Hoppa yfir valmynd
12. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2014

Mál nr. 19/2014

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. febrúar 2014 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 4. mars 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. apríl 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 29. apríl 2014 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi 9. maí 2014 og voru þær sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 19. maí 2014. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1958. Hún er einstæð og býr í leiguhúsnæði að B í Reykjavík. Lögheimili kæranda er að C í Reykjavík sem er í sameiginlegri eigu kæranda og fyrrverandi maka. Eignin er í útleigu.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 53.568.426 krónur

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til skulda tengdum atvinnurekstri, skilnaðar árið 2010 og atvinnumissis í árslok 2012.  

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 4. september 2013, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. febrúar 2014 var umsókninni hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst vera ósammála túlkun umboðsmanns skuldara á fyrri úrlausnum kærunefndar og Hæstaréttar og þýðingu þeirra fyrir mál kæranda. Í fyrsta lagi hafi sú fullyrðing umboðsmanns skuldara verið röng að kærandi hafi stöðu sinnar vegna borið ábyrgð á að einkahlutafélagið D stæði í skilum með greiðslu vörsluskatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Félagið sjálft beri ábyrgð á greiðslum umræddra gjalda, en fyrirsvarsmaður beri ábyrgð á því samkvæmt framangreindu lagaákvæði að reksturinn sé í góðu horfi. Ósannað sé að kærandi muni bera persónulega ábyrgð á greiðslu þessara skatta og muni ekki gera það nema að undangengnum dómi.

Í öðru lagi sé rangt að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, í máli nr. 10/2011, hafi nefndin fallist á að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í því máli hafi ekki verið um að ræða að umsækjandi hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í málinu hafi verið  um það að ræða að einkahlutafélag, sem umsækjandinn hafi gegnt ábyrgðarstöðu hjá, hafi ekki greitt  umrædda skatta. Nefndin hafi komst að þeirri niðurstöðu að heimilt væri að synja einstaklingi um greiðsluaðlögun, hafi hann gegnt trúnaðarstarfi fyrir einkahlutafélag sem hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum sínum, þótt ekki liggi fyrir refsidómur á hendur fyrirsvarsmanninum vegna þeirra vanskila. Þessi niðurstaða nefndarinnar hafi verið í meira lagi vafasöm. Hún hafi í fyrsta lagi ekki verið í samræmi við d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í ákvæðinu segi að synja megi um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Verulegur munur sé á því hvort háttsemi varði refsingu eða geti varðað refsingu. Ekki sé hægt að skilja ákvæðið öðruvísi en svo að um sé að ræða háttsemi sem lýst sé refsiverð eða að búið sé að staðfesta refsinæmi með dómi. Með sama hætti þurfi að vera búið að komast að niðurstöðu um að háttsemi, sem skuldbinding stafi af, varði skaðabótaskyldu. Að öðrum kosti mætti synja manni um heimild til greiðsluaðlögunar ef annar maður gæti fræðilega beint skaðabótakröfu að honum, án tillits til þess hvort slík krafa teldist tilhæfulaus. Málsbætur geti alltaf leitt til þess að háttsemi teljist ekki refsinæm, auk þess sem engan veginn sé öruggt að fyrirsvarsmenn einkahlutafélaga muni sæta ákæru eða refsingu vegna vanskila lögaðila á opinberum gjöldum. Fyrir liggi fjölmörg dæmi, meðal annars tveir nýlegir dómar Hæstaréttar, nr. 338/2013 og 354/2013, þar sem fyrirsvarsmenn einkahlutafélaga hafi verið sýknaðir af ákæru um stórfelld vanskil lögaðila á vörslusköttum. Synjun og afstaða umboðsmanns skuldara, sem byggi eingöngu á því að fyrirsvarsmanni kunni að vera refsað fyrir vanskil félags á opinberum gjöldum, sé auk þess skýlaust brot á 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944, um að maður sé saklaus af refsiverðri háttsemi, uns sekt hans hafi verið sönnuð. Með því sé vitaskuld átt við að sekt um refsiverða háttsemi þurfi að vera sönnuð með dómi. Frá þessu ákvæði stjórnarskrárinnar verði ekki vikið með almennum lögum. Því hafi verið óheimilt að synja umsækjanda um greiðsluaðlögun á þeirri forsendu að hann hafi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi, án þess að það hafi verið staðfest með dómi.

Hvað varði tilvísun umboðsmanns skuldara til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 sé einfaldlega ekki um sambærileg mál að ræða. Í því máli hafi skuldarinn sjálfur, sem var einstaklingur, sannarlega bakað sér skuldbindingu með því að skila ekki opinberum gjöldum, sem urðu til í einstaklingsrekstri hans sjálfs, á hans eigin kennitölu sem hann hafi ekki mótmælt. Engin áhöld hafi verið um það að viðkomandi hafði bakað sér þessar skuldbindingar persónulega og borið á þeim persónulega ábyrgð, auk þess sem hann hafi viðurkennt ábyrgð á þeim. Í tilviki kæranda sé ekki um persónulegar skuldir að ræða og hún hafi ekki fallist á að hún hafi gerst sek um háttsemi sem sé refsiverð.

Til viðbótar framangreindu fari  því fjarri að mati kæranda, að vanskil D á opinberum gjöldum teljist nema nokkru í hlutfalli við hennar persónulegu skuldbindingar. Samkvæmt bréfi umboðsmanns skuldara nemi þessar skuldir samtals 3.391.380 krónum. Þar af sé áætlun, sem unnið sé að því að leiðrétta, að fjárhæð 515.036 krónur. Heildarskuldir D vegna opinberra gjalda nemi því í raun ekki nema 2.876.344 krónum ásamt áföllnum vöxtum. Kærandi hafi upplýst að skuldir hennar nemi yfir 50 milljónum króna. Því sé líklegt að framangreind skuld D, sem kærandi beri ekki persónulega ábyrgð á í dag, nemi vel innan við 5% af heildarskuldum hennar. Mjög algengt sé að skuldarar í greiðsluaðlögun ljúki greiðsluaðlöguninni með hærri fjárhæð en að framan greini og þurfi að greiða hærra hlutfall af heildarskuldum sínum en 5%. Því sé ekki hægt að fullyrða að fjárhæðin sé óhæfileg í skilningi lge.

Umboðmaður skuldara hafi vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 58/2012 til stuðnings því að heimilt væri að synja umsækjenda um greiðsluaðlögun á grundvelli skuldbindingar lögaðila. Kærandi telur að ákvörðun umboðsmanns skuldara stangist á við lög, stjórnarskrá og grundvallarmannréttindi að öðru leyti. Í lge. sé engin heimild til að jafna skuldum lögaðila með takmarkaðri ábyrgð, hvort sem um sé að ræða opinberar skuldir eða einkaskuldir, við skuldir einstaklinga. Þá sé ekki rökstutt að nokkru leyti í greinargerð umboðsmanns skuldara að umræddar skuldir, höfuðstólsfjárhæð hinna opinberu gjalda að fjárhæð 2.647.777 krónur, teljist fjárhæð sem nokkru nemi í hlutfalli við heildarskuldbindingar kæranda. Sem stendur sé fjárhæðin ekki hluti af heildarskuldbindingum  kæranda. Yrði hún það í kjölfar refsimáls vegna vanskila á virðisaukaskatti, næmi hlutfall hennar um 5% af heildarskuldum. Að mati kæranda standi því engin rök til að synja henni um greiðsluaðlögun.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara komi fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé samhljóma ákvæði 4. tl. 1. mgr. 63. gr. d. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, sem nú sé brottfallið. Í dómi Hæstaréttar frá 20. janúar 2010 í máli nr. 721/2009, hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar 4. tl. 1. mgr. 63. gr. d. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að skuldbinding sem stofnað sé til með þeirri háttsemi sem ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. tiltaki, geti varðað synjun á heimild til að leita greiðsluaðlögunar einstaklinga.

Þá hafi kærunefnd greiðsluaðlögunarmála í úrskurði nr. 10/2011 fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem umsækjandi hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu nefndarinnar hafi komið fram að ákvæði 4. tl. 1. mgr. 63. gr. d. gjaldþrotalaga hafi í framkvæmd verið skilið svo „að skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.“

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá var kærandi stjórnarmaður og prókúruhafi félagsins D, en enginn framkvæmdarstjóri hafi verið skráður í félaginu. Því hafi hvílt á kæranda sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, þess efnis að fyrirsvarsmaður skuli hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Fyrir liggi að félagið skuldi vörsluskatta, nánar tiltekið virðisaukaskatt og staðgreiðslu launagreiðanda.

Samkvæmt yfirliti frá Tollstjóra hafi félagið D ekki staðið skil á eftirfarandi opinberum gjöldum í krónum:

Opinber gjöld Fjárhæð
Þing- og sveitarsjóðsgjöld vegna 2012 og 2013      1.371.955    
Staðgreiðsla, tryggingargjald vegna 2012            71.886    
Staðgreiðsla, launagreiðandi vegna 2012**            76.247    
Virðisaukaskattur vegna 2012*      3.315.133    
Samtals:      4.835.221    

*Skuld byggir á álagningu utan 515.036 króna áætlunar frá mars 2013.

**Skuld byggir á álagningu.

Við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi verði að líta heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu kæranda. Eignarstaða kæranda sé neikvæð um 38.230.041 krónu, sé tekið mið af því að kærandi sé þinglýstur eigandi 50% eignarhlutar fasteignar að C. Væri umrædd fasteign í 100% eign kæranda, líkt og fjárskiptasamningur hafi gert ráð fyrir, væri eignarstaða hennar neikvæð um 23.830.042 krónur. Skuldir, sem kærandi beri ábyrgð á vegna vangreiddra vörsluskatta, nemi alls 3.391.380 krónum sem telja verði allháa fjárhæð. Skuldir þessar séu 6,3% af heildarskuldum kæranda og falli ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Greiðslugeta kæranda sé áætluð jákvæð um 70.692 krónur en þá hafi ekki verið tekið tillit til þess að kærandi greiði húsaleigu. Mat umboðsmanns skuldara sé það að skuldir sem falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. séu verulegar miðað við fjárhag kæranda.

Umboðsmaður skuldara hafnar málflutningi kæranda þess efnis að beiting d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé vafasöm í ljósi þess að refsing hafi ekki verið staðfest með dómi. Að mati umboðsmanns skuldara hafi ekki verið hjá því komist að líta til þeirrar lagaskyldu sem hvílt hafi á kæranda sem stjórnarmanns og prókúruhafa í D um að standa skil á vörslusköttum sem innheimtir hafi verið í starfsemi félagsins og þeirra sekta sem hún gæti átt yfir höfði sér með því að láta hjá líða að gera sköttunum skil. Fjárhagsstaða  félagsins hafi almennt ekki áhrif á þessa skyldu eða refsiábyrgð sem henni tengist. Um sé að ræða vörslufé og slíku fé sé aðeins heimilt að ráðstafa í samræmi við þær reglur sem tilgreindar séu í viðkomandi lögum. Þar sem ótvírætt sé að kærandi hafi farið með stjórn félagsins hafi hvílt á henni sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Kærandi hafi stofnað til vörsluskattskuldar sem fyrirsvarsmaður einkahlutafélags með háttsemi er varði refsingu eins og fram hafi komið og verði almennt að telja slíka háttsemi þess valdandi að óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 58/2012 hafi nefndin talið að þegar svo hátti til að skuldari hafi ekki staðið skil á vörslusköttum fyrir hönd einkahlutafélags sem hann sé  í fyrirsvari fyrir komi d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. til skoðunar. Í úrskurði nefndarinnar hafi verið vísað til þess að fyrirsvarsmanni lögaðila sé skylt að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðnum sektum eða fangelsisvist. Frá því séu engar undantekningar. Meðal annars með vísan til þessa hafi nefndin staðfest ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

Varðandi athugasemdir kæranda um að vanskil opinberra gjalda D séu ekki verulegar sem hlutfall af heildarskuldum hennar, þá árétti umboðsmaður skuldara að við mat á því hvort aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi sé litið heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu skuldara eins og greint hafi verið frá í hinni kærðu ákvörðun. Mat umboðsmanns skuldara hafi verið að skuldir sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu væru verulegar miðað við fjárhag kæranda.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í lagaákvæðinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þar eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í ákvörðun sinni og varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru neðangreindar vörsluskattskuldir félags sem kærandi var í forsvari fyrir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu launagreiðanda í krónum:

  Upphafleg fjárhæð Fjárhæð í nóvember 2013
D    
Virðisaukaskattur 2012 2.646.777 3.315.133
Staðgreiðsla launagreiðanda 2012  62.689 76.247
Samtals 2.709.466 3.391.380

Fyrir liggur samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi stjórnarmaður og prókúruhafi D Hvíldi því á henni sú skylda fyrirsvarsmanns félags, sem tilgreind er í 1. og 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrirsvarsmaður félags skal einnig hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirvarsmann D.

Að því er varðar ofangreindar vörsluskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskulda D alls 2.709.466 krónur og heildarskuldin nemur alls 3.391.380 krónum með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.  

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um 38.230.041 krónu sé miðað við að eignarhlutur hennar í fasteiginni C í Reykjavík sé 50%. Tekjur kæranda  nema alls 241.352 krónum á mánuði að meðaltali. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur 3.391.380 krónum með vöxtum eða 8,87% af heildarskuldum kæranda. Þetta er skuld sem telja verður allháa en hún fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessarar skuldar með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum