Hoppa yfir valmynd
8. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 23/2015

Fimmtudaginn 8. október 2015

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hdl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. september 2015 lýsti A, yfir kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., sem tilkynnt var með bréfi 25. ágúst 2015, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. september 2014 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar.  Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 19. janúar 2015. Kröfum alls að fjárhæð 92.970.213 krónum var lýst og þar af voru 90.403.688 krónur veðkröfur áhvílandi á fasteign kæranda að C götu nr. 4. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 4. mars 2015 þrátt fyrir að verulegar líkur, að hans mati, væru á því að frumvarpi kæranda kynni að vera mótmælt vegna skorts á sparnaði. Umsjónarmaður lagði til að 95% samningskrafna yrðu gefin eftir og að veðkröfur á íbúðarhúsnæði yrðu afmáðar í sama hlutfalli á grundvelli 12. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Landsbankinn hf., Arion banki hf. og CBA ehf. mótmæltu frumvarpinu.

Í mótmælum CBA ehf. 11. mars 2015 kom fram að krafa fyrirtækisins hefði upphaflega verið 6.600.000 krónur samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu árið 2006. Í febrúar 2008 hafi verið gerð breyting á skilmálum skuldabréfsins en það hafi verið í vanskilum frá 15. júní 2008. Af hálfu CBA ehf. væri 95% eftirgjöf kröfunnar hafnað en ef kærandi gæti greitt 3.500.000 krónur á samningstímanum yrði frumvarpið samþykkt.

Í mótmælum Landsbankans hf. 19. mars 2015 kom fram að frumvarpinu væri hafnað á grundvelli þess að kærandi hefði ekki lagt til hliðar fjármuni í greiðsluskjóli. Kærandi hafi verið í greiðsluskjóli í 5 mánuði og hafi greiðslugeta hans á þeim tíma verið um 195.000 krónur. Því hafi kærandi átt vera búinn að leggja til hliðar 975.000 krónur en hann væri einungis búinn að leggja til hliðar 430.000 krónur.

Í mótmælum Arion banka hf. 24. mars 2015 kom fram að þrátt fyrir mánaðarlega greiðslugetu kæranda að fjárhæð 195.935 krónur hefði hann ekki lagt fyrir frá því að umsókn hans um greiðsluaðlögunarumleitanir var samþykkt, en kærandi hefði átt að geta lagt fyrir um 1.000.000 króna á þeim tíma eða frá því í september 2014. Kærandi hafi því ekki staðið við skyldur sínar, sbr. 12. gr. lge. Jafnframt benti bankinn á að kærandi hefði áður fengið tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, sem hefði ekki borið árangur, og því teldi bankinn ósennilegt að fyrirliggjandi tillögur umsjónarmanns leystu meintan greiðsluvanda kæranda. Að því virtu hafnaði bankinn tillögum umsjónarmanns um 95% eftirgjöf samningskrafna.

Umsjónarmaður kynnti kæranda mótmæli kröfuhafa. Að teknu tilliti til mótmæla Landsbankans hf. og Arion banka hf. óskaði umsjónarmaður eftir skýringum kæranda á því hvers vegna hann hefði ekki lagt fyrir fé á tímabilinu. Þann 6. apríl 2015 bárust skýringar frá kæranda og með vísan til þeirra sendi umsjónarmaður Landsbankanum hf. og Arion banka hf. beiðni um endurskoðun á afstöðu þeirra til frumvarpsins. Arion banki hf. hafnaði beiðni um endurskoðun á afstöðu sinni.

Landsbankinn hf. samþykkti fyrirliggjandi frumvarp með þeim breytingum að kærandi greiddi  eingreiðslu vegna sparnaðar að fjárhæð 500.000 krónur og að tilteknar veðkröfur bankans myndu áfram hvíla á fasteign kæranda. Umsjónarmaður óskaði eftir að bankinn endurskoðaði afstöðu sína þar sem tillaga bankans myndi leiða til þess að fasteign kæranda yrði yfirveðsett um 25.000.000 króna að lokinni greiðsluaðlögun. Landsbankinn hf. hafnaði endurskoðun á fyrri afstöðu.

Þann 1. júlí 2015 sendi umsjónarmaður kæranda upplýsingar um færar leiðir í kjölfar þess að samningum hefði verið hafnað. Þann 17. ágúst 2015 lýsti kærandi því yfir að hann vildi leita nauðasamnings.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 25. ágúst 2015 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge.

 

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að hann hafi samkvæmt áskilnaði 18. gr. lge. lagt mat á það hvort hann teldi rétt að mæla með því að nauðasamningur kæmist á eður ei. Það hafi verið niðurstaða umsjónarmanns að mótmæli kröfuhafa hafi að mestu verið málefnaleg og erfitt væri að líta framhjá þeim og mæla fyrir um að nauðasamningur ætti að komast á. Afstaða umsjónarmanns væri öðru fremur reist á tveimur sjónarmiðum sem vísað sé til í 18. gr. lge. Í fyrsta lagi því að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. með fullnægjandi hætti og í öðru lagi því að umsjónarmaður telji óraunhæft að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun.

Varðandi vöntun á sparnaði hafi kærandi verið búinn að leggja til hliðar 430.000 krónur í mars 2015 þegar sparnaður hafi átt að vera nær 1.000.000 króna. Þegar umsjónarmaður hafi óskað eftir uppfærðum upplýsingum um sparnað kæranda um miðjan ágústmánuð 2015 hafi fengist þau svör frá kæranda að hann „gæti reddað 700 þús.“.

Kærandi hafi skýrt lága fjárhæð sparnaðar í tölvupósti til umsjónarmanns 6. apríl 2015 en þar hafi eftirfarandi komið fram:

„Eins og þið sjáið á launaseðlum mínum síðustu 6 mánuði getur sparnaður ekki orðið meira en 500.000 kr. en megin ástæðan fyrir því ég hef fengið lánað hjá mínu fyrirtæki fyrir fermingu [svo] og tannréttingum yngri sonar míns. Ég er 4 barna faðir og það tekur á peningalega. Mín laun eru um 500.000 krónur fyrir dagvinnu og svo fer það bara eftir þá yfirvinnu sem ég fæ úthlutað hverju sinni eftir því hvað er að gera í prentsmiðjunni og þá geta heildarlaun mín hlaupið uppí 600-800 þús. bara mjög misjafnt. Mitt verk sem fjölskyldufaðir er að halda heimili fyrir mig og mína og hafa ofaní okkur. Ég er búinn að semja um hraðasektina þannig að ég hef 500.000 kr. í sparnað ennþá sem færi uppí samninginn.“

Umsjónarmaður hafi talið skýringar kæranda ófullnægjandi. Í fyrsta lagi hafi kærandi upplýst að tekjur hans væru í raun hærri en lagt hafi verið til grundvallar við útreikning á greiðslugetu hans og í öðru lagi hafi þegar verið tekið tillit til framfærslukostnaðar vegna kæranda og barna hans. Vegna þessa hafi verið haft samband við kæranda að nýju og óskað eftir frekari skýringum. Kærandi hafi þá upplýst að hann hefði þurft að greiða háan reikning vegna tannréttinga sonar síns. Í þeirri yfirlýsingu sé staðhæft að tannréttingum sonar kæranda sé lokið og að meðferðarkostnaður að fjárhæð 625.516 krónur hefði verið greiddur að fullu. Yfirlýsingin beri ekki með sér hvenær umræddur kostnaður féll til, hvenær reikningur hafi verið greiddur eða af hverjum.

Miðað við að kærandi hafi verið í greiðsluskjóli í rúmlega 11 mánuði hefði sparnaður hans átt að nema 2.115.285 krónum, miðað við áætlaða greiðslugetu. Verði því ekki annað séð en að kærandi hafi brotið í bága við skyldur sínar samkvæmt a-lið 12. gr. lge. Á meðan málið hafi verið til meðferðar hjá umsjónarmanni hafi kærandi ítrekað verið áminntur um mikilvægi þess að leggja nægilega mikið til hliðar í greiðsluskjóli. Þrátt fyrir það virtist sem hann hafi haldið áfram að brjóta í bága við fyrrnefnda skyldu.

Að því er varði skuldbindingar kæranda að fenginni greiðsluaðlögun sé það mat umsjónarmanns að það sé óraunhæft að kærandi fá fullnægjandi eða raunhæfa leiðréttingu á skuldum  sínum leiti hann nauðasamnings. Ástæða þess sé ekki síst sú að kærandi geti ekki fullnægt skilyrðum til að fá leiðréttingu á fasteignaveðkröfum en meirihluti skulda, sem á honum hvíli, séu fasteignaveðkröfur.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/2009 um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði geti einstaklingur, sem sé sameigandi annars í fasteign, ekki sótt einn um greiðsluaðlögun á grundvelli laganna. Áskilið sé að eigi tveir eða fleiri einstaklingar fasteignina verði þeir í sameiningu að ganga til greiðsluaðlögunar. Kærandi sé aðeins þinglýstur eigandi að helmingi fasteignar sinnar á móti fyrrverandi maka. Fasteignin sé veðsett fyrir um það bil 65.000.000 króna umfram fasteignamat sem nemi 35.950.000 krónum. Skuldavandi kæranda sé fyrst og fremst fólginn í verulegri yfirveðsetningu eignarinnar, en samningsskuldir kæranda nemi aðeins 2.509.611 krónum, eða rúmlega 2,6% af heildarskuldum. Því telji umsjónarmaður að leiðrétting með nauðasamningi myndi ekki fela í sér raunhæfa lausn á skuldavanda kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu og atvikum að öðru leyti hafi umsjónarmaður ekki séð annað fært en að mæla gegn nauðsamningi, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ósáttur við að hafa ekki getað leitað svokallaðrar 110% leiðar eftir síðustu greiðsluaðlögun. Kærandi kveðst vilja semja við kröfuhafa svo allir fái eitthvað og hann verði einn eigandi að fasteigninni að C götu. Arion banki hf. sé langstærsti veðkröfuhafinn á fasteign kæranda og í raun eini kröfuhafinn á skuldum kæranda því þetta sé hans eina eign. Kærandi vísar til þess að hann hefði aldrei tekið 90.000.000 króna að láni en lán hans hafi þrefaldast þar sem honum hafi ekki verið heimilt að sækja um 110% leiðina.

Kærandi kveðst árangurslaust hafa reynt að semja um veðskuldir sem hvíli á C götu eftir síðustu greiðsluaðlögun. Það hafi ekki borið árangur þar sem hann hafi ekki fengið að fara í 110% leiðina.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með því að samningur komist á, skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á. Í fyrsta lagi vegna þess að kærandi hafi ekki sinnt skyldu sinni um sparnað samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með fullnægjandi hætti.  

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefði kærandi, frá því að hann fékk heimild til greiðsluaðlögunar 11. september 2014 og þar til frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings var sent kröfuhöfum 4. mars 2015, átt að geta lagt fyrir 195.935 krónur á mánuði í fimm mánuði, samtals 979.675 krónur.

Fram hefur komið í málinu að á þeim tíma er frumvarpið var sent kröfuhöfum hafi kærandi einungis lagt fyrir 430.000 krónur. Þann 6. apríl 2015 kvaðst kærandi hafa sparað 500.000 krónur en sparnaður hafi ekki verið meiri vegna kostnaðar við heimilishald og fermingar. Einnig hafi laun kæranda verið breytileg á tímabilinu eða frá 600.000 krónum til 800.000 króna.

Kærandi hefur greint frá því að þeir fjármunir, sem hafi verið umfram reiknaðan framfærslukostnað umboðsmanns skuldara, hafi verið nýttir til greiðslu tannréttinga, kostnaðar vegna fermingar og til framfærslu kæranda og fjölskyldu hans. Miðað við útreikninga umsjónarmanns vantaði 549.675 krónur upp á sparnað kæranda þegar frumvarp til greiðsluaðlögunar var sent út 4. mars 2015. Engar upplýsingar koma fram í kæru um sparnað kæranda frá þeim tíma og þar til ákvörðun umsjónarmanns lá fyrir 25. ágúst 2015.

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þar verður í fyrsta lagi að líta til þess að samkvæmt lge. er engin heimild til að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem umboðsmaður skuldara reiknar út. Í öðru lagi hefur kærandi ekki lagt fram nein gögn um kostnað vegna fermingar, tannréttinga eða annan kostnað sem hann kveður hafa fallið til á tímabili greiðsluskjóls, en til þess að litið sé til aukins kostnaðar verður kærandi að framvísa kvittunum sem styðja þær fullyrðingar. Miðað við fyrirliggjandi tekjuupplýsingar frá Ríkisskattstjóra og framfærslukostnað samkvæmt 16. gr. lge. hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 1.554.549 krónur en þá hefur ekki verið tekið tillit til bóta á tímabili greiðsluskjóls, eða frá 11. september 2014 þegar heimild til greiðsluaðlögunar var veitt til 25. ágúst 2015 þegar ákvörðun umsjónarmanns lá fyrir.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. var kæranda skylt að leggja til hliðar það fé sem var umfram framfærslu. Kærandi hefur að mati kærunefndarinnar ekki sýnt fram á nauðsyn þess að stofna til þessara fjárútláta sem hann tilgreinir. Með þessu þykir kærandi hafa brotið gegn fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ákvörðun umsjónarmanns er í öðru lagi mælt gegn nauðasamningi á grundvelli þess að óraunhæft sé að kærandi muni getað staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Vísar umsjónarmaður til þess að kærandi fullnægi ekki skilyrðum laga nr. 50/2009 til að fá leiðréttingu á fasteignaveðkröfum sínum þar sem meirihluti skulda hans séu fasteignaveðkröfur.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, getur einungis sá einstaklingur fengið greiðsluaðlögun sem er þinglýstur eigandi viðkomandi fasteignar og hefur forræði á fé sínu. Eigi tveir eða fleiri einstaklingar fasteign í óskiptri sameign verða þeir í sameiningu að sækja um að ganga til greiðsluaðlögunar.

Kröfur á hendur kæranda, sem greiðsluaðlögun tekur til samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 29. september 2015, eru alls að fjárhæð 92.970.213 krónur. Þar af nema veðkröfur á hendur kæranda 90.436.851 krónu eða 97,3%. Veðkröfur kæranda geta ekki fallið undir greiðsluaðlögunarsamning nema að uppfylltum fyrrgreindum skilyrðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/2009. Þar sem kærandi sótti einn um greiðsluaðlögun er ekki uppfyllt það skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga 50/2009 að sótt sé sameiginlega um greiðsluaðlögun þegar tveir eða fleiri einstaklingar eiga í óskiptri sameign fasteign sem veðkröfur hvíli á. Án þess gæti nauðasamningur kæranda aðeins náð til 2.533.362 króna eða 2,7% af heildarskuldum hans. Nauðasamningur myndi því ekki gera kæranda kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft væri að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. mgr. 1. gr. lge., sem horfa verður til við mat umsjónarmanns á því hvort hann mæli með að nauðasamningur komist á.    

Með vísan til alls þessa og samkvæmt 18. gr. lge. er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hdl., um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á í máli A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum