðfestar. Þeim hluta kæru er varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um búsetuhlutfall kæranda er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um lækkun örorkulífeyrisgreiðslna vegna tekna frá NAV í Noregi, um endurreikning og uppgjör á bótum ársins 2014 og um innheimtu ofgreiddra bóta, eru staðfestar. Þeim hluta kæru er varðar ákvörðun stofnunarinnar um búsetuhlutfall kæranda er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir