Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2013

Fimmtudaginn 13. ágúst 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 29. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. apríl 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 7. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 16. maí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1953. Hún býr ein í eigin 148,2 fermetra íbúð að B götu nr. 33 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er þroskaþjálfi að mennt og starfar hjá X sem forstöðumaður. Mánaðarlegar tekjur kæranda eftir greiðslu skatta eru samtals 359.822 krónur.

Að mati kæranda má rekja fjárhagsvandræði hennar til skilnaðar og veikinda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 eru 45.378.612 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 7. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.)

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 8. janúar 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Því legði hann til að fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að kærandi hafi notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 7. júní 2011. Umsjónarmaður hafi skoðað tekjur kæranda samkvæmt launaupplýsingum ríkisskattstjóra á 19 mánaða tímabili (júní 2011 til desember 2012). Á grundvelli þeirra upplýsinga hefði sparnaður kæranda átt að vera 3.655.661 króna. Kærandi kvaðst hafa lagt fyrir um 800.000 krónur. Að sögn kæranda hefði hún þurft að greiða fyrir nauðsynlegar viðgerðir á raflögnum í íbúð hennar og hefði kostnaðurinn við það verið um 250.000 krónur. Kærandi lagði fram kvittanir fyrir útlögðum kostnaði vegna þess að fjárhæð 220.000 krónur. Þar að auki hefði kærandi aðstoðað dætur sínar fjárhagslega á greiðsluaðlögunartímanum.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 4. apríl 2013 var henni gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi svaraði ekki bréfi umboðsmanns skuldara.

Með bréfi til kæranda 24. apríl 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði ógilt og að henni verði veitt heimild til þess að leita samnings til greiðsluaðlögunar.

Markmið lge. sé að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Þá sé ekki kveðið á um það hvernig afmarka eigi framfærslukostnað á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Í 3. mgr. 16. gr. lge. sé fjallað um hvernig frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun verði úr garði gert, þ.e. að framfærsla skuldara og fjölskyldu hans skuli vera tryggð. Í 4. mgr. 16. gr. lge. sé kveðið nánar á um þetta. Þar segi að feli frumvarp umsjónarmanns í sér að skuldari inni af hendi reglulegar afborganir á tilteknu tímabili skuli umsjónarmaður miða við að skuldari haldi eftir svo miklu af tekjum sínum að dugi til að sjá honum, heimilisfólki hans og þeim einstaklingum sem hann hefur framfærsluskyldu við farborða. Í ákvæðinu sé kveðið á um að umsjónarmaður skuli notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Ákvæðið taki samkvæmt orðanna hljóðan til þess hvernig frumvarp til samnings skuli byggt upp en ekki til þess hvernig framfærslu skuldara skuli háttað á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að lge. segi um a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.:

 „Ákvæði 12. gr. snúa að því hvernig skuldari skal haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari augljóslega frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að umsjónarmaður fái greiðsluaðlögunarumleitanir felldar niður á grundvelli 15. gr. Í ákvæðinu er í fyrsta lagi nefnt að skuldari skuli leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það sem fer umfram það sem hann þarf til framfærslu sinnar, fjölskyldu og heimilis síns. Sökum ákvæða 11. gr. um greiðslustöðvun á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana er viðbúið að slík staða geti komið upp.“

Af þessu megi draga þá ályktun að mikið þurfi til svo skuldari teljist hafa brotið gegn skyldum sínum. Þá verði einnig að setja ákvæðið í samhengi við almenn markmið laganna um að hraða eigi uppgjöri á þeim málum þar sem alvarlegur skuldavandi sé fyrir hendi. Þannig segi til dæmis í almennum athugasemdum með frumvarpinu sem varð að lge.:

 „Greiðsluaðlögun er ætlað að auðvelda skuldara að endurskipuleggja fjármál sín og laga skuldir að greiðslugetu, þannig að raunhæft sé að hann geti staðið við skuldbindingar sínar. […] Það er markmið þessa frumvarps að einstaklingar fari framvegis frekar þessa leið við uppgjör og endurskipulagningu fjármála sinna en þvingaða leið skuldaskilaréttarins.“

Í þessu felist að tilgangur lge. sé að gera einstaklingum kleift að gera samning við kröfuhafa í stað þess að fara þvingaða leið skuldaskilaréttarins, svo sem gjaldþrot eða almenna nauðasamninga. Þær heimildir sem umsjónarmanni séu veittar með 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., til að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hljóti að teljast undantekningarákvæði, þar sem umsjónarmanni sé almennt uppálagt að reyna að koma á samningi milli kröfuhafa og skuldara.

Kærandi telur með vísan til framangreinds að ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. veiti ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuldara skuli reiknaður. Túlka beri ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þröngt og að mikið þurfi að koma til svo ákvæðið eigi við.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. lagagreinarinnar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Kærandi hafi sótt um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 7. júní 2011 og hafi frestun greiðsla, svokallað greiðsluskjól, tekið gildi frá þeim degi. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun 7. júní 2012 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kæranda því mátt vel vera ljóst að hún skyldi halda til haga þeim fjármunum sem hún hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir í 20 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2011 til 28. febrúar 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011 til 28. febrúar 2013 að frádregnum skatti 7.897.142
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 72.567
Samtals 7.969.709
Mánaðarlegar meðaltekjur 398.485
Framfærslukostnaður á mánuði 180.581
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 217.904
Samtals greiðslugeta í 20 mánuði 4.358.089

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærandi hafi haft 398.485 krónur í meðaltekjur á mánuði á 20 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er hún naut greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almennan framfærslukostnað með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort umsækjendur hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé umsækjanda jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem skuldarar geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Miðað skuli við að mánaðarleg heildarútgjöld kæranda hafi verið um 180.581 króna á meðan hún hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kæranda sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minni háttar útgjöldum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærandi hafi haft getu til að leggja fyrir um 4.358.089 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðal greiðslugetu að fjárhæð 217.904 krónur á mánuði í 20 mánuði.

Kærandi hafi borið því við að hún hafi þurft að gera við raflagnir í íbúð sinni og hafi það kostað um 250.000 krónur. Kærandi hafi lagt fram greiðslukvittun fyrir útlögðum kostnaði vegna viðgerðanna að fjárhæð 220.000 krónur. Kærandi hafi einnig greint frá því að hún hafi lagt til hliðar 800.000 krónur. Auk þess hafi kærandi upplýst að hún hafi aðstoðað dætur sínar fjárhagslega á tímabili greiðsluskjóls. Embættið hafi ekki lagaheimild til að taka tillit til fjárhagserfiðleika annarra en kæranda sjálfrar.

Að teknu tilliti til þess kostnaðar sem kærandi hafi sýnt fram á með greiðslukvittunum, samtals 220.000 króna, og til þeirrar fjárhæðar sem hún hafi lagt fyrir, 800.000 krónur, lækki sú fjárhæð sem kærandi hafi átt að leggja fyrir úr 4.358.089 krónum í 3.338.089 krónur. Kærandi hafi ekki getað lagt fram gögn sem veitt gætu tæmandi skýringu á því hvers vegna hún hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við þá fjárhæð.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði ógilt og að henni verði veitt heimild til þess að leita samnings til greiðsluaðlögunar. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunar­umleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Kemur því aðeins til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Krafa kæranda þess efnis að heimild til greiðsluaðlögunar verði veitt á því ekki við um málið eins og það liggur fyrir. Kröfugerð kæranda fyrir kærunefndinni ber að túlka í samræmi við þetta.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið var kæranda skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Með bréfi 8. janúar 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að láta hjá líða að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli. Tilkynnti hann umboðsmanni skuldara að líkur væru á að umræddar upplýsingar hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður 24. apríl 2013.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga, sbr. lög nr. 28/2010, hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki lagt til hliðar fjármuni í samræmi við skyldu skuldara í greiðsluaðlögun, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. júní 2012 þar sem kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunarumleitana fylgdi greiðsluáætlun þar sem greiðslugeta kæranda á þeim tíma var talin vera 198.018 krónur á mánuði.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, voru mánaðartekjur kæranda í krónum eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindum tímabilum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: Sex mánuðir
Nettótekjur 2.394.864
Mánaðartekjur alls að meðaltali 399.144


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: Tólf mánuðir
Nettótekjur 4.779.478
Mánaðartekjur alls að meðaltali 398.290


Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. mars 2013: Þrír mánuðir
Nettótekjur 1.353.553
Nettótekjur alls 451.184


Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 8.527.895
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 406.090

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kæranda og bætur var greiðslugeta kæranda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. mars 2013: 21 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 8.527.895
Sérstök vaxtaniðurgreiðsla 72.567
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 8.600.462
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 409.546
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 180.581
Greiðslugeta kæranda á mánuði 228.965
Alls sparnaður í 21 mánuð í greiðsluskjóli x 228.965 4.808.261

 

Kærandi telur að túlka beri ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. um sparnað í greiðsluskjóli þröngt. Mikið þurfi því að koma til svo ákvæðið eigi við en það veiti ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuldara skuli reiknaður. Hún bendir á að í lögskýringargögnum sé tekið fram að skuldari þurfi að hafa vikið augljóslega og með vísvitandi hætti frá skyldum um sparnað og að markmið lge. sé að ljúka uppgjöri skuldamála einstaklinga með samningi frekar en úrræðum skuldaskilaréttarins. Með hliðsjón af þessu og atvikum málsins verður að skilja málatilbúnað kæranda þannig að hún telji sig ekki hafa brotið gegn ákvæði a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Eins og kærandi bendir á er það markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa, eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Meðal annars þess vegna er skuldara gert að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram framfærslukostnað á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Féð skal nota til að greiða kröfuhöfum þegar kemur að efndum greiðsluaðlögunarsamnings.

Í c-lið 2. mgr. 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 kemur fram að eitt af hlutverkum umboðsmannsins sé að veita atbeina til tilrauna til samninga um greiðsluaðlögun. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 15. júní 2010 segir um frumvarp til laga um umboðsmann skuldara, er síðar varð að lögum nr. 100/2010: „Nefndin ræddi ítarlega hlutverk umboðsmanns skuldara og telur mikilvægt að stofnuninni verði falið að útbúa lágmarksframfærsluviðmið og uppfæra þau reglulega. Nauðsynlegt er að í frumvarpi til greiðsluaðlögunar komi fram raunhæf tillaga að greiðslum þar sem gert er ráð fyrir framfærsluþörf einstaklingsins og fjölskyldu hans. Jafnframt er mikilvægt að samræmis sé gætt að þessu leyti.“ Samkvæmt þessu gerði nefndin þá breytingartillögu á fyrirliggjandi frumvarpi til laga um umboðsmann skuldara að inn í 2. mgr. 1. gr. var bætt staflið d þar sem fram kemur að eitt hlutverk embættis umboðsmanns skuldara sé að útbúa framfærsluviðmið og uppfæra það reglulega.

Í 12. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar, þar á meðal að leggja fyrir á tímabilinu það fé sem er umfram framfærslukostnað. Eins og kærandi bendir á veitir þetta tiltekna ákvæði út af fyrir sig ekki nákvæmar leiðbeiningar um hvernig framfærslukostnaður skuli reiknaður. Hér verður að hafa í huga að þær aðstæður sem 12. gr. lge. varðar eru að skuldarinn hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa. Eins og áður hefur verið vikið að er um að ræða samninga sem að jafnaði fela í sér niðurfellingu krafna að samningstíma liðnum. Samningsferlið leggur þær skyldur á herðar skuldara að hann greiði svo mikið sem honum er unnt af kröfunum. Meðal annars í því skyni að gefa skuldara svigrúm til að leggja fyrir á meðan samningaumleitanir eru undirbúnar og yfirstandandi er lagt bann við því að kröfuhafar taki á móti greiðslum frá skuldara eða innheimti kröfur á hendur honum, sbr. 3. gr. lge. Til að það takist er ljóst að skuldari verður að stilla framfærslukostnaði sínum í hóf á þessu tímabili. Það er einnig mikilvægt að bæði skuldarar og kröfuhafar njóti jafnræðis að þessu leyti og því verður framfærslukostnaður skuldara að styðjast við fyrirfram ákveðið almennt viðmið. Í ljósi laga um umboðsmann skuldara, lögskýringargagna, lge. og þess sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að ekki er öðru viðmiði til að dreifa en framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Telur kærunefndin því að við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli beri að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur.

Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er einnig gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum til hagsbóta fyrir skuldara en á þann hátt er unnt að taka tillit til sérstakra eða ófyrirséðra kostnaðarliða viðkomandi skuldara.

Að mati umboðsmanns skuldara hefur kærandi gefið skýringar og lagt fram gögn vegna óvæntra útgjalda að fjárhæð 220.000 krónur vegna nauðsynlegra framkvæmda við rafmagn í íbúð hennar. Þá kveðst kærandi hafa lagt fyrir 800.000 krónur. Í málinu liggja ekki fyrir gögn vegna viðgerða á raflögnum og kærandi hefur ekki lagt fram gögn um sparnað. Verður því ekki tekið tillit til þess.

Kærandi hefur upplýst að hún hafi aðstoðað dætur sínar fjárhagslega á tímabili greiðsluskjóls. Er ekki heimilt að taka tillit til þessa við útreikning á sparnaði samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærandi fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja til hliðar 4.808.261 krónu á tímabilinu.

Er það því niðurstaða kærunefndarinnar að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 12. gr. lge., er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum