Almannatryggingar

26.4.2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 1/2017

Miðvikudaginn 26. apríl 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. janúar 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. nóvember 2016, á beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2015.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2015, dags. 10. október 2016, var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 1.800.000 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi óskaði eftir niðurfellingu skuldar sinnar með umsókn, dags. 19. október 2016, Með bréfi, dags. 4. nóvember 2016, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins kæranda að umsókn hans um niðurfellingu endurgreiðslukröfu hafi verið synjað á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar aðstæður væru ekki talin vera fyrir hendi. Einnig segir að endurgreiðslu eftirstöðva kröfunnar í innheimtu hafi verið dreift á 48 mánuði. Með rafrænni fyrirspurn þann 14. nóvember 2016 óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. desember 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 2. janúar 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. janúar 2017, barst greinargerðin og var hún kynnt kæranda með tölvubréfi úrskurðarnefndar 1. febrúar 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hann óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar á beiðni hans um niðurfellingu á kröfu stofnunarinnar á hendur honum verði felld úr gildi og niðurfelling samþykkt.

Í greinargerð með kæru segir að kærandi hafi keypt atvinnuhúsnæði á árinu 2000 á 12.000.000 krónur og hafi átt það til ársins 2015 þegar hann hafi selt það á 19.000.000 krónur. Á þeim tíma hafi eignin verið fyrnd á skattframtali. Sá sem hafi séð um framtalsgerð kæranda hafi notað heimild til flýtifyrningar og því hafi eignin verið lítils virði þegar hún var seld. Hafi því myndast söluhagnaður sem eingöngu hafi verið til á pappírum. Þá hafi söluandvirðinu verið ráðstafað. Kærandi hafi engar tekjur eða sjóði til framfærslu nema mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun ásamt um það bil 31.000 kr. frá Frjálsa lífeyrissjóðnum. Þá skuldi hann rúmlegar 5 milljónir í skatta.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun samráðsnefndar Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna, dags. 4. nóvember 2016. Nefndin hafi synjað kæranda um niðurfellingu á eftirstöðvum ofgreiðslukröfu vegna uppgjörs ársins 2015.

Kærandi hafi verið á örorkulífeyri og tengdum greiðslum frá 1. febrúar 2014 og hafi notið greiðslna þeirra allt árið 2015. 

Í upphafi árs 2015 hafi kærandi fengið senda tillögu að tekjuáætlun ársins ásamt greiðsluáætlun. Þar hafi verið vakin athygli kæranda á ábyrgð hans að upplýsa Tryggingastofnun um réttar tekjur. Áætlunin hafi gert ráð fyrir að kærandi hefði 286.212 kr. í lífeyrissjóðstekjur á árinu og smávægilegar fjármagnstekjur. Kærandi hafi ekki komið að athugasemdum við áætlunina og hafi þegið bætur allt árið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

Endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015, sem tilkynnt hafi verið um með bréfi, dags. 10. október 2016, hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 1.800.000 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2016 og upplýsinga, sem kærandi hafi skilað inn um tekjur sínar erlendis frá vegna tekjuársins 2015, hafi komið í ljós að tekjur hans hafi reynst mun hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Rauntekjur kæranda á árinu hafi verið 2.177.676 kr. í launatekjur, 14.792.457 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 356.671 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 158.046 kr. í greiðslur séreignarsparnaðar ásamt 3.039 kr. í fjármagnstekjur. Þessi mikli mismunur hafi leitt til þess að kærandi hafi verið ofgreiddur í öllum bótaflokkum.

Kærandi hafi sótt um niðurfellingu ofgreiðslunnar með bréfi, dags. 19. október 2016. Tryggingastofnun hafi óskað eftir frekari gögnum með bréfi stofnunarinnar þann 25. sama mánaðar. Gögnin hafi borist með tölvupósti þann 27. október 2016. Beiðni kæranda um niðurfellingu hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. nóvember 2016. Tryggingastofnun hafi hins vegar ákveðið að dreifa endurgreiðslu endurkröfunnar á 48 mánuði í stað 12 til þess að auðvelda kæranda greiðslu skuldarinnar.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi með tölvupósti þann 14. nóvember 2016 og hafi erindinu verið svarað þann 6. desember 2016.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi ber ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og ber að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga. Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé sú að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. meðal annars 55. gr. laga um almannatryggingar sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Við afgreiðslu á beiðni kæranda hafi ásamt fyrirliggjandi gögnum verið skoðaðar ástæður ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir og þær upplýsingar sem kærandi hafi skilað inn vegna búsetu hans erlendis. Einnig hafi verið skoðaðar upplýsingar sem aflað hafi verið úr tölvukerfum stofnunarinnar.

Ákvæði 55. gr. laga um almannatryggingar fjalli um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, einkum á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina og á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umrædd krafa hafi orðið til við endurreikning ársins 2015. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér þá sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun kæranda. Krafan sé réttmæt. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur hvers árs. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi beri skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki. Þessi skylda bótaþega eigi ekki bara við þegar tekjuáætlun sé gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fái bætur frá Tryggingastofnun. Kærandi hafi verið upplýstur um þessa skyldu sína.

Kærandi hafi vísað til þess að söluhagnaður atvinnuhúsnæðis hafi orðið til vegna flýtifyrningar og sé ekki til nema á pappírum. Það breyti því ekki að tekjurnar séu á skattframtali og Tryggingastofnun sé óheimilt að líta fram hjá þeim upplýsingum. Það hafi ítrekað verið staðfest fyrir úrskurðarnefnd og einnig fyrir dómstólum. Þess megi geta að þó að hagnaður kæranda af atvinnurekstri hefði eingöngu verið mismunur á 19.000.000 kr. og 12.000.000 kr., líkt og kærandi haldi fram, hefði eftir sem áður myndast sama ofgreiðslukrafa hjá Tryggingastofnun. Að auki hafi launatekjur kæranda verið hærri en hann hafi gefið upp á tekjuáætlun. Af fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að skilyrðið um góða trú sé uppfyllt í máli kæranda.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að og á grundvelli innsendra gagna. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að þær aðstæður kæranda væru ekki nægilega sérstakar til að fella niður kröfuna. Sérstaklega hafi verið horft til þess að kærandi hafi haft verulegar tekjur á árinu 2015 sem hann hafi ekki séð ástæðu til að tilkynna Tryggingastofnun um. Til að koma til móts við kæranda hafi verið ákveðið að dreifa endurgreiðslu á 48 mánuði til að auðvelda mánaðarlega greiðslubyrði.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2015.

Kærandi var örorkulífeyrisþegi á árinu 2015 og fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Niðurstaða endurreiknings og uppgjör bótaársins 2015 leiddi í ljós að kærandi hafði fengið ofgreiddar bætur á því ári að fjárhæð 1.800.000 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta.  

Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra og þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 7. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2015 með bréfi, dags. 10. október 2016. Niðurstaða endurreikningsins var sú að kærandi hafði fengið greiddar of háar bætur á árinu, samtals að fjárhæð 1.800.000 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til rangra tekjuáætlana kæranda vegna ársins 2015.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

Í máli þessu er ekki deilt um réttmæti endurkröfunnar eða fjárhæðir heldur lýtur ágreiningurinn að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á eftirstöðvum endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta ársins 2015.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýstur um þessa skyldu sína. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að kæranda hefði mátt vera kunnugt um áhrif teknanna á bótagreiðslur. Kærandi hefur ekki andmælt því að hann hafi ekki verið í góðri trú, en vísar til erfiðra fjárhagslegra aðstæðna sem rök fyrir niðurfellingu kröfunnar og að söluhagnaðinum sem myndaði kröfuna hafi verið ráðstafað og því einungis verið til á pappírum.

Samkvæmt upplýsingum kæranda er hann nú búsettur á B, leiga hans er 80.000 kr. á mánuði og hann hefur engar tekjur eða sjóði til framfærslu nema greiðslur frá Tryggingastofnun. 

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Meðaltekjur kæranda síðustu sex mánuði áður en Tryggingastofnun tók niðurfellingarbeiðni hans til skoðunar voru samkvæmt staðgreiðsluskrá 202.807 kr. á mánuði. Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kæranda samkvæmt skattframtali séu óverulegar og mánaðarleg greiðslubyrði einnig. Þá horfir nefndin til þess að Tryggingastofnun hefur dreift eftirstöðvum af kröfunni á 48 mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfuna á tólf mánuðum. Með hliðsjón af þessu telur nefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi búi við erfiðar félagslegar aðstæður. Nefndin lítur til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2015 er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni A, um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta ársins 2015 er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir