Hoppa yfir valmynd
28. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 65/2013

Fimmtudaginn 28. maí 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 13. maí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 26. apríl 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 24. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 30. maí 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 11. júní 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 22. ágúst 2013. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1968 og er fráskilinn. Hann er menntaður bakari og starfar hjá X ehf. Ástæður fjárhagserfiðleika kæranda eru einkum taldar hækkanir á afborgunum lána, aukinn framfærslukostnaður og tekjulækkun. Helstu skuldir eru vegna fasteignakaupa.

Kærandi og fyrrverandi eiginkona hans óskuðu greiðsluaðlögunar í sameiningu 13. september 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 19. júlí 2012 var þeim veitt sameiginleg heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 6. desember 2012 upplýsti umsjónarmaður að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hefðu tilkynnt að þau hefðu slitið samvistir og því væru forsendur fyrir sameiginlegri heimild þeirra til greiðsluaðlögunar brostnar. Hafi þau bæði lýst yfir vilja til að halda áfram greiðsluaðlögun hvort í sínu lagi.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 13. desember 2012 þar sem fram kom að leggja þyrfti fram tilgreind gögn til að unnt væri af afgreiða málið í tvennu lagi. Nánar tiltekið væri um að ræða vottorð sýslumanns vegna skilnaðar, fjárskiptasamning og undirritaða samþykkisyfirlýsingu. Var veittur fimmtán daga frestur til að koma umbeðnum gögnum til embættisins ella yrði umsókn synjað vegna ónógra gagna, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Samhljóða bréf var sent fyrrum eiginkonu kæranda. Frestur til gagnaöflunar var síðan framlengdur út janúar 2013. Starfsmaður embættis umboðsmanns skuldara hafði símasamband við kæranda 5. febrúar 2013 og ítrekaði beiðni um gögnin ella yrði málið fellt niður. Upplýst var að kærandi og fyrrum eiginkona hans hygðust leita til sálfræðings vegna forsjár með barni þeirra. Ekki yrði unnt að ljúka fjárskiptasamningi fyrr en eftir það. Hafi umboðsmaður skuldara þá óskað eftir því að kærandi upplýsti embættið um gang málsins.

Umboðsmaður óskaði upplýsinga um hverju liði samningi um skilnaðarkjör 21. mars 2013. Var því svarað að það ætti að vera hægt að vinna að skilnaðarsamningi. Embættið var síðan upplýst um það 2. apríl 2013 að álitsgerð frá sálfræðingi myndi liggja fyrir í síðasta lagi 5. apríl sama ár og þá yrði hægt að ganga frá skilnaðarsamningi. Þar sem ekkert hafi heyrst frá málsaðilum 11. apríl 2013 sendi embættið þeim tölvupóst og veitti lokafrest til 16. apríl 2013 til að koma umbeðnum gögnum til embættisins, ella yrði málið fellt niður.

Með bréfi til kæranda 26. apríl 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda og fyrrum eiginkonu hans niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hans.

Kærandi greinir frá því að í desember 2012 hafi kærandi og eiginkona hans ákveðið að slíta samvistir og óska skilnaðar. Með bréfi 13. desember 2012 hafi embætti umboðsmanns skuldara óskað eftir gögnum svo hægt væri að afgreiða umsóknir kæranda og fyrrum eiginkonu hans hvora í sínu lagi. Í því sambandi hafi verið óskað eftir vottorði sýslumanns vegna skilnaðar, fjárskiptasamnings og undirritaðrar samþykkisyfirlýsingar. Hafi kæranda verið veittur 15 daga frestur til að skila gögnunum. Kærandi hafi óskað eftir fresti fram í lok janúar 2013 til að leggja gögnin fram enda teldi hann 15 daga allt of skamman tíma til að semja um forsjá, umgengni og fjárskipti þar sem samvistarslitin hafi átt sér stað í sama mánuði. Embætti umboðsmanns hafi samþykkt þetta. Með tölvupósti 1. febrúar 2013 hafi kærandi tilkynnt embættinu að ekki hefði tekist að ná samningum um fjárskipti, forsjá og umgengni vegna deilna kæranda og fyrrum eiginkonu hans. Embættið hefði síðan veitt viðbótarfrest símleiðis.

Leita hefði þurft álits sálfræðings í forsjárdeilu kæranda og fyrrum eiginkonu hans. Hafi það enn frekar tafið gagnaframlagningu í málinu. Hafi embætti umboðsmanns skuldara verið haldið upplýstu um framgang málsins og ástæður þess að ekki hafi verið unnt að leggja fram umbeðin gögn. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi fengið tölvupóst frá embættinu 11. apríl 2013 um að fella ætti niður mál hans í vikunni á eftir. Með bréfi 26. apríl 2013 hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar síðan verið felld niður á þeirri forsendu að kærandi hafi ekki lagt fram umbeðin gögn og að fyrirliggjandi upplýsingar gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á greiðsluaðlögunartímabilinu.

Kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi slitið samvistir í desember 2012 og umboðsmaður skuldara hafi ákveðið að fella niður heimild hans til greiðsluaðlögunar 26. apríl 2013. Geri umboðsmaður kröfu um að á þessum tíma hafi náðst samningar um fjárskipti, forsjá og umgengni. Þegar aðilar deili um jafn mikilvæga hagsmuni sé fullkomlega óraunhæft að gera þá kröfu að samningum sé lokið á þessum tíma. Alþekkt sé að slíkir samningar geti tekið marga mánuði eða jafnvel ár. Ómögulegt sé að sjá hvers vegna umboðsmanni skuldara sé svo mikið í mun að taka ákvörðun sína jafn hratt og gerð sé krafa um í málinu. Hvorki sé að finna ákvæði í lge. né stjórnsýslulögum nr. 37/1993 um ákveðna fresti til að skila gögnum eða hafa uppi andmæli. Ástæða þess sé væntanlega sú að frestur sé veittur miðað við atvik máls hverju sinni og þá hagsmuni sem í húfi séu. Þess vegna eigi að miða fresti við mörk sem raunhæf séu fyrir hlutaðeigandi, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5261/2008.

Í tilviki kæranda verði að telja að þau gögn sem óskað sé eftir varði verulega hagsmuni og geti haft mikil áhrif á líf kæranda til frambúðar. Því sé ekki hægt að fara fram á að kastað sé til höndunum við töku slíkra ákvarðana eða þær teknar fyrr en eðlilegt sé vegna óraunhæfra og óeðlilegra krafna umboðsmanns skuldara. Ekki verði með neinu móti séð hvaða efnislegu rök leiði til þess að embættið hafi ekki veitt lengri frest til að leggja fram umbeðin gögn. Embættinu hafi verið haldið upplýstu um stöðu kæranda og símasamskipti við embættið hafi verið töluverð. Kærandi telji að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum hans byggist hvorki á málefnalegum, lagalegum né efnislegum rökum.

Þá telji kærandi það sérstakt að umboðsmaður skuldara geti einhliða og án fullnægjandi lagastoðar ákveðið óraunhæfan frest til gagnaöflunar þegar embættið sjálft hafi í flestum ef ekki öllum málum sem það hafi haft til meðferðar brotið lögboðinn frest til að afgreiða mál sem það hafi haft til meðferðar, sbr. 1. mgr. 7. gr. lge. Það lagaákvæði kveði á um að embætti umboðsmanns skuldara skuli taka ákvörðun um afgreiðslu umsóknar innan tveggja vikna frá því að hún liggi fyrir fullbúin. Verði að telja að slíkur tvískinnungur jaðri við valdníðslu af hálfu embættisins.

Með hliðsjón af því sem fram hafi komið beri að ógilda ákvörðun umboðsmanns um niðurfellingu á heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. segi að skylt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Kærandi og eiginkona hans hafi tilkynnt umsjónarmanni að þau hafi slitið samvistir. Því uppfylli þau ekki lengur skilyrði 3. mgr. 2. gr. lge. um að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu. Þau hafi óskað þess að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum hvort í sínu lagi. Eðli málsins samkvæmt þurfi þau að framvísa staðfestingu um að þau hafi í raun slitið samvistir. Það hafi kærandi og fyrrum eiginkona hans ekki gert þrátt fyrir beiðnir þar að lútandi.

Í 4. gr. lge. komi fram hvaða gögn skuli fylgja umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. skulu þar meðal annars koma fram sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð gjaldfallinna og ógjaldfallinna skulda. Forsenda þess að skuldastaða skuldara sem sótt hafi sameiginlega um greiðsluaðlögun sé skýr, eftir að umsjónarmanni sé tilkynnt um samvistarlist, sé að fjárskiptasamningi sé framvísað. Þess vegna hafi kærandi verið beðinn um að framvísa fjárskiptasamningi í bréfi umboðsmanns skuldara 13. desember 2012 en það hafi hann ekki gert.

Samkvæmt 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. þurfi yfirlýsing skuldara um að umboðsmanni sé heimilt að staðreyna gefnar upplýsingar og afla frekari upplýsinga að fylgja umsókn um greiðsluaðlögun. Þegar óskað sé eftir því að sameiginlegri umsókn sé skipt upp, sbr. 3. mgr. 2. gr. lge., þurfi hvor skuldari um sig að leggja fram nýja yfirlýsingu. Kærandi hafi verið beðinn um þetta í fyrrgreindu bréfi 13. desember 2012 en ekki framvísað nýrri yfirlýsingu.

Embætti umboðsmanns skuldara leggi áherslu á að sú skylda hvíli á umsækjendum um greiðsluaðlögun að afla nauðsynlegra gagna. Sérstaklega eigi það við um gögn sem ekki sé á færi annarra en umsækjendanna sjálfra að afla enda mikilvægt að þeir taki virkan þátt til að sem gleggst mynd fáist af fjárhag þeirra. Telji embættið þau gögn sem það hafi óskað eftir frá kæranda hafi verið þess eðlis að ekki hafi verið á færi annarra en kæranda að afla þeirra. Þá geri embættið kröfu til þess að umsækjendur bregðist eins fljótt við og kostur sé í ljósi þess að þeir njóti sérstakrar verndar gegn því að kröfuhafar beiti lagalegum ráðstöfunum á meðan umsókn þeirra sé til meðferðar.

Þar sem hvorki kærandi né fyrrum eiginkona hans hafi komið umbeðnum gögnum til embættisins, sbr. 3. og 11. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge., verði að telja að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar. Því hafi verið skylt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé stjórnvaldi heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til þess að kynna sér gögn máls, tjá sig um þau og koma frekari upplýsingum og gögnum til stjórnvalds áður en ákvörðun sé tekin í máli. Eins og fram hefur komið hafi kærandi verið beðinn um gögn með bréfi 13. desember 2012. Eftir það hafi honum verið veittir ítrekaðir frestir til að koma umbeðnum gögnum til umboðsmanns skuldara. Lokafrestur kæranda hafi verið til 16. apríl 2013. Því hafi kærandi alls haft um fimm mánuði til að koma gögnum til embættisins. Með tilliti til þeirra gagna sem óskað hafi verið eftir telji embættið að þeir frestir sem kæranda hafi verið veittir hafi verið í meira lagi rúmir og hæfilegir. Það liggi í hlutarins eðli að ekki sé hægt að semja um fjárhagslega endurskipulagningu með atbeina opinberra aðila en aðhafast á sama tíma ekki um fjárhagslegt uppgjör við fyrrverandi maka. Við þetta mat verði einnig að horfa til þess að kærandi hafi notið frestunar greiðslna á þessu tímabili og þar með sérstakrar verndar gegn ráðstöfunum kröfuhafa.

Varðandi skýringu á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. vísar umboðsmaður skuldara til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 5/2011, 6/2011, 20/2011, 24/2011, 30/2011 og 61/2011. Af úrskurðunum verði ráðið að rík skylda hvíli á skuldurum að leggja fram gögn og skýringar á tekjum sínum, eignum og fjárhagsstöðu að öðru leyti. Eigi það sérstaklega við að því leyti sem slíkar upplýsingar séu þess eðlis að skuldari geti einn aflað þeirra eða lagt fram gögn þeim til stuðnings.

Á þessu stigi sé kærandi ekki einn með aðild að málinu enda ljóst að kröfuhafar hafi lögmætra hagsmuna að gæta eftir að umsókn sé samþykkt. Það komi í hlut umboðsmanns skuldara að taka ákvörðun um hvort fella eigi niður heimild til greiðsluaðlögunarumleitana ef í ljós komi að skuldari uppfylli ekki lengur skilyrði laganna. Til að umboðsmanni skuldara sé unnt að sinna því beri embættinu að gæta að hlutverki sínu sem milligönguaðila og sem stjórnvaldi sem beri að fara að stjórnsýslulögum með málshraðaregluna að leiðarljósi enda brýnt að úr málinu verði leyst innan hæfilegs tíma, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fullyrðingar kæranda um ófullnægjandi lagastoð fyrir ákvörðun umboðsmanns skuldara að því er varði fresti í málinu séu úr lausu lofti gripnar.

Kærandi hafi ásakað embættið um að hafa ekki farið að gildandi frestum samkvæmt 1. mgr. 7. gr. lge. og að það hafi að auki gerst sekt um valdníðslu. Embætti umboðsmanns skuldara viti ekki dæmi þess að hafa vikið frá lögmætum fresti enda sé aðeins embættið sjálft bært til þess að meta hvenær mál sé fullrannsakað og umsókn um greiðsluaðlögun sé tilbúin til ákvörðunar. Mat embættisins sé að ekki hafi verið forsvaranlegt að veita frekari fresti á grundvelli staðhæfinga kæranda um ágreining sem kunni að verða leystur einhvern tímann í framtíðinni en óvíst sé hvort og þá hvenær það verði.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í 15. gr. segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skal gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Umsókn kæranda og þáverandi eiginkonu hans um greiðsluaðlögun var samþykkt 19. júlí 2012. Þau slitu samvistir og lýstu yfir skilnaði sínum í desember það ár en á þeim tíma leituðu þau greiðsluaðlögunar. Þau lýstu bæði yfir vilja sínum til að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum hvort í sínu lagi. Metur umboðsmaður skuldara það svo að til að unnt sé að halda greiðsluaðlögunarumleitunum áfram þurfi kærandi að leggja fram tiltekin gögn varðandi skilnaðinn. Í samræmi við það sendi embættið kæranda bréf 13. desember 2012. Kom þar fram að til að unnt væri að afgreiða mál kæranda og fyrrum eiginkonu hans hvort í sínu lagi þyrfti í fyrsta lagi að leggja fram vottorð sýslumanns vegna skilnaðar og staðfestingu þjóðskrár um sambúðarslit,í öðru lagi fjárskiptasamning og í þriðja lagi „undirritaðar samþykkisyfirlýsingar“. Í bréfinu kom einnig fram að yrði gögnum ekki skilað myndi umsókn um greiðsluaðlögun verða synjað vegna ónógra gagna, sbr. b-lið [1. mgr.] 6. gr. lge.

Í tölvupósti starfsmanns umboðsmanns skuldara til lögmanns kæranda 21. mars segir: „Ég þarf að fara að frétta eitthvað af þessu máli. Næsta skref hjá mér er að fella málið niður. Þau geta þá sótt um aftur þegar þau eru búin að koma sínum málum á hreint.“ Í svari lögmannsins til umboðsmanns skuldara sama dag var greint frá því að fyrir lægi niðurstaða frá sálfræðingi um umgengni og „[v]ið ættum því að geta farið að vinna í samningnum“. Starfsmaður embættisins svaraði þessu með tölvupósti og sagðist þurfa að „fá eitt[h]vað tímamark á þetta og ástæður fyrir því að þetta þurfi að taka svona langan tíma“. Einnig kveðst hann ekki getað veitt frekari frest nema sýnt sé fram á brýna ástæðu til þess. Þessu svaraði lögmaðurinn með tölvupósti 2. apríl 2013 þar sem greint var frá því að álitsgerð sálfræðings ætti að berast „í síðasta lagi nk. föstudag“ og þegar hún liggi fyrir eigi að vera hægt að ganga frá samningi. Í tölvupósti lögmanns kæranda til embættisins 3. apríl 2013 segir að ef sálfræðingurinn skili álitinu á föstudaginn „ætti að nást lending í málið samdægurs eða á mánudaginn“. Loks liggur fyrir tölvupóstur frá lögmanninum til embættisins 11. apríl 2013 þar sem lögmaðurinn kveðst búinn að „ítreka beiðnina“. Sama dag sendi starfsmaður embættisins tölvupóst til lögmannsins þar sem greint var frá því að málið yrði fellt niður næstkomandi þriðjudag hefði fjárskiptasamningur ekki borist.

Kærandi telur að embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki veitt honum nægilega langan frest til að framvísa gögnum. Að sögn kæranda slitu hann og fyrrverandi eiginkona hans samvistir í byrjun desember 2012. Eins og greint hefur verið frá felldi umboðsmaður skuldara niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar rúmum fimm mánuðum síðar eða 23. apríl 2013. Að mati kæranda gerði umboðsmaður skuldara kröfu til þess að kærandi og eiginkona hans næðu samningum um fjárskipti, forsjá og umgengni á þessum tíma. Þá segir kærandi að „þegar aðilar deila um jafn mikilvæga hagsmuni, líkt og raunin er í tilfelli skuldara, er fullkomlega óraunhæft að gera þá kröfu að aðilar sem standa í samvistarslitum hafi lokið samningum sín á milli á þessu tímabili. Enda alþekkt að samkomulag á milli hjóna um slíka hluti getur tekið marga mánuði, eða jafnvel ár.“

Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ákvæði er lýtur að málshraða. Í 1. mgr. hennar segir að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Í tengslum við málshraðaregluna ber að hafa í huga rannsóknareglu 10. gr. stjórnsýslulaga en mál þarf einnig að rannsaka á viðhlítandi hátt þannig að það verði nægilega upplýst áður en ákvörðun í því er tekin eða því vísað frá. Í þessu efni má vísa til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5617/2009 en þar segir: „Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er. Í ákvæðinu felst sá áskilnaður að aldrei megi vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Í lögunum er hins vegar ekki kveðið á um fastákveðinn afgreiðslutíma þar sem starfsemi, verkefni og aðbúnaður stjórnvalda er með ólíkum hætti. Það verður því að meta í hverju tilviki hvað teljist hæfilegur tími í þessu sambandi og þá með tilliti til umfangs máls. Í því sambandi verður sérstaklega að hafa í huga að sú skylda hvílir á stjórnvöldum að sjá til þess að málsatvik séu nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Það fer síðan eftir eðli og mikilvægi málsins, svo og réttarheimild þeirri sem er grundvöllur ákvörðunar, hve ítarleg rannsókn þarf að vera. Málshraðaregla 9. gr. stjórnsýslulaga setur hins vegar rannsókn máls ákveðin takmörk. Hefur rannsóknarregla 10. gr. því verið túlkuð þannig að stjórnvald þurfi að afla þeirra upplýsinga sem eru nauðsynlegar til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í máli. (Alþt. 1992−1993, A-deild, bls. 3294.).“ Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að stjórnvald beri ekki ábyrgð á þeim töfum sem verða á meðferð máls af völdum málsaðila, svo sem þegar málsaðili dregur að afhenda umbeðin gögn og veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru við úrlausn máls. Þannig telur kærunefndin að í lge. sé ekki að finna heimild til skuldara til þess að fresta einhliða máli sínu á kostnað kröfuhafa en heimildir kröfuhafa til aðgerða eru samkvæmt lge. takmörkunum bundnar á meðan leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt 11. gr. lge. Er það því mat kærunefndarinnar að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi verið í samræmi við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga og samkvæmt því hafi verið eðlilegt að setja kæranda fresti til gagnaöflunar. Í ljósi málsatvika telur kærunefndin að veittir frestir hafi ekki verið of skammir.

Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. kemur fram að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara. Í 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir meðal annars að í umsókn skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um fjárhæð skulda. Í 3. mgr. 4. gr. kemur fram að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggist greiðsluaðlögun að miklu leyti á því að skuldari greiði af skuldum sem hann hefur stofnað til að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að eignir og skuldir viðkomandi liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun og hvernig ráðstafa beri eignum.

Í máli þessu liggur fyrir að á sínum tíma taldi embætti umboðsmanns skuldara að þær upplýsingar sem kærandi og eiginkona hans létu sameiginlega í té með umsókn sinni væru fullnægjandi. Var þeim því veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Með tilkynningu sinni um skilnað í desember 2012 var grundvellinum óhjákvæmilega kippt undan sameiginlegum greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra þar sem eignum og skuldum bús er skipt á milli hjóna við skilnað. Frá þeim tíma skorti á þau skilyrði sem nauðsynleg voru til að unnt væri að gera frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda samkvæmt 16. gr. lge.

Í skýringum með frumvarpi til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Með hliðsjón af því sem fram hefur komið telur kærunefndin að skort hafi á að kærandi hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir lægi nægilega glögg mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Enda þótt mikilvægum fjárhagslegum réttindum sé ráðstafað með fjárskiptasamningi við skilnað telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ekki hæfilegt að skuldarar fái margra mánaða eða jafnvel ótímabundinn frest til að framvísa fjárskiptasamningi þegar um greiðsluaðlögunarumleitanir er að ræða. Telur kærunefndin rétt að aðilar beri sjálfir hallann af því ef ekki næst samkomulag um fjárskipti við skilnað innan eðlilegra tímamarka. Helgast það meðal annars af því að tilgangur lge. er að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjármál sín með aðstoð umboðsmanns skuldara. Í endurskipulagningu fjármála felst samkvæmt 1. gr. lge. að koma jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu með tilteknum aðgerðum, þar á meðal afhendingu eigna upp í skuldir og niðurfellingu skulda. Að mati kærunefndarinnar verður það ekki talinn hluti af endurskipulagningu fjármála að fresta máli um lengri tíma vegna óvissu er varða fjárhag skuldara. Í slíkum tilvikum verður því að telja að skuldari uppfylli ekki skilyrði lge. til að leita samnings um greiðsluaðlögun.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. og 16. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum