Hoppa yfir valmynd
15. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2013

Fimmtudaginn 15. júní 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 4. apríl 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 29. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 13. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. maí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. maí 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Kærendur skiluðu greinargerð 17. mars 2014.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1974 og 1970. Þau eru gift og búa ásamt tveimur sonum sínum, og uppkominni dóttur kæranda A í eigin 208 fermetra íbúð að C-götu nr. 44 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A starfar hjá X en kærandi B starfar hjá V ehf. Samanlagaðar ráðstöfunartekjur kærenda eru 456.926 krónur á mánuði.

Kærendur rekja greiðsluerfiðleika sína til íbúðarkaupa á árunum 2004 til 2005, atvinnuleysis, fákunnáttu í fjármálum og lélegrar ráðgjafar hjá banka.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 53.725.383 krónur. Kærendur stofnuðu til helstu skuldbindinga árin 2004, 2005, 2007 og 2008.

Kærendur lögðu fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 15. nóvember 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. júní 2011 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 2. október 2012 var þess óskað að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan frestun greiðslna stóð yfir með því að leggja ekki fyrir það fé sem var umfram framfærslukostnað þeirra og að hafa ekki greitt fasteignagjöld af fasteign sinni á greiðsluaðlögunartímanum.

Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að miðað við meðaltekjur kærenda hafi mánaðarleg greiðslugeta þeirra umfram framfærslukostnað verið 125.456 krónur þá 19 mánuði sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól hafi staðið yfir. Því hefði sparnaður þeirra átt að nema 2.383.664 krónum. Vegna samvistarslita kærenda hafi kærandi B búið í leiguhúsnæði frá því í september 2010 þar til í júní 2011 þegar kærendur tóku saman aftur og hafi kostnaður við húsnæðið verið um 60.000 krónur á mánuði. Ef miðað sé við að kærandi B hafi greitt 60.000 krónur á mánuði í húsaleigu frá desember 2010 til júní 2011, þ.e. alls 420.000 krónur, og að framfærslukostnaður hans hafi verið 120.000 krónur á mánuði eða samtals 840.000 krónur, séu það samtals 1.260.000 krónur. Miðað við þá útreikninga hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 1.123.664 krónur. Einnig kom fram í bréfi umsjónarmanns að þar sem kærendur hefðu ekki greitt þau fasteignagjöld sem þeim bar í greiðsluskjóli hefðu þau átt að geta lagt fyrir 380.152 krónur í viðbót á tímabilinu. Því hefðu kærendur átt að geta lagt fyrir 1.503.816 krónur.

Kærendur sendu umsjónarmanni ýmsa reikninga og yfirlit þar sem meðal annars var gerð grein fyrir kostnaði að fjárhæð 562.804 krónur vegna læknisþjónustu og lyfja. Þá upplýstu kærendur að þau hefðu farið í frí til útlanda. Kærendur hafi ekki lagt fram reikninga vegna húsaleigu. Einnig kom fram í bréfi umsjónarmanns að kærendur hefðu ekki greitt fasteignagjöld af fasteign sinni meðan á greiðsluskjóli hafi staðið. Því var það mat umsjónarmanns að kærendur hefðu einnig brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 10. október 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara barst svar kærenda með bréfi 28. nóvember 2012. Einnig lögðu kærendur fram gögn um ýmsan kostnað á tímabilinu.

Með ákvörðun 29. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge. Í ákvörðuninni kemur enn fremur fram að samkvæmt upplýsingum um tekjur og framfærslukostnað kærenda á 25 mánaða tímabili, frá byrjun desember 2010 til janúar 2013, hefði sparnaður þeirra átt að nema 3.841.091 krónu. Kærendur hafi aðeins lagt fram gögn til staðfestingar á kostnaði að fjárhæð 2.035.195 krónur en þau hafi ekki sýnt fram á að hafa lagt nokkuð til hliðar.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað þeirra þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur greina frá því að þau þjáist bæði af frestunaráráttu og félagsfælni en auk þess séu þau þunglynd. Hluti erfiðleika þeirra stafi af þessum veikindum. Einnig hafi faðir kæranda B glímt við mikil veikindi og hafi það lagst mjög þungt á kærandann.

Kærendur kvarta yfir málshraða umboðsmanns skuldara og umsjónarmanns. Þar að auki telja kærendur það hafi bitnað mikið á máli þeirra að skipt hafi verið um umsjónarmann á meðan greiðsluaðlögunar var leitað. Þau séu ósátt við að hafa aldrei fengið að hitta fyrri umsjónarmann sinn og telja að sá síðari hafi ekki sýnt nægan skilning á aðstæðum þeirra. Þá telji þau umsjónarmann ekki hafa unnið að máli þeirra gagnvart kröfuhöfum.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Þá sé í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 15. nóvember 2010 og hafi frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hafist á þeim degi. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í 25 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. desember 2010 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

 

Launatekjur 1. desember 2010 til 31. desember 2012 að frádregnum skatti 13.089.167
Barnabætur 2011 12.134
Vaxtabætur 2011 440.392
Endurgreiðsla ofáætlaðra gjalda 2011 4.206
Nettóbarnabætur 2012 122.784
Samtals 13.752.291
Mánaðarlegar meðaltekjur 550.092
Framfærslukostnaður á mánuði 396.448
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 153.644
Samtals greiðslugeta í 25 mánuði 3.841.091

 

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við hærri framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé að jafnaði játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjalda sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 550.092 krónur í meðaltekjur á mánuði á 25 mánaða tímabili sem notað sé til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 396.448 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Sé miðað við nýjustu mögulegu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum, minniháttar útgjöldum, enda liggi fyrir að heildarfjárhæð útgjalda hafi verið lægri sem einhverju nemi við upphaf frestunar greiðslna. Tekið sé mið af heildarfjárhæð útgjalda samkvæmt framfærsluviðmiðum septembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna einstaklinga og þrjú börn. Á þessum grundvelli sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 3.841.091 krónu á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 153.644 krónur á mánuði í 25 mánuði.

Kærendur hafi upplýst umsjónarmann um aukinn kostnað vegna þess að kærendur hafi haldið tvö heimili vegna skilnaðaráforma sinna. Reiknað hafi verið með auknum framfærslukostnaði að fjárhæð 1.260.000 krónur vegna þessa og komi sá kostnaður til frádráttar. Kærendur hafi lagt fram reikninga og önnur gögn vegna lækna- og lyfjakostnaðar að fjárhæð 548.927 krónur. Í framfærsluviðmiðum sé gert ráð fyrir að kostnaður vegna lyfja- og læknisþjónustu í hverjum mánuði nemi 16.628 krónum, þ.e. alls 415.700 krónur í greiðsluskjóli kærenda. Hafi þessi kostnaður kærenda numið 133.227 krónum á tímabilinu og sé tekið tillit til þess. Einnig hafi kærendur framvísað gögnum um kostnað vegna nauðsynlegs viðhalds á eign sinni að fjárhæð 179.643 krónur og vegna viðgerða á bifreið, að fjárhæð 46.625 krónur. Tekið sé tillit til þessa.

Kærendur hafi lagt fram yfirlit um úttektir á greiðslukort hjá nokkrum söluaðilum eldsneytis fyrir samtals 490.330 krónum til þess að sýna fram á aukinn kostnað vegna læknisferða. Ekki hafi verið fallist á þann kostnað þar sem í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara sé gert ráð fyrir um 63.425 krónum á mánuði til reksturs bifreiðar eða almenningssamgangna eða alls 1.585.625 krónum á því tímabili sem frestun greiðslna hafi varað.

Kærendur hafi ekki lagt fram gögn sem skýri hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 3.841.091 krónu á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir. Að frátöldum kostnaði sem kærendur hafi tilgreint og telja megi sem nauðsynleg heimilisútgjöld samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., samtals að fjárhæð 2.035.195 krónur, þá telji umboðsmaður skuldara kærendur ekki hafa veitt haldbærar skýringar á því að hafa ekki getað lagt fyrir allt að 1.805.896 krónur.

Fyrir liggi að kærendur hafi lengri vanrækt greiðslu fasteignagjalda. Nemi vanskilin 1.790.226 krónum samkvæmt gögnum málsins en um 578.720 krónur hafi fallið í gjalddaga frá því að frestun greiðslna hófst í nóvember 2010. Með þessu hafi kærendur stofnað til nýrrar skuldar í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og d-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og d-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í d-lið sama ákvæðis er kveðið á um að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Sú undantekning er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Með bréfi 2. október 2012 óskaði umsjónarmaður þess að umboðsmaður skuldara felldi greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunar­umleitanir kærenda niður 29. janúar 2013 grundvelli a- og d-liða 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar næga fjármuni á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja til hliðar 1.805.896 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 1. desember 2010 til 31. desember 2012. Kærendur hafa greint frá því að þau hafi bæði átt við veikindi að stríða og það sé meðal annars ástæða fyrir því að þau hafi ekki lagt nógu mikið fyrir. Einnig hafa kærendur lýst því yfir að þau séu ósátt við meðferð málsins og störf umsjónarmanns.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. desember 2010 til 31. desember 2010: Einn mánuður
Nettótekjur A 243.086
Nettótekjur B 486.890
Nettótekjur alls 729.976
   
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.247.102
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 270.592
Nettótekjur B 2.594.807
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 216.234
Nettótekjur alls 5.841.909
Mánaðartekjur alls að meðaltali 486.826


Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 3.560.257
NettómánaðartekjurA að meðaltali 296.688
Nettótekjur B 2.957.025
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 246.419
Nettótekjur alls 6.517.282
Mánaðartekjur alls að meðaltali 543.107

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.089.167
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 523.567

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. desember 2011 til 31. desember 2012: 25 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 13.089.167
Bótagreiðslur, vaxtaniðurgreiðsla og ofáætluð gjöld 2011 704.980
Bótagreiðslur og ofáætluð gjöld 2012 174.368
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 13.968.515
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 558.741
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 396.448
Greiðslugeta kærenda á mánuði 162.293
Alls sparnaður í 25 mánuði greiðsluskjóli x 162.293 4.057.315

 

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara lögðu kærendur fram upplýsingar og reikninga vegna útgjalda að fjárhæð 2.525.525 krónur sem sundurliðast svo:

 

   
Rekstur annars heimilis 1.260.000
Læknis- og lyfjakostnaður 548.927
Viðhald á eign 179.643
Viðhald bifreið 46.625
Greiðslur með greiðslukorti 490.330
Samtals 2.525.525

 

Fyrsti útgjaldaliðurinn er vegna þess að kærendur ráku tvö heimili á hluta tímabilsins en umboðsmaður skuldara reiknaði með auknum framfærslukostnaði að fjárhæð 1.260.000 krónur vegna þessa. Þessi kostnaður kemur til frádráttar. Kostnaður kærenda vegna læknisþjónustu og lyfja er samkvæmt framlögðum reikningum 548.927 krónur. Í framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara er gert ráð fyrir kostnaði vegna að læknisþjónustu og lyfja að fjárhæð 16.628 krónur á mánuði eða samtals 415.700 krónur á meðan frestun greiðsla hefur varað. Þar sem það liggur fyrir að kærendur hafi borið hærri kostnað sem nemur 133.227 krónum þá kemur sú fjárhæð til frádráttar. Í málinu hafa kærendur lagt fram reikninga vegna viðhalds á eign sinni að fjárhæð 179.643 krónur og vegna viðgerða á bifreið að fjárhæð 46.625 krónur. Koma þeir kostnaðarliðir einnig til frádráttar. Loks hafa kærendur lagt fram yfirlit yfir greiðslur með greiðslukorti hjá nokkrum söluaðilum eldsneytis, samtals fjárhæð 490.330 krónur, en að sögn kærenda er hér um að ræða aukinn kostnað vegna ferða til læknis. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara er gert ráð fyrir 63.425 krónum á mánuði til reksturs bifreiðar eða almenningssamgangna sem nemur samtals 1.585.625 krónum á því tímabili sem frestun greiðslna hefur varað. Verður því ekki fallist á þennan kostnaðarlið kærenda. Samkvæmt framansögðu hafa kærendur því sýnt fram á aukinn framfærslukostað sem nemur 1.619.495 krónum. Að þessu virtu hafa kærendur átt að geta lagt fyrir 2.437.820 krónur á tímabili greiðsluskjóls (4.057.315–1.619.495).

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur og leiðbeininga umsjónarmanns, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldari á að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stóð sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum svo sem rakið hefur verið. Kærendur hafa ekki sýnt fram á sparnað.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í öðru lagi byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að kærendur hafi stofnað til nýrra skulda vegna vanskila á fasteignagjöldum í greiðsluskjóli en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafa ekki tjáð sig um þetta atriði. Af gögnum málsins verður ráðið að kærendur hafa ekki staðið skil á fasteignagjöldum að fjárhæð 578.720 krónur sem til féllu eftir að heimild til greiðsluaðlögunar var veitt. Var þó gert ráð fyrir því í framfærsluútreikningum umboðsmanns skuldara að fasteignagjöld væru á meðal útgjalda kærenda á meðan frestun greiðslna stóð yfir, enda nær slík frestun ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge. Hafa kærendur því að mati kærunefndarinnar stofnað til nýrra skulda í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og er þar með fallist á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt því lagaákvæði.

Þar sem kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og d-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. verður að telja að umboðsmanni skuldara hafi þar með borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum