Hoppa yfir valmynd
26. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 172/2013

Fimmtudaginn 26. mars 2015

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 1. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. október 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. nóvember 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2014.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust 5. febrúar 2014.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1961 og 1966. Þau eru í sambúð og leigja jörðina að C við sveitarfélagið D.

Kærendur eru bændur og reka búrekstur sinn í félaginu X ehf. Útborguð laun þeirra eru 332.031 króna á mánuði en að auki eru mánaðarlegar leigutekjur þeirra 100.000 krónur. Alls hafa þau því 432.031 krónu til ráðstöfunar á mánuði.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína að mestu leyti til rekstrarerfiðleika búsins.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 60.546.754 krónur og falla 5.308 krónur þar af utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. nóvember 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. desember 2012 tilkynnti umsjónarmaður að fram hefðu komið upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil samkvæmt 15. gr. lge. Umsjónarmaður sendi lánardrottnum frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun samkvæmt 16. gr. lge. 21. september 2012. Lögðust tilteknir kröfuhafar gegn frumvarpinu þar sem tekjur kærenda þóttu ótrúverðugar þar sem félag í þeirra eigu, X ehf., hefði gert samning við sveitarfélagið D um skólaakstur til næstu fimm ára. Af þessu tilefni sendi umsjónarmaður kærendum bréf 16. nóvember 2012 þar sem hann krafðist frekari skýringa á launum kærenda á fyrrgreindum forsendum. Svar kærenda barst 6. desember 2012 en þar var gerð grein fyrir greiðslugetu kærenda miðað við laun og framfærslukostnað. Umsjónarmaður taldi þær upplýsingar ekki varpa ljósi á tekjur kærenda. Hann sendi kærendum tölvupóst þar sem fram kom að athygli vekti að tekjur félagsins væru háar en reiknuð laun kærenda lág. Á þessu kynnu að vera eðlilegar skýringar en þær þyrfti að leggja fram. Hann vildi fá upplýsingar um rekstrarstöðu félagsins, svo sem ársreikninga, rekstraráætlanir og launaseðla. Þá tók umsjónarmaður fram að þótt X ehf. væri sjálfstæður lögaðili væri félagið í eigu skuldara og bæri þeim að upplýsa um fjárhag sinn eins og óskað væri eftir. Kærendur hafi ekki framvísað viðhlítandi gögnunum. Að mati umsjónarmanns eigi b-liður 1. mgr. 6. gr. lge. við í málinu en þar segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nógu glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Einnig vísaði umsjónarmaður til d-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. en samkvæmt því lagaákvæði geti það hindrað að greiðsluaðlögun nái fram að ganga ef skuldari veiti villandi upplýsingar um mikilsverðar aðstæður í málinu af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. lge. skuli frumvarp samið í samráði við skuldara en þar sem kærendur hafi ekki veitt umsjónarmanni umbeðnar upplýsingar telji hann ekki unnt að meta fjárhagslega stöðu þeirra með fullnægjandi hætti.

Sendi umboðsmaður skuldara kærendum bréf 4. október 2013. Þar var þeim kynnt framkomið bréf umsjónarmanns og gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests áður en tekin yrði endanleg ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda. Í bréfinu var meðal annars óskað tiltekinna upplýsinga um félag kærenda X ehf., en samkvæmt ársreikningi félagsins hafi hagnaður af rekstri ársins 2012 numið tæpum 5.000.000 króna og eignir umfram skuldir séu tæpar 8.000.000 króna. Bent var á að héldu greiðsluaðlögunarumleitanir áfram þyrfti að skoða sölu eigna.

Svar kærenda barst með tölvupósti 10. október 2013. Þau vísuðu þar til þess að þau hefðu engu leynt um fjárhag sinn eða stöðu. Var því mótmælt að fjárhagur þeirra væri óglöggur en þau hefðu ekki fengið skýringar á því hvað teldist óskýrt varðandi fjárhaginn. Kærendur töldu ekki hægt að gera kröfu til þess að fjárhagur þeirra og félags í þeirra eigu færi saman en félagið væri sjálfstæð lögpersóna. Þótt félagið væri rekið með hagnaði leiddi það ekki til þess að kærendum bæri að greiða sér þá fjármuni sem laun eða arð. Slíkt yrði að vera í samræmi við lög um einkahlutafélög og lög um tekjuskatt. Rekstur félagsins væri sveiflukenndur og því þyrfti það að eiga sjóð til að mæta áföllum. Umboðsmaður skuldara gæti aflað upplýsinga um félagið hjá Creditinfo en rekstur félagsins væri persónulegum fjárhag kærenda óviðkomandi.

Með bréfi til kærenda 23. október 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfu í málinu en skilja verður kæru þeirra á þann veg að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast hafa lagt fyrir umboðsmann skuldara umbeðin gögn og upplýsingar. Þau hafi engu leynt varðandi fjárhag sinn eða stöðu. Kærendur mótmæli því að fjárhagur þeirra teljist óglöggur en þau hafi ekki fengið viðhlítandi skýringar á því hvað teljist óljóst varðandi fjárhag þeirra.

Það verði að sæta takmörkunum hvaða upplýsinga sé hægt að afla um fjárhag félaga í eigu kærenda, sérstaklega þegar ekki sé um einn eiganda að ræða. Það eitt og sér geti ekki leitt til þess að beiðni um greiðsluaðlögun kærenda verði hafnað að umboðsmaður skuldara telji að þeim beri skylda til að afla gagna sem erfitt sé að nálgast. Einnig verði að telja að embættið sjálft geti aflað gagna frá opinberum aðilum. Að því er varði ársreikninga og fjárhagsupplýsingar félags kærenda geti umboðsmaður orðið sér úti um þessi gögn hjá Creditinfo enda sé rekstur félagsins óviðkomandi persónulegum fjárhag kærenda.

Kærendur telja óskiljanlegt hvernig umboðsmaður skuldara og kröfuhafar geti gert kröfu um að félag í eigu kærenda og persónulegur fjárhagur þeirra eigi að fara saman eins og um sömu aðila væri að ræða. Félagið sé sjálfstæð lögpersóna og ekki hægt að gera kærendur ábyrga umfram það hlutafé sem þau hafi lagt í félagið. Þótt félagið sé rekið með hagnaði sé ekki hægt að gera kröfu til þess að kærendur taki fjármuni út úr félaginu eða greiði sér þá sem laun eða arð. Slík ráðstöfun fjármuna þurfi að vera í samræmi við lög um einkahlutafélög og lög um tekjuskatt. Rekstur félagsins sé sveiflukenndur og því þurfi félagið að geta mætt áföllum sem oft verði í hópbílaakstri.

Loks gera kærendur athugasemdir við að málið hafi dregist óhóflega.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í máli þessu ríki vafi um hvort mynd af fjárhag kærenda teljist nægilega glögg í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. en kröfuhafar hafi mótælt frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings á þeim grundvelli. Umsjónarmaður með greiðslu­aðlögunar­umleitunum kærenda hafi upplýst kærendur um framkomin mótmæli og óskað skýringa. Kærendur hefðu talið óljóst hvaða upplýsingar væri verið að biðja um. Umsjónarmaður hafi þá tilgreint að óskað væri eftir launaseðlum og einnig upplýsingum um rekstrarstöðu félags kærenda, svo sem ársreikningum eða rekstraráætlunum. Einnig hafi umsjónarmaður gert grein fyrir því að þótt félagið væri sjálfstæður lögaðili væri það í eigu kærenda og þeim bæri að upplýsa um fjárhag sinn eins og óskað væri eftir. Kærendur hefðu einungis svarað fyrirspurn umsjónarmanns með því að framvísa skjali sem sýndi greiðslugetu þeirra.

Að því er varði mótbáru kærenda um að óljóst sé hvað sé óskýrt varðandi fjárhag þeirra vísi umboðsmaður skuldara til þess að umsjónarmaður hafi tiltekið ýmis gögn sem varpað geti ljósi á málið. Einnig hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir tilgreindum upplýsingum, nánar tiltekið upplýsingum um eignir X ehf., rekstraráætlun og verksamningi sem félagið hafi gert við sveitarfélagið D. Engin gögn eða upplýsingar vegna þessa hafi borist en kærendur vísi til þess að umboðsmaður skuldara geti sjálfur orðið sér úti um upplýsingarnar.

Umboðsmaður skuldara geti ekki fallist á sjónarmið kærenda um að embættið geti útvegað sér umbeðin gögn. Að mati umboðsmanns séu gögnin þess eðlis að ekki sé á færi annarra en kærenda sjálfra að afla þeirra. Hver sá sem leiti greiðsluaðlögunar skuli veita umboðsmanni ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felist skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Rannsóknarskylda stjórnvalds leysi kærendur ekki undan þessari skyldu enda sé víða áréttað í lge. að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skulda- og eignastöðu sína, sbr. 2. og 3. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 16. gr. lge.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins fallist umboðsmaður skuldara á sjónarmið umsjónarmanns um að fjárhagur kærenda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og að ekki sé unnt að meta fjárhagslega stöðu þeirra nægilega vel. Hafi embætti umboðsmanns gefið kærendum kost á að bæta úr nefndum ágöllum og leggja fram viðhlítandi gögn. Þrátt fyrir leiðbeiningar hafi kærendur ekki framvísað fullnægjandi gögnum. Varð ekki hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar með vísan til 15. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. Í ákvæðinu segir að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en ákvörðun er tekin.

Í máli þessu telur umsjónarmaður að kærendur hefðu látið hjá líða að framvísa nauðsynlegum, umbeðnum gögnum. Um sé að ræða fjárhagsupplýsingar fyrir félagið X ehf. sem sé í eigu kærenda. Upplýsingar um fjárhag félagsins séu mikilvægar til að glögg mynd fáist af fjárhag kærenda í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Af þessum ástæðum beindi umsjónarmaður því til umboðsmanns skuldara að rétt væri að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður og gerði umboðsmaður það með ákvörðun 23. október 2013. Kærendur mótmæla því að fjárhagur félagsins hafi með framangreindum hætti haft áhrif á persónulegan fjárhag þeirra en telja jafnframt að umboðsmaður skuldara hefði sjálfur átt að útvega gögn um fjárhag og rekstur félagsins.

Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. laganna er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Þar er talið upp í ellefu töluliðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun. Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með skriflegum gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni skuldara sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðslu­aðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Í málinu liggur fyrir að kærendur eiga hluti í X ehf. og fá jafnframt laun frá félaginu. Samkvæmt skattframtali ársins 2010 vegna ársins 2009 keypti X ehf. bústofn og hluta af vélarkosti kærenda og tók við búsrekstri þeirra 1. júlí 2009. Aðrar upplýsingar um félagið liggja ekki fyrir. Ekki er upplýst hvort fleiri en kærendur eiga hluti í félaginu.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum var fjárhagur kærenda eftirfarandi árin 2008 til 2012 í krónum:

 

  2008 2009 2010 2011 2012
Eignir alls 39.181.738 33.316.026 28.167.002 33.336.760 35.384.767
· E 1 33.440.000 27.850.000 25.400.000 27.550.000 30.150.000
· F 4 602.000 602.000 602.000 662.000 713.000
· Ökutæki o.fl. 4.483.173 3.816.475 258.519 235.667 215.100
· Hlutir í X ehf. (nafnverð) 0 500.000 500.000 3.500.000 3.500.000
· Hlutir í öðrum einkahlutafélögum (nafnverð) 300.786 50.000 50.000 50.000 50.000
· Verðbréf o.fl. 171.965 362.654 594.429 633.911 661.824
· Bankainnstæður 183.814 134.897 762.054 705.182 94.843
Skuldir alls 38.711.935 48.519.060 49.785.001 58.503.019 64.968.397
· Íbúðarlán 33.388.058 37.373.477 40.691.071 45.076.221 50.079.885
· Skuldir umfram eignir í atvinnurekstri 5.323.877 8.531.207 0 0 0
· Aðrar skuldir 0 2.614.376 9.093.930 13.426.798 14.888.512
 




Nettó eignastaða 469.803 -15.203.034 -21.617.999 -25.166.259 -29.583.630

 

Eins og sjá má af ofangreindu voru eignabreytingar kærenda á tímabilinu annars vegar þær að ökutækjaeign þeirra minnkaði á árinu 2009 þegar þau stofnuðu X ehf. og hins vegar að hlutafé þeirra í X ehf. var aukið úr 500.000 krónum í 3.500.000 króna á árinu 2011. Þá bættu kærendur við sig skuldum á tímabilinu 2010 til 2012 en þar var fyrst og fremst um að ræða skuldir vegna yfirdráttarlána og opinberra gjalda. Skuldir vegna yfirdráttarlána voru 5.350.741 króna í lok ársins 2010, skuldir vegna opinberra gjalda námu rúmum 11.400.000 krónum í lok árs 2011 og rúmum 13.140.000 krónum í lok árs 2012. Þannig verður ekki séð að skuldir kærenda hafi minnkað samsvarandi þegar X ehf. tók yfir eignir frá kærendum árið 2009.

Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun öðrum þræði á því að eignir skuldara verði notaðar til þess að gera upp við kröfuhafa. Af þessum sökum er nauðsynlegt að eignastaða skuldara liggi ljós fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hvort skuldari á eignir umfram skuldir og þá með hvaða hætti skuli farið með eignir hans við gerð samnings um greiðsluaðlögun. Gildir hið sama um eignir skuldara í félögum og aðrar eignir. Fyrir liggur að ekki tókst að koma á samningi um greiðsluaðlögun vegna mótmæla kröfuhafa sem töldu að upplýsingar skorti um X ehf. sem er í eigu kærenda.

Kærendur telja að fjárhagur félagsins sé óviðkomandi persónulegum fjárhag þeirra. Á það verður ekki fallist þar sem kærendur sjálfir eru eigendur félagsins og þiggja laun frá því. Þess vegna er nauðsynlegt að gögn varðandi fjárhag félagsins og starfsemi þess liggi fyrir. Hefur það til dæmis þýðingu til að unnt sé að meta hvort og þá hvaða tekjur og/eða arð skuldari getur fengið úr félagi á tímabili greiðsluaðlögunarsamnings. Slíkt gæti til dæmis byggst á samningi er félagið kann að hafa gert um vinnuframlag skuldarans fyrir þriðja mann og endurgjald fyrir það vinnuframlag.

Þegar framanritað er virt verður að telja að kærendur hafi ekki lagt fram þau gögn er nauðsynleg eru til að staðreyna eignastöðu þeirra eins og þeim er skylt að gera samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Skorti því fullnægjandi upplýsingar til að gefa heildarmynd af fjárhag og greiðslugetu kærenda vegna frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 2. mgr. 16. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður samkvæmt 15. gr., sbr. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. og 1. og 2. mgr. 16. gr. lge. Kærunefndin telur einnig að b-liður 1. mgr. 6. gr. eigi við í málinu þar sem kærendur veittu ekki umbeðin gögn og upplýsingar. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum