Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 170/2013

Mál nr. 170/2013

Miðvikudaginn 17. febrúar 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 28. janúar 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 13. febrúar 2014 og var óskað eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til þeirra með bréfi 20. febrúar 2014. Umboðsmaður skuldara taldi ekki ástæðu til að bregðast við athugasemdum kærenda.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1966 og 1962. Þau eru gift og hafa búið í 110 fermetra búseturéttaríbúð að C. Þau eiga saman þrjú börn. Kærendur eru bæði [.....] og eru tekjur þeirra vegna launa, vaxta- og barnabóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 16.517.077 krónur.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, veikinda kæranda A og vankunnáttu þeirra í fjármálum.

Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var móttekin 4. maí 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 12. desember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Kærendur hefðu ekki lagt fyrir fjármuni í samræmi við skyldur sínar samkvæmt lge. nema að litlu leyti. Auk þessa hefðu þau ekki greitt D. búsetugjald af búseturéttaríbúð sinni nema í fjóra mánuði af þeim 19 mánuðum sem þau hafi notið frestunar greiðslna, þ.e. verið í svokölluðu greiðsluskjóli. Þessu til viðbótar hefðu kærendur leigt búseturréttaríbúð sína út með ótímabundnum samningi eftir að þau fóru í greiðsluskjól. Samkvæmt þessu hefðu kærendur brotið gegn reglum d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Því sendi umsjónarmaður málið aftur til umboðsmanns skuldara samkvæmt 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 12. september 2013 þar sem fram kom að þeim væri gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar. Umboðsmanni skuldara bárust ekki svör frá kærendum.

Með bréfi til kærenda 23. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í niðurlagi ákvörðunar umboðsmanns var þó vísað til c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. en síðar kom fram sú skýring hjá umboðsmanni skuldara að þar hefði verið um ritvillu að ræða.

Kærendur óskuðu eftir endurupptöku ákvörðunarinnar með bréfi 8. október 2013 með vísan til þess að byggt hefði verið á röngum forsendum og rangt farið með tölur. Með bréfi 17. október 2013 synjaði umboðsmaður skuldara kærendum um endurupptöku málsins.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.  

Kærendur telja að ekki hafi verið forsendur fyrir því að leggja fyrir fjármuni í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. andstætt því sem umsjónarmaður og umboðsmaður skuldara haldi fram.

Kærendur benda á að ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á níu mánaða gamalli tilkynningu frá umsjónarmanni. Tilkynning umsjónarmanns byggðist á kvörtun D þar sem félagið hafi talið að kærendur hefðu stofnað til nýrra skulda á tímabili greiðsluskjóls og þannig skaðað hagsmuni þess lánardrottins. Af þeim sökum hafi umsjónarmaður talið að kærendur hefðu meðal annars brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Á því níu mánaða tímabili sem Embætti umboðsmanns skuldara hefði haft málið til skoðunar hafi verið leyst úr ágreiningi á milli kærenda og umrædds lánardrottins með samningi 9. apríl 2013. Samkvæmt framansögðu hafi ekki lengur verið til staðar forsendur fyrir ákvörðun umboðsmanns skuldara og því engin rök til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hefðu að mestum hluta greitt þá viðbótarskuld sem hafði myndast með sjálfsaflafé, en til þess að geta það hefðu þau lifað langt undir framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Af þeim sökum hefði ekki legið fyrir að kærendur hefðu stofnað til nýrra skuldbindinga sem skaðað hefðu hagsmuni kröfuhafa þegar embættið tók ákvörðun. Þegar umboðsmaður skuldara hafi farið yfir tilkynningu umsjónarmanns hafi ekki verið til staðar þær umkvartanir sem ákvörðun embættisins byggðist á. Ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt því byggst á röngum upplýsingum um málsatvik og því hafi skýr skilyrði verið til endurupptöku málsins. Umboðsmaður skuldara hafi ekki rannsakað nægilega vel gögn málsins þegar ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda var tekin. Umboðsmaður skuldara hafi því brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fram komi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þá telja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga þar sem fram komi að stjórnvald skuli því einungis taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verði ekki náð með öðru eða vægara móti. Skuli þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Ljóst sé að ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið verulega íþyngjandi fyrir kærendur auk þess að vera algerlega óþörf og byggð á röngum forsendum. Ágreiningur, sem leiddi til ákvörðunar umboðsmanns skuldara, hafði þá þegar verið leystur og því engar forsendur fyrir henni. Með vísan til laga nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara bendi kærendur á að það sé hlutverk umboðsmanns að gæta hagsmuna skuldara, sbr. b- og f-liði 1. gr. laganna.

Kærendur telja að í hinni kærðu ákvörðun hafi umboðsmaður skuldara  ranglega sett fram fjárhæðir sem hafi haft veruleg áhrif á ákvörðunina. Á þeim grundvelli beri að afturkalla hana. Kærendur vísa til tölvupóstsamskipta við Embætti umboðsmanns skuldara frá 14. september 2013. Þau mótmæla þeim staðhæfingum embættisins að tölulegar upplýsingar hafi ekki verið rangar heldur „að tölulegar upplýsingar hefðu mátt vera skýrar fram settar“. Að mati kærenda sé óásættanlegt að embættið viðhafi slík vinnubrögð. Með vísan til lögbundins hlutverks embættisins eigi það að geta sett fram tölur með réttum hætti. Alvarleiki þess að setja ranglega fram tölur sé meiri í þessu tilfelli en almennt gerist, enda verði ekki fram hjá því litið að starfmenn umboðsmanns skuldara séu sérfræðingar á þessu sviði en kærendur búi við umtalsvert fjármálaólæsi.

Með tilliti til stöðu skuldar kærenda við D og samkomulags við félagið verði ekki annað séð en að innan mjög skamms tíma verði öll vanskil jöfnuð. Því hafi ekki verið stofnað til nýrra skulda sem skaðað geti aðra lánardrottna þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin, enda hefði umræddur lánardrottinn staðfest þetta með fyrrnefndu samkomulagi. Kærendur mótmæla þeirri fullyrðingu sem órökstuddri að skuldajöfnun búseturéttar hafi skaðað aðra lánardrottna, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Enn eigi eftir að meta og rannsaka hvort nefndur skuldajöfnuður hafi fallið undir d-lið 1. mgr. 3. gr. lge. og hvernig ráðstöfunin í heild sinni hefði áhrif á greiðsluaðlögun kærenda.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana komi skýrt fram að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns skuldara 12. september 2013 hafi þó hvergi verið fjallað um að kærendur hafi gerst brotlegir við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. jafnvel þó að fjallað hafi verið um skuldajöfnuð og ráðstöfun eigna. Auk þess hafi umboðsmaður skuldara ítrekað í tölvupóstsamskiptum 14. október 2013 að brotið hafi verið gegn c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því hafi ekki verið um innsláttarvillu að ræða, eins og umboðsmaður skuldara haldi fram, heldur nýja málsástæðu og hafi umboðsmaður með hátterni sínu brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga. Á grundvelli þess telja kærendur að fella beri ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.

Kærendur gagnrýna sérstaklega þann mikla drátt sem hafi orðið á meðferð málsins hjá Embætti umboðsmanns skuldara en níu mánuðir hafi liðið frá því að tilkynning frá umsjónarmanni um greiðsluaðlögun hafi borist þar til málið hafi verið tekið upp. Kærendur hafi aðeins fengið viku til að andmæla og umboðsmaður skuldara hafi  verið búinn að taka ákvörðun í málinu þremur dögum seinna. Slík málsmeðferð sé að mati kærenda ámælisverð og hafi embættið brotið gegn skyldum sínum samkvæmt 1. og 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur hafi því verið í góðri trú um að þær ráðstafanir, sem þau hefðu gert og staðið við um lengri tíma, væru í samræmi við lge. og hefðu átt að hafa í för með sér afturköllun á umræddri tilkynningu. Hinn mikli dráttur gæti því hafa skaðað kærendur sem kynnu að hafa gert aðrar ráðstafanir varðandi fjármál sín, til dæmis óskað gjaldþrots. Enn fremur kunni ábyrgðarmenn að hafa skaðast þar sem kærendum hafi verið óheimilt að greiða af skuldum og þær skuldir því hlaðið á sig kostnaði sem ábyrgðarmenn hefðu getað komist hjá.

Að mati kærenda hafi skipaður umsjónarmaður ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 16. gr. lge. þar sem hann hafi ekki lokið vinnu við frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings innan tilskilins tímafrests, sbr. 8. gr. lge.

Kærendur gagnrýna málflutning umboðsmanns skuldara fyrir kærunefndinni þess efnis að þeim hafi verið veitt færi á að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu en engin svör hafi borist innan þess frests sem veittur var. Í reynd hafi umboðsmaður skuldara ekki virt þann frest sem honum hafi borið að veita í málinu. Embættið hafi aðeins veitt kærendum vikufrest frá móttöku til þess að svara bréfi embættisins frá 12. september 2013. Kærendur hafi tekið á móti bréfinu 13. september 2013 en sá dagur reiknist ekki með fresti, sbr. stjórnsýslulög. Því hafi vikufrestur verið til og með föstudeginum 20. september 2013. Á mánudeginum þar á eftir, eða 23. september 2013, níu dögum seinna sé ákvörðun dagsett. Umboðsmaður skuldara hafi mátt vita það með tilliti til þess að kærendur byggju á landsbyggðinni að svar gæti tekið tíma að berast. Að þessu virtu og því að dreifingaraðili pósts gefi sér ákveðinn tíma til póstdreifingar hafi svokallaður A póstur til dæmis ekki getað borist embættinu fyrr en í fyrsta lagi á þeim degi sem ákvörðun var tekin og svokallaður B póstur ekki fyrr en að andmælafresti liðnum.

Kærendur mótmæla málflutningi umboðsmanns skuldara fyrir kærunefndinni um meint vanskil við Akureyrarbæ o.fl. Fullyrðingar umboðsmanns skuldara séu ósannaðar og órökstuddar. Kærendur hafi engar forsendur til að meta þessar fullyrðingar og ekkert hafi komið fram um hin meintu vanskil undir rekstri málsins.  Kærendur krefjast þess að kærunefndin líti fram hjá þessari umfjöllun, enda hafi nefndar fullyrðingar ekki hlotið rétta málsmeðferð, sbr. málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu telja kærendur að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Umsjónarmaður hafi tilkynnt embættinu með bréfi 12. desember 2012 að kærendur hefðu ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki fjármuni til hliðar og samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með stofnun nýrra skulda. Rétt væri því að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt 15. gr. lge. 

Kærendum hafi verið sent ábyrgðarbréf 12. september 2013 þar sem þeim hafi verið veitt tækifæri til að gera athugasemdir og leggja fram gögn í málinu vegna þeirra atriða sem þóttu geta leitt til niðurfellingar á greiðsluaðlögunarumleitunum. Engin svör hafi borist.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur, eftir að sótt var um greiðsluaðlögun, vanrækt að greiða búsetugjald og árgjald til D fyrir afnot af fasteigninni C. Frá því að frestun greiðslna hófst 4. maí 2011 til 31. ágúst 2013 hafi kostnaður kærenda vegna búsetugjalds og árgjalds numið 4.339.459 krónum en af þeirri fjárhæð hafi kærendur einungis greitt 1.773.071 krónu, þrátt fyrir nokkra greiðslugetu. Skuld kærenda við D vegna búsetugjalds þegar sótt var um greiðsluaðlögun 4. maí 2011 hafi verið 3.379.806 krónur. Með samningi 9. apríl 2013 hafi kærendur skuldajafnað inneign á búseturétti upp í skuldir. Telja verði að með þessu hátterni hafi kærendur stofnað til skulda og skaðað hagsmuni kröfuhafa samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið komist hjá því að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge.

Vegna athugasemda í kæru tekur umboðsmaður skuldara fram að 1. maí 2011 hafi vanskil kærenda hjá D verið 3.379.806 krónur. Samkvæmt gögnum frá D hafi vanskil kærenda aukist jafnt og þétt á tímabili greiðsluskjóls eða allt fram til mars 2013, en þá hafi vanskil kærenda við félagið verið 6.111.118 krónur. Á tímabilinu maí 2011 til febrúar 2013 hafi kærendum borið að greiða alls 3.307.193 krónur í leigu án tillits til dráttarvaxta en þau hafi aðeins greitt 597.133 krónur þrátt fyrir umtalsverða greiðslugetu. Mismunurinn, 2.710.064 krónur, virtist samkvæmt gögnum málsins ekki hafa verið til reiðu fyrir kærendur þar sem þau hafi aðeins greitt 1.200.000 krónur 6. mars 2013, eða rétt um 45% af upphæð vanskila á tímabilinu. Þá hafi kærendur selt búseturétt sinn 9. apríl 2013 fyrir 1.897.187 krónur og greitt með því hluta vanskilanna. Með umræddri framgöngu telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi stofnað til skulda og gert ráðstafanir sem skaðað hafi hagsmuni lánardrottna í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þeim hafi enda borið að leggja til hliðar af launum sínum þá fjárhæð sem var umfram nauðsynlegan framfærslukostnað, en þeim hafi ekki heldur verið heimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge.

Þá beri gögn málsins með sér að vanskil kærenda hafi ekki einungis verið við D heldur hafi kærendur einnig stofnað til umtalsverðra vanskila við Akureyrarbæ á greiðsluaðlögunartímabilinu. Á grundvelli gagna frá E frá júní 2013 sem aflað hafi verið í málinu hafi komið fram að vanskil þessi með vöxtum og öðrum innheimtukostnaði hafi numið 447.000 krónum og sé þá ótalinn 200.000 króna lögfræðikostnaður sem kærendur kveðist hafa greitt. Um þetta hafi ekki verið fjallað í hinni kærðu ákvörðun þótt það hefði hæglega mátt gera, enda hafi embættið talið þann grundvöll sem ákvörðunin var byggð á nægjanlegan á þeim tíma.

Í samræmi við lge. og skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. laganna telur umboðsmaður skuldara að gera verði þær kröfur til einstaklinga í greiðsluskjóli, sem glími við svo alvarlega greiðsluerfiðleika að íhlutunar sé þörf, að dregið sé saman í þeim útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan einstaklingar séu með virka umsókn um samningaumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Í greiðsluaðlögun séu skuldurum settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár sem safnist fyrir í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að geyma það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé skuldurum óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað geti hagsmuni lánardrottna. Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað, svo sem rafmagn, hita, samskiptakostnað, húsaleigu og fleira þess háttar. Þá sé skuldurum ætlað að standa við gjöld og kostnað vegna framfærslu, sé greiðslugeta til staðar í mánuði hverjum, enda markmiðið með greiðsluaðlögun að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Á grundvelli framangreinds og gagna málsins sé afstaða umboðsmanns skuldara sú að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. með áðurnefndri háttsemi.

Í kæru komi fram sú afstaða kærenda að vegna breytinga á fjárhagsstöðu þeirra gagnvart D séu forsendur d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. ekki lengur til staðar þar sem kröfuhafinn hafi fallið frá athugasemdum sínum. Umboðsmaður skuldara vísar til þess að umsjónarmaður skuli óska þess við embættið að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. telji hann að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge.  Umboðsmaður skuldara skuli síðan taka sjálfstæða ákvörðun byggða á afstöðu sinni til álitaefnis að undangenginni rannsókn og athugasemdum frá skuldara. Breytingar á afstöðu einstakra kröfuhafa á síðari stigum geti þannig ekki haft úrslitaáhrif við mat embættisins á því hvort skuldari hafi brotið gegn skyldum sínum þegar mál hefur á annað borð borist á grundvelli 15. gr. lge., enda beri umboðsmanni skuldara að leggja heildstætt mat á aðstæður við ákvörðunartökuna. Í málinu liggi fyrir að kærendur hafi ekki nýtt rétt sinn til andmæla innan tímamarka og hafi ákvörðun um niðurfellingu því verið tekin í kjölfarið. Þá hafi embættið hvorki talið skilyrði fyrir endurupptöku né afturköllun ákvörðunar samkvæmt stjórnsýslulögum. Embættið telji framsetningu á ákvörðun sinni ekki hafa skert möguleika kærenda til andmæla. Þá sé annmarki á ákvörðuninni ekki slíkur að valdi ógildingu.

Umboðsmaður skuldara hafnar því að þótt innsláttarvilla hafi verið í ákvörðun embættisins hafi embættið verið að breiða yfir fyrri fullyrðingar eða firra sig ábyrgð á hinni kærðu ákvörðun. Mistökin hafi engin efnisleg áhrif haft á niðurstöðu málsins. Kærendur hafi verið upplýst um mistökin og leggur umboðsmaður skuldara áherslu á að hin kærða ákvörðun hafi einungis verið byggð á d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við andmælareglu 13. gr., meðalhófsreglu 12. gr., málshraðareglu 9. gr. eða rannsóknarreglu 10. gr.   stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 Kærendur telja að andmælaréttur þeirra samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virtur. Samkvæmt ákvæðinu skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun í því er tekin. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru. Í bréfi umboðsmanns skuldara 12. september 2013 kom fram að samkvæmt gögnum málsins höfðu kærendur ekki greitt búsetugjald á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í bréfinu var gerð grein fyrir d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og tekið fram að kærendur hefðu stofnað til nýrra skulda með hátterni sínu og þar með skaðað hagsmuni kröfuhafa.

Í lge. er lögð áhersla á að skuldari veiti sjálfur þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að varpa ljósi á fjárhagsmálefni hans. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Andmælareglu stjórnsýslulaga er ætlað að veita aðila máls rétt til að hafa áhrif við úrlausn málsins og gæta hagsmuna sinna. Virði stjórnvald þennan rétt leiðir af sjálfu sér að það hefur virt andmælaréttinn og það er undir málsaðila sjálfum komið hvort og þá hvernig hann nýtir sér þennan rétt. Kærendur sinntu ekki bréfi umboðsmanns skuldara frá 12. september 2013 þar sem þeim var gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn. Er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að með umræddu bréfi umboðsmanns skuldara hafi kærendur fengið fullnægjandi tækifæri til að tjá sig um efni málsins. Með vísan til þessa telur kærunefndin að umboðsmaður skuldara hafi virt andmælarétt kærenda við meðferð málsins þrátt fyrir skamman frest, enda óskuðu kærendur ekki eftir lengri tíma til að bregðast við bréfi umboðsmanns skuldara. Þá telur kærunefndin eins og á stóð í málinu að vísun umboðsmanns skuldara til c-liðar 1. mgr. 12. gr. í stað d-liðar sömu greinar í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið augljós ritvilla, enda er ljóst að efnislega byggði ákvörðunin á d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem vísað var til í hinni kærðu ákvörðun. Tilvísun í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. fól því ekki í sér nýja málsástæðu sem þýðingu gat haft varðandi andmælarétt kærenda. Í bréfi umboðsmanns skuldara 12. september 2013, þar sem kærendum var veittur andmælaréttur í málinu, var auk þess einungis vísað til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur telja einnig að Embætti umboðsmanns skuldara hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Vísa kærendur til þess að þar sem ágreiningur við D hafi þegar verið leystur hafi engar forsendur verið til þess að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að í 12. gr. felist að efni íþyngjandi ákvörðunar sem stjórnvald taki verði að vera til þess fallið að þjóna lögmætu markmiði sem að sé stefnt. Þá feli ákvæðið í sér að ef fleiri úrræða sé völ er þjónað geti því markmiði, sem að sé stefnt, skuli velja það úrræði sem vægast sé. Loks byggir ákvæðið á því að hóf verði að vera í beitingu þess úrræðis sem valið sé og megi því ekki ganga lengra en nauðsyn beri til. Stjórnvaldi sé skylt að vega og meta þau andstæðu sjónarmið sem fyrir hendi séu. Meðalhófsreglan beinist því ekki sérstaklega að því hvort ákvörðun hafi byggst á réttum forsendum. Með tilliti til þess verður ekki séð að 12. gr. stjórnsýslulaga eigi við um úrlausn málins að þessu leyti.

Þá telja kærendur málsmeðferðtíma hafa verið of langan og að málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin. Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með bréfi 12. desember 2012 að hann teldi að fella bæri greiðsluaðlögunarumleitar kærenda niður, en embættið hafi ekki sent kærendum bréf þess efnis fyrr en 12. september 2013 eða níu mánuðum síðar. Kærendur telja að þessar tafir hafi haft afleiðingar og valdið þeim og ábyrgðarmönnum skaða.   

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Í málinu liggur ekkert fyrir um ástæðu þess að dráttur varð á málsmeðferð umboðsmanns skuldara eftir að umsjónarmaður tilkynnti honum um mat sitt í málinu. Verður því að telja að þær tafir hafi verið að ófyrirsynju. Kærunefndin tekur þó fram að almennt er talið að tafir á afgreiðslu máls geti ekki valdið ógildingu ákvörðunar nema þær hafi haft áhrif á niðurstöðu hennar. Í þessu máli er það álit kærunefndarinnar að slíku sé ekki til að dreifa og að tafirnar og hugsanlegar afleiðingar þeirra leiði því ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hafi ekki rannsakað mál þeirra með fullnægjandi hætti þar sem hin kærða ákvörðun byggist á röngum upplýsingum um málsatvik, en kærendur hafi samið við D um greiðslu á skuld þeirra við félagið 9. apríl 2013 áður en umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá hafi rangt verið farið með tölur í hinni kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi ber því að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi ber að afla um viðkomandi mál. Samkvæmt 5. gr. lge. skal umboðsmaður skuldara ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur hann ef þörf krefur krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Umboðsmaður skuldara skal auk þess afla frekari upplýsinga sem hann telur geta skipt máli varðandi skuldir, eignir, tekjur og framferði skuldara áður en hann tekur ákvörðun um hvort veita skuli heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Regla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn meginþáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslubyrði, fjárhæðir skulda og greiðslugetu viðkomandi umsækjanda.

Samkvæmt gögnum málsins lá fyrir hreyfingaryfirlit frá D, dagsett 11. september 2013, þegar umboðsmaður skuldara tók hina kærðu ákvörðun. Á yfirlitinu kemur fram sundurliðun á fjárhæð búsetugjalds/húsaleigu og greiðslum kærenda inn á það eftir mánuðum. Samkvæmt greindu yfirliti voru eftirstöðvar skuldar vegna búsetugjalds 2.850.957 krónur sem er sama fjárhæð og sú sem tilgreind er sem skuld kærenda vegna búsetugjalds í hinni kærðu ákvörðun.

Á yfirlitinu kemur einnig fram að 6. mars 2013 hafi kærendur greitt 1.200.000 króna innborgun á skuld við félagið og selt búseturétt sinn 9. apríl 2013 fyrir 1.897.187 krónur. Þessum fjármunum, samtals að fjárhæð 3.097.187 krónur, var ráðstafað inn á skuld kærenda við D. Í nefndu yfirliti var ekki gerður greinarmunur á skuld sem stofnað hafði verið til áður en sótt var um greiðsluaðlögun og skuldar sem stofnast hafði til eftir að sótt var um greiðsluaðlögun.

Samkvæmt framangreindu yfirliti og samningi kærenda við D 9. apríl 2013 var skuldastaða kærenda við D í krónum þessi þegar hin kærða ákvörðun var tekin:

Heildarskuld kærenda þegar sótt var um greiðsluaðlögun 4. maí 2011    3.379.806 
Búseturétti skuldajafnað með samningi 9. apríl 2013  -  1.897.187 
Eftirstöðvar skuldar sem stofnað var til áður en sótt var um greiðsluaðlögun    1.482.619 
     
Búsetugjald/húsaleiga sem féll til í greiðsluskjóli samkvæmt hreyfingaryfirliti    4.341.409 
Greitt af búsetugjaldi/húsleigu sem féll til í greiðsluskjóli -1.773.671 
Innborgun 6. mars 2013 -1.200.000
Samtals skuld sem stofnaðist til í greiðsluskjóli    1.368.338 

 Samkvæmt framansögðu var skuldastaða kærenda við D 2.850.957 (1.482.619+1.368.338) þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda vegna vangreiddra búsetugjalda í greiðsluskjóli, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge., og er sú niðurstaða studd viðhlítandi gögnum. Verður því ekki fallist á að hin kærða ákvörðun hafi byggst á röngum upplýsingum eða að málið hafi ekki verið rannsakað með fullnægjandi hætti eins og kærendur halda fram.

Eins og fram hefur komið stofnuðu kærendur til vanskila á mánaðarlegum búsetugjöldum eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt. Var þó gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að búsetugjöld væru á meðal útgjalda kærenda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hafa kærendur því að mati kærunefndarinnar með þessu stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Fellst kærunefndin því á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara þess efnis að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt lagaákvæðinu.

Í hinni kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að kærendur hafi skuldajafnað fjármunum í formi búseturéttar til D. Greiðslur kærenda til D voru að hluta til vegna eldri skuldar, þ.e. sem til var stofnað áður en kærendur komust í greiðsluskjól. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er það skylda skuldara að láta ekki af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Kærunefndin bendir á að ráðstöfun á fjármunum með þessum hætti getur samkvæmt framangreindu varðað við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en ekki d-lið ákvæðisins.  

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum