Hoppa yfir valmynd
2. júní 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2014

Mál nr. 35/2014

Fimmtudaginn 2. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. apríl 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 17. mars 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 14. apríl 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. maí 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. maí 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 6. júní 2014.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd X. Hún er í sambúð og býr í eigin X fermetra húsnæði að B. Kærandi á tvö börn og býr annað þeirra á heimilinu en hitt er uppkomið.

Kærandi hefur lokið [...]. Hún starfar sem [...] í fullu starfi. Mánaðarlegar nettótekjur kæranda eru 255.347 krónur og eru alfarið  vegna launa.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 42.576.871 króna. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2008. Fjárhagserfiðleika kæranda má að hennar sögn rekja til íbúðarkaupa og mistaka við sölu íbúðar.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 1. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. janúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 28. október 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir. Því væri það tillaga hans að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við meðaltekjur kæranda hefði hún haft tök á því að leggja til hliðar um 3.005.110 krónur, frá júní 2011 þar til bréf umsjónarmanns hafi verið sent umboðsmanni skuldara, 11. janúar 2012. Hafi kærandi lagt fram reikninga vegna [tannlæknakostnaðar] að fjárhæð 415.030 krónur. Kærandi kvaðst hafa lagt til hliðar 1.535.000 krónur. Því hafi vantað 1.055.080 krónur upp á sparnað kæranda.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 17. febrúar 2014 var henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara barst svar frá kæranda með tölvupósti 12. mars 2014. Þar kom fram að kærandi hefði orðið fyrir óútskýrðum greiðsluvandræðum sem hún gæti þó ekki sýnt fram á með reikningum. Hún væri engu að síður búin að leggja til hliðar 1.925.000 krónur, sem hún taldi ekki vera langt frá þeirri fjárhæð sem farið væri fram á.

Með ákvörðun 17. mars 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II.Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu verði endurskoðuð, þar sem hún telur sig geta staðið við sparnaðaráform og uppfyllt skilyrði umboðsmanns skuldara. Skilja verður þetta svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst hafa reynt eftir fremsta megni að leggja til hliðar eins og umboðsmaður skuldara hafi krafist af henni. Að mati kæranda hafi orðið óeðlilegar tafir á málinu hjá umboðsmanni skuldara þar sem hún hafi ítrekað reynt að ná sambandi við upphaflegan umsjónarmann sinn í málinu en það hafi gengið illa. Hafi sá umsjónarmaður verið bjartsýnn á að samningar myndu takast og hefði hann sent kæranda frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi í febrúar 2013. Hún hafi svo ekkert frétt af stöðu málsins fyrr en nýr umsjónarmaður hafi tekið við málinu og í framhaldi af því hafi umsjónarmaðurinn lagt til að málið yrði fellt niður. Nú hafi lán hennar hækkað verulega og það sem hafi bæst við lánin sé henni algerlega ofviða. Fyrrgreindur dráttur á málinu hjá umboðsmanni skuldara hafi því komið sér mjög illa fyrir hana.

Kærandi hafi  orðið fyrir greiðsluvandræðum en hún geti þó ekki sýnt fram á þau útgjöld með reikningum. Hún sé nú búin að leggja til hliðar rúmlega 2.000.000 króna og að mati hennar sé það ekki mjög langt frá þeirri fjárhæð sem farið sé fram á. Að mati hennar hafi vantað upp á aðhald frá umboðsmanni skuldara í máli hennar.

III.Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 3. júní 2011 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól hafist á þeim degi.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 27 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 30. september 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. júlí 2011 til 31. desember 2011 að frádregnum skatti 1.532.082
Mánaðarlegar meðaltekjur 255.347
Framfærslukostnaður á mánuði 166.440
Samtals framfærslukostnaður árs 998.640
Samtals greiðslugeta í 6 mánuði 533.442

 

Launatekjur 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 að frádregnum skatti 3.184.104
Mánaðarlegar meðaltekjur 265.342
Framfærslukostnaður á mánuði 166.440
Samtals framfærslukostnaður árs 1.997.280
Samtals greiðslugeta í 12 mánuði 1.186.824

 

Launatekjur 1. janúar 2013 til 30. september 2013 að frádregnum skatti 2.471.364
Mánaðarlegar meðaltekjur 274.596
Framfærslukostnaður á mánuði 166.440
Samtals framfærslukostnaður árs 1.497.960
Samtals greiðslugeta í 9 mánuði 973.404

 

Samtals greiðslugeta í 27 mánuði 3.005.110

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hefði átt að hafa getað lagt fyrir  3.005.110 krónur á tímabili greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið um 166.440 krónur á mánuði á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað kæranda að teknu tilliti til þess að maki henni greiði helming á móti henni í október 2013.

Kærandi hefur lagt fram reikninga vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 415.030 krónur. Að teknu tilliti til þeirra reikninga ætti  sparnaður kæranda að nema um 2.590.080 krónum. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar 1.535.000 krónur og aðspurð sagðist hún ekki hafa frekari reikninga vegna nauðsynlegs útlagðs kostnaðar. Óútskýrt er hvers vegna sparnaður kæranda sé ekki meiri og í samræmi við mánaðarlegar tekjur og framfærslukostnað kæranda. Að framangreindu verði ráðið að það vanti 1.055.080 krónur upp á að það fé sem var umfram framfærslukostnað hafi verið lagt til hliðar.

Kærandi hafi greint frá því í andmælum sínum að hún hafi lagt til hliðar 1.925.000 krónur. Hún hafi þó ekki lagt fram gögn sem styðji það. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að það hafi verið um fimm mánuðir frá því að fyrrgreindir útreikningar hafi verið gerðir. Kærandi hafi haft um 285.000 krónur í tekjur á mánuði að meðaltali síðan útreikningarnir voru gerðir og fram að ákvörðun um að fella niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Því hafi greiðslugeta hennar verið rúmlega 115.000 krónur þá fimm mánuði að meðaltali.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV.Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 28. október 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja nægilega mikið fé til hliðar í greiðsluskjóli. Tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að líkur væru á að umræddar upplýsingar hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 17. mars 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar alla þá fjármuni sem henni hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem hún naut greiðsluskjóls. Kærandi kvaðst ekki hafa getað lagt til hliðar allt það sem henni hafi borið að leggja til hliðar þar sem hún hafi orðið fyrir óútskýrðum greiðsluvandræðum, þótt hún hafi ekki getað sýnt fram á það með reikningum. Hún hafi þó verið búin að leggja til hliðar rúmlega 2.000.000 króna en það sé ekki langt frá þeirri fjárhæð sem henni hafi borið að leggja til hliðar að mati umboðsmanni skuldara.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefði kærandi átt að leggja til hliðar 3.005.110 krónur frá því að umsókn hennar um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. júní 2011 til 30. september 2013, auk þess sem greiðslugeta kæranda hafi verið jákvæð um 115.000 krónur að meðaltali á mánuði síðustu fimm mánuði áður en umboðsmaður skuldara felldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda. Útreikningar umboðsmanns skuldara voru fimm mánaða gamlir þegar ákvörðun um niðurfellingu var tekin. Kærandi hafi gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 415.030 krónur og að teknu tilliti til þess að kærandi hafi lýst því að hafa sparað 1.535.000 krónur þá vanti um 1.055.080 krónur upp á það fé sem hún hefði átt að leggja til hliðar á tímabilinu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur 1.571.648
Mánaðartekjur alls að meðaltali 261.941
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.428.521
Mánaðartekjur alls að meðaltali 285.710
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. janúar 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur 3.477.576
Mánaðartekjur alls að meðaltali 289.798

 

Tímabilið 1. janúar 2014 til 28. febrúar 2014: Tveir mánuðir
Nettótekjur 569.252
Mánaðartekjur alls að meðaltali 284.626

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli : 32 mánuðir 9.046.997
Nettó mánaðartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 282.719

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2011 til 28. febrúar 2014: 32 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 9.046.997
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 116.190
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 9.163.187
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 286.350
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 166.440
Greiðslugeta kæranda á mánuði 119.910
Alls sparnaður í 32 mánuði í greiðsluskjóli x 119.910 3.837.107

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi gefið skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda vegna tannlæknakostnaðar að fjárhæð 415.030 krónur. Er það í samræmi við fyrirliggjandi gögn og verður lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Kærandi kveðst hafa lagt til hliðar rúmlega 2.000.000 króna. Hún hefur þó hvorki lagt fram kvittanir né önnur gögn sem sýna fram á að hún hafi lagt þá fjármuni til hliðar, þrátt fyrir beiðnir um það frá umboðsmanni skuldara. Er því ekki unnt að taka tillit til neins sparnaðar kæranda að mati kærunefndarinnar.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til óvæntra útgjalda að fjárhæð 415.030 krónur hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 3.422.077 krónur á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan hún naut greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum