Hoppa yfir valmynd
26. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2013

Fimmtudaginn 26. mars 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 20. febrúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 31. október 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 1. mars 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. mars 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 20. mars 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 21. ágúst 2013. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1951 og 1957. Þau eru gift og búa í eigin 301,4 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 53 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A starfar sem málari og hefur alls 146.271 krónu í mánaðarlegar ráðstöfunartekjur. Kærandi B er málarameistari og er með sjálfstæðan rekstur. Mánaðarlegar nettótekjur hans eru 126.936 krónur. Að auki fá kærendur mánaðarlega vaxtabætur að fjárhæð 50.000 krónur og 16.640 krónur í sérstaka vaxtaniðurgreiðslu. Ráðstöfunartekjur kærenda eru því 339.847 krónur á mánuði.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, veikinda, tekjulækkunar, hækkunar lána, ábyrgðarskuldbindinga, erfiðleika í rekstri fyrirtækis þeirra, afleiðinga efnahagshrunsins og kostnaðarsamra viðgerða vegna myglusveppa í húsi þeirra.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 61.365.365 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Að auki hafa kærendur tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar sem að mestu leyti eru vegna félagsins X ehf. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 og 2007.

Kærendur lögðu fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 17. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 31. október 2012 var umsókninni hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar og veiti þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærendur telja að líta beri til þeirra skuldbindinga sem þau hafi stofnað til á árinu 2008 með hliðsjón af stöðu þeirra og efnahagsástandinu sem þá ríkti. Fyrir þennan tíma hafi kærendur átt lítið veðsetta eign að C götu í sveitarfélaginu D og fjárhagsstaða þeirra hafi almennt verið góð. Þau hafi verið með sjálfstæðan rekstur, haft stöðuga atvinnu og næg verkefni. Þegar kærandi B hafi ákveðið að kaupa sig inn í félagið Y ehf. hefði það ekki átt að hafa í för með sér miklar skuldbindingar. Ætlunin hafi verið að tvinna saman rekstur félagsins og málarastarfsemi kæranda B en félagið hafi selt hurðir og leigt vélar og tæki. Hafi þetta átt að auka verkefni kæranda B. Á þessum tíma hafi verið mikill uppgangur á fasteignamarkaði og hafi kærendur því talið það góða fjárfestingu að kaupa atvinnuhúsnæði fyrir reksturinn. Hafi félagið því keypt iðnaðarhúsnæði að E götu í sveitarfélaginu D.

Þar sem kærandi B var menntaður iðnaðarmaður hafi kærendur talið það vænlegan kost að kaupa lóð undir íbúðarhúsnæði og selja síðar fasteign sína að C götu. Á þennan hátt hafi kærendur talið sig getað eignast verðmeira húsnæði án þess að bæta við sig miklum skuldum. Til að fjármagna kaup á lóðinni og byggingu hússins hafi þau tekið 25.000.000 króna lán í erlendri mynt.

Stuttu eftir kaupin hafi farið að bera á verkefnaskorti hjá kærendum og sala Y ehf. hafi minnkað mjög. Hafi kærendur talið um tímabundinn samdrátt að ræða og reynt að gera ráðstafanir til að komast í gegn um þetta tímabil. Hafi það haft í för með sér verulegt andlegt og líkamlegt álag fyrir kærendur. Hafi ástandið farið sérstaklega illa með kæranda B en hann hafi meðal annars glímt við mikinn kvíða og þunglyndi. Ástand hans hafi verið mjög óstöðugt, hann hafi átt erfitt með að stjórna skapi sínu og hafi ákvarðanir hans á þessum tíma borið þess merki að hann væri alls ófær um að bera ábyrgð á þeim. Á þessum tíma hafi hann gengist í verulegar persónulegar ábyrgðir fyrir félög sem hafi lítinn sem engan rekstrargrundvöll haft. Hluta þessara skuldbindinga muni hann ekki eftir að hafa tekist á hendur.

Til viðbótar hafi á þessum tíma komið í ljós að fasteign kærenda að C götu hafi legið undir verulegum skemmdum vegna myglusvepps. Hafi kærendur þurft að flytja tímabundið úr húsnæðinu, leigja annað húsnæði á meðan og taka lán til að fjármagna lagfæringar á eigninni.

Að því er varði skattskuldir Y ehf. bendi kærendur á að um áætlanir sé að ræða en unnið sé að því að leiðrétta þær. Um sé að ræða skuldir vegna áranna 2009 til 2011 en enginn rekstur hafi verið í félaginu á þeim tíma. Vegna þess að kærandi B sé haldinn miklum kvíða varðandi fjármál sín hafi það reynst honum erfitt að láta leiðrétta þessar áætlanir en hann hafi ekki áttað sig á að um refsiverða háttsemi væri að ræða.

Kærendur séu hvorki sérmenntuð á sviði laga né viðskipta og hafi því ekki fyllilega gert sér grein fyrir því hvað í ábyrgðarskuldbindingum hafi falist eða að raunhæfur möguleiki væri á því að skuldbindingarnar myndu falla á þau. Þeim skuldum og ábyrgðum sem kærendur hafi stofnað til á árinu 2008 hafi verið ætlað að standa tímabundið og hafi eingöngu verið til þess fallnar að bjarga þáverandi eignum kærenda. Telja megi víst að staða kærenda væri önnur og betri í dag ef einungis hefði verið um efnahagslegar þrengingar að ræða en ekki hrun.

Líkt og gögn málsins beri með sér hafi kærandi A ekki vitneskju um allar þær skuldbindingar sem kærandi B hafi gengist í. Ekki verði því séð að fyrir hendi séu ástæður til að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum beri að ógilda synjun umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Samkvæmt b-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt skattframtölum vegna áranna 2009 og 2010 og öðrum gögnum málsins hafi fjárhagur kærenda verið eftirfarandi á árunum 2008 og 2009 í krónum:

 

Tekjuár 2008 2009
Ráðstöfunartekjur* alls á mán. 223.186 231.567
Eignir 58.850.000 57.400.000
Skuldir 94.806.468 95.907.558
Framfærslukostnaður** 145.125 161.557

*Samanlagðar mánaðarlegar meðal tekjur eftir frádrátt skatts.

**Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara.

 

Á árinu 2008 höfðu kærendur þegar tekist á hendur að minnsta kosti þrjár veðskuldbindingar. Verði mánaðarleg greiðslubyrði þessara lána ekki áætluð undir 200.000 krónum sé miðað við að greiddar hafi verið 4.500 krónur af hverri milljón. Því sé ljóst að kærendur hafi skort að minnsta kosti 100.000 krónur mánaðarlega til að standa straum af persónulegum skuldbindingum og framfærslu og því ljóst að þau hafi verið ófær um að taka á sig frekari skuldbindingar. Kærandi B gekkst þó í sjálfskuldarábyrgð fyrir X ehf. 15. apríl 2008 vegna skuldar við Íslandsbanka að fjárhæð 112.657.063 krónur. Aftur gekkst kærandi B í sjálfskuldarábyrgð fyrir X ehf. 22. september 2008 og nam fjárhæð skuldbindingarinnar 3.000.000 króna. Engar upplýsingar liggi fyrir um stöðu félagsins á þeim tíma er gengist var í ábyrgðirnar þar sem ársreikningi félagsins fyrir árið 2008 hafi ekki verið skilað. Samkvæmt ársreikningi félagsins vegna ársins 2007 hafi fjárhagsstaða félagsins verið þessi í krónum:

 

  Árið 2007
Eignir 29.229.000
Skuldir 35.953.000
Eignastaða -6.724.000
Rekstrartap 13.209.000

 

Á árinu 2009 hafi áætluð greiðslubyrði lána verið 575.400 krónur á mánuði miðað við 6.000 króna greiðslu af hverri milljón. Mánaðarleg greiðslugeta kærenda hafi því verið neikvæð um 502.390 krónur. Þetta ár hafi kærandi B gengist í enn frekari ábyrgðir. Hafi það annars vegar verið sjálfskuldarábyrgð fyrir X ehf. að fjárhæð 11.000.000 króna. Fjárhagsstaða félagsins á þessum tíma liggi ekki fyrir þar sem ársreikningi félagsins vegna ársins 2009 hafi ekki verið skilað. Hins vegar hafi kærandi B gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir F að fjárhæð 21.000.000 króna en á þeim tíma hafi kærandinn verið kominn í persónuleg vanskil.

Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra 27. ágúst 2012 hvíli á kærendum skuldir vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu vegna félagsins Y ehf. en kærandi B hafi gegnt stöðu framkvæmdastjóra félagsins. Virðisaukaskattskuld nemi 2.986.699 krónum en til hennar hafi verið stofnað á árunum 2009 til 2012. Skuldin byggi á áætlun. Að auki hvíli á kærendum skuldir vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda að fjárhæð 1.605.185 krónur. Skuld vegna opinberra gjalda nemi alls 5.017.348 krónum.

Kærendum hafi verið sent ábyrgðarbréf 29. febrúar 2012 sem þau tóku á móti 2. júlí 2012. Í bréfinu hafi verið óskað eftir skýringum og gögnum vegna umræddra skuldbindinga. Jafnframt hafi kærendum verið gefinn frestur til að fara fram á það við ríkisskattstjóra að áætlun virðisaukaskatts yrði leiðrétt. Engin svör hafi borist frá kærendum og ekki hafi verið óskað leiðréttingar á fyrrnefndri virðisaukaskattskuld.

Á grundvelli fyrirliggjandi gagna og þess sem að framan er rakið sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Af gögnum málsins megi ráða að á árinu 2008 hafi kærendur verið orðin ógjaldfær en þrátt fyrir það hafi þau gengist undir frekari skuldbindingar. Við mat á því hvort áhætta felist í því að gangast í ábyrgðir fyrir þriðja mann verði að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig enda þurfi sá sem gengist hefur í ábyrgð að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum. Kærandi B hafi gengist í ábyrgðir að fjárhæð 126.657.063 krónur fyrir X ehf. á árunum 2008 til 2009 þegar tekjur hans hafi verið lágar og greiðslugeta neikvæð. Á grundvelli ársreiknings X ehf. vegna ársins 2007 verði ekki annað ályktað en að eignastaða félagsins hafi verið neikvæð á þessum tíma en ársreikningar vegna áranna 2008 og 2009 liggi ekki fyrir.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að á árunum 2008 til 2009 hafi kærendur verið ófær um að takast á hendur frekari skuldbindingar og tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast í ábyrgðarskuldbindingar, sbr. b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Þá sé óhjákvæmilegt að líta svo á að kærendur hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag þeirra sem varði refsingu, enda sé fjárhæð fyrrnefndrar virðisaukaskattskuldar og skulda vegna annarra opinberra gjalda allhá og fjárhagur kærenda ekki slíkur að skattskuldirnar geti talist smávægilegar með hliðsjón af henni, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli b-, c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar og veiti þeim heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi verði fallist á kröfur kærenda í málinu og af því leiðir að umboðsmanni skuldara ber að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kærendur telja að kærandi A hafi ekki haft vitneskju um allar þær skuldbindingar sem kærandi B hafi gengist undir. Því séu ekki fyrir hendi ástæður til að synja henni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Af þeim sökum beri að ógilda synjun umboðsmanns skuldara. Kærendur leituðu sameiginlega greiðsluaðlögunar, eins og þeim er heimilt að gera samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge., en virðast þrátt fyrir það telja að afgreiða megi mál þeirra sérstaklega og óháð stöðu meðumsækjanda. Í greinargerð með frumvarpi til lge. kemur fram að heimildin til að leita greiðsluaðlögunar í sameiningu samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lge. sé ætluð þeim sem séu í einhverjum mæli ábyrgir fyrir skuldum hvors annars. Kærendur leituðu greiðsluaðlögunar í sameiningu sem hjón og telur kærunefndin þau uppfylla skilyrði lagagreinarinnar til þess. Leyst verður úr máli þeirra í samræmi við það. Mál kæranda A kemur því ekki til úrlausnar óháð máli kæranda B nema til þess komi að hún leiti greiðsluaðlögunar sem einstaklingur.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til b-, c- og d-liða.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í lagaákvæðinu eru í sjö liðum rekin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þar eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða er d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar meðal annars á grundvelli þess ákvæðis.

Þær skuldir sem umboðsmaður vísar til í ákvörðun sinni og varða d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru neðangreindar skuldir félags sem kærandi B var í forsvari fyrir vegna virðisaukaskatts í krónum:

 

  Upphafleg fjárhæð Fjárhæð ágúst 2012
Y ehf.    
virðisaukaskattur 2009 980.000 1.473.366
virðisaukaskattur 2010   12.100
virðisaukaskattur 2011 1.275.000 1.490.333
virðisaukaskattur 2012   10.900
Samtals 2.255.000 2.986.699

 

Fyrir liggur samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá að á þeim tíma er hér skiptir máli var kærandi B framkvæmdastjóri og prókúruhafi Y ehf. Hvíldi því á honum sú skylda fyrirsvarsmanns félags, sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Frá þessu eru ekki undanþágur. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda B sem fyrirvarsmann Y ehf.

Að því er varðar ofangreindar virðisaukaskattskuldir verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Samkvæmt gögnum málsins er höfuðstóll vörsluskattskulda Y ehf. alls 2.255.000 krónur og heildarskuldin nemur alls 2.986.699 krónum með vöxtum. Með því að láta hjá líða að skila vörslusköttum hefur kærandi B bakað sér skuldbindingu með refsiverðri háttsemi í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt.  

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kærenda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kærenda neikvæð um rúmlega 12.500.000 krónur og tekjur þeirra nema alls 339.847 krónum á mánuði að meðaltali. Skuld sem kærandi B hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur 2.986.699 krónum með vöxtum eða 4,86% af heildarskuldum kærenda. Þetta er skuld sem telja verður allháa en hún fellur ekki undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi B hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í ofangreindu dómsmáli var skuldin vegna persónulegrar starfsemi skuldarans. Kærunefndin telur að hið sama eigi við hvort sem gjaldandinn er einstaklingur eða lögaðili, enda er lagaskylda manns til að skila vörslusköttum í ríkissjóð sú sama hvort sem hann er sjálfur gjaldandi eða gjaldandinn er lögaðili sem hann er í fyrirsvari fyrir.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að teljast verulegar miðað við fjárhag kærenda þannig að ekki sé hæfilegt að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum