Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2014

Mál nr. 10/2014

Föstudaginn 5. febrúar 2016

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 4. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 11. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 28. mars 2014. Með bréfi 1. apríl 2014 voru athugasemdir kærenda sendar umboðsmanni skuldara og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1977 og 1976. Þau eru í hjúskap og búa ásamt fjórum börnum sínum í eigin 230 fermetra einbýlishúsi að C.

Kærandi B er [.....] en kærandi A er í námi. Tekjur kærenda eru vegna launa, námslána, barnabóta, vaxtabóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 109.813.177 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 til 2008.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína aðallega til atvinnuleysis.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 8. desember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. júní 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 29. ágúst 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns er því lýst að í a-lið 1. mgr.12. gr. lge. komi fram að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi notið svonefnds greiðsluskjóls samkvæmt bráðabirgðaákvæði 11 í lge., sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 128/2010 um breytingu á lge., og hafi þau því ekki mátt greiða af skuldbindingum sínum frá því í desember 2010. Útgjöld þeirra hafi því nær eingöngu verið vegna rekstrar heimilis o.þ.h. Í ljós hafi komið að kærendur hafi ekkert lagt til hliðar í greiðsluskjólinu þrátt fyrir greiðslugetu. Kærendur hafi þó sýnt fram á að læknis- og lyfjakostnaður þeirra hefði verið 102.800 krónum hærri á tímabilinu en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir. Þá hafi kærendur greitt föður kæranda A 885.000 krónur án samþykkis umsjónarmanns. Kærendur hafi kveðið þessa fjárhæð vera vegna afnota af  bifreið. Telji umsjónarmaður að kærendur hefðu átt að upplýsa hann um að þessi fjárhæð hefði safnast saman en það hafi þau ekki gert. Að minnsta kosti hluta þessarar fjárhæðar hefði átt að ráðstafa til kröfuhafa, en samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé skuldara óheimilt að stofna til nýrra skuldbindinga eða gera aðrar ráðstafanir sem skaðað gætu hagsmuni lánardrottna, nema skuldbinding sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 20. nóvember 2013 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í svari kærenda hafi komið fram að fjárhagur þeirra hefði verið þröngur frá desember 2010 til apríl 2012. Meðal annars hafi kærandi B verið atvinnulaus fyrir utan sumarvinnu. Hafi þau því fengið lán hjá ættingjum og reynt að endurgreiða um leið og þau hafi haft tekjur til þess. Á síðari hluta tímabilsins hafi útgjöld aukist vegna fæðingar fjórða barnsins og veikinda í fjölskyldunni.

Með bréfi til kærenda 15. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir að mál þeirra verði tekið til endurskoðunar. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur gera athugasemdir við úrvinnslu málsins. Þau telja framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara ekki endurspegla raunverulegan kostnað. Ekki sé tekið tillit til afmæla barna, sem í tilviki kærenda séu fjögur, og ekki heldur til hátíðarhalda eða óvæntra kostnaðarliða. Kærendur telja að þau hafi sýnt fram á að lækniskostnaður þeirra hafi verið mun hærri heldur en umboðsmaður skuldara sé tilbúinn til að viðurkenna. Ef ekki sé notast við raunverulegar kostnaðartölur við útreikninga á greiðslugetu kærenda þá verði aldrei möguleiki fyrir þau að fá rétta leiðréttingu á lánum og þeim áhrifum sem efnahagshrunið hafi haft á þau.

Kærendur telja málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara of langan. Hafi þau verið í greiðsluaðlögunarumleitunum í rúmlega þrjú ár áður en umboðsmaður skuldara ákvað að fella þær niður. Að þessu leyti sé málsmeðferð umboðsmanns ekki í samræmi við lög.

Kærendur kveðast hafa átt bifreið áður en þau sóttu um greiðsluaðlögun. Bifreiðin hafi verið tekin af þeim um leið og þau fóru í greiðsluskjól vegna bílaláns. Hafi þau skilað bifreiðinni og látið þar við sitja. Síðar hafi farið fram endurútreikningur á bílaláninu og samkvæmt honum ættu kærendur inni rúmar 600.000 krónur. Hafi þau þó ekki fengið þessa fjárhæð greidda þar sem núverandi kröfuhafi, Landsbankinn, hafi ráðstafað peningunum inn á önnur lán kærenda við bankann. Þetta sé að mati kærenda óheimilt.

Þegar kærendur hafi misst bifreið sína hafi þau þurft að verða sér úti um aðra bifreið, enda með þrjú börn á þeim tíma. Hafi verið gert ráð fyrir því í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara að fjölskyldan ætti og ræki bifreið. Hafi þau því leitað til föður kæranda A sem hafi aðstoðað þau við að verða sér út um bíl. Hafi þau látið umsjónarmann sinn vita af þessu en hann kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir því að þau greiddu fyrir bílinn. Kærendur telja ljóst að þau myndu alltaf þurfa að leggja út fyrir bíl, enda myndi enginn gefa þeim bíl eða lána í nokkur ár án endurgjalds. Sú fjárhæð sem þau hafi greitt fyrir bifreiðina sé í samræmi við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara, en þar sé gert ráð fyrir 80.030 krónum á mánuði til rekstrar á bíl. Kærendur hafi greitt föður kæranda A 34.000 krónur á mánuði í þá 26 mánuði sem þau voru með bílinn.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 8. desember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 og 27. nóvember 2012 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 34 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. janúar 2011 til 31. október 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1.  janúar 2011 til 31. október 2013 að frádregnum sköttum 15.492.811
Barna- og vaxtabætur, sérstök vaxtaniðurgreiðsla, og ofgreidd opinber gjöld 3.059.498
Námslán frá LÍN 3.831.429
Samtals 22.383.738
Mánaðarlegar meðaltekjur 658.345
Framfærslukostnaður á mánuði 508.386
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 149.975
Samtals greiðslugeta í 34 mánuði 5.099.150

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 658.345 krónur í meðaltekjur á mánuði á 34 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið um 508.386 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað fyrir hjón/sambúðarfólk með þrjú börn fram að fæðingu fjórða barns kærenda en fjögur börn eftir það. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 5.099.150 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 149.975 krónur á mánuði í 34 mánuði.

Umsjónarmaður hafi tekið tillit til framlagðra reikninga vegna lækniskostnaðar að fjárhæð 102.800 krónur. Ekki sé tekið tillit til annars kostnaðar sem kærendur tiltaki, en jafnvel þó að það yrði gert stæðu eftir 3.496.643 krónur sem safnast hefðu átt á tímabilinu. Hafi kærendur hvorki lagt fram gögn né veitt upplýsingar vegna vöntunar á sparnaði.

Gera verði þá kröfu til þeirra, sem glími við svo verulega fjárhagsörðugleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi saman þau útgjöld sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta. Eigi það sérstaklega við á meðan kærendur séu með umsókn í vinnslu um samningsumleitanir vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun umframfjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja til hliðar það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi skylt að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé kærendum óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Í greiðsluskjóli sé skuldara ætlað að standa við gjöld og kostnað vegna framfærslu í hverjum mánuði, ef  greiðslugeta hans er jákvæð, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.

Þá vísar umboðsmaður því á bug að málið hafi tafist óhóflega í vinnslu hjá embættinu. Því til stuðnings bendir hann á að helsta töfin í málinu hafi verið vegna þess að bíða hefði þurft eftir niðurstöðu í máli kærenda um svokallaða 110% leið, en reynt hafi verið til hins ítrasta að haga greiðsluaðlögunarumleitunum þannig að kærendur kæmust hjá sölu fasteignar sinnar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Kærendur telja málsmeðferðartíma umboðsmanns skuldara hafa verið of langan og ekki í samræmi við lög. Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvæði er lýtur að málshraða. Í 1. mgr. hennar segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í tengslum við málshraðaregluna ber að hafa í huga rannsóknareglu 10. gr. Stjórnsýslulaga, en mál þarf einnig að rannsaka á viðhlítandi hátt þannig að það verði nægilega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5617/2009 en þar segir: „Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Í ákvæðinu felst sá áskilnaður að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um fastákveðinn afgreiðslutíma þar sem starfsemi, verkefni og aðbúnaður stjórnvalda er með ólíkum hætti. Það verður því að meta í hverju tilviki hvað teljist hæfilegur tími í þessu sambandi og þá með tilliti til umfangs máls. Í því sambandi verður sérstaklega að hafa í huga að sú skylda hvílir á stjórnvöldum að sjá til þess að málsatvik séu nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Það fer síðan eftir eðli og mikilvægi málsins, svo og réttarheimild þeirri sem er grundvöllur ákvörðunar, hve ítarleg rannsókn þarf að vera. Málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga setur hins vegar rannsókn máls ákveðin takmörk. Hefur rannsóknarregla 10. gr. því verið túlkuð þannig að stjórnvald þurfi að afla þeirra upplýsinga sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli. (Alþt. 1992−1993, A-deild, bls. 3294).“

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að stjórnvald beri ekki ábyrgð á þeim töfum sem verða á meðferð máls af völdum málsaðila. Að sögn umboðsmanns skuldara varð helsta töfin í málinu vegna umsóknar kærenda um svokallaða 110% leið, en umboðsmaður kveður allt hafa verið gert svo að hægt væri að haga greiðsluaðlögunarsamningi þannig að kærendur gætu komist hjá því að selja fasteign sína. Vísar embættið til ítarlegra tölvupóstsamskipta þessu til stuðnings sem þó liggja ekki fyrir í gögnum málsins. Kærendur hafa ekki mótmælt þessu en málatilbúnaður þeirra byggist á því að afgreiðslutími málsins í heild hafi verið of langur. Er það mat kærunefndarinnar, eins og sérstaklega hafi staðið á í málinu, að ekki hafi verið sýnt fram á að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi verið í ósamræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 29. ágúst 2013 að hann teldi að niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. ætti við í málinu. Fyrir lægju upplýsingar sem bentu til þess að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 15. janúar 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar alla þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur kveða framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara ekki endurspegla raunverulegan kostnað við framfærslu fjölskyldunnar. Hafi útgjöld þeirra vegna lækniskostnaðar á tímabili greiðsluaðlögunar einnig orðið hærri en umboðsmaður skuldara hafi fallist á. Þá telja kærendur að það liggi fyrir að þau hafi þurft að hafa afnot af bifreið. Sé greiðsla fyrir þá bifreið sem þau hafi fengið leigða í samræmi við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 5.099.150 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 8. desember 2010 til 31. október 2013. Kveður umboðsmaður að þótt litið væri til allra framlagðra reikninga kærenda og greiðslur að fjárhæð 885.000 krónur fyrir afnot þeirra af bifreið, þá standi enn eftir 3.496.643 krónur sem kærendum hafi borið að leggja til hliðar en ekki gert.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 0
Nettótekjur B 4.160.179
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 346.682
Nettótekjur alls 4.160.179
Mánaðartekjur alls að meðaltali 346.682
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 764.622
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 63.719
Nettótekjur B 4.591.345
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 382.612
Nettótekjur alls 5.355.967
Mánaðartekjur alls að meðaltali 446.331
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.374.449
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 114.537
Nettótekjur B 6.195.167
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 516.264
Nettótekjur alls 7.569.616
Mánaðartekjur alls að meðaltali 630.801
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.085.762
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 474.605

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda, bótagreiðslur og endurgreidd ofgreidd opinber gjöld var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júní 2011 til 31. desember 2013: 36 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.085.762
Bótagreiðslur 2.098.406
Endurgreidd ofgreidd gjöld 361.195
Námslán 2.726.373
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 22.271.736
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 618.659
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns* 508.386
Greiðslugeta kærenda á mánuði 110.273
Alls sparnaður í 36 mánuði í greiðsluskjóli x 110.273 3.969.840

*Miðað við hjón með fjögur börn. Af fjárhæðinni er gert ráð fyrir að 80.030 krónur fari til

rekstrar á bifreið.

Við mat á því hvaða fjárhæð kærendum bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur, en í lge. er ekki heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk Embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega. Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærendur benda á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga varðandi þær aðstæður sem 12. gr. lge. tekur til að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við þá sem eiga kröfur á hendur honum. Eins og áður hefur verið vikið að er um að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara.

Kærendur hafa lagt fram gögn úr rafrænu heimilisbókhaldi sínu fyrir tímabilið 2. apríl 2012 til 19. júlí 2013 þar sem fram kemur að kostnaður þeirra við lækna- og tannlæknaþjónustu hefur numið 428.827 krónum og kostnaður við lyf 288.680 krónum. Alls eru þetta 717.507 krónur. Frekari gögn um læknis- og lyfjakostnað hafa ekki verið lögð fram. Voru kærendur í greiðsluaðlögunarferli hjá umboðsmanni skuldara í 36 mánuði, en samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara er reiknað með 20.767 krónum á mánuði í læknis- og lyfjakostnað. Alls eru þetta 747.612 krónur á tímabili greiðsluaðlögunar. Samkvæmt þessu hafa kærendur ekki sýnt fram á að læknis- eða lyfjakostnaður þeirra á tímabili greiðsluskjóls hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara gerir ráð fyrir.

Þá hafa kærendur greint frá því að þau hafi greitt föður kæranda A 34.000 krónur á mánuði í 26 mánuði fyrir afnot af bifreið. Í þeim framfærslukostnaði sem kærunefndin miðar við, sbr. ofangreinda töflu, er gert ráð fyrir 80.030 krónum á mánuði til að reka bifreið. Er nefndur kostnaður kærenda innan þessara marka og því ekki unnt að líta á hann sem viðbótarkostnað við framfærsluviðmið.

Að öllu framangreindu virtu er það mat kærunefndarinnar að kærendur hefðu átt að geta lagt fyrir 3.969.840 krónur á því tímabili sem miðað er við samkvæmt ofangreindu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Bar umboðsmanni skuldara því að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum