Hoppa yfir valmynd
22. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 100/2013

Fimmtudaginn 22. október 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 3. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. júlí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. júlí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 9. ágúst 2013. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 12. ágúst 2013 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1975. Hún er einstæð móðir og býr ásamt tveimur ungum börnum sínum í eigin 175,5 fermetra íbúð með bílskúr að B götu nr. 20 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er menntaður sjúkraliði og starfar á X. Auk launa fær kærandi barnabætur, barnalífeyri, meðlag og vaxtabætur.

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunar-samnings, eru 32.259.621 króna. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árinu 2007.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til íbúðar- og bifreiðakaupa árið 2007.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. október 2012 kom fram að kærandi hefði haldið skuldum sínum í skilum þrátt fyrir gríðarlega hækkun afborgana. Hafi hún varið öllum sparnaði sínum til að greiða af lánum og lifað mjög spart árum saman. Eignir kæranda séu fasteign og bifreið. Fasteignamat eignarinnar sé talið endurspegla raunvirði hennar en það sé 30.300.000 krónur. Bifreið kæranda sé af gerðinni Y árgerð 2006 og sé verðmæti hennar talið 4.000.000 króna. Gert hafi verið ráð fyrir að bifreiðinni yrði skilað, enda gæti hún ekki talist hófleg fyrir kæranda. Aðeins tveir kröfuhafar hafi lýst kröfum sínum á hendur kæranda; Arion banki og Íslandsbanki fjármögnun. Frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun hafi verið samið og samkvæmt því hafi samkomulag náðst við Arion banka um að kærandi greiddi mánaðarlega 70.000 krónur til bankans á tíma greiðsluaðlögunarsamnings og fengi samningskröfur niðurfelldar að þeim tíma loknum. Íslandsbanki fjármögnun hafi ekki tekið afstöðu til frumvarpsins þar sem kærandi hafi ekki skilað bifreiðinni. Hafi umsjónarmaður þá farið fram á að bifreiðinni yrði skilað en kærandi hafi ekki gert það, þrátt fyrir ítrekuð loforð þar um. Sjái umsjónarmaður sér því ekki annað fært en að leggja til að kæranda verði vísað úr greiðsluaðlögun með vísan til 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem skort hefði á samstarfsvilja hennar.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 15. október 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar. Í svari kæranda hafi komið fram að hún teldi ekki rétt að skila bifreiðinni vegna inneignar hennar hjá Íslandsbanka fjármögnun en endurútreikningur bílaláns hefði ekki farið fram.

Með bréfi til kæranda 14. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að hún hafi tekið erlent lán og átt 10.000.000 króna við kaup á fasteign. Greiðslubyrði lánsins hafi aukist mikið en miðað við dóma hafi hún ofgreitt af láninu. Embætti umboðsmanns skuldara vilji að hún haldi áfram að greiða af ólögmætu erlendu láni, en kærandi telji sig hafa ofgreitt um 3.000.000 króna vegna lánsins. Þá eigi kærandi inneign að fjárhæð 800.000 krónur vegna ofgreidds bílaláns sem hún fái ekki greidda þar sem hún hafi leitað aðstoðar. Hún kveðst mundu skila bílnum ef hún fái ofgreiðslu endurgreidda.

Kærandi kveðst hafa haldið skuldum sínum í skilum með því að taka að sér mikla aukavinnu.

Kærandi er ósátt við þá meðferð sem mál hennar hafi fengið hjá umboðsmanni skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi kærandi ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í sérstökum athugasemdum við 13. gr. frumvarps til lge. segi að við mat á því hvort mælt skuli með sölu eigna skuldara samkvæmt 1. mgr. 13. gr. sé gert ráð fyrir að skuldari eigi rétt á að halda eftir lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eiginir séu undanþegnar fjárnámi samkvæmt lögum um aðför nr. 90/1989. Sé sala lausafjármuna ákveðin skuli almennt miðað við að um svo verðmæta muni sé að ræða að sala þeirra sé lánardrottnum verulega til hagsbóta. Þá skuli ávallt miðað við að skuldari geti bersýnilega verið án munanna, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna.

Samkvæmt upplýsingum úr ökutækjaskrá 11. júní 2013 sé kærandi skráð umráðamaður bifreiðarinnar Z sem sé af tegundinni Y árgerð 2006. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka fjármögnun frá 11. júní 2013 sé bílasamningur vegna bifreiðarinnar enn í gildi. Mánaðarleg meðalgreiðslubyrði vegna samningsins sé 60.500 krónur og eftirstöðvar 4.943.898 krónur. Vanskil séu 76.617 krónur.

Kærandi hafi ekki skilað bifreiðinni þrátt fyrir tilmæli umsjónarmanns þar um. Hún virtist þó hafa lýst yfir vilja sínum til að skila bifreiðinni verði bílalán hennar endurútreiknað. Með tilliti til málavaxta sé það mat umboðsmanns að skuldara sé almennt ekki heimilt að gera fyrirvara um að útreikningur eftirstöðva lána fari fram með tilteknum hætti á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Embætti umboðsmanns sé ekki mögulegt að gefa nákvæmar upplýsingar um uppgjör bílalána áður en bifreiðum sé ráðstafað til kröfuhafa.

Fyrir liggi að kærandi hafi ítrekað brotið gegn skýrum fyrirmælum umsjónarmanns um að skila bifreiðinni. Kærandi sé einhleyp með tvö börn. Jafnvel þótt kærandi þurfi á bifreið að halda vegna fjölskylduaðstæðna og atvinnu verði ekki litið svo á að kærandi geti ekki útvegað sér hóflegri bifreið.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé. Við mat á slíku skal umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geta verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skuli þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Einnig skuli umsjónarmaður meta hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma, með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Til skoðunar komi fyrst og fremst fasteignir, einkum íbúðarhúsnæði og verðmætir lausafjármunir eins og bifreiðar. Um lausafjármuni skuli gengið út frá því að skuldari eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verði undanþegnar við fjárnám samkvæmt 43. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Komi til kröfu um sölu lausafjármuna skuli almennt miðað við að um verðmæta muni sé að ræða, að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta og að skuldari geti bersýnilega verið án þeirra, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Nærtækasta dæmið sé bifreiðir en sé um það að ræða að skuldari hafi sjálfur, eða ásamt fjölskyldumeðlimum, tvær bifreiðir til ráðstöfunar, geti umsjónarmaður eftir atvikum kveðið á um sölu annarrar bifreiðarinnar.

Í málinu liggur fyrir að kærandi er umráðamaður bifreiðar samkvæmt kaupleigusamningi við Íslandsbanka fjármögnun. Er kærandi leigutaki bifreiðarinnar en Íslandsbanki fjármögnun er eigandi. Umsjónarmaður hefur farið fram á að kærandi skili bílnum til eiganda. Kærandi hefur ekki fallist á að skila bifreiðinni nema bankinn endurgreiði henni hugsanlega ofgreidda leigu sem hún telur að nemi 800.000 krónum. Kærandi er í vanskilum með einn gjalddaga kaupleigu en eftirstöðvar samningsins eru 4.943.898 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kaupleigusamningsins eru 60.500 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings hefur kærandi 80.390 krónur á mánuði til ráðstöfunar þegar framfærslukostnaður hefur verið greiddur. Af þeirri fjárhæð þarf hún að greiða 70.000 krónur til Arion banka vegna veðkrafna innan matsverðs fasteignar samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Eftir standa því 10.390 krónur og því augljóst að kærandi hefur ekki bolmagn til að greiða af fyrrgreindum kaupleigusamningi vegna bifreiðar jafnvel þó að hún fái fjárhæð samningsins lækkaða vegna meintrar ofgreiðslu.

Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunar-umleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari segja upp leigusamningum og öðrum samningum um útgjöld í framtíðinni sem ekki tengjast vöru, þjónustu eða eðlilegu heimilishaldi sem er nauðsynleg skuldaranum eða heimili hans til lífsviðurværis. Hér skal einkum litið til útgjalda sem nema umtalsverðum fjárhæðum og óumdeilt má vera að sanngjarnt sé að skuldari geti verið án. Á þessum grundvelli hefði kærandi þegar við upphaf greiðsluskjóls átt að segja upp kaupleigusamningi um nefnda bifreið en það gerði hún ekki. Bar umsjónarmanni því að fara þess á leit við kæranda að hún skilaði bílnum til leigusala. Kærandi féllst á þetta með því skilyrði að við afhendingu bifreiðarinnar fengi hún meinta ofgreiðslu á bílasamningi endurgreidda.

Hlutverk greiðsluaðlögunar er samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Úrvinnsla greiðsluaðlögunarmáls fer eðli málsins samkvæmt fram miðað við stöðu skuldara á þeim tíma er hann sækir um greiðsluaðlögun. Eftir að sótt er um greiðsluaðlögun fer um málið samkvæmt ákvæðum lge. og er ætlast til að skuldari taki þátt í málsmeðferð og sýni samstarfsvilja til að unnt verði að endurskipuleggja fjármál hans. Greiðsluaðlögunarferlið er á hinn bóginn ekki ætlað til þess að fresta málum skuldara á meðan beðið er eftir niðurstöðu varðandi einstaka skuldir hans sem óvissa kanna að ríkja um. Þá er ekki að finna í lge. heimild fyrir skuldara til að setja skilyrði við úrlausn málsins, enda ekki mögulegt að gera greiðsluaðlögunarsamning við þær aðstæður.

Að ofangreindu virtu telur kærunefndin að rétt hafi verið af umsjónarmanni að fara fram á að kærandi skilaði bifreiðinni. Kærandi lét þó hjá líða að framfylgja ákvörðun umsjónarmanns þar um og braut með því gegn ákvæði 1. mgr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður heimild A til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum