Hoppa yfir valmynd
29. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 64/2014

Mál nr. 64/2014

Fimmtudaginn 29. september 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður


Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 12. júní 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 27. maí 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 26. júní 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. júlí 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 18. júlí 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send kærendum 14. janúar 2015 en engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd X og X. Þau eru í hjúskap og búa ásamt X börnum sínum í eigin fasteign, nánar tiltekið X fermetra íbúð að C.

Kærandi A er [...] og starfar sjálfstætt. Kærandi B starfar sjálfstætt við [...]. Í tekjur hafa kærendur laun, barna- og vaxtabætur sem og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 2. ágúst 2011 eru 38.815.390 krónur. Til helstu skulda var stofnað árið 2006 vegna fasteignakaupa.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis og tekjulækkunar.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. ágúst 2011 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 20. janúar 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). þar sem kærendur hefðu hafnað sölu fasteignar sem varði niðurfellingu greiðsluaðlögunar-umleitana samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að mikil samskipti hafi verið við kærendur vegna nýrra upplýsinga og breyttra aðstæðna þeirra. Að lokum hafi umsjónarmaður ákveðið að selja þyrfti fasteign kærenda þar sem greiðslugeta þeirra hafi ekki verið nægjanleg til að greiða af þeim veðkröfum sem falla innan verðmats fasteignarinnar. Kærendum hafi verið kynntar ítarlega afleiðingar þess að samþykkja ekki sölu fasteignar og fengið ítrekaða fresti til að samþykkja tillöguna. Kærendur hafi loks hafnað tillögu umsjónarmanns um sölu eignarinnar á símafundi 19. janúar 2012.

Með vísan til þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 12. maí 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns var vísað til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge., auk 5. mgr. 13. gr. laganna og óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda B, sem ekki væri að finna í staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Kærendur gerðu engar athugasemdir í kjölfar bréfs embættisins en sendu inn skattframtal 2014 vegna tekjuársins 2013 til upplýsingar um tekjur kærandans B.

Með ákvörðun 27. maí 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar-umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera engar kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að kærendur telji forsendur brostnar af hálfu banka og að útskýringar á því hvers vegna hann hafni samningum við þau séu ófullnægjandi. Enn fremur telji þau samningsdrög einhliða af hálfu bankans og að kröfur  hans, svör og vilji til samninga við kærendur hafi verið ófullnægjandi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Gögn málsins beri með sér að kærandi, B, hafi verið nær tekjulaus á tímabili greiðsluskjóls eða frá desember 2010. Embættið hafi árangurslaust óskað eftir upplýsingum um tekjur  hennar á tímabilinu, auk þess sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um hjálagðan sparnað kærenda. Þau gögn sem fyrir liggi í málinu gefi því ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., þar sem ekki sé hægt að leggja mat á það hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Það sé samdóma mat umsjónarmanns og umboðsmanns skuldara að koma þurfi til sölu fasteignar kærenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Greiðslugeta kærenda sé neikvæð um 70.000 krónur á mánuði samkvæmt gögnum málsins en áætlaðar mánaðarlegar afborgarnir af þeim veðlánum, sem falla innan matsverðs fasteignar kærenda, séu um 80.000 krónur. Því sé ljóst að ekki verði komist hjá sölu fasteignarinnar en kærendur hafi ekki svarað embættinu með fullnægjandi hætti um afstöðu sína til ráðstöfunar hennar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem komi fram í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. er kveðið á um að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun sé tekin.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist annars vegar á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda þar sem þau hafi látið hjá líða að gefa fullnægjandi upplýsingar um launatekjur kæranda, B, á tímabili greiðsluskjóls. Hins vegar er byggt á því að kærendur hafi ekki veitt samþykki til sölu fasteignar að C þrátt fyrir ákvörðun umsjónarmanns þar um. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge., með ákvörðun 27. maí 2014.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má, að mati umsjónarmanns, að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu teljist það ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum í frumvarpi með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Eins og áður hefur komið fram kvað umsjónarmaður á um sölu fasteignar kærenda að C samkvæmt 13. gr. lge. Var það mat umsjónarmanns að kærendur hefðu ekki nægar tekjur til að greiða af áhvílandi veðkröfum.

Í bréfi umsjónarmanns frá 20. janúar 2012 kemur fram að greiðslugeta kærenda nái ekki lögbundnum lágmarksgreiðslum til veðkröfuhafa, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns skuldara 12. maí 2014 kemur fram að greiðslugeta kærenda sé neikvæð um 70.000 krónur á mánuði og að áætlaðar afborganir af veðkröfum innan matsverðs fasteignar séu um 80.000 krónur á mánuði. Af þeim sökum verði ekki komist hjá sölu fasteignarinnar.

Í greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 12. maí 2014 er gert ráð fyrir því að kærandi B sé tekjulaus og að mánaðarlegar tekjur kæranda A séu 230.236 krónur. Auk þess er gert ráð fyrir því að kærendur fái 42.206 krónur í barnabætur á mánuði og 49.391 krónu í umönnunargreiðslur. Í málinu liggur fyrir skattframtal 2014, vegna tekna ársins 2013, og kemur þar fram að nettó launatekjur kæranda, B, hafi verið 1.163.868 krónur árið 2013 eða 96.989 krónur að meðaltali á mánuði.  Kærunefnd telur því rétt að miða við að ráðstöfunartekjur kærenda séu 418.822 krónur á mánuði. Framfærslukostnaður kærenda er áætlaður 397.018 krónur á mánuði og er þá miðað við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara í apríl 2014 fyrir hjón með þrjú börn og upplýsingar frá kærendum um annan kostnað.

Samkvæmt framangreindu er mánaðarleg greiðslugeta kærenda 21.804 krónur að teknu tilliti til kostnaðar vegna framfærslu. Samkvæmt skattframtali 2013 er fasteignamat fasteignar kærenda 22.350.000 krónur og nema áhvílandi veðskuldir alls 36.389.053 krónum miðað við yfirlit lána frá 7. maí 2014. Mánaðarlegar afborgarnir af áhvílandi veðkröfum, sem eru innan matsverðs fasteignar kærenda, nema 82.166 krónum á mánuði. Þannig er ljóst að kærendur hafa ekki greiðslugetu til að greiða af veðkröfum innan matsverðs fasteignarinnar eins og a-liður 21. gr. lge. áskilur í þeim tilvikum er skuldari heldur eftir eignum sem veðkröfur á hendur honum hvíla á.

Miðað við ákvæði lge. er eini möguleikinn til að koma á greiðsluaðlögunarsamningi í tilvikum sem þessum að selja þá eign sem veðsett er til að létta á greiðslubyrði skuldara vegna fasteignaveðkrafna. Kærendur hafa hafnað sölu fasteignar samkvæmt tillögu umsjónarmanns. Samkvæmt þessu og með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge., var umboðsmanni skuldara rétt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda.

Umboðsmaður skuldara byggir einnig ákvörðun um niðurfellingu heimildar kærenda til greiðsluaðlögunar á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. með vísan til þess að fjárhagur kærenda sé óljós þar sem þau hafi ekki veitt fullnægjandi upplýsingar um tekjur kæranda, B, á tímabili greiðsluskjóls. 

Samkvæmt þeim skattframtölum sem liggja fyrir í málinu og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra voru nettó launatekjur kæranda, B, eftirfarandi í krónum á neðangreindu tímabili:

Launatekjur kæranda B árin 2010-2013
Launatekjur samkvæmt skattframtali 2011, vegna 2010 0
Launatekjur samkvæmt skattframtali 2012, vegna 2011 29.160
Launatekjur samkvæmt skattframtali 2013, vegna 2012 752.613
Launatekjur samkvæmt skattframtali 2014, vegna 2013 1.163.868
    

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort hann muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar, sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., grundvallarupplýsingar til þess að hægt sé að vinna að samningi um greiðsluaðlögun og meta hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar í samræmi við 12. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi, B, hefur haft launatekjur vegna starfa erlendis. Ekkert kemur fram um erlendar tekjur hennar í skattframtölum og samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafði  hún engar tekjur á tímabilinu desember 2010 til desember 2011. Kærendur hafa lagt fram skattframtal 2014 vegna tekna 2013, en önnur gögn eða skýringar hafa ekki borist.

Þegar framanritað er virt verður að telja að kærendur hafi látið hjá líða að upplýsa um tekjur sínar eins og þeim er skylt að gera samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skortir því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu þeirra til að hægt sé að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Að mati kærunefndarinnar verður því að telja fjárhag kærenda óglöggan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega skýra mynd af fjárhag kærenda samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sem og að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bar því samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þessa staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum