Hoppa yfir valmynd
21. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 101/2013

Fimmtudaginn 21. maí 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. júlí 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 13. júní 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. júlí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. ágúst 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. ágúst 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi 12. september 2013. Þær voru sendar umboðsmanni skuldara til kynningar með bréfi 19. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins til þeirra. Framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara barst með bréfi 20. september 2013. Var hún send kærendum með bréfi 30. september 2013 og þeim boðið að gera athugasemdir. Viðbótarathugasemdir kærenda bárust með bréfi 11. október 2013. Þær voru kynntar umboðsmanni skuldara með bréfi 15. október 2013. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru bæði fædd 1969. Þau eru gift og búa ásamt tveimur dætrum sínum á menntaskólaaldri í eigin 213 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 10 í sveitarfélaginu D.

Kærandi B er múrari og vinnur hjá X ehf. Kærandi A starfar hjá V ehf. Samtals eru ráðstöfunartekjur þeirra 698.474 krónur á mánuði vegna launa, leigutekna, barna- og vaxtabóta.

Að sögn kærenda má einkum rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2007 er fyrirtæki kæranda B hugðist reisa parhús á F stað. Ekkert varð af framkvæmdum þar sem fjármagn fékkst ekki til þeirra. Í kjölfarið varð kærandi B atvinnulaus.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 39.084.940 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2002, 2005 til 2006 og 2008.

Umsókn kæranda B barst embætti umboðsmanns skuldara 3. nóvember 2010. Með ákvörðun embættisins 17. maí 2011 var kæranda B veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hans. Umsókn kæranda A barst 14. október 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. október 2011 var kæranda A veitt heimild til greiðsluaðlögunar og mál kærenda sameinuð.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 23. apríl 2013 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil. Umsjónarmaður hafi óskað eftir gögnum frá kærendum 1. febrúar 2013. Meðal annars hafi verið óskað upplýsinga um sumarbústað kæranda B að G götu nr. 3 í sveitarfélaginu H. Við töku ákvörðunar um heimild til greiðsluaðlögunar hafi legið fyrir að kærandi B væri eigandi lóðarleiguréttinda á fyrrgreindu landi en ekki hefði komið fram að þar væri sumarbústaður. Hafi bústaðurinn því verið tilkominn eftir að kærandi B sótti um greiðsluaðlögun. Í símtali 7. mars 2013 hafi kærandi B greint frá því að hann hefði selt lóðarleiguréttindin 1. september 2010 fyrir 1.500.000 krónur en kvaðst ekki hafa átt bústaðinn. Hann hafi framvísað afriti af kaupsamningi og afsali vegna lóðarleiguréttindanna. Kærandi kvað kaupanda lóðarleiguréttindanna eiga bústaðinn. Þetta hafi þó ekki verið í samræmi við þinglýsingarbækur en kærandi B hafi verið þinglýstur eigandi bæði lóðarleiguréttindanna og bústaðarins. Að þessu leyti hafi umsjónarmaður talið að fjárhagur kærenda væri óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Umsjónarmaður hafi óskað eftir gögnum er sýndu greiðslu fyrir lóðarleiguréttindin og upplýsingum um hvað orðið hefði um þessa fjármuni. Gögn þar að lútandi hafi ekki borist.

Kærendur hafi ekki greitt fasteignagjöld frá því að þau sóttu um greiðsluaðlögun þrátt fyrir greiðslugetu en það sé í andstöðu við d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Umsjónarmaður hafi óskað skýringa á því hvers vegna fasteignagjöld af eignum kærenda við C götu nr. 10 í sveitarfélaginu D og I götu nr. 39 og 41 í sveitarfélaginu J hefðu ekki verið greidd eftir að kærendur komust í greiðsluskjól eins og skylt sé samkvæmt 12. gr. lge. Skuldir sem fallið hafi til í greiðsluskjólinu nemi rúmlega 1.000.000 króna. Kærendur hafi svarað því til að þau hafi ekki vitað að greiða ætti fasteignagjöldin í greiðsluskjóli.

Þá hafi umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum frá tollstjóra um stöðu opinberra gjalda X ehf. þar sem kærandi B sé stjórnarmaður. Samkvæmt yfirliti frá tollstjóra 8. apríl 2013 skuldi X ehf. 2.525.187 krónur vegna virðisaukaskatts. Félagið skuldi einnig 1.116.795 krónur vegna staðgreiðslu launagreiðanda og 428.475 krónur vegna staðgreiðslu tryggingagjalds. Séu þessar skuldir vegna áranna 2011 og 2012, þ.e. eftir að kærandi B hafi sótt um greiðsluaðlögun. Sem stjórnarformaður félagsins bæri kærandi B persónulega ábyrgð á því að staðið væri í skilum með þessi gjöld samkvæmt 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. og d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. geti þetta leitt til þess að greiðsluaðlögun verði ekki heimiluð. Hafi umsjónarmaður óskað skýringa á því hvers vegna ekki hafi verið staðið í skilum með þessi gjöld. Engin svör hafi borist.

Teldi umsjónarmaður að kærendur uppfylltu ekki lengur skilyrði til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr., b-lið 1. mgr. 6. gr. og d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum ábyrgðarbréf 14. maí 2013 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Annar kærenda hafi hringt til embættisins og komið sjónarmiðum sínum á framfæri.

Með bréfi til kærenda 13. júní 2013 felldi umboðsmaður skuldara niður ákvörðun sína um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að þau njóti áfram heimildar til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. Þá er jafnframt skorað á embætti umboðsmanns skuldara að aðgreina mál kærenda.

Kærendur mótmæla þeim fullyrðingum umboðsmanns skuldara sem efnislega röngum að þau hafi með hátterni sínu brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lge. Þau telji engar forsendur til þess að heimild þeirra til greiðsluaðlögunar sé felld niður á grundvelli 15. gr. laganna. Að auki sé því sérstaklega mótmælt að hin kærða ákvörðun skuli hafa verið tekin 13. júní 2013 eða einungis níu virkum dögum eftir að kærendum barst bréf umboðmanns þar sem þeim hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í málinu í ljós. Gagnaöflun hafi verið lýst lokið á grundvelli eins símtals sem annar kærenda hefði átt við starfsmann embættis umboðsmanns skuldara 7. júní 2013. Telja kærendur að með þessu hafi umboðsmaður skuldara látið hjá líða að sinna leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. og 10. gr. stjórnsýslulaganna með ásættanlegum hætti. Hafi kærendur í hvívetna verið reiðubúin til að gera grein fyrir máli sínu.

Þótt kærendur séu hjón beri þau hvort um sig ábyrgð á skuldum sínum og þau hafi sótt um greiðsluaðlögun hvort í sínu lagi. Mál þeirra hafi verið sameinuð en ekki sé að sjá nein undirrituð gögn í málinu sem sýni hvenær og af hverjum ákvörðun um að sameina málin hafi verið tekin. Það litla sem fyrir hendi sé virðist gefa til kynna að um hafi verið að ræða einhliða ákvörðun þeirra aðila sem séð hafi um málið. Ljóst sé að ekki liggi fyrir samþykki kærenda um sameiningu málsins. Þegar af þeirri ástæðu sé farið fram á að ákvörðun um niðurfellingu heimildar um greiðsluaðlögun verði felld úr gildi og embætti umboðsmanns skuldara gert að aðgreina málin að nýju, meðal annars með tilliti til andmælaréttar hvors aðila um sig en kæranda A hafi ekki verið gefinn kostur á því að andmæla þeim atriðum sem lúta að henni sérstaklega. Þá sé bent á að í umsókn kæranda A komi hvergi fram að til standi að sækja sameiginlega um greiðsluaðlögun með kæranda B, jafnvel ekki í þar til gerðum reit. Sjá megi skýrari vísbendingu um þetta á umsókn kæranda B þar sem merkt sé við reitinn „Sækir ein/n um“. Þannig sé skýrt af gögnum málsins að kærendur hafi ekki sótt sameiginlega um greiðsluaðlögun. Því sé óeðlilegt að telja það fullnægjandi rannsókn samkvæmt 5. gr. lge. og 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að fá svör hjá öðru þeirra um málefni sem varði þau hvort í sínu lagi. Á það sé bent að í greinargerð með frumvarpi til lge. sé kveðið á um skyldu umboðsmanns skuldara til að veita skuldara endurgjaldslausa aðstoð við útfyllingu umsóknar og öflun nauðsynlegra gagna. Kærendur telji ekki hægt að fella niður heimild þeirra beggja á óljósum grunni embættis umboðsmanns skuldara um að fjárhagur annars þeirra hafi verið óskýr. Þá hafi þeim ekki verið leiðbeint um hugsanlegar afleiðingar þess að vera sameiginlega í greiðsluaðlögun. Enn fremur hafi kærendur verið í góðri trú um að mál þeirra væri unnið bæði með sameiginlega hagsmuni þeirra að leiðarljósi en einnig með hagsmuni þeirra hvors um sig. Hafi embætti umboðsmanns skuldara borið að tryggja rétt þeirra hvors um sig. Í því sambandi dugi ekki að tilkynna öðru þeirra um afleiðingar og réttarstöðu.

Við niðurfellingu heimildar kærenda til greiðsluaðlögunar hafi þess ekki verið gætt að kærendur fengju gætt andmælaréttar síns. Í því samhengi sé bent á að ákvörðunin hafi verið send í einriti og eingöngu kærandi B hafi séð hana. Í framhaldi af þessu hafi kærandi B gefið skýr svör. Með því hafi hann talið sig hafa gert hreint fyrir dyrum þeirra hjóna með fyrirvara um gögn sem hann sendi vegna eignarhalds á sumarhúsi.

Umboðsmaður skuldara hafi byggt niðurfellingu sína umfram annað á tveimur forsendum, þ.e. að kærendur hafi stofnað til nýrra skuldbindinga á tímabili greiðsluskjóls og að fjárhagur þeirra sé óglöggur. Beri málatilbúnaður embættisins það með sér að fyrri forsendan leiði til þeirrar seinni og að með því að hafa stofnað til nýrra skulda teljist fjárhagur þeirra ekki lengur skýr. Kærendur hafi upplýst um þau atriði sem talin hafi verið óljós. Kærendur vísa til þess að tilkynning þar að lútandi hafi aldrei borist kæranda A enda hafi eingöngu verið sent eitt bréf sem hafi verið stílað á báða kærendur. Kærandi A hafi ekki móttekið bréfið. Þessi vinnubrögð samrýmist ekki góðum stjórnsýsluháttum.

Ólíkt því sem hafi verið í upphafi sé eignarhald sumarhúss nú ljóst og þinglýsing á réttan eiganda hafi farið fram. Þau svör sem kærendur hafi veitt í þessu sambandi hafi verið studd undirrituðum samningum og þau hafi verið í góðri trú um að þau væru fullnægjandi.

Þær skuldir sem kærendur hafi stofnað til í greiðsluskjóli séu fasteignagjöld vegna C götu nr. 10 í sveitarfélaginu D og I götu nr. 39 í sveitarfélaginu J. Kærendur hafi ekki vitað að þessi gjöld ætti að greiða á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur hafi ekki talið sig vera í stöðu til að gera upp á milli kröfuhafa með því að greiða sumum kröfuhöfum en öðrum ekki, án þess að fyrir hendi væru skýr fyrirmæli frá embætti umboðsmanns eða umsjónarmanni. Kærendur eigi sparifé að fjárhæð 1.000.000 króna og sé mögulegt að nota það til að greiða niður skuldir eins og fasteignagjöld.

Umboðsmaður skuldara hafi einnig byggt niðurfellingu sína á því að fyrir hendi sé skuld vegna opinberra gjalda félaga þar sem kærandi B hafi setið í stjórn og þannig borið ábyrgð á. Í greinargerð með lge. hafi sérstaklega verið fjallað um einstaklinga í atvinnurekstri. Af þeirri umfjöllun megi ráða að þeim skuli tryggð nauðsynleg úrræði til að geta staðið í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Í þessu samhengi sé vert að geta þess að um sé að ræða opinber gjöld sem ekki hafi verið komist hjá að stofna til í rekstri kæranda B. Kærendur séu ekki löglærðir og hafi ekki getað metið hvaða skuldir og gjöld þau hafi átt að greiða. Hafi þau þurft ráðgjöf frá embætti umboðsmanns skuldara eða umsjónarmanni til þess. Slíkar leiðbeiningar hafi skort.

Þannig hafi kærendur ekki verið meðvituð um að þau væru að fara á svig við gildandi reglur í greiðsluskjóli. Kærendur telji leiðbeiningarskyldu stjórnvalds sérstaklega ríka í þessu tilviki enda um að ræða fjárhagslegt heilbrigði kærenda sem séu undir hæl lánardrottna sinna. Eins og gögn málsins beri með sér hafi kærendur í öllum atriðum farið að leiðbeiningum og tilmælum aðstoðarmanna sinna og umboðsmanns.

Telja kærendur að embætti umboðsmanns skuldara hafi í engu svarað veigamestu athugasemdum þeirra.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærendur hafi gert athugasemd við að farið sé með umsókn þeirra sameiginlega þrátt fyrir að þau hafi sótt um greiðsluaðlögun hvort í sínu lagi. Bæði embætti umboðsmanns skuldara og umsjónarmenn hafi tíðkað það verklag að sameina umsóknir maka til að hægt sé að koma á samningi um greiðsluaðlögun. Þetta hafi verið gert þrátt fyrir að ekki sé fyrir hendi undirrituð beiðni um sameiningu umsókna. Í tilviki kærenda hafi kærandi A sótt um greiðsluaðlögun á eftir kæranda B þar sem um hafi verið að ræða sameiginlegar skuldir þeirra. Í umsókn kæranda A hafi engar upplýsingar verið nema nafn, heimili, kennitala, símanúmer og börn. Hún hafi ekki lagt fram upplýsingar um eignir, skuldir eða fjárhag. Ljóst sé að hefði kærandi A ætlað að sækja ein um greiðsluaðlögun hefði umsókn hennar ekki uppfyllt skilyrði 4. gr. lge. Frá upphafi hafi legið fyrir að um eitt mál væri að ræða. Kærendur hafi ávallt fengið upplýsingar í það netfang sem gefið hafi verið upp í umsókn kæranda B Einnig sé augljóst af gögnum málsins og þeim skjölum sem kærendur hafi fengið að um eitt málsnúmer sé að ræða enda hafi umsóknir kærenda frá upphafi verið meðhöndlaðar sem sameiginleg umsókn hjóna um greiðsluaðlögun. Ákvörðun embættisins um samþykki á umsókn kæranda A hafi til að mynda verið send og stíluð á nöfn beggja kærenda og með því vakin athygli á sameiginlegum skyldum þeirra. Einnig hafi verið unnið að frumvarpi sem augljóslega hafi verið sameiginlegt fyrir kærendur. Á þeim tíma sem greiðsluaðlögunarumleitanir hafi staðið yfir, eða allt frá 14. október 2011, hafi hvorugt kærenda gert athugasemdir við að umsóknir þeirra hafi verið sameinaðar. Hefðu kærendur í raun haft athugasemdir við sameiningu umsóknanna hefði þeim verið í lófa lagið að vekja athygli á því hvenær sem var við vinnslu málsins. Telja verði of seint að mótmæla þegar heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið felld niður og vinnslu málsins af hálfu embættisins lokið.

Af hálfu umboðsmanns skuldara sé vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. beri umsjónarmanni að tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Þá segi í 1. mgr. 16. gr. lge. að frumvarp til greiðsluaðlögunar skuli samið í samráði við skuldara. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu tilgreindar skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna standi yfir. Í d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. segi að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbinding sem stofnað sé til sé nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamnings að gera einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Enn fremur sé þörf á að afla sömu gagna þegar komi að mati umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge. Athafnaskylda skuldara að þessu leyti verði einnig leidd af 1. mgr. 16. gr. laganna.

Þrátt fyrir óskir umsjónarmanns hafi kærendur ekki gert grein fyrir þeim fjármunum sem lagðir hafi verið til hliðar á tímabili greiðslufrestunar, sbr. skyldur a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þau hafi ekki heldur gert grein fyrir því hvernig þau hafi ráðstafað söluhagnaði lóðarleiguréttinda að fjárhæð 1.500.000 krónur að öðru leyti en því að segjast hafa eytt fénu. Samkvæmt símtali við annan kærenda 7. júní 2013 hafi kærendur lagt töluvert fé til hliðar en hugnist ekki að leggja fram gögn því til stuðnings. Kærendur hafi kveðist tilbúin að leggja fram sparnað sinn fari málið þá leið sem best henti hagsmunum þeirra en annars ekki, enda myndi sparnaðurinn þá ekki bæta fjárhagslega stöðu þeirra. Þessi afstaða kærenda samrýmist ekki skýlausri skyldu þeirra til að leggja til hliðar fé til þess að nýta í uppgjöri við lánardrottna samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Óskað hafi verið eftir upplýsingum kærenda um raunverulegt eignarhald á sumarhúsi sem reist hafi verið á leigulóð kærenda eftir að greiðsluskjól hófst en sumarhúsið sé skráð eign kæranda B samkvæmt opinberri skráningu. Ekkert liggi fyrir um húsið annað en byggingarár þess sem sé skráð 2012 samkvæmt fasteignaskrá, kaupdagur 11. nóvember 2010 og verðmæti samkvæmt fasteignamati 27.370.000 krónur. Í símtali kæranda B við starfsmann umboðsmanns skuldara kvaðst hann ekki eiga sumarhúsið lengur þar sem hann hafi framselt lóðarleiguréttindin og væri húsið í eigu annars aðila. Gæti hann fengið staðfestingu þessa efnis frá viðkomandi og lagt fram samning um eigendaskiptin en ekki hefði verið mögulegt að þinglýsa samningnum þar sem kærandi B væri í greiðsluaðlögun.

Verði því að telja að óvissuþættir í máli kærenda séu slíkir að ekki sé mögulegt að fá heildarmynd af fjárhag þeirra án þess að frekari upplýsingar og skýringar berist. Fyrir liggi því að framlögð gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varði d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé byggt á því að kærandi B sé stjórnarformaður X ehf. og stjórnarmaður Y ehf. Félögin hafi stofnað til skulda á opinberum gjöldum á tímabili greiðslufrestunar. Um sé að ræða vanskil á virðisaukaskatti að fjárhæð 2.525.187 krónur, staðgreiðslu launagreiðanda að fjárhæð 1.860.490 krónur og tryggingagjaldi að fjárhæð 635.262 krónur. Að auki skuldi X ehf. fjármagnstekjuskatt vegna áranna 2011 og 2012 samtals að fjárhæð 530.908 krónur. Skuldir þessar séu byggðar á álagningu tollstjóra.

Kærandi B beri stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti hann þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskilanna. Að mati umboðsmanns skuldara sé það ekki skilyrði fyrir því að skuldir sem leitt geta til refsingar girði því aðeins fyrir heimild til greiðsluaðlögunar að refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 þar sem segi orðrétt: „Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.“

Af orðalagi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði ráðið að við beitingu þess ákvæðis eigi að fara fram samanburður á fjárhæðum þeirra skulda sem leitt geti til refsingar og fjárhag skuldara. Að mati umboðsmanns skuldara ráði hátt hlutfall umræddra skulda ekki eitt og sér úrslitum við mat á því hvort þær komi í veg fyrir heimild til greiðsluaðlögunarumleitana.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi skuldara verið synjað um greiðsluaðlögun samkvæmt samhljóða ákvæði eldri laga vegna virðisaukaskattskuldar að fjárhæð 1.780.437 krónur. Í dómi Hæstaréttar hafi farið fram heildarmat á aðstæðum skuldara þar sem fjárhæð vörsluskattskuldarinnar hafi verið borin saman við eigna- og skuldastöðu skuldarans. Í niðurstöðukafla dómsins sé meðal annars vísað til þess að skuldin nemi 8,3% af heildarskuldum skuldarans en ekki verði þó séð að það atriði eitt og sér hafi ráðið útslitum um niðurstöðu málsins. Hæstiréttur vísi einnig til þess að vörsluskattskuldin hafi ein og sér verið allhá auk þess sem fjárhagur skuldara hafi ekki verið talinn slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af honum.

Samkvæmt fyrirliggjandi yfirliti tollstjóra séu kröfur opinberra aðila á hendur félögum sem kærandi B sé ábyrgur fyrir alls 6.493.567 krónur. Þar af nemi ógreiddir vörsluskattar sem falli utan greiðsluaðlögunar samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge., þ.e. virðisaukaskattur og staðgreiðsla reiknaðra launa, alls 4.385.677 krónum. Heildarskuldir kærenda nemi alls 45.887.480 krónum og nemi skuld á fyrrgreindum sköttum því rúmlega 9,5% af heildarskuldbindingum kærenda. Sé litið til fjárhæða þeirra skuldbindinga sem kærandi B beri ábyrgð á vegna vanskila virðisaukaskatts og staðgreiðslu reiknaðra launa með hliðsjón af fjárhag kærenda verði að telja óhæfilegt að þeim sé veitt heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kærendum ábyrgðarbréf 14. maí 2013 þar sem þeim hafi verið gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi B hafi hringt til embættisins og greint frá því að hann myndi ekki leggja fram frekari andmæli eða gögn. Hafi hann því verið upplýstur um að heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður í kjölfar símtalsins hvað sem eignarhaldi sumarhúss liði þar sem kærendur hygðust ekki veita upplýsingar um ráðstöfun söluhagnaðar, hversu mikið þau hefðu lagt fyrir í greiðsluskjóli, vanskila fasteignagjalda og virðisaukaskattskulda fyrrnefnds félags. Kæranda B hafi einnig verið gert ljóst að embættið féllist á að hann hefði komið sjónarmiðum sínum á framfæri með símtalinu. Hafi þessar upplýsingar verið skjalfestar í svokölluðu samskiptaskjali sem fylgt hafi ákvörðun embættisins.

Að því er varði d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. liggi fyrir að kærendur hafi vanrækt greiðslu fasteignagjalda vegna fasteigna sinna allt frá árinu 2009. Frestun greiðslna hafi annars vegar hafist 2. nóvember 2010 og hins vegar 21. október 2011. Ógreidd fasteignagjöld vegna áranna 2011 til 2013 nemi alls 1.126.736 krónum auk dráttarvaxta og kostnaðar.

Embætti umboðsmanns telji að niðurfelling greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge. vegna formskilyrða standi ekki í vegi fyrir því að einnig sé vísað til annarra ákvæða lge. um niðurfellingu, hvort sem um form- eða efnisskilyrði sé að ræða. Lúti ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana öðrum lögmálum en þegar um sé að ræða ákvörðun um samþykki eða synjun umsóknar um greiðsluaðlögun. Sé ástæðan sú að formskilyrði hafi þegar verið talin uppfyllt við samþykki umsóknar og efnislegt mat þar með hafið í greiðsluaðlögunarferli. Beri embættinu skylda til að líta til allra þeirra atriða sem staðið geti í vegi fyrir áframhaldandi greiðsluaðlögunarumleitunum, sérstaklega ef um sé að ræða nýjar upplýsingar sem ekki hafi legið fyrir við töku ákvörðunar um samþykki á umsókn um greiðsluaðlögun. Upplýsingar um skuldir vegna opinberra gjalda, sem annar kærenda beri ábyrgð á, hafi ekki legið fyrir þegar ákvörðun um samþykki umsóknar var tekin þar sem til skuldanna hafi að mestu leyti verið stofnað eftir samþykki umsóknar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr., d-lið 2. mgr. 6. gr. og d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja umboðsmann skuldara ekki hafa sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í því sambandi gera kærendur athugasemd við að hin kærða ákvörðun skuli hafa verið tekin 13. júní 2013 eða aðeins níu virkum dögum eftir að kærendum barst bréf umboðmanns þar sem þeim hafi verið gefinn kostur til að leggja fram andmæli. Þá hafi gagnaöflun verið lýst lokið á grundvelli símtals sem kærandi B hafi átt við starfsmann embættis umboðsmanns skuldara 7. júní 2013.

Í málinu liggur fyrir að umsókn kæranda B barst embætti umboðsmanns skuldara 3. nóvember 2010 og var honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar 17. maí 2011. Umsókn kæranda A barst tæpum fimm mánuðum eftir að kæranda B var veitt heimildin eða 14. október 2011. Var kæranda A veitt heimild til greiðsluaðlögunar einni viku síðar eða 21. október 2011. Í þeirri ákvörðun er tekið fram að kæranda A sé „nú bætt inn í umsókn [kæranda B] um greiðsluaðlögun sem barst embættinu í október 2010“. Á þessum tíma hafði umsókn kæranda B þegar verið samþykkt, sbr. það sem greinir hér að framan.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af þessu leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði, svo sem að gera aðila viðvart ef hann hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum eða ekki veitt nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst þó ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í því er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi réttur varðar einkum upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.

Umboðsmaður skuldara er við meðferð máls bundinn af rannsóknarreglunni en rannsóknarregla 5. gr. lge. styðst við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt rannsóknarreglunni ber stjórnvaldi að rannsaka mál og afla nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik áður en ákvörðun er tekin í því. Í rannsóknarreglunni felst ekki að stjórnvaldi beri sjálfu að afla allra upplýsinga en stjórnvald getur beint þeim tilmælum til aðila að hann veiti tilteknar upplýsingar eða leggi fram gögn. Stjórnvaldi er nauðsynlegt að þekkja staðreyndir málsins til að geta tekið efnislega rétta ákvörðun. Það fer svo eftir eðli máls og gildandi réttarheimildum hverju sinni hvaða upplýsinga stjórnvaldi beri að afla um viðkomandi mál.

Þar sem embætti umboðsmanns skuldara hugðist sameina mál kærenda bar því að afla viðhlítandi upplýsinga til að unnt væri að meta hvort skilyrði væru til að sameina málin. Var þar með einn meginþáttur í rannsókn embættisins á máli kæranda A að afla viðhlítandi upplýsinga til að unnt væri að leggja mat á hvort þá þegar hefðu komið fram atriði sem bentu til þess að líkur væru á að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda B yrðu felldar niður. Að lokinni slíkri rannsókn hefði embættinu borið að greina kæranda A frá þeim upplýsingum sem fyrr lægju og gefa henni kost á að tjá sig um þær. Þetta var ekki gert.

Eitt þeirra atriða sem leiddu til niðurfellingar á heimild kærenda til greiðsluaðlögunar var vörsluskattskuld félagsins X ehf. Umræddar vörsluskattskuldir stafa frá árunum 2011 og 2012 og eru þessar í krónum:

 

  Upphafleg fjárhæð Fjárhæð 8. apríl 2013
Staðgreiðsla launagreiðanda 2011 662.169 866.244
Virðisaukaskattur 2011 1.705.829 2.214.835
Vörsluskattar 2011 alls 2.367.998 3.081.079
     
Staðgreiðsla launagreiðanda 2012 201.977 250.551
Virðisaukaskattur 2012 248.625 310.352
Vörsluskattar 2012 450.602 560.903
     
Samtals 2.818.600 3.641.982

 

Í málinu liggur fyrir að X ehf. var í vanskilum með virðisaukaskatt frá fyrsta gjaldatímabili ársins 2011 og staðgreiðslu launagreiðanda frá marsmánuði sama ár. Kærandi B bar stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Skattskyldur aðili skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti baka menn sér skuldbindingu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. ákvæði 2. og 9. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Á þeim tíma er umsókn kæranda A var lögð fram 14. október 2011 var X ehf. þegar í vanskilum með vörsluskatta. Í slíkum tilvikum er heimild til greiðsluaðlögunar jafnan hafnað eða eftir atvikum felld niður á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í þeim tilvikum er hjón eða sambýlisfólk hafa óskað greiðsluaðlögunar í sameiningu og annað þeirra ber ábyrgð á greiðslu vörsluskatta fer um hina sameiginlegu umsókn á sama hátt.

Af framangreindu má sjá að við þær aðstæður sem uppi voru í málinu voru það ekki hagsmunir kæranda A að umsókn hennar og kæranda B væru sameinaðar. Verður að telja að málsmeðferð embættis umboðsmanns skuldara hafi samkvæmt þessu verið áfátt í máli kæranda A þar sem henni var hvorki leiðbeint um þýðingu þess að sameina umsóknirnar né veitt færi á andmælum að því er varðaði úrslitaatriði í málinu. Telur kærunefndin því að embætti umboðsmanns skuldara hafi hvorki sinnt leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né gætt að andmælarétti kæranda A samkvæmt 13. gr. laganna.

Eins og mál kærenda liggur fyrir verður ekki leyst efnislega úr því.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að umboðsmaður skuldara hafi rannsakað málið á fullnægjandi hátt, sinnt leiðbeiningarskyldu sinni gagnvart kæranda A eða gætt að andmælarétti hennar. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum