Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 157/2013

Fimmtudaginn 15. október 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 8. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Kærendur sendu bréf til kærunefndarinnar 15. nóvember 2013. Með bréfi 26. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. desember 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1975 og 1978. Þau eru í sambúð og búa ásamt syni sínum í eigin 71,8 fermetra íbúð að C götu nr. 10 í sveitarfélaginu D. Kærandi A starfar hjá X en kærandi B er óvinnufær vegna veikinda. Ráðstöfunartekjur kærenda vegna launa, greiðslna frá lífeyrissjóðum og bóta nema 413.510 krónum á mánuði.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 55.788.219 krónur.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til veikinda, tekjulækkunar og hækkunar á skuldum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. október 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 11. apríl 2013 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) þar sem komið hefðu fram upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Umsjónarmaður greindi frá því að við vinnslu málsins hafi komið í ljós að kærandi B hefði aðeins fengið lífeyrissjóðsgreiðslur að fjárhæð 30.397 krónur á mánuði að meðaltali frá apríl 2011 og fram til júní 2012. Frá þeim tíma hefði hún verið tekjulaus þrátt fyrir að eiga rétt til endurhæfingarlífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. beri skuldara skylda til að afla þeirra tekna sem hann kunni að eiga rétt á. Þá geti það komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í símtali 29. janúar 2013 hafi umsjónarmaður leitað skýringa hjá kæranda B. Hafi hún upplýst að sá læknir sem hefði átt að sækja um endurhæfingarlífeyri fyrir hana hefði skyndilega hætt störfum. Hún væri nú komin til annars læknis sem ætlaði að sækja um lífeyrinn fyrir hana. Umsjónarmaður hafi veitt kæranda B tveggja vikna frest, þ.e. til 12. febrúar 2013, til að skila læknisvottorði um sjúkrasögu og staðfestingu á því að unnið væri að örorkumati og umsókn um tímabundinn endurhæfingarlífeyri. Umsjónarmaður hafi sent kæranda B tölvupóst til áminningar 6. febrúar 2013. Þar hafi enn fremur verið brýnt fyrir henni að bærust umsjónarmanni ekki umbeðin gögn innan frestsins væri honum skylt að senda umboðsmanni skuldara tilkynningu samkvæmt 15. gr. lge. Kærandi B hafi ekki afhent umbeðin gögn innan frestsins og því hafi umsjónarmaður reynt að hafa samband við hana símleiðis, án árangurs. Daginn eftir, 13. febrúar 2013, hafi kærandi B hringt í umsjónarmann og gefið þær skýringar að tafir væru á málinu hjá lækni hennar. Hafi umsjónarmaður þá veitt tveggja vikna viðbótarfrest eða til 27. febrúar 2013. Þann dag hafi gögnin ekki enn verið komin og hafi kæranda B því verið sendur tölvupóstur þar sem minnt hafi verið á að frestinum lyki sama dag. Kærandi B hafi aftur hringt til umsjónarmanns 8. mars 2013 og kvað enn tafir á máli sínu þar sem hún hefði enn ekki komist að hjá nýjum lækni. Sama dag hafi umsjónarmaður sent henni tölvupóst þar sem frestur til að skila gögnunum hafi verið framlengdur um 7 daga eða til 15. mars. Gögnin hafi ekki borist og kærandi hafi ekki óskað eftir frekari fresti.

Kæranda B hafi síðan verið sendur tölvupóstur 18. mars 2013 þar sem fram hafi komið að umsjónarmanni væri ekki annað fært en að senda tilkynningu til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. og mæla fyrir um niðurfellingu málsins þar sem gögn hefðu ekki borist, þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir og fresti. Daginn eftir hefði kærandi B sett sig í samband við umsjónarmann og greint frá því að þennan sama morgun hefði hún komist að því að læknir hennar hefði ekki sent umbeðin gögn til umboðsmanns skuldara. Kærandi B hafi lofað að gögnin myndu berast síðar sama dag. Umsjónarmaður hafi þá fengið tölvupóst frá skrifstofustjóra gigtarlækninga við Landspítalann þar sem staðfest hafi verið að „á næstu dögum myndu læknar sækja um endurhæfingarlífeyri fyrir hana.“ Umsjónarmaður hafi tilkynnt kæranda B símleiðis að staðfesting þessi teldist ekki fullnægjandi, enda ekki um að ræða gögn. Hafi kærandi B þá greint frá því að læknir hennar hefði farið í páskafrí daginn áður en hefði skilið eftir læknisvottorð sem væri hægt að koma til umsjónarmanns daginn eftir, 22. mars 2013. Kærandi B ætti síðan bókaðan tíma hjá lækninum fyrsta virka dag eftir páska, 2. apríl 2013, en þá myndi hún fá öll nauðsynleg gögn og koma þeim strax til umsjónarmanns. Eftir þetta hafi kæranda B enn verið sendur tölvupóstur þar sem henni hafi verið veittur frestur til 22. mars 2013 til að framvísa læknisvottorði og ef vottorðið bærist yrði henni veittur frestur til 3. apríl til að framvísa nauðsynlegum gögnum. Í tölvupóstinum hafi verið lögð áhersla á að leggja þyrfti fram staðfestingu frá lækni um að örorkumat væri í vinnslu og að líkur væri á að örorkubóta væri að vænta í nánustu framtíð. Einnig að umsókn um endurhæfingarlífeyri hefði þegar verið lögð inn og að vænta mætti endurhæfingarlífeyris á meðan örorkumat færi fram. Kærandi B hafi lagt fram læknisvottorð 22. mars 2013 en um hafi verið að ræða vottorð frá heimilislækni um almennt heilsuleysi hennar. Þau gögn sem farið hefði verið fram á hefðu ekki verið lögð fram fyrir lok dags 3. apríl 2013.

Umsjónarmaður hafi enn á ný haft símasamband við kæranda B 5. apríl 2013 til að kanna stöðu á umsókn um endurhæfingarlífeyri. Hafi hún þá sagst eiga tíma hjá lækni 8. apríl 2013. Umsjónarmaður hafi þá sent henni tölvupóst þar sem henni hafi verið veittur lokafrestur til og með 8. apríl 2013 til að leggja fram margumbeðin gögn ella myndi málið endursent umboðsmanni skuldara á grundvelli 15. gr. lge. Þann dag höfðu gögnin ekki borist umsjónarmanni og var kæranda B því sendur tölvupóstur þar sem hún hafi verið minnt á að fresturinn rynni út í lok dags. Daginn eftir, 9. apríl 2013, hafi kærandi B hringt til umsjónarmanns og greint frá því að hún hefði vitjað læknis á tilgreindum tíma. Læknirinn hefði lagt fyrir hana að fara í blóðprufu þennan sama dag til að meta ástand hennar frekar. Hann myndi gefa út vottorð miðað við niðurstöður blóðprufunnar og sækja um endurhæfingarlífeyri. Hafi kæranda B þá verið veittur lokafrestur til og með 10. apríl 2013 en bærust nefnd gögn ekki yrði málið endursent umboðsmanni skuldara.

Gögnin hafi ekki borist og kærandi B hafi ekki haft samband við umsjónarmann eftir þetta. Hún sé enn tekjulaus.

Af framangreindum ástæðum hafi umsjónarmanni ekki verið unnt að vinna að gerð frumvarps í samráði við skuldara eins og 1. mgr. 16. gr. lge. kveði á um. Umsjónarmaður hafi talið að fram væru komnar upplýsingar sem bentu til þess að kærendur hefðu brotið skyldur sínar samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum ábyrgðarbréf 20. júní 2013 þar sem þeim var boðið að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn innan tilskilins frests, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella ætti niður heimild til greiðsluaðlögunar. Engin svör hafi borist.

Með bréfi til kærenda 20. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð. Verður að skilja það svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi B greinir frá því að hún hafi fengið fimm sinnum heilahimnubólgu á þriggja ára tímabili. Hafi það orðið til þess að hún hafi þurft að hætta í góðu starfi en það hafi haft mikil áhrif á fjárhag kærenda. Kærandi B kveðst nú hafa orðið að leita til þriðja læknisins til að fá örorkumat svo að hún gæti fengið tekjur eftir veikindin. Hafi samskipti við þriðja lækninn tekið nokkrun tíma vegna kvíðaröskunar sem hún hafi fengið í kjölfar veikindanna. Sé kærandi nú komin með þau gögn sem vantað hafi og geti framvísað þeim. Geri hún ráð fyrir að fá tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins í desember 2013.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Auk þess segi í 1. mgr. 16. gr. lge. að frumvarp til greiðsluaðlögunar skuli samið í samráði við skuldara.

Miðað við upplýsingar frá ríkisskattstjóra hafi kærendur ekki skilað skattframtali 2013 vegna ársins 2012 þrátt fyrir ábendingar þar um. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. lge. skuli sá sem sæki um greiðsluaðlögun leggja fram fjögur síðustu skattframtöl með umsókn. Af ákvæðinu leiði að fyrirliggjandi skattframtöl séu grundvöllur þess að hægt sé að meta fjárhag og skuldastöðu viðkomandi. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhags­erfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Sömu gagna sé þörf þegar komi að mati umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge. Athafnaskylda að þessu leyti verði einnig leidd af ákvæði 1. mgr. 16. gr. lge.

Embætti umboðsmanns skuldara telji fjárhag kærenda ekki nægilega glöggan, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge., í ljósi tekjuleysis og óvissu um tekjur kæranda B. Þá liggi ekkert fyrir um fjárhag kærenda á árinu 2012.

Að því er varði d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verði að telja þá skyldu hvíla á skuldurum, samkvæmt ákvæðinu, að þeir reyni eftir fremsta megni að afla þeirra tekna sem unnt sé með það að markmiði að ná samningum við kröfuhafa og leysa úr fjárhagsvanda sínum. Með því að láta undir höfuð leggjast að afla þeirra tekna sem kæranda sé í lófa lagið að afla skaði kærandi hagsmuni kröfuhafa sem annars fengju líklega meira upp í kröfur sínar. Skuldari sýni ekki mikinn vilja til að leysa úr greiðsluvanda sínum ef hann reyni ekki að afla einhverra tekna sé þess kostur.

Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hafi kærandi B verið tekjulaus frá júní 2012 en hún telji sig eiga rétt á endurhæfingarlífeyri. Samkvæmt gögnum málsins hafi ekki verið sótt um endurhæfingarlífeyri fyrir hennar hönd. Borist hafi læknisvottorð frá heimilislækni kæranda B þar sem fram komi að hún hafi verið metin til 75% örorku tímabundið og ekki sé líklegt að hún komist á vinnumarkað á næstunni. Hafi henni verið veittur ítrekaður frestur til að skila staðfestingu á því að sótt hafi verið um endurhæfingarlífeyri. Ekki hafi heldur borist gögn um að kærandi B sé í virkri endurhæfingu.

Telji umboðsmaður skuldara kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að afla ekki þeirra tekna sem þeim sé unnt á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og þannig skaðað hagsmuni kröfuhafa.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins verði ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í 12. gr. lge. er fjallað um skyldur skuldara á meðan hann leitar greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Með bréfi 11. apríl 2013 fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 20. september 2013.

Mat embættis umboðsmanns skuldara er að þar sem kærandi B hafi ekki sótt um endurhæfingarlífeyri til Tryggingastofnunar ríkisins á tímabili greiðsluaðlögunar-umleitana hafi hún brotið gegn skyldum skuldara samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Nánar tiltekið hafi kærandi B ekki aflað þeirra tekna sem henni hafi verið unnt á tímabilinu. Vegna óvissu um tekjur hennar sé fjárhagur kærenda óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er því haldið fram að skattframtal kærenda árið 2013 vegna tekjuársins 2012 liggi ekki fyrir. Umrætt skattframtal er meðal gagna málsins og samkvæmt því voru tekjur kæranda B alls 169.438 krónur árið 2012 eða að meðaltali 14.120 krónur á mánuði. Samkvæmt fyrrnefndu bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara hafa meðaltekjur kæranda B verið 30.397 krónur á mánuði að meðaltali frá apríl 2011. Tekjurnar hafi komið frá lífeyrissjóðum.

Endurhæfingarlífeyri má greiða einstaklingum á aldrinum 18-67 ára í allt að 18 mánuði þegar ekki er ljóst hver starfshæfni verður til frambúðar í kjölfar sjúkdóma eða slysa, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009. Áður en til mats á endurhæfingarlífeyri kemur þarf umsækjandi að hafa lokið töku áunninna réttinda sinna til veikindalauna frá atvinnurekanda og sjúkradagpeninga frá sjúkrasjóði stéttarfélags. Þá koma réttindi til atvinnuleysisbóta í veg fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Fyrir kærunefndina hafa ekki verið lögð nein gögn um heilsufar kæranda B. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 20. september 2013 kemur fram að embættið hafi fengið vottorð frá heimilislækni hennar um að hún hafi verið metin til 75% örorku tímabundið. Ekki verður séð að umsjónarmaður hafi haft frekari gögn varðandi veikindi eða heilsufar kæranda B. Þá liggja engin gögn fyrir um hvort áunnin réttindi hennar hjá lífeyrissjóðum hafa verið nýtt að fullu. Það er því alls óvíst að kærandi B hafi uppfyllt skilyrði til endurhæfingarlífeyris á þeim tíma er málið var til meðferðar hjá umsjónarmanni og/eða umboðsmanni skuldara jafnvel þó að hún hefði sótt um lífeyrinn. Þá ber hér að hafa í huga að ákvörðun um greiðslu endurhæfingarlífeyris er matskennd ákvörðun sem meðal annars er miðuð við endurhæfingarmat. Endurhæfingarlífeyrir er einnig tímabundinn þannig að hámarkstími er 18 mánuðir en enginn lágmarkstími er tiltekinn. Af þessu má ráða að jafnvel þó að kærandi B hefði sótt um og eftir atvikum fengið endurhæfingarlífeyri í tiltekinn tíma verði ekki séð að það hefði orðið til þess að fjárhagur kærenda yrði gleggri til framtíðar.

Eins og málið liggur fyrir og með vísan til þess er hér hefur verið rakið er ekki unnt að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að fjárhagur kærenda hefði orðið gleggri í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. ef kærandi B hefði sótt um endurhæfingarlífeyri á þeim tíma er mál hennar var til meðferðar.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segir í athugasemdum með lagagreininni: „Ákvæði 12. gr. snúa að því hvernig skuldari skal haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. [...] Í c- og d-lið er kveðið á um það að skuldari skuli ekki grípa til umfangsmeiri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.“

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara segir: „Með því að láta undir höfuð leggjast að afla þeirra tekna sem umsækjanda er í lófa lagið að afla, skaðar umsækjandi þannig hagsmuni kröfuhafa, sem annars fengju líklega meira upp í kröfur sínar.“ Verður þetta ekki skilið á annan hátt en þann að umboðsmaður skuldara telji að með því að sækja ekki um endurhæfingarlífeyri hafi kærandi B gert ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna.

Að mati kærunefndarinnar verða hvorki ákvæði d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. né ummæli í greinargerð skilin á þann veg að lagagreinin eigi hér við. Í því sambandi verður að líta til þess sem áður er fram komið um endurhæfingarlífeyri og þá óvissu sem fyrir hendi er í málinu varðandi rétt kæranda B til hans. Einnig að fjárhæð mögulegs endurhæfingarlífeyris liggur ekki fyrir og þá ekki hvort um væri að ræða fjárhæð sem í raun hefði áhrif á hagsmuni lánardrottna né greiðslur upp í kröfur þeirra en skuldir kærenda nema tæpum 55.800.000 króna samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara.

Með vísan til þessa fellst kærunefndin ekki á það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að embætti umboðsmanns skuldara hafi fellt niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök. Ber með vísan til þess að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum