Hoppa yfir valmynd
20. janúar 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2014

Mál nr. 13/2014

Miðvikudaginn 20. janúar 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. febrúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi  31. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 24. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. mars 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærendur eru hjón sem eru fædd 1956 og 1949. Þau búa í 166,4 fermetra eigin húsnæði að C.

Kærandi B starfar sem [...]. Kærandi A er án atvinnu og hefur skerta starfsgetu sökum gigtar. Tekjur kærenda eru vegna launa, atvinnuleysisbóta, örorkulífeyris, bifreiðarstyrks, vaxtabóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 51.024.622 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2007.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til atvinnumissis, tekjulækkunar, hækkunar á sköttum og hækkunar á framfærslukostnaði.

Með umsókn 4. nóvember 2010 óskuðu kærendur eftir heimild til greiðsluaðlögunar. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 30. maí 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 17. desember 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að hann teldi að kærendur hefðu getað lagt fyrir alls 4.481.918 krónur á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 15. janúar 2014 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör bárust ekki frá kærendum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja að hvorki tekjur þeirra né sá framfærslukostnaður sem umboðsmaður skuldara miði við sé í samræmi við raunveruleikann. Ástæða þessa séu mikil óvænt útgjöld og breyttar aðstæður.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Miðað sé við að greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 36 mánuði frá 1. janúar 2011 til 31. desember 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. janúar 2011 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 16.266.367
Vaxta- og barnabætur 2.221.212
Samtals 18.487.579
Mánaðarlegar meðaltekjur 513.544
Framfærslukostnaður á mánuði 339.441
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 174.103
Samtals greiðslugeta í 36 mánuði 6.267.708

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 513.544 krónur í meðaltekjur á mánuði á því 36 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir umsækjendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum, meðan á frestun greiðslna standi, sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 339.441 króna á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag, en það sé framfærslukostnaður desembermánaðar 2013 fyrir hjón. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir 6.267.708 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 174.103 krónur á mánuði í 36 mánuði.

Kærendur hafi engar skýringar gefið á því hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar fé í samræmi við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara með bréfi 17. desember 2012 að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður þar sem hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafði staðið yfir. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 31. janúar 2014.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið skylt að leggja til hliðar á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls. Kærendur telja að mat umboðsmanns skuldara á tekjum þeirra og framfærslukostnaði sé ekki í samræmi við raunveruleikann. Hafi aðstæður þeirra breyst og þau orðið fyrir óvæntum útgjöldum.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara í nóvember 2010. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hefðu kærendur átt að leggja til hliðar 6.267.708 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur B 255.372
Nettótekjur A 209.889
Nettótekjur alls 465.261


Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur B 3.092.214
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 257.685
Nettótekjur A 2.275.179
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 189.598
Nettótekjur alls 5.367.393
Mánaðartekjur alls að meðaltali 447.283
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur B 3.559.618
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 296.635
Nettótekjur A 2.352.688
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 196.057
Nettótekjur alls 5.912.306
Mánaðartekjur alls að meðaltali 492.692
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur B 3.256.170
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 271.348
Nettótekjur A 1.978.327
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 164.861
Nettótekjur alls 5.234.497
Mánaðartekjur alls að meðaltali 436.208


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 16.979.457
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 458.904

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, upplýsingar um tekjur kærenda úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2013: 37 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 16.979.457
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2.079.924
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 19.059.381
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 515.118
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 339.441
Greiðslugeta kærenda á mánuði 175.677
Alls sparnaður í 37 mánuði í greiðsluskjóli x 175.677 6.500.064

Kærendur hafa enga fjármuni lagt til hliðar í greiðsluskjóli. Hafa þau hvorki gefið skýringar á þessu né lagt fram gögn til staðfestingar á óvæntum kostnaði.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum, meðan á frestun greiðslna stendur, er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Kærendur hefðu samkvæmt þessu átt að geta lagt fyrir 6.500.064 krónur á tímabili greiðsluskjóls í samræmi við skýr fyrirmæli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum