Hoppa yfir valmynd
30. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 24/2014

Mál nr. 24/2014

Fimmtudaginn 30. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. mars 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 6. febrúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 18. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 31. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 7. apríl 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir frá kæranda bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur X. Hann er einstæður og býr að B. Kærandi á eitt barn sem hann greiðir meðlag með. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda eru að meðaltali 281.521 króna.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2013 eru 13.674.743 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008.

Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hans til tekjulækkunar og atvinnuleysis.

 Kærandi sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 7. nóvember 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. febrúar 2013 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 12. júní 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Í ljós hafi komið að kærandi hafi stofnað til skuldabréfaláns hjá Arion banka að fjárhæð 990.000 krónur 12. febrúar 2013, daginn áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt af umboðsmanni skuldara. Skuldabréfið skyldi greiða með 12 gjalddögum á 12 mánuðum og var mánaðarleg afborgun um 82.500 krónur að viðbættum vöxtum. Þá hafi einnig komið í ljós að á meðal skulda kæranda væri krafa Arion banka að fjárhæð 123.058 krónur vegna kreditkortaláns sem veitt var 31. október 2012, þ.e. sjö dögum áður en kærandi sótti um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Mánaðarleg greiðslugeta kæranda áður en hann stofnaði til framangreindra skulda við Arion banka hafi verið 58.000 krónur og því hafi kærandi ekki verið fær um að standa við skuldbindingarnar þegar til þeirra var stofnað. Kærandi upplýsti umsjónarmann með tölvupósti 12. júní 2013 að til skuldbindinganna hafi verið stofnað til þess að færa neyslulán frá vinum og ættingjum yfir í eitt lán hjá bankanum auk þess sem hann hafi greitt niður yfirdráttarheimild hjá bankanum.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 13. janúar 2014 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði ekki.  

Með ákvörðun 30. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru hans á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hans niður verði felld úr gildi.

Kærandi telur málið snúast um lán sem hann hafi tekið tæpu ári eftir að hann sótti um greiðsluaðlögun. Kærandi skuldi vinum og vandamönnum vegna lána sem hann hafi fengið hjá þeim. Kærandi hafi upplýst um þessar skuldir þegar hann hafi sótt um greiðsluaðlögun. Þá hafi þær numið um 500.000 krónum en síðan aukist. Tæpu ári síðar hafi fólk farið að ganga hart að kæranda að endurgreiða. Kærandi hafi því tekið smálán sem hann hafi ætlað að greiða til baka tveimur vikum síðar eða um næstu mánaðamót. Hann hafi síðan farið í bankann og gert samning um að koma fjármálum sínum í horf. Bankinn hafi veitt kæranda lán fyrir tæpri milljón króna til þess að hann gæti greitt upp þessar smáskuldir auk þess að greiða bankanum yfirdráttarskuld sem nam tæpum 200.000 krónum.

Þegar kærandi sótti um greiðsluaðlögun hafi honum verið tjáð að yrði umsókn hans samþykkt þá mætti hann frá þeim tíma hvorki stofna til nýrra skuldbindinga án samþykkis umsjónarmanns né borga reikninga nema það sem teldist til daglegrar framfærslu. Tveimur dögum eftir þennan gjörning hafi kærandi fengið símtal þar sem tilkynnt hafi verið um að umsókn hans hafi verið samþykkt. Kærandi kveðst hafa upplýst strax um lánið. 

III.S jónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt b-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Við innköllun umsjónarmanns hafi komið í ljós að kærandi hafi stofnað til skuldar  við Arion banka samkvæmt skuldabréfi 12. febrúar 2013 að fjárhæð 990.000 krónur. Þetta hafi verið daginn áður en að umsókn kæranda var samþykkt. Mánaðarleg afborgun af skuldabréfinu hafi verið 82.500 krónur, að viðbættum vöxtum. Einnig lýsti Arion banki  kröfu vegna kreditkorts að fjárhæð 123.058 krónur en kortið hafi verið útgefið 31. október 2012, eða sjö dögum áður en kærandi sótti um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara. Þessar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við samþykki umsóknar kæranda.

Mánaðarlegar tekjur kæranda á tímabilinu október 2012 til mars 2013 hafi verið 281.521 króna að meðaltali. Framfærslukostnaður kæranda hafi verið 222.791 króna á mánuði og greiðslugeta því um 58.000 krónur áður en hann stofnaði til fyrrnefndra skuldbindinga. Kærandi hafi því ekki verið fær um að standa við framangreindar fjárhagsskuldbindingar á þeim tíma er til þeirra var stofnað.

Kærandi hafi haldið því fram að hann hafi stofnað til skuldbindinganna til þess að endurgreiða neyslulán frá vinum og ættingum auk þess sem hann hafi gert upp yfirdráttarheimild sína. Kærandi hafi þó ekki stutt staðhæfingar sínar gögnum.

Samkvæmt gögnum málsins hafi yfirdráttur kæranda hjá Arion banka verið 429.749 krónur þegar umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt 13. febrúar 2013. Samkvæmt kröfulýsingu Arion banka 19. mars 2013 hafi yfirdráttarskuld kæranda verið 132.913 krónur. Því styðji gögn málsins þá staðhæfingu kæranda að hann hafi greitt upp yfirdrátt hjá bankanum. Kærandi hafi hins vegar ekki skýrt með fullnægjandi hætti hvers vegna skuldabréfalán hans hjá Arion banka hafi verið jafn hátt og raun ber vitni. Staðhæfingar kæranda um að hann hafi greitt lán til vina og ættingja hafi ekki verið studdar neinum gögnum.

Það sé því mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi með umræddum lántökum sínum stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið verið í samræmi við fjárhag hans á þeim tíma er til fjárskuldbindinganna var stofnað í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi umboðsmaður skuldara fellt niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2010 til 2013 í krónum:

  2010 2011 2012 2013
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 241.285 443.423 376.244 472.834
Eignir alls 11.390.936 15.474 16.270 91.101
· C 11.375.000 0 0 0
· Bankainnstæður 11.072 11.819 13.084 90.621
· Hlutabréf og önnur verðbréf 4.864 3.655 3.186 480
Skuldir alls 37.165.494 14.183.525 14.984.403 16.106.045
Nettó eignastaða -25.774.558 -14.168.051 -14.968.133 -16.014.944

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin þau atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Í hinum kærða úrskurði var byggt á því að mánaðarlegar meðaltekjur kæranda á tímabilinu október 2012 til mars 2013 hafi verið 281.521 króna og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar kæranda hafi greiðslugeta hans verið 58.000 krónur á mánuði. Mánaðarlegar afborganir af láni, sem kærandi tók 12. febrúar 2013, hafi verið 82.500 krónur og hafi kærandi því verið ófær um að greiða af  láni að fjárhæð 990.000 krónur, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt gögnum málsins og útreikningum kærunefndarinnar, sem fram koma í töflunni að framan, voru mánaðarlega meðaltekjur kæranda á árunum 2012 og 2013 á bilinu 376.244 krónur og 472.834 krónur og því umtalsvert hærri en umboðsmaður skuldara lagði til grundvallar í hinum kærða úrskurði. Í ljósi framangreinds verður því ekki fallist á niðurstöðu umboðsmanns skuldara að fyrir liggi að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins var eignastaða kæranda í lok árs 2012 neikvæð um 14.968.133 krónur. Á sama tíma og eignastaða kæranda var neikvæð stofnaði hann til nýrrar skuldbindingar í febrúar 2013 með útgáfu skuldabréfs við Arion banka að fjárhæð 990.000 krónur. Kærandi kvaðst hafa greitt niður yfirdrátt og aðrar smáskuldir sem safnast hefðu fyrir. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn til stuðnings þessu. Sú háttsemi að auka við skuldir sínar með þeim hætti sem kærandi gerði telur kærunefndin að hafi verið ámælisverð samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. í ljósi þess að lántakan var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda og með tilliti til þess að hann hafði sótt um greiðsluaðlögun á þeim tíma er til hennar var stofnað.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda hafi réttilega verið felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum