Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 154/2013

Fimmtudaginn 15. október 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 7. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. janúar 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust 19. mars 2014. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 21. mars 2014 og óskað eftir sjónarmiðum embættisins. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1963 og 1964. Þau búa ásamt syni sínum í eigin 312,5 fermetra fasteign á jörðinni C 2 í sveitarfélaginu D en þau eru eigendur jarðarinnar.

Kærendur eru bæði öryrkjar en þau stunda búskap á jörð sinni. Þau þiggja bæði örorkubætur auk barnabóta.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 1996 er þau keyptu jörðina að C 2. Kostnaður búsins hafi aukist mjög án þess að afurðaverð hafi hækkað á móti. Einnig rekja þau fjárhagsvanda sinn til veikinda þeirra beggja.

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 50.100.774 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. september 2013 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. júní 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi kærendur ekki hafa uppfyllt skyldur sínar samkvæmt 13. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Telji umsjónarmaður að selja þurfi jörð kærenda en þau hafi ekki viljað framfylgja þeirri ákvörðun. Samkvæmt þessu telji umsjónarmaður rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði felldar niður samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Embætti umboðsmanns sendi umsjónarmanni tölvupóst 11. júní 2013 þar sem óskað var eftir frekari rökstuðningi af hans hálfu. Í tölvupósti til umboðsmanns skuldara 14. júní 2013 greindi umsjónarmaður frá því að greiðslugeta kærenda væri 132.606 krónur á mánuði. Heilargreiðslubyrði fasteignaveðkrafna Arion banka sem hvíli á jörð kærenda sé 345.000 krónur á mánuði en kröfurnar nemi alls 45.000.000 króna. Umsjónarmaður hafi reynt að fá veðkröfuhafa til að lækka kröfurnar eða skuldbreyta þannig að kærendur réðu við greiðslubyrði en Arion banki hafi hafnað því. Samkvæmt þessu sé enginn grundvöllur fyrir því að kærendur geti haldið jörðinni. Jörðin sé metin á 65.000.000 króna og því sé hún ekki yfirveðsett. Ávinningur af landbúnaðarstarfsemi sé of lítill til að unnt sé að fallast á áframhaldandi eignarhald á stórri bújörð og því hafi umsjónarmaður komist að þeirri niðurstöðu að kærendur þurfi að selja jörðina, að minnsta kosti að hluta til. Á þetta hafi kærendur ekki fallist.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 20. ágúst 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Í svari kærenda hafi komið fram að þau óskuðu eftir að áfram yrði unnið að greiðsluaðlögun með nýjum umsjónarmanni. Þau væru ekki sátt við að láta af hendi jörð sína, en þau hafi unnið að því að auka þær tekjur sem eignin gefi af sér. Miðað við verðmat fasteignasala frá febrúar 2010, sem gert hafi verið að beiðni Arion banka, sé eignin ekki yfirveðsett. Eignin hafi þá verið metin á 65.000.000 króna en áhvílandi veðkröfur Arion banka séu nú 45.000.000 króna. Samkvæmt þessu séu hagsmunir bankans vel tryggðir.

Kærendur hafi gert athugasemd við að umsjónarmaður miði við verðmat frá upphafi ársins 2010 en frá þeim tíma hafi margt breyst, auk þess sem verðmatið sé með ýmsum fyrirvörum. Kærendur bendi einnig á að samkvæmt nefndu verðmati sé verð á hektara 371.429 krónur en nú sé meðalverð á hektara í sveitarfélaginu auglýst 507.887 krónur. Sé miðað við þetta verð sé verðmæti jarðar þeirra 89.000.000 krónur. Telji kærendur því að raunverulegt verðmæti fasteignar þeirra sé mun meira en verðmatið greini.

Með bréfi til kærenda 19. september 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska eftir því að mál þeirra verði tekið upp að nýju. Verður að skilja þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Þá óska þau þess að þeim verði skipaður nýr umsjónarmaður.

Kærendur kveða ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild þeirra til greiðsluaðlögunar byggjast á útreikningum umsjónarmanns. Þá haldi umsjónarmaður því fram að kærendur hafi hafnað því að selja bújörð sína. Kærendur segjast ávallt hafa verið reiðubúin til samninga, en þeim hafi þó ekki verið boðið til samninga. Umsjónarmaður hafi á hinn bóginn haldið því fram frá byrjun að þau ættu að selja alla jörðina.

Kærendur eru ósátt við störf umsjónarmanns og segja trúnað ekki hafa ríkt á milli þeirra og umsjónarmanns. Hafi krafa umsjónarmanns allt frá haustinu 2011 verið sú að þau seldu jörð sína og myndu bregða búi. Kærendur hafi þó ekki fengið að vita þetta fyrr en þau fengu bréf frá umboðsmanni skuldara í ágúst 2013 um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum. Hafi umsjónarmaður hvorki sinnt þeim né spurt þau hvernig þau teldu unnt að leysa málið.

Kærendur kveða tekjur sínar 464.115 krónur á mánuði og greiðslugetu sína því 211.833 krónur. Beingreiðslur og aðrar greiðslur frá ríkinu vegna landbúnaðar kærenda nemi að auki um 1.375.534 krónum á ári. Árstekjur kærenda séu því alls 6.944.414 krónur eða 578.700 krónur á mánuði. Séu þau því með að minnsta kosti 231.023 krónum hærri tekjur á mánuði en umboðsmaður skuldara hafi gert ráð fyrir.

Nú standi yfir vinna til að auka tekjur kærenda til muna. Þau séu tilbúin til að selja spildur úr landi sínu en það sé tilvalið sumarbústaðaland. Þá undirbúi kærendur blóðtöku úr fylfullum hryssum næsta sumar og verði blóðið selt til vinnslu. Áætlað tekjustreymi vegna þessa séu 650.000 krónur á ári. Samhliða þessu verði framleiðsla folaldakjöts aukin, en áætlaðar grunntekjur úr sláturhúsi vegna þessa nemi 480.000 krónum. Einnig hafi þau unnið að því að selja beint frá býli en það þýði að tvöfalda megi grunntekjur úr sláturhúsi þannig að þær verði 960.000 krónur. Þá geti kærendur enn fremur aukið tekjur sínar með því að selja veiðileyfi fyrir fisk, gæsir og endur. Myndi þetta auka arðsemi búsins verulega. Kærendur hafi leitað sér ráðgjafar hjá Bændasamtökum Íslands, samtökunum Beint frá býli og fasteignasala varðandi þessi atriði. Kærendur muni framvísa rekstraráætlun þegar hún verði tilbúin en þau vinni með áætlun sem nái til ársins 2020.

Það sé mat kærenda að embætti umboðsmanns skuldara vinni ekki eftir lögum vegna þess að samkvæmt 34. gr. lge. skuli ráðherra setja reglugerð sem embættið eigi að vinna eftir en slík reglugerð hafi ekki verið sett. Því sé það krafa kærenda að þau fái sanngjarna, réttláta og lögmæta meðferð á máli sínu fyrir embætti umboðsmanns skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, en greinargerð hafi heldur ekki verið sett fyrir starf kærunefndarinnar. Það sé óásættanlegt fyrir kærendur að mál sem sé svona mikilvægt fyrir þau sé ekki unnið eftir reglugerð, svo sem eigi að gera. Þeim finnist starfsmenn umboðsmanns skuldara og umsjónarmaður vinna málið eftir huglægu mati. Þau séu jafnvel í þeirri stöðu að verða neydd út af heimili sínu vegna þess að umsjónarmaður þeirra hafi ekki nennt að afla allra gagna og hafi ekki haft reglugerð til að vita hvernig hann hafi átt að starfa.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr., skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Að mati umsjónarmanns séu mánaðarlegar tekjur kærenda árið 2013 alls 424.793 krónur, mánaðarlegur framfærslukostnaður 292.187 krónur og mánaðarleg greiðslugeta því 132.606 krónur. Að sögn umsjónarmanns sé mánaðarleg greiðslubyrði fasteignaveðkrafna sem hvíli á jörð kærenda 345.000 krónur og því ekki grundvöllur fyrir kærendur að halda jörðinni.

Kærendur hafi vísað til aukinna tekna sem þau kynnu að fá í framtíðinni vegna sölu á landspildum, afurðum og veiðileyfum. Engin gögn hafi borist til staðfestingar á þessum fullyrðingum kærenda. Að mati embættisins sé aðeins fært að byggja ákvörðun á þeim upplýsingum sem fyrir liggi hverju sinni og studdar séu gögnum, enda beri stjórnvaldi að taka ákvörðun sem byggist á málshraðareglu stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi meint aukið verðmæti jarðar kærenda ekki áhrif á niðurstöðu málsins, enda byggist afstaða umsjónarmanns og embættisins um sölu á fasteigninni á ónógri greiðslugetu kærenda.

Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af greiðslugetu og eignastöðu kærenda sé það mat umboðsmanns skuldara að umsjónarmanni sé stætt á að mæla með sölu á eign kærenda samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Muni greiðsluaðlögunarumleitanir ekki geta haldið áfram telji kærendur sig ekki geta framfylgt ákvörðun umsjónarmanns á sölu fasteignarinnar, sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 1. og 5. mgr. 13. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna, skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að markmið aðgerða þeirra sem gripið hafi verið til vegna skuldavanda fólks hafi verið að forða fólki frá því að missa heimili sín og gera því kleift að standa undir greiðslubyrði lána. Að jafnaði skuli gefa skuldara kost á að búa áfram í húsnæði sínu ef það telst ekki bersýnilega ósanngjarnt svo sem vegna stærðar þess eða verðmætis. Umsjónarmaður geti þó ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í ljósi nauðsynjar skuldara á að halda íbúðarhúsnæði sé almennt miðað við að skuldari verði ekki krafinn um sölu þess nema í sérstökum tilvikum. Þó verði að gæta þess að skuldari geti til frambúðar staðið undir greiðslubyrði afborgana af húsnæði.

Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé.

Rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hverra upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Tilgangur greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. gr. lge. er að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu í þeim tilvikum er skuldari uppfyllir skilyrði lge. Einn megin þáttur umboðsmanns skuldara í rannsókn greiðsluaðlögunarmáls er því eðli málsins samkvæmt að staðreyna greiðslubyrði, fjárhæðir skulda og greiðslugetu viðkomandi umsækjanda.

Í málinu liggur fyrir yfirlit ríkisskattstjóra sem sýnir að laun kærenda á tímabilinu janúar til ágúst 2013 eru 349.919 krónur að meðaltali á mánuði. Umsjónarmaður kveður kærendur að auki hafa laun af búrekstri sínum og umboðsmaður skuldara byggir ákvörðun sína á því. Engin gögn liggja þó fyrir um þessar tekjur. Er þannig ekki mögulegt að sjá hvort og að hvaða leyti kærendur hafa lífsviðurværi sitt af búskapnum og þar með hvort eignarhald jarðarinnar að C 2 skiptir máli fyrir fjárhagslega afkomu kærenda.

Í tölvupósti umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 14. júní 2013 kemur fram að áhvílandi veðkröfur á jörð kærenda nemi 45.000.000 króna. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara er byggt á þeirri fjárhæð og gert ráð fyrir að jörð kærenda sé að verðmæti 65.000.000 króna samkvæmt fyrirliggjandi verðmati fasteignasala. Í málinu liggja ekki fyrir gögn um hver var fjárhæð áhvílandi lána á þeim tíma er umboðsmaður skuldara tók hina kærðu ákvörðun. Því er óupplýst um hvort og að hve miklu leyti koma þurfi til afskrifta á skuldum kærenda, sbr. það sem áður er rakið úr athugasemdum með 13. gr. lge. Að þessu leyti virðist umboðsmaður skuldara byggja ákvörðun sína á upplýsingum frá umsjónarmanni, án þess að fyrir lægju viðhlítandi gögn eða að þær væru kannaðar af hálfu umboðsmanns með sjálfstæðum hætti.

Fram kemur í fyrrnefndum tölvupósti umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 14. júní 2013 að greiðslubyrði áhvílandi lána á jörðinni að C 2 sé 345.000 krónur. Skilja verður tölvupóstinn þannig að átt sé við mánaðarlega greiðslubyrði. Í ákvörðun umboðmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar kemur eftirfarandi fram: „Að sögn umsjónarmanns er mánaðarleg greiðslubyrði fasteignaveðkrafna Arion banka að fjárhæð 345.000 krónur og er því ekki grundvöllur fyrir umsækjendur að halda eftir umræddum eignum...“.

Undir málsmeðferð fyrir kærunefndinni var óskað upplýsinga um greiðslubyrði þeirra lána sem hvíla á jörð kærenda. Samkvæmt þeim upplýsingum sem Arion banki hefur látið í té var greiðslubyrði þessara lána árið 2013 eftirfarandi í krónum:

 

Veð- Kröfuhafi Upphaflega Láns- Útgáfu- Mán á Upphafl. Greiðslubyrði
réttur     tími dagur milli gjd. gr.byrði á mán. ágúst 2013
1. vr. Arion banki 5.000.000 40 ár 4.8.2005 1 21.408 34.025
2. vr. Arion banki 18.000.000 30 ár 4.8.2005 1 95.180 140.301
3. vr. Arion banki 840.000 10 ár 12.6.2006 6 11.054 13.363
4. vr. Arion banki 5.300.000 12 ár 1.6.2007 6 74.937 78.173

Samtals 29.140.000       202.579 265.862

 

Samkvæmt þessu var mánaðarleg greiðslubyrði fasteignaveðkrafna kærenda 265.862 krónur á árinu 2013, þ.e. þegar ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin, en ekki 345.000 krónur eins og umboðsmaður byggir hina kærðu ákvörðun ranglega á.

Þegar allt framanritað er virt verður að telja að umboðsmaður skuldara hafi í veigamiklum atriðum byggt hina kærðu ákvörðun á frásögn umsjónarmanns án þess að staðreyna grundvallarupplýsingar eða leggja sjálfstætt mat á málsatvik og aðstæður kærenda. Það leiddi til þess að tekin var ákvörðun í málinu sem var ekki byggð á réttum forsendum.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda hafi verið felldar niður án þess að umboðsmaður skuldara hefði sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Í málinu hefur ekki þýðingu að reglugerðarheimild 34. gr. lge. hefur ekki verið nýtt, enda fer um málsmeðferð samkvæmt lge. og stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum