Hoppa yfir valmynd
12. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2013

Fimmtudaginn 12. mars 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. janúar 2013 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 5. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. febrúar 2013. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 21. febrúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust 12. mars 2014.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1969. Hann er ókvæntur en kveðst vera í sambúð. Kærandi er skráður til heimilis að B götu nr. 17 í sveitarfélaginu D. Hann á fasteign að E götu nr. 31 í sveitarfélaginu D en það er 253,6 fermetra einbýlishús með bílskúr. Húsið leigir kærandi út fyrir 280.000 krónur á mánuði.

Kærandi starfar sem málarameistari. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans eru 631.535 krónur að húsaleigutekjum meðtöldum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 113.956.767 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) nema skuld að fjárhæð 83.871 króna. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007.

Ástæður skuldasöfnunar má að mati kæranda rekja til falls bankanna árið 2008 en þá hafi verkefnum hans fækkað mikið. Einnig hafi hann fest kaup á fasteign ásamt sambýliskonu sinni áður en þau hafi verið búin að selja eldri eign. Þau hafi því þurft að greiða af tveimur eignum í eitt og hálft ár.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Hann telur mat umboðsmanns skuldara á fjárhagsstöðu sinni árin 2006 og 2007 rangt þar sem hann hafi í reynd verið gjaldfær. Mikilvægt sé að kærunefndin endurmeti forsendur umboðsmanns skuldara. Kærandi mótmælir fullyrðingum um að hann hafi tekist á hendur skuldbindingar sem honum hafi verið óviðráðanlegar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Hér megi sjá í krónum greiðslustöðu kæranda á árinu 2006 samkvæmt skattframtali ársins 2007 fyrir tekjuárið 2006:

 

Tekjuár 2006
Nettómeðaltekjur kæranda á mánuði 66.793
Framfærslukostnaður á mánuði* 84.388
Annar kostnaður** 27.258
Greiðslugeta -44.853
Eignir kæranda 52.629.000
Skuldir kæranda 26.132.838
Eignastaða kæranda 26.496.162

**Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður einstaklings ásamt rekstri einnar bifreiðar miðað við neysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Kærandi taldi fram sem einstaklingur.

**Fasteignagjöld, tryggingar, rafmagn og hiti.

 

Árið 2005 hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 25.000.000 króna vegna húsnæðiskaupa en áætluð greiðslubyrði þess láns hafi verið 125.000 krónur á mánuði. Þrátt fyrir neikvæða greiðslugetu hafi kærandi tekið lán 21. nóvember 2006 að fjárhæð 10.500.000 krónur. Fyrsti gjalddagi lánsins skyldi vera 3. mars 2007.

Samkvæmt skattframtali kæranda 2008 fyrir tekjuárið 2007 hafi greiðslustaða kæranda á árinu 2007 verið eftirfarandi í krónum:

Tekjuár 2007
Nettómeðaltekjur kæranda á mánuði 112.713
Framfærslukostnaður á mánuði* 87.370
Annar kostnaður** 28.222
Greiðslugeta -2.879
Eignir kæranda 59.364.100
Skuldir kæranda 69.981.051
Eignastaða kæranda -10.616.951

**Áætlaður mánaðarlegur framfærslukostnaður einstaklings ásamt rekstri einnar bifreiðar miðað við neysluviðmið Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Kærandi taldi fram sem einstaklingur.

**Fasteignagjöld, tryggingar, rafmagn og hiti.

 

Á árinu 2007 hafi kærandi tekið lán að fjárhæð 20.000.000 króna en fyrsti gjalddagi lánsins skyldi vera 1. mars 2008. Á þessu ári hafi greiðslubyrði af húsnæðislánum kæranda verið 187.500 krónur á mánuði.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi umboðsmaður skuldara sent kæranda bréf 21. nóvember 2012 þar sem honum hafi verið gert viðvart um hugsanlega synjun á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem af gögnum málsins mætti ráða að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu og verið ófær um að takast á hendur frekari skuldbindingar á árunum 2006 og 2007. Hafi honum verið boðið að leggja fram frekari gögn og láta álit sitt í ljós.

Kærandi hafi komið á fund hjá embætti umboðsmanns skuldara 6. desember 2012 og tjáð sig um fyrrnefnt bréf. Hafi honum verið gerð grein fyrir því að hann þyrfti að leggja fram skrifleg svör og verið gefinn frestur til 14. desember sama ár til þess. Engin skrifleg andmæli hafi borist.

Af gögnum málsins verði ráðið að kærandi hafi ekki getað framfleytt sér með þær tekjur sem hann hafi samkvæmt gögnum málsins haft á árunum 2006 og 2007 hvað þá tekist á hendur nýjar skuldbindingar alls að fjárhæð 30.500.000 krónur. Með vísan til fyrirliggjandi gagna sé það mat embættisins að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu og verið ófær um að takast á hendur fyrrnefndar skuldbindingar á árunum 2006 og 2007. Sé því óhjákvæmilegt að synja umsókn kæranda með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2005 til 2010 í krónum:

 

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó)* 206.697 66.793 112.713 320.535 201.388 91.290
Eignir alls 70.818.026 52.629.000 59.364.100 58.879.859 59.182.954 49.516.061
· Fasteignir 69.285.000 49.370.000 56.356.000 56.152.000 56.708.000 49.502.000
· Bifreiðar 1.533.026 3.259.000 3.008.100 2.707.290 2.450.250  
· Bankainnstæður       20.569 24.704 14.061
Skuldir 45.184.019 26.132.838 69.981.051 92.038.450 100.762.126 106.851.551
Nettóeignastaða 25.634.007 26.496.162 -10.616.951 -33.158.591 -41.579.172 -57.335.490

*Ráðstöfunartekjur kæranda, þ.m.t. fjármagnstekjur.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða
      fjárhæð 2012
Arion banki 2005 Veðskuldbréf 25.000.000 45.264.395
Arion banki 2006 Erlent lán 10.500.000 15.850.053
Arion banki 2007 Veðskuldbréf 20.000.000 37.147.073
Landsbankinn 2008 Yfirdráttur 1.194.778 664.526
Arion banki   Yfirdráttur   13.446.456
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld 74.620 83.871
Tollstjóri 2011-2012 Virðisaukaskattur 1.302.500 1.500.393
    Alls 58.071.898 113.956.767

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að byggjast á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árinu 2006 tók kærandi erlent lán að fjárhæð 10.500.000 krónur. Miðað við gögn málsins var mánaðarleg meðalgreiðslubyrði lánsins í fyrstu 124.425 krónur. Kom þetta lán til viðbótar við 25.000.000 króna lán kæranda frá árinu 2005 en greiðslubyrði þess láns var 133.229 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda varð rúmar 257.000 krónur eftir töku lánsins árið 2006. Á þessum tíma voru mánaðarlegar tekjur kæranda 66.793 krónur að meðaltali en framfærslukostnaður og annar mánaðarlegur kostnaður samkvæmt neysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 111.646 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda var því neikvæð um tæpar 302.000 krónur. Á skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2006 er ekki gerð grein fyrir því láni sem kærandi tók þetta ár. Verður að taka tillit til þess þegar mat er lagt á eignastöðu kæranda en sé það gert voru nettóeignir kæranda um 16.000.000 króna. Verður því að ganga út frá því að kærandi hafi átt eignir fyrir skuldum árið 2006.

Árið 2007 tókst kærandi á hendur lán að fjárhæð 20.000.000 króna. Mánaðarleg meðalgreiðslubyrði lánsins var í fyrstu tæpar 176.000 krónur. Kom þetta lán til viðbótar við eldri lán sem kærandi hafði tekið 2005 og 2006. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda varð rúmar 430.000 krónur eftir töku lánsins árið 2007. Á þessum tíma voru mánaðarlegar tekjur kæranda 112.713 krónur að meðaltali en framfærslukostnaður og annar mánaðarlegur kostnaður samkvæmt neysluviðmiði 115.592 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda var því neikvæð um tæpar 430.000 krónur. Samkvæmt skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2007 voru skuldir kæranda umfram eignir rúmlega 10.600.000 krónur. Liggur því fyrir að kærandi gat hvorki greitt skuldir sínar með tekjum sínum né sölu eigna.

Eins og mál þetta er vaxið og með vísan til þess sem komið hefur fram telur kærunefndin að á árinu 2007 hafi kærandi tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta hans og eignastaða gaf tilefni til. Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á viðkomandi tímabili. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kæranda þegar hann stofnuðu til skuldbindinga árin 2006 og 2007. Launatekjur hans hefðu ekki dugað til greiðslu framfærslukostnaðar hvað þá afborgana af lánum. Þegar þetta er virt og að öðru leyti með vísan til atvika málsins, telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum