Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 133/2013

Fimmtudaginn 27. ágúst 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. september 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. ágúst 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 9. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. september 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 30. september 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 6. mars 2014. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1977 og 1981. Þau eru í hjúskap og búa ásamt tveimur börnum sínum í eigin 107 fermetra íbúð að C götu nr. 3 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er viðskiptafræðingur og starfar hjá X ehf. Kærandi B er snyrtifræðingur en hún er í hlutastarfi.

Mánaðarlegar meðaltekjur kærenda eru 427.859 krónur vegna launa og barnabóta.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til tekjulækkunar.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 48.087.247 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006, 2007 og 2009.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. febrúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. nóvember 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður.

Fram kom í bréfi umsjónarmanns að frumvarp hefði verið sent kröfuhöfum 6. júní 2012. Mótmæli hafi borist frá kröfuhöfum en auk þess hafi verið farið fram á að óháður fasteignasali verðmæti fasteign kærenda. Nýtt verðmat hefði reynst hærra en fasteignamat eignarinnar sem áður hafði verið lagt til grundvallar. Einnig hafi kröfuhafar farið fram á að kærendur skiluðu bifreið sinni fyrir gildistöku samnings um greiðsluaðlögun. Umsjónarmaður hefði borið þessi atriði undir kærendur. Eftir töluverð samskipti milli umsjónarmanns og kærenda hefðu kærendur lýst því yfir í tölvupósti að þau teldu ekki mögulegt að afhenda eignir sínar til kröfuhafa þar sem of mikil óvissa væri um lögmæti tiltekinna krafna á hendur þeim. Umsjónarmaður hafi ítrekað gert kærendum grein fyrir því að þau gætu sett fyrirvara í frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun um þær kröfur sem þau teldu vafasamt að væru lögmætar. Þetta hafi kærendur ekki talið nægilegt en þau hafi tilkynnt að þau myndu ekki skila eignum fyrr en búið væri að leysa úr ágreiningi varðandi lögmæti lána þeirra.

Að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem uppi séu í málinu hafi umsjónarmaður talið sér skylt að senda umboðsmanni skuldara tillögu til niðurfellingar greiðsluaðlögunar-umleitana kærenda enda sé það ekki í verkahring umsjónarmanns að halda skuldurum í greiðsluskjóli í óákveðinn tíma. Telji umsjónarmaður að afstaða kærenda sé í andstöðu við ákvæði 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) enda séu kærendur ekki tilbúnir til að fallast á þarfa ráðstöfun eigna. Þar sé annars vegar um að ræða bifreið sem þau geti ekki greitt af. Hins vegar sé ekki mögulegt að verða við kröfum kærenda um að undanskilja einn kröfuhafa frá greiðsluaðlögun þeirra.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 23. júlí 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan viku og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Í svari kærenda hafi komið fram að nánast allar skuldir þeirra við Dróma væru gengistryggð lán en Drómi hefði einn kröfuhafa gert athugasemdir við frumvarp þeirra til samnings um greiðsluaðlögun. Að mati kærenda séu kröfulýsingar frá Dróma rangar og vísi kærendur til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 600/2011 því til stuðnings. Í dóminum komi skýrt fram hvernig endurútreikna eigi lánin. Kröfuhöfum ætti að vera skylt að fara eftir dóminum og þar með landslögum. Með því að endurútreikna lánin sé hægt að sjá hver raunveruleg eignastaða kærenda sé. Hafi kærendur gert umsjónarmanni grein fyrir því að mánaðarleg greiðslubyrði ætti samkvæmt þessu að lækka. Umsjónarmaður hafi verið á gagnstæðri skoðun en ekki fært fyrir henni rök.

Með bréfi til kærenda 16. ágúst 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge. og 1. mgr. 21. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Þess er krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og í framhaldi verði haldið áfram með greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda.

Að mati kærenda byggist rökstuðningur umboðsmanns skuldara eingöngu á því að kærendur vilji ekki skila bifreiðinni Y. Þetta atriði verði að skoða í samhengi við málið að öðru leyti. Einn kröfuhafi hafi hafnað þeim tillögum sem upphaflega hafi verið lagðar fram og kærendur beðin um að greiða meira en þau geti samkvæmt öllum framfærsluviðmiðum. Kærendur hafi áður lýst því yfir að þau séu tilbúin til að starfa innan reglna um greiðsluaðlögun en þau geti ekki fallist á að ráðstöfunartekjur þeirra séu undir öllum viðmiðum um framfærslu og skilað eignum að auki.

Í frumvarpi umsjónarmanns til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kærendur komi fram að mánaðarleg greiðslugeta kærenda sé 116.743 krónur en það sé byggt á framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara um lágmarksframfærslu. Gert hafi verið ráð fyrir að kærendur greiddu mánaðarlega 100.000 krónur upp í veðkröfur og 10.000 krónur upp í skuld vegna bifreiðar. Sá kröfuhafi sem mótmælt hafi frumvarpinu telji að kærendur eigi að greiða 148.091 krónu á mánuði og skila bifreiðinni. Kærendur geti ekki greitt tæplega 32.000 krónum meira á mánuði en þau hafi til ráðstöfunar samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara en þau geti ekki framfleytt sér fyrir lægri fjárhæð en sem nemi lágmarksframfærslukostnaði. Kærendur hafi hafnað því að ganga að þessu og skila eignum. Telja kærendur að kröfuhafinn gangi gegn tilgangi 1. gr. lge. þar sem segi að markmið laganna sé að skuldarar geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð.

Sá kröfuhafi sem biðji um hærri greiðslur frá kærendum eigi umdeildar kröfur á hendur þeim. Hafi þessi kröfuhafi margsinnis tapað dómsmálum sem snúi að sams konar lánum og um ræði í tilviki kærenda. Færi kröfuhafinn eftir dómunum myndu kærendur eiga að greiða honum innan við 100.000 krónur á mánuði af íbúð sinni.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. geti umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telji af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Þá segi í 5. mgr. 13. gr. lge. að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skuli skuldari greiða fastar mánaðargreiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Þessar greiðslur megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má samkvæmt mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögun varði nema sérstakar og tímabundnar ástæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður sé umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Umsjónarmaður hafi lagt til að kærendur skiluðu bifreiðinni Y til kröfuhafa en kærendur hafi ekki fallist á það. Yfirlýsing kærenda um að þau séu reiðubúin að fara eftir reglum lge. geti ekki talist yfirlýsing um að þau séu tilbúin að fallast á ákvörðun umsjónarmanns, sbr. 1. mgr. 13. gr. lge. Því telji umboðsmaður skuldara ljóst að kærendur hafi ekki framfylgt ákvörðun umsjónarmanns um að skila bifreiðinni til kröfuhafa. Því beri að fella niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. lge.

Kærendur hafi ekki viljað sætta sig við fjárhæð krafna á hendur þeim og þau telji ekki rétt að greiða tilteknum kröfuhafa á meðan endurútreikningur lána hafi ekki farið fram. Umsjónarmaður hafi boðið kærendum að gera fyrirvara við þær kröfur sem kærendur telji rangt reiknaðar í samningi um greiðsluaðlögun þannig að samningurinn leiddi ekki til réttindamissis fyrir kærendur. Þau hafi ekki fallist á þetta. Verði því að telja að kærendur vilji ekki samþykkja greiðslu afborgana af veðkröfum fyrr en umrædd lán hafi verið endurútreiknuð og lækkuð í samræmi við væntingar þeirra. Það sé ekki tilgangur greiðsluaðlögunar að skera úr um lögmæti krafna eða fjárhæðar þeirra. Slíkt sé hlutverk dómstóla. Afstaða kærenda komi í veg fyrir að frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun nái fram að ganga þar sem kærendum sé skylt að greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem séu innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. 1. mgr. 21. gr. lge. Því sé það mat umboðsmanns skuldara að fella beri niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 1. mgr. 21. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 21. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og í framhaldi verði haldið áfram með greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kærenda þess efnis að greiðsluaðlögunarumleitunum verði haldið áfram á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kærenda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 5. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 21. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. getur umsjónarmaður ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í 5. mgr. segir að framfylgi skuldari ekki ákvörðun umsjónarmanns samkvæmt 1. mgr. eða komi með einhverjum hætti í veg fyrir fyrirhugaða sölu eigna skuli umsjónarmaður óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir skuldara verði felldar niður samkvæmt 15. gr.

Í 15. gr. lge. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. skal skuldari greiða fastar mánaðarlegar greiðslur af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignar á tímabili greiðsluaðlögunar. Greiðslurnar megi ekki nema lægri fjárhæð en þeirri sem ætla má að mati umsjónarmanns að svari til hæfilegrar leigu á almennum markaði fyrir þá eign er greiðsluaðlögun varðar nema sérstakar og tímabundnar aðstæður séu fyrir hendi. Við slíkar aðstæður er umsjónarmanni heimilt að ákveða tímabundið lægri mánaðargreiðslu til greiðslu veðkrafna en þó ekki lægri en 60% af hæfilegri leigu.

Í málinu liggur fyrir að Drómi hefur farið fram á að kærendur skili bifreiðinni Y til sín sem veðhafa. Kærendur hafa ekki fallist á þetta og gefa þá skýringu að fjárhæð erlendra lána sem þau skuldi Dróma sé óviss þar sem endurútreikningur hafi ekki farið fram.

Áhvílandi lán á bifreiðinni Y nemur 2.675.683 krónum en matsverð hennar er 1.851.950 krónur. Liggur því fyrir að bifreiðin er yfirveðsett. Kærendur eiga einnig bifreiðina Z og er gert ráð fyrir að kærendur haldi þeirri bifreið.

Í athugasemdum með frumvarpi til lge. kemur fram að umsjónarmaður geti ákveðið að selja skuli þær eignir skuldara sem umsjónarmaður telur af sanngirni og með hliðsjón af greiðslugetu og fjölskylduaðstæðum að skuldari geti verið án. Í athugasemdum með 13. gr. lge. segir að í ljósi þess að í greiðsluaðlögun felist að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils sé rétt að gera skuldara að leggja sitt af mörkum til að eins hátt hlutfall verði greitt af kröfum og sanngjarnt sé. Við mat á slíku skuli umsjónarmaður bera saman hagsmuni lánardrottna og skuldara af sölunni, en þeir geti verið misjafnir eftir söluverðmæti eignar og fjölda lánardrottna. Skuli þá miðað við að sala eignanna hafi áhrif á greiðsluhlutfall krafna svo um munar fyrir alla lánardrottna. Einnig skuli umsjónarmaður meta hversu líklegt sé að honum takist að koma viðkomandi hlutum í verð innan skamms tíma, með hliðsjón af markaðsaðstæðum. Til skoðunar komi fyrst og fremst fasteignir, einkum íbúðarhúsnæði, og verðmætir lausafjármunir eins og bifreiðir. Um lausafjármuni skuli gengið út frá því að skuldari eigi rétt á að halda lausafjármunum til að halda heimili í sama mæli og slíkar eignir verði undanþegnar við fjárnám samkvæmt 43. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Komi til kröfu um sölu lausafjármuna skuli almennt miðað við að um verðmæta muni sé að ræða, að sala þeirra sé kröfuhöfum verulega til hagsbóta og að skuldari geti bersýnilega verið án þeirra, að teknu tilliti til fjölskylduaðstæðna. Nærtækasta dæmið sé bifreiðir en sé um það að ræða að skuldari hafi sjálfur, eða ásamt fjölskyldumeðlimum, tvær bifreiðir til ráðstöfunar, geti umsjónarmaður eftir atvikum kveðið á um sölu annarrar bifreiðarinnar.

Með því að afhenda veðhafa bifreiðina myndu skuldir kærenda lækka og greiðslubyrði lána minnka. Kærendur hefðu eftir sem áður hina bifreið sína til umráða. Samkvæmt því sem rakið hefur verið verður að telja að kærendum hafi borið að samþykkja afhendingu á bifreiðinni Y til veðhafa samkvæmt 5. mgr. 13. gr. lge. Er því fallist á ákvörðun umboðsmanns skuldara að þessu leyti.

Í annan stað varðar ágreiningur í málinu þá fjárhæð sem kærendum ber að greiða af fasteign sinni og er innan matsverðs eignar, sbr. a-lið 1. mgr. 21. gr. lge. Málatilbúnað kærenda verður að skilja svo að þau telji að þar sem enn eigi eftir að endurútreikna kröfur Dróma á hendur þeim sé verðmæti fasteignar þeirra meira en fjárhæð áhvílandi skulda. Þar sem endurútreikningur hafi ekki farið fram geri lánardrottnar kröfu til þess að þau greiði hærri fjárhæð af veðkröfum en þeim beri að greiða.

Í drögum að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun frá 19. júní 2012 var gert ráð fyrir að matsverð fasteignar kærenda væri 17.800.000 krónur eða sama fjárhæð og fasteignamat eignarinnar. Í samræmi við það var gert ráð fyrir að kærendur greiddu mánaðarlega 100.000 krónur inn á veðkröfur vegna fasteignarinnar. Kröfuhafar fóru fram á að fasteignasali myndi verðmeta eignina. Var það gert og var verðmæti eignarinnar talið vera 19.500.000 krónur. Með tölvupósti 27. september 2012 upplýsti umsjónarmaður kærendur um að mánaðarlegar afborganir þeirra innan matsverðs fasteignar myndu hækka í samræmi við nýtt matsverð eignar og yrðu 119.296 krónur. Þá þyrftu kærendur að greiða mánaðarlega 28.795 krónur upp í veðkröfur vegna þeirrar bifreiðar sem þau héldu eftir. Alls næmu því mánaðarlegar afborganir kærenda 148.091 krónu. Samkvæmt drögum að frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun er gert ráð fyrir að mánaðarleg greiðslugeta kærenda sé 116.743 krónur. Samkvæmt nefndum tölvupósti umsjónarmanns til kærenda var gert ráð fyrir að mánaðarleg greiðslubyrði kærenda yrði 31.348 krónum hærri en greiðslugeta þeirra leyfði.

Lagaregla a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. kveður á um að ef skuldari heldur eftir eignum sem tryggðar eru með veði skuli hann greiða af þeim fastar mánaðargreiðslur sem mega ekki nema lægri fjárhæð en umsjónarmaður metur að samsvari húsaleigu á almennum markaði fyrir eignina sem greiðsluaðlögunin varðar. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að umsjónarmaður hafi metið greiðslurnar í samræmi við þessa reglu og að þeim sé aðeins ætlað að ná til veðkrafna innan matsverðs fasteignarinnar. Liggur samkvæmt því fyrir að mánaðarleg greiðsla kærenda af veðkröfum vegna fasteignar þeirra verður alla jafna ekki lægri en sú fjárhæð. Hefur hugsanlegur endurútreikningur áhvílandi lána, hvort sem er til hækkunar eða lækkunar, því ekki áhrif á útreikning samkvæmt framangreindri lagareglu á mánaðarlegum greiðslum kærenda á greiðsluaðlögunartímanum.

Samkvæmt þessu liggur fyrir að kærendur hafa ekki greiðslugetu til að standa straum af föstum mánaðarlegum greiðslum af þeim veðkröfum sem eru innan matsverðs eignarinnar nema undantekningarákvæði 2. málsl. a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge., sem áður hefur verið gerð grein fyrir, verði talið eiga við. Þegar þannig stendur á ber að taka til úrlausnar hvort kærendum verði gert að selja fasteignina samkvæmt 1. mgr. 13. gr. lge. Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið var það ekki gert heldur var í hinni kærðu ákvörðun vísað til þess að kærendum bæri að greiða afborganir af fasteign þeirra á grundvelli a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge. Telur kærunefndin að um fasteignina hefði átt að fara samkvæmt reglu 1. mgr. 13. gr. lge., sbr. eftir atvikum 5. mgr. sama ákvæðis.

Með tilliti til þess sem gerð hefur verið grein fyrir telur kærunefndin að umboðsmann skuldara hafi skort lagaheimild til að fella greiðsluaðlögunarheimildir kærenda niður með vísan til a-liðar 1. mgr. 21. gr. lge.

Eins og áður hefur komið fram er það mat kærunefndarinnar að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda með vísan til 5. mgr. 13. gr., sbr. 15. gr. lge., að því er varðaði ráðstöfun á bifreið kærenda til kröfuhafa. Samkvæmt því er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum