Hoppa yfir valmynd
9. apríl 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2013

Fimmtudaginn 9. apríl 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 25. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. febrúar 2013 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 27. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. maí 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. maí 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 21. ágúst 2013. Athugasemdir bárust með bréfi 12. september 2013. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 16. september 2013 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 17. september 2013 tilkynnti embættið að ekki yrðu frekari athugasemdir gerðar.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1926. Hún er ein í heimili og býr í eigin íbúð að B götu nr. 27 í sveitarfélaginu C.

Kærandi er ellilífeyrisþegi og fær lífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóði verzlunarmanna. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hennar nema 185.610 krónum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 92.502.111 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2008.

Ástæður skuldasöfnunar má að mati kæranda rekja til mikillar hækkunar á lánum sem hvíla á fasteignum sem kærandi á með fyrrum tengdadóttur sinni. Eignirnar eru ætlaðar til útleigu.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 16. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. febrúar 2013 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ógildi ákvörðun umboðsmanns skuldara.

Kærandi bendir á að umboðsmaður skuldara hafi synjað henni um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. sem sé matskennt heimildarákvæði. Hér verði því að horfa heildstætt til málsatvika. Telji kærandi að mat á öllum atvikum málsins og aldri hennar leiði til þess að umsókn hennar verði ekki synjað á grundvelli þess lagaákvæðis. Nægi tekjur kæranda til þess að hún haldi heimili sínu.

Kærandi hafnar enn fremur því mati umboðsmanns skuldara að hún hafi hagað fjármálum sínum með ámælisverðum hætti sé tekið mið af veðstöðu og heildarskuldbindingum. Hún bendir á háan aldur sinn og kveður af því einu leiða að ríkari hagsmunir séu af því en ella að leyfa henni að leita samninga við kröfuhafa um greiðsluaðlögun.

Kærandi vekur athygli á misneytingarsjónarmiðum en málavextir allir styðji það að lán til kæranda hafi hvorki verið að hennar undirlagi né henni til hagsbóta. Beri í því sambandi að hafa aldur kæranda í huga. Einnig er bent á að kröfur kæranda séu tryggðar með fullnægjandi fasteignaveði sé tekið mið af höfuðstólsfjárhæðum lána. Hafi kærandi ekki frekar en aðrir séð fyrir mikinn vöxt verðbólgu með tilheyrandi áhrifum á skuldir. Sökum aldurs hafi kærandi ekki haft umsjón með sparnaði sínum. Sjáist það best af því að tekjur af fasteignunum hafi ekki runnið til hennar.

Kærandi eigi 100% hlut í einni fasteign sem sé 52,8 fermetrar. Þá eigi hún 50% eignarhlut í þremur fasteignum til viðbótar sem séu 52,9 fermetrar, 54 fermetrar og 98 fermetrar. Fasteignirnar séu allar að B götu nr. 27 í sveitarfélaginu C en þar haldi kærandi heimili. Kærandi eigi ekki aðrar teljandi eignir en sparnaður hennar liggi í þessum fasteignum. Ekki eigi að mismuna skuldurum vegna þess forms sem þeir velji sparnaði sínum. Eignasafn kæranda sé lítið og ekki meira en vænta megi af sparnaði í hartnær 90 ár. Sé það álit kæranda að sparnaður hennar verði ekki lagður að jöfnu við atvinnurekstur. Kærandi bendir einnig á að veðhafar hafi sjálfir metið tryggingar sínar nægilegar á útgáfudegi lána og að sparnaður hennar myndi duga til að mæta góðum endurheimtum fyrir kröfuhafa.

Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki svarað athugasemdum kæranda um hvers vegna fjárskuldbindingar hennar séu taldar til atvinnurekstrar en ekki sparnaðar. Meginreglan sé sú að leigutekjur af íbúðarhúsnæði færist til tekna utan atvinnurekstrar í skattframtali nema fyrningargrunnur nemi að minnsta kosti 29.324.700 krónum í árslok. Sjónarmið þessi séu skattalegs eðlis og varði skattlagningu fjármagnstekna og frádráttarbærs kostnaðar. Kæranda sé ókleift að halda fram rétti sínum gagnvart umboðsmanni skuldara án þess að fyrir liggi hvernig embættið skilgreini hugtakið atvinnurekstur. Gera verði kröfu um að fyrir liggi hlutlæg skýring á hugtakinu en ekki handahófskennd afstaða embættisins í hverju máli fyrir sig. Sé slíkt fallið til þess að takmarka rétt umsækjenda um greiðsluaðlögun og auka á ójafnræði í afgreiðslu mála.

Umboðsmaður skuldara telji að 71% skulda kæranda séu vegna atvinnurekstrar. Byggi embættið á óskráðri 70% viðmiðunarreglu sem það sæki úr úrskurði kærunefndar í máli nr. 56/2011. Nánar tiltekið að séu skuldbindingar af atvinnurekstri um það bil 70% af heildarskuldum sé það grundvöllur synjunar. Telur kærandi það brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga að byggja á slíku viðmiði ef leggja eigi til grundvallar fjárskuldbindingar sem ekki hafi verið endurreiknaðar. Ekki liggi þannig fyrir hverjar heildarskuldir kæranda séu.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Eigi þær ástæður sem raktar séu í ákvæðinu sameiginlegt að ekki geti talist viðeigandi að skuldari eigi þess kost að leita greiðsluaðlögunar ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Í frumvarpi með lge. segi að því sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga þó mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Enn fremur sé mikilvægt að einstaklingum sé gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem til þess sé fallinn að skapa heimili einstaklings raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar í framtíðinni. Jafnframt segi í frumvarpinu að vilji löggjafans sé ekki sá að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér greiðsluaðlögun. Líta beri til ákvæða 2. mgr. 6. gr. lge. í því sambandi.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum kæranda megi sjá í krónum tekjur hennar á árunum 2005 til 2008:

 

  2005 2006 2007 2008
Meðaltekjur á mán. (nettó) 141.301 126.463 146.446 154.180

 

Af gögnum málsins verði ráðið að greiðsluerfiðleikar hennar séu fyrst og fremst vegna skulda sem stofnað hafi verið til í tengslum við atvinnurekstur á árunum 2005 til 2008 en um sé að ræða útleigu fasteigna. Aðeins um 16% af skuldum kæranda stafi af skuldbindingum vegna eigin húsnæðis. Þá verði ekki séð af skattframtölum að tekjur af rekstrinum hafi runnið til kæranda né heldur séu skuldir vegna rekstrarins tilteknar á skattframtölum hennar. Gefi skattframtöl því ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu kæranda.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 hafi verið fjallað um skuldbindingar vegna atvinnurekstrar og hafi niðurstaðan verið sú að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli. 2. mgr. 6. gr. lge. hafi verið staðfest. Í niðurstöðukafla úrskurðarins sé meðal annars að finna eftirfarandi rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu: „Þá er þess enn fremur að gæta að tæplega 70% af skuldbindingum kæranda stafa frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.“

Einnig megi nefna úrskurð í máli nr. 26/2011 en þar hafi verið fallist á það með umboðsmanni skuldara að skuldsetning og áhættutaka kæranda vegna atvinnurekstrar hafi ekki verið í nokkru samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Í málinu hafi skuldir vegna atvinnurekstrar numið rúmlega 81.000.000 króna eða um 74% af heildarskuldum hans en tekjur þau ár sem til skoðunar voru hafi numið 276.428 krónum árið 2007 og 348.079 krónum árið 2008.

Telja verði að atvinnurekstri, lántöku og ábyrgðarskuldbindingum honum tengdum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé matsatriði í hverju tilviki hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til greiðsluaðlögunar. Í þessu máli sé ljóst að aðeins lítill hluti skulda stafi frá húsnæðiskaupum til eigin nota en aðrar skuldbindingar stafi að langmestu leyti frá atvinnurekstri, þ.e. kaupum á fasteignum til útleigu. Ýmsir áhættuþættir tengist viðskiptum sem felist í skuldsettum kaupum á fasteignum til útleigu, svo sem eftir atvikum gengissveiflur, verðbólga, sveiflur á fasteigna- og leigumörkuðum og innheimta leigu. Telja verði að áhættan sé meiri eftir því sem fjárhæðir séu hærri. Þá sé til þess að líta að mikil útgjöld fylgi mikilli fasteignaeign svo sem skattar, þjónustugjöld, tryggingaiðgjöld og viðhaldskostnaður. Ekki verði séð að eignastaða kæranda hafi verið svo sterk eða tekjur nægar til að mæta mögulegum áföllum.

Kæranda hafi verið sent bréf 16. janúar 2013 og henni gefinn kostur á að andmæla því mati embættis umboðsmanns skuldara að hún hefði með yfirtöku skulda er tengdust fasteignum og útleigu þeirra á árunum 2005 til 2008 tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hennar þegar til skuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi hafi svarað með bréfi 31. janúar 2013 en þar hafi meðal annars verið vikið að misneytingu þó ekki væri að finna haldbær gögn sem rennt gætu stoðum undir slíkt né hafi komið fram í hverju meint misneyting hafi falist eða hverjir hefðu beitt henni. Einnig liggi fyrir að kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun á sama tíma og meðeigandi hennar að fasteignunum.

Kærandi kveði sparnað sinn nægja til að mæta góðum endurheimtum fyrir kröfuhafa og að tekjur hennar dugi til þess að hún geti haldið heimili sínu. Umboðsmaður ítreki af þessu tilefni að greiðsluaðlögun sé ekki ætlað að leysa fjárhagsvanda sem fyrst og fremst megi rekja til atvinnurekstrar einstaklinga.

Í málinu hafi farið fram heildstætt mat á aðstæðum kæranda. Með þeim upplýsingum sem liggi fyrir hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi samrýmst fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem hún gekkst í skuldbindingar tengdar fasteignum. Hár aldur kæranda og félagsleg staða hafi komið til skoðunar við mat embættisins en í ljósi mikilla skuldbindinga, lágra tekna og niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í sambærilegum málum verði ekki hjá því komist að meta aðstæður kæranda þannig að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt því lagaákvæði er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum og fyrirliggjandi tekjuupplýsingum var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2005 til 2010 í krónum:

 

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó)* 141.301 126.463 146.446 154.180 170.760 172.282
Eignir alls 34.348.645 37.407.500 41.855.599 41.800.745 17.069.951 30.585.312
· B gata nr. 27 34.177.500 37.407.500 41.650.000 41.650.000 16.900.000 30.100.000
· Bankainnstæður 171.145   205.599 150.745 169.951 485.312
Skuldir 2.130.794 2.499.924 2.165.964 2.127.757 13.242.841 2.172.366
Nettóeignastaða 32.217.851 34.907.576 39.689.635 39.672.988 3.827.110 28.412.946

 

Ljóst er þó að skattframtöl vegna ofangreindra tekjuára gefa ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu kæranda þar sem ekki er gerð grein fyrir skuldum sem hvíla á fasteignum kæranda.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Íbúðalánasjóður 1990 Veðskuldabréf 1.306.776 1.244.924 2011
Íbúðalánasjóður 1991 Veðskuldabréf 911.036 924.462 2011
Íbúðalánasjóður 2005 Veðskuldabréf 2.000.000 3.557.716 2010
Íbúðalánasjóður 2006 Veðskuldabréf 7.000.000 12.933.350 2010
Íbúðalánasjóður 2006 Veðskuldabréf 5.000.000 8.487.725 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Veðskuldabréf 5.130.000 10.230.880 2009
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Veðskuldabréf 19.200.000 33.491.015 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Veðskuldabréf 6.311.000 8.095.782 2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Veðskuldabréf 2.389.000 4.397.410 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2007 Veðskuldabréf 3.090.000 5.773.612 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2008 Veðskuldabréf 1.940.000 2.576.449 2011
Arion banki 2011 Greiðslukort   208.096 2011
Reykjavíkurborg 2007–2011 Fasteignagjöld 412.955 554.868 2007–2011
Orkuveita Reykjavíkur 2011 Vatns- og fráveitugjöld 20.470 32.822 2011
    Alls 54.711.237 92.509.111

 

Framangreind veðskuldabréf eru tryggð með veði í fjórum eignarhlutum fasteignarinnar að B götu nr. 27, sveitarfélaginu C. Kærandi á að öllu leyti einn eignarhlutann en hina þrjá með fyrrverandi tengdadóttur sinni.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem sérstaklega skal líta til við mat á slíku. Þar eru taldar upp mögulegar ástæður synjunar sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða er c-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Á árinu 2006 tók kærandi lán samtals að fjárhæð 43.581.000 krónur. Mánaðarleg meðalgreiðslubyrði af höfuðstól lánanna var í fyrstu 110.100 krónur. Á þá eftir að taka tillit til vaxtakostnaðar en samkvæmt gögnum málsins má gera ráð fyrir að mánaðarlegar vaxtagreiðslur hafi numið að minnsta kosti jafn hárri fjárhæð. Þessar skuldir komu til viðbótar við þáverandi skuld kæranda við Íbúðalánasjóð, alls að fjárhæð rúmar 4.000.000 króna. Á þessu sama ári hafði kærandi að meðaltali 126.463 krónur til ráðstöfunar á mánuði samkvæmt skattframtali. Ljóst er af þessu að á árinu 2006 var kærandi greinilega ófær um að standa við þær skuldbindingar, sem hún stofnaði til, með tekjum sínum.

Sé nettóeignastaða kæranda reiknuð út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir um skuldir kæranda er niðurstaðan eftirfarandi í krónum:

 

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Höfuðstólsfjárhæð lána            
vegna B götu nr. 27 4.217.812 47.798.812 52.337.812 54.277.812 54.277.812 54.277.812
Nettóeignastaða samkvæmt            
skattframtali 32.217.851 34.907.576 39.689.635 39.672.988 3.827.110 28.412.946
Nettóeignastaða miðað við            
höfuðstólsfjárhæð lána            
á B götu 28.000.039 -12.891.236 -12.648.177 -14.604.824 -50.450.702 -25.864.866

 

Má af þessu ráða að strax á árinu 2006 hafi eignastaða kæranda orðið neikvæð. Þær skuldbindingar sem kærandi tókst á hendur voru svo háar að líta verður svo á að þær hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Ekki verður heldur séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika á að greiða af umræddum skuldbindingum ef á reyndi eftir atvikum með sölu eigna. Virðist hún þvert á móti hafa gengið út frá því að leigutekjur stæðu undir afborgunum áhvílandi lána.

Í málinu liggja ekki fyrir leigusamningar vegna fasteigna kæranda að B götu nr. 27 en samkvæmt veðbókavottorðum sem eru meðal gagna málsins er leigusamningum þinglýst á þrjá eignarhluta af fjórum. Sömu veðbókavottorð bera með sér að kærandi hafi eignast þrjá eignarhluta árið 1980 og þann fjórða 1999. Liggur þannig ekkert fyrir í málinu um að þau veðán sem kærandi tók á árinu 2006 tengist útleigu á eignunum. Telur kærunefndin því ekki unnt að slá því föstu að lántaka kæranda á því ári tengist útleigu á eignunum. Í málinu eru engin gögn er styðja það að aldur kæranda hafi haft áhrif á gerðir hennar á þeim tíma er hér skiptir máli.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það mat kærunefndarinnar að fjárhagsstaða kæranda hafi ekki verið með þeim hætti að hún hefði haft tilefni til að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árinu 2006. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að með því að takast á hendur fyrrgreindar skuldbindingar á árinu 2006 hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með hliðsjón af fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í sambærilegum málum og samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum