Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2014

Fimmtudagur 26. nóvember 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 30. janúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. janúar 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 7. febrúar 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. mars 2014.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 31. mars 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir frá kæranda bárust með bréfi 10. apríl 2014. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara 14. apríl 2014 og óskað eftir afstöðu embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1951 og býr með eiginkonu sinni í eigin íbúð að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C, sem er 105 fermetrar að stærð. Kærandi starfar í álveri.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 33.440.597 krónur. Til helstu skulda var stofnað við íbúðarkaup árið 2008.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til þess að hann og eiginkona hans hafi keypt íbúð áður en þau hafi verið búin að selja einbýlishús sitt. Húsið hafi verið lengi að seljast og hafi lán vegna kaupa á íbúðinni hækkað mikið á þeim tíma.

Kærandi og eiginkona hans sóttu í sameiningu um greiðsluaðlögun 8. júní 2011. Eiginkona kæranda afturkallaði umsókn sína 16. febrúar 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. ágúst 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 5. mars 2013 mælti umsjónarmaður með því að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. þar sem kærandi hefði brotið gegn 12., 13. og 16. gr. lge.

Í bréfinu er vísað til þess að umsjónarmaður hafi gert frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings í janúar 2013 þar sem gert hefði verið ráð fyrir sölu á fasteign kæranda, en hann hafi hvorki búið í eigninni né haft af henni leigutekjur. Umsjónarmaður hafi falið fasteignasala að annast sölu eignarinnar, en að sögn fasteignasalans hefði komið í ljós að kærandi hefði ekki verið tilbúinn til að selja eignina. Kærandi hafi sent umsjónarmanni tölvupósta 14. og 20. febrúar 2013 og kvað aðstæður hafa breyst en laun hans hefðu lækkað og eiginkona hans misst vinnuna. Hann gæti ekki fallist á minna en 100% eftirgjöf krafna og teldi ekki rétt að setja fasteignina á sölu fyrr en umsjónarmaður hefði undirritað frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður hafi svarað kæranda með tölvupósti 21. febrúar 2013 og bent á að tekjur kæranda væru töluvert hærri, en miðað hefði verið við í frumvarpi og greiðslugeta hans því meiri. Kærandi hefði einnig verið upplýstur um að kröfuhafar myndu ekki samþykkja að hann héldi fasteign sem hann hvorki byggi í né leigði út. Þá væri ekki unnt að verða við framangreindum skilyrðum kæranda. Kæranda hafi verið veittur einnar viku frestur til þess að upplýsa um hverjar tekjur hans væru og hvort hann hygðist selja fasteignina. Engin svör hafi borist frá honum. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skuli semja frumvarp í samráði við skuldara, en það hafi reynst erfitt vegna tregðu kæranda til samskipta og telji umsjónarmaður samstarf við hann fullreynt.

Umsjónarmaður telji að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en kærandi hafi ekkert lagt fyrir á tímabili greiðsluskjóls, þrátt fyrir greiðslugetu á bilinu 90.000 til 120.000 krónur á mánuði. Á þeim tíma sem kærandi hafi kveðið eiginkonu sína atvinnulausa hafi hún haft meðaltekjur að fjárhæð 525.886 krónur á mánuði samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra.

Þá hafi kærandi ekki haft leigutekjur af fasteign sinni að B götu heldur lánað eignina endurgjaldslaust. Hefði kærandi leigt eignina út hefðu leigutekjur gagnast kröfuhöfum sem greiðsla og telji umsjónarmaður því að kærandi hefði með því skaðað hagsmuni lánardrottna og brotið gegn ákvæðum c- og/eða d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Loks hafi kærandi látið hjá líða að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns um sölu á fasteign sinni en það brjóti gegn ákvæðum 5. mgr. 13. gr. lge. Umsjónarmaður hafi frá upphafi mælt með sölu eignarinnar, enda ekki séð að grundvöllur væri fyrir því að kærandi héldi eftir yfirveðsettri fasteign sem hann hefði engar tekjur af, byggi ekki í og hygðist ekki búa í.

Með vísan til alls þessa telji umsjónarmaður að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 19. september 2013 var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi hafi svarað með tölvupósti 27. september 2013 þar sem hann greindi frá því að hann hefði í sjálfu sér ekkert við það að athuga  að fasteign hans yrði sett í sölumeðferð. Hann vildi þó hafa fullt forræði á því hvort tilboð sem kynnu að berast væru ásættanleg. Að því er sparnað varðaði hefði kærandi ekki haft tök á því að leggja fyrir auk þess sem framfærsluviðmið væru of lág. Þá óskaði kærandi eftir því að greiðsluaðlögunarumleitanir hans héldu áfram.

Með bréfi til kæranda 10. janúar 2014 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi mótmælir ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar og krefst þess að slík heimild verði veitt.

Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun sé meðal annars byggð á því að hann hafi ekki veitt heimild til sölu á fasteigninni að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C. Kærandi kveðst aldrei hafa hafnað því að selja eignina. Kærandi búi nú í eigninni og geri ráð fyrir að svo verði í einhvern tíma.

Vegna fullyrðinga um að kærandi hefði átt að leggja fyrir fé á tímabili greiðsluskjóls, en hafi ekki gert það, vilji kærandi taka fram að hann hafi aðstoðað uppkomin börn sín og til að mynda greitt kostnað við nám þeirra. Þá hafi aðstæður á heimilinu verið mjög erfiðar meðal annars sökum veikinda og atvinnumissis. Kærandi hafi því ekki haft tök á að leggja fyrir á ofangreindu tímabili.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það umboðsmanni skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 21 mánuð en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 31. mars 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 31. mars 2013 að frádregnum skatti 7.952.250
Vaxtabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 293.759
Samtals 8.246.009
Mánaðarlegar meðaltekjur 392.667
Framfærslukostnaður á mánuði 229.448
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 163.219
Samtals greiðslugeta í 21 mánuð 3.427.599

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kæranda með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að honum sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi mest verið 229.448 krónur á mánuði á meðan hann hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið á ofangreindu tímabili kæranda í hag og reiknaður framfærslukostnaður septembermánaðar 2013 fyrir annað hjóna. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hefði getað lagt fyrir 3.427.599 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 163.219 krónur á mánuði í 21 mánuð. Kærandi hafi ekkert lagt fyrir á tímabilinu.

Í ljósi þessa verði að líta svo á að kærandi hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Að því er varði c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram í máli umsjónarmanns að kærandi hefði ekki leigt út fasteign sína að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C heldur lánað eignina án endurgjalds. Það sé mat umboðsmanns skuldara að á meðan skuldari njóti greiðsluskjóls samkvæmt 11. gr. lge. hvíli sú skylda á honum að innheimta eðlilegar leigugreiðslur fyrir afnot af fasteign í sinni eigu. Verði að telja að með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta venjulega húsaleigu hafi kærandi orðið af fjármunum sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. laganna að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska eftir því við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Þá sé í 1. mgr. 16. gr. lge. kveðið á um að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun skuli samið í samráði við skuldara.

Að mati umsjónarmanns þurfi að selja fasteign kæranda að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C. Kærandi noti eignina ekki sjálfur og hafi ekki af henni leigutekjur. Umsjónarmaður telji ekki raunhæft að semja frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun á meðan eignin sé enn óseld. Umboðsmaður taki undir það sjónarmið umsjónarmanns að kærandi hafi ekki orðið við ítrekuðum beiðnum um að gera grein fyrir afstöðu sinni til sölu á eigninni. Í andmælum kæranda komi fram að hann geti fallist á sölu eignarinnar með því skilyrði að hann ráði því hvort tilboð sem berast kunni í eignina verði samþykkt. Í 2. mgr. 13. gr. lge. komi fram að umsjónarmaður skuli ákveða hvernig sala eigna fari fram og annast hana sjálfur nema hann feli það öðrum. Samkvæmt þessu líti umboðsmaður svo á að með því að setja þetta skilyrði sé kærandi að koma í veg fyrir sölu eignarinnar í skilningi 5. mgr. 13. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c- liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að honum verði veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Ef umboðsmaður skuldara fellir niður greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur aðeins komið til þess að kærunefndin staðfesti eða felli ákvörðun umboðsmanns úr gildi. Felli kærunefndin hina kærðu ákvörðun úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram án þess að kærunefndin veiti slíka heimild. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála veiti kæranda áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunar eins og kærandi krefst. Skilja verður kröfugerð kæranda með tilliti til þessa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum, skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunar-umleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 5. mars 2013 að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a- og c- og/eða d-liði 1. mgr. 12. gr. og 5. mgr. 13. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunar-umleitanir kæranda niður 10. janúar 2014.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hans var móttekin hjá umboðsmanni skuldara 8. júní 2011. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi upplýstur um skyldur sínar samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. um leið og umsókn hans um greiðsluaðlögun var móttekin.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist meðal annars á því að kærandi hafi látið hjá líða að leggja fyrir fé í greiðsluskjóli og þar með brotið gegn skyldum sínum á þeim tíma. Kærandi kveðst á hinn bóginn ekki hafa haft peninga aflögu til að leggja fyrir þar sem framfærslukostnaður hafi verið hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara geri ráð fyrir.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kæranda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur alls 2.156.807
Nettó mánaðartekjur að meðaltali 359.468
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 4.620.714
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 385.060


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur alls 4.867.377
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali 405.615


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.644.898
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 388.163

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur, var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2013: 30 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 11.644.898
Bótagreiðslur 218.759
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 11.863.657
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 395.455
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 229.448
Greiðslugeta kæranda á mánuði 166.007
Alls sparnaður í 30 mánuði í greiðsluskjóli x 166.007 4.980.217

*Helmingur af framfærslukostnaði hjóna.

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærandi kveður framfærslukostnað sinn hafa verið hærri en gert sé ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Hann hefur þó hvorki sýnt fram á það né lagt fram gögn um aukin útgjöld sem taka þurfi tillit til við útreikninga á framfærslu í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Ekki er því unnt að taka tillit til þess við útreikning á sparnaði kæranda. Samkvæmt ofangreindu hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 4.980.217 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hann hefur ekkert lagt fyrir. Kærandi hefur því samkvæmt mati kærunefndarinnar brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. liggur fyrir í málinu að kærandi átti fasteignina að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C á árunum 2011 og 2012. Bæði árin var kærandi skráður til heimilis að D götu nr. 23 í sveitarfélaginu C. Samkvæmt skattframtölum kæranda hafði hann hvorki leigutekjur af fasteigninni að B götu nr. 3 á árinu 2011 né 2012. Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem greiðsluaðlögun hefur að jafnaði í för með sér eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Á þessum grunni byggist c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. Kærunefndin fellst því á það mat umboðsmanns skuldara að á meðan skuldari njóti greiðsluskjóls, samkvæmt 11. gr. lge., hvíli sú skylda á honum að innheimta eðlilegt gjald fyrir afnot þriðja aðila af eignum sínum. Með því að láta undir höfuð leggjast að innheimta leigu fyrir afnot þriðja aðila af áðurgreindri fasteign sinni hefur kærandi orðið af fjármunum sem hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Í samræmi við það telur kærunefndin að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Varðandi sölu á fasteign kæranda að B götu nr. 3 í sveitarfélaginu C verður að líta til þess að í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið þeirra aðgerða, sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks, hafi verið að forða því frá að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði til frambúðar.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Við meðferð málsins hjá kærunefndinni upplýsti kærandi að hann byggi nú í fasteigninni að B götu nr. 3. Þetta staðfestir skráning í Þjóðskrá. Þær forsendur sem ákvörðun umboðsmanns skuldara byggðist á, varðandi ákvörðun um sölu fasteignarinnar, hafa því breyst frá því að ákvörðunin var tekin. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skuli skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla megi að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Þarf því að fara fram mat á því hvort rétt sé að selja fasteign kæranda á grundvelli 1. mgr. 13. gr. lge. Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um verðmæti eignarinnar, hæfilegt leiguverð eða greiðslugetu kæranda varðandi ákvörðun um sölu á fasteigninni kemur ekki til álita að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði staðfest með vísan 5. mgr. 13. gr. lge.

Í ljósi þess sem að framan greinir verður að líta svo á að kærandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður. Hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum