Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 174/2013

Fimmtudaginn 27. ágúst 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. nóvember 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. nóvember 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 29. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. febrúar 2014.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 20. febrúar 2014 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 16. mars 2014.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1961 og sótti um heimild til greiðsluaðlögunar 23. júní 2011 með þáverandi eiginkonu sinni.

Kærandi starfar sem trésmiður fyrir X ehf.

Kærandi telur ástæður fjárhagserfiðleika vera tekjulækkun. Þá hafi ástand efnahagsmála síðastliðin ár haft neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu hans. Óljóst er hverjar fjárhæðir skulda kæranda eru, hvort sem um er að ræða gjaldfallnar eða ógjaldfallnar skuldir.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. febrúar 2012 var kæranda og fyrrum eiginkonu hans veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Var þeim skipaður umsjónarmaður í kjölfarið.

Með bréfi 3. desember 2012 barst umboðsmanni skuldara tilkynning frá umsjónarmanni um að kærandi og eiginkona hans hefðu slitið samvistir og uppfylltu þar með ekki lengur skilyrði 3. mgr. 2. gr. lge. til að sækja um greiðsluaðlögun í sameiningu.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda og þáverandi eiginkonu hans bréf 2. júlí 2013. Í bréfinu kom fram að þar sem þau hefðu slitið samvistir uppfylltu þau ekki lengur skilyrði 3. mgr. 2. gr. lge. til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Til þess að hægt væri að afgreiða umsóknir þeirra í tvennu lagi óskaði embættið meðal annars eftir fjárskiptasamningi þeirra. Einnig var hringt í kæranda sama dag og honum einnig sendur tölvupóstur sama efnis. Kærandi svaraði samdægurs með tölvupósti og óskaði nánari skýringa á því hvers vegna beðið væri um þessi gögn. Nokkur tölvupóstssamskipti áttu sér stað milli embættisins og kæranda í framhaldinu. Með tölvupósti 17. júlí 2013 óskaði umboðsmaður á ný eftir að fá afhentan fjárskiptasamning milli kæranda og fyrrum eiginkonu hans. Tölvupóstur barst frá kæranda 18. júlí 2013 þar sem fulltrúi sýslumannsins í sveitarfélaginu B staðfesti að fjárskiptasamningur væri fyrir hendi. Umboðsmaður skuldara sendi kæranda tölvupóst 22. júlí 2013 þar sem fram kom að embættið ætlaði að fara yfir þau gögn sem kærandi hefði sent og láta hann vita ef gögnin væru ófullnægjandi. Þann 2. október 2013 sendi embættið kæranda tölvupóst þar sem enn var beðið um afrit af fyrrnefndum fjárskiptasamningi þar sem enn lægi ekki fyrir hvernig skuldum aðila yrði skipt. Var kæranda gefinn frestur til loka dags 15. október 2013 til að koma þessum gögnum til embættisins.

Þann 11. október 2013 barst embættinu ljósrit af skjali frá kæranda. Skjalið var stimplað um framlagningu hjá sýslumanninum í sveitarfélaginu B og þar segir: „Er í meðferð hjá umboðsmanni skuldara og skal unnið að úrlausn þess með hagsmuni okkar beggja að leiðarljósi.“ Samdægurs sendi umboðsmaður skuldara kæranda tölvupóst þar sem fram kom að gögn þau sem kærandi hafi framvísað sýndu ekki fram á það hvernig skuldum hans og fyrrverandi konu hans yrði skipt. Þar sem ekki lægju fyrir upplýsingar um skiptingu skulda gæfu fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Yrði málið fellt niður á þeim grundvelli ef umbeðin gögn bærust ekki. Tölvupóstur barst frá kæranda 12. október 2013 þess efnis að kærandi teldi framlögð gögn fullnægjandi.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. nóvember 2013 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að niðurfelling heimildar til greiðsluaðlögunar verði dregin til baka og umboðsmanni skuldara verði gert að taka mál hans til efnislegrar úrvinnslu.

Kærandi vísar til þess að við skilnað hans og fyrrum eiginkonu hans hafi þau gert með sér fjárskiptasamning þar sem öllum eignum þeirra nema fasteign hafi verið skipt þar sem reynt hafi verið að finna úrræði vegna eignarinnar í greiðsluaðlögun. Í fjárskiptasamningnum komi fram um fasteignina að „hún væri í meðferð hjá umboðsmanni skuldara og skyldi unnið að úrlausn þess með hagsmuni beggja hjóna að leiðarljósi“. Staðfesting þessa efnis hafi verið send umboðsmanni skuldara vegna kröfu hans um að fá fjárskiptasamninginn. Hjónin fyrrverandi telji að fjárskiptasamningur þeirra sé einkamál og vilji ekki láta hann af hendi til umboðsmanns skuldara. Efnisleg staðfesting samningsins undirrituð af fulltrúa sýslumanns hafi þó verið send umboðsmanni skuldara til að reyna að koma til móts við kröfur embættisins.

Kærandi hafi fengið bréf frá umboðsmanni skuldara 4. nóvember 2013 um að ákvörðun hefði verið tekin um niðurfellingu á heimild hans til greiðsluaðlögunar. Ákvörðunin virtist byggja á því að ekki liggi fyrir hvernig eignum og skuldum verði skipt milli kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans við skilnað þeirra. Hjónin fyrrverandi hafi gert viðauka við fjárskiptasamning sinn 14. nóvember 2013 sem kveði á um að fasteign þeirra að C götu nr. 10, sveitarfélaginu B, verði eign kæranda og að hann taki jafnframt yfir allar skuldir sem á fasteigninni hvíli og séu á hans kennitölu. Með þessu telji kærandi að hann hafi fullnægt upplýsingaskyldu sinni, að fjárhagsaðstæður hans séu nú svo glöggar sem verða megi og að umboðsmaður skuldara geti tekið mál hans aftur til meðferðar. Kærandi telur b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. ekki eiga við lengur þar sem hann hafi nú lagt fram fyrrnefndan viðauka við fjárskiptasamning sinn og fyrrverandi eiginkonu sinnar. Þá þykir kæranda ljóst að hann uppfylli skilyrði 1. og 2. mgr. 2. gr. lge. um að hann sé og verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Hann eigi engar aðrar eignir en fasteignina að C götu nr. 10, sveitarfélaginu B, sem sé yfirveðsett.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærandi hafi ekki skilað fullnægjandi gögnum um það hvernig skuldum sem hvíli á sameiginlegri eign hans og fyrrverandi eiginkonu hans að C götu nr. 10, sveitafélaginu B skuli skipt. Kærandi sé skuldari allra lána sem hvíli á eigninni. Fyrrverandi eiginkona kæranda, sem sé meðeigandi hans að eigninni, sé ekki í sjálfskuldarábyrgð fyrir umræddum skuldum. Kærandi hafi tjáð embættinu að þessum skuldum verði skipt til helminga. Kærandi hafi hins vegar ekki lagt fram skriflegt samkomulag um skiptingu eigna og skulda, hvorki fjárskiptasamning né annars konar gögn, þrátt fyrir ítrekaðar óskir embættisins.

Verði að telja það eðlilega kröfu að umsækjendur um greiðsluaðlögun framvísi gögnum um skuldir þeirra, sé um það beðið. Markmið greiðsluaðlögunar sé að laga greiðslugetu skuldara að skuldum og því nauðsynlegt að fyrir liggi hverjar skuldirnar séu. Þegar skuldarar sem hafi fengið samþykkta sameiginlega umsókn um greiðsluaðlögun slíti samvistum, uppfylli þeir ekki lengur skilyrði 3. mgr. 2. gr. lge. um sameiginlega umsókn. Til að hægt sé að heimila skuldurum áframhald greiðsluaðlögunar hvort í sínu lagi, þurfi meðal annars að liggja fyrir hverjar skuldir þeirra verði í kjölfar skilnaðar. Í þeim tilvikum er skuldari hefur verið í hjúskap verði því að liggja fyrir fjárskiptasamningur þar sem fram komi hvernig eignum og skuldum sé skipt. Kærandi hafi ekki lagt fram fjárskiptasamning sem þó hafi verið gerður.

Í málinu liggi fyrir staðfesting fulltrúa sýslumanns á því að eftirfarandi setning sem varðar eign kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans að C götu nr. 10 sé úr fjárskiptasamningi þeirra. Þar segi: „Er í meðferð hjá umboðsmanni skuldara og skal unnið að úrlausn þess með hagsmuni okkar beggja að leiðarljósi.“ Ekkert komi fram hvernig skuldum skuli skipt en eins og áður segi sé kærandi skuldari allra áhvílandi lána á eigninni. Fasteignin sé yfirveðsett og því óvíst hvað verði um skuldir sem séu umfram verðmat eignarinnar verði eignin seld.

Ekki hafi verið upplýst um hvernig skipta skuli eignum og skuldum. Við skilnað geti aðilar samið um skiptingu eigna og skulda en komist þau ekki að samkomulagi skuli ágreiningur þeirra lagður fyrir dóm og gildi þá ákvæði XIV. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993 um skiptingu bús. Hafi regla um helmingaskipti eigna og skulda hjóna, sem kærandi hafi vísað til ekki gildi nema til opinberra skipta komi. Almenna reglan samkvæmt 67. gr. hjúskaparlaga sé sú að hvort hjóna beri ábyrgð á þeim skuldbindingum sem á því hvíli, hvort sem þær hafi stofnast fyrir hjúskapinn eða síðar. Þá hafi samþykki maka fyrir veðsetningu hins aðilans á sameiginlegri eign þeirra ekki verið talið baka makanum persónulega ábyrgð á skuldinni, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands frá 1995, bls. 3012.

Þar sem ekki liggi fyrir með fullnægjandi hætti hvernig skuldum kæranda verði skipt í kjölfar skilnaðarins verði að telja að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Við töku stjórnvaldsákvörðunar sé ekki fært að byggja á öðru en því sem liggi fyrir í málinu á þeim tíma sem ákvörðun sé tekin. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara hafi kæranda gefist færi á að láta álit sitt í ljós og leggja fram gögn í samræmi við skyldu stjórnvalds til að veita andmælarétt við töku stjórnvaldsákvarðana samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eftir að hafa skoðað upplýsingar sem hafi borist frá kæranda og gögn málsins hafi umboðsmaður skuldara komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar. Kærandi hafi lagt fyrir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir í málinu þegar ákvörðun var tekin. Þar sem þær hafi ekki legið fyrir við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi þær ekki áhrif á gildi hennar með afturvirkum hætti.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að niðurfelling heimildar til greiðsluaðlögunar verði dregin til baka. Skilja verður þetta svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Einnig gerir kærandi kröfu um umboðsmanni skuldara verði gert að taka mál hans til efnislegrar úrvinnslu. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfu kæranda þess efnis að umboðsmanni skuldara verði gert að taka mál hans til efnislegra úrvinnslu ber að túlka í samræmi við þetta og kemur sú krafa því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem kærandi hafi ekki lagt fram umbeðinn fjárskiptasamning. Kærandi telur að fjárskiptasamningurinn sé einkamál og hefur hann neitað að afhenda embættinu samninginn. Þá telur kærandi að viðauki við fjárskiptasamning, sem gerður var 14. nóvember 2013 og lagður var fram með kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, gefi nú glögga mynd af fjárhag kæranda. Öll nauðsynleg gögn liggi því fyrir og ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. eigi því ekki við um mál kæranda.  

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara. Í 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að fram skuli koma sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda sem þegar séu gjaldfallnar, svo og fjárhæð ógjaldfallinna skulda og ábyrgða og eftir atvikum upplýsingar um afborgunarkjör, gjalddaga, vexti og verðtryggingu þeirra.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu. Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að meta fjárhag skuldara og væntanlega þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda byggir greiðsluaðlögun öðrum þræði á því að eignir skuldara verði notaðar til þess að gera upp við kröfuhafa. Af þessum sökum er nauðsynlegt að eigna- og skuldastaða liggi ljós fyrir ella er ekki mögulegt að leggja mat á hvort skuldari á eignir umfram skuldir og þá með hvaða hætti skuli farið með eignir hans við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Ætla verður að í umræddum fjárskiptasamningi komi fram skipting á eignum og skuldum kæranda og fyrrum eiginkonu hans. Að mati kærunefndarinnar er umræddur samningur því nauðsynlegur til að leggja heildarmat á fjárhag kæranda. Þá verður jafnframt að líta til þess að viðauki við fjárskiptasamninginn veitir eingöngu upplýsingar um ráðstöfun á fasteign kæranda og fyrrum eiginkonu hans en í málinu kemur fram að eignin sé yfirveðsett. Þar sem þýðingarmiklar upplýsingar skortir um fjárhag kæranda verður að telja að fjárhagsstaða hans sé óljós í skilningi lge. þannig að ekki sé unnt að meta hvort hann uppfylli skilyrði lge. til að fá greiðsluaðlögun.

Þegar framanritað er virt verður að telja að kærandi hafi ekki lagt fram þau gögn er nauðsynleg eru til að staðreyna fjárhagsstöðu hans eins og honum er skylt að gera samkvæmt 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skorti því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kæranda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge.

Að mati kærunefndarinnar hefur kærandi ekki lagt fram nauðsynleg gögn sem gefa nægilega glögga mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. er því staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum