Hoppa yfir valmynd
5. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2013

Fimmtudaginn 5. mars 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 22. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 24. maí 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. maí 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 11. júní 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 25. júní 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1969 og 1970. Þau búa ásamt uppkomnum syni sínum í eigin íbúð að D götu nr. 28 í sveitarfélaginu E.  

Kærandi B er bakarameistari og starfar sem rekstarstjóri bakarís. Kærandi A starfar sem þjónustustjóri. Samanlagðar útborgaðar launatekjur þeirra eru 522.314 krónur á mánuði. 

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 73.424.939 krónur.

Kærendur rekja ástæður skuldasöfnunar til tekjulækkunar, lántöku vegna náms kæranda A, lántöku vegna atvinnurekstrar og kostnaðar vegna endurbóta á fasteign.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. október 2010 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með greinargerð umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 12. apríl 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum um að leggja til hliðar af launum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í greinargerð umsjónarmanns kom fram að kærendur hefðu aðeins lagt fyrir 100.000 krónur á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, stóð yfir eða frá 18. október 2010. Skýringar kærenda hafi verið á þá leið að þau hafi þurft að endurgreiða ættingjum og vinum lán og að þau hefðu keypt sér sumarferð. Umsjónarmaður lagði til við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana yrði felld niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 19. júlí 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Umboðsmanni skuldara bárust skýringar ásamt gögnum frá kærendum þar sem tilgreindur var kostnaður vegna tannlækninga.

Með bréfi til kærenda 4. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur óska þess að mál þeirra verði skoðað miðað við breyttar aðstæður. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja að óraunhæft hafi verið fyrir þau að leggja fyrir þá fjárhæð sem farið var fram á miðað við aðstæður þeirra á tímabilinu. Kærandi A hafi verið atvinnulaus í nokkra mánuði og hafi einungis fengið hálfar atvinnuleysisbætur. Þá komi það hvergi fram í lögunum að óheimilt sé að fara í sumarfrí.

Aðstæður kærenda hafi batnað og tekjur þeirra hækkað til muna. Kærendur telja það mistök að heimila þeim ekki samninga við kröfuhafa með greiðsluaðlögun enda myndi það þýða gjaldþrot þeirra. Kröfuhafar fengju þá mjög takmarkað greitt upp í kröfur sínar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla á meðan frestun greiðslna stendur yfir.

Umboðsmaður hafi sent öllum þeim sem nutu greiðsluskjóls bréf 8. apríl 2011 þar sem brýndar hafi verið fyrir þeim skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. lge. Enn fremur hafi upplýsingar um það verið að finna á heimasíðu embættisins. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 8. júlí 2011 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Hafi kærendum því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 25 mánuði miðað við tímabilið frá 1. nóvember 2010 til 31. desember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur frá 1. nóvember 2010 til 30. nóvember 2012 í krónum:

 

Launatekjur nóvember 2010 til nóvember 2012 að frádregnum skatti* 11.747.206
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 788.339
Samtals 12.535.545
Mánaðarlegar meðaltekjur 522.314
Framfærslukostnaður á mánuði -277.869
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 244.445
Samtals greiðslugeta í 24 mánuði 6.612.990

* Tekjur vegna desember 2012 liggja ekki fyrir.

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 522.314 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 24 mánaða tímabili sem notað er til viðmiðunar á þeim tíma er kærendur nutu greiðsluskjóls.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 277.869 krónur á mánuði á meðan þau nutu greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað desembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og eitt barn. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 6.612.990 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu 244.445 krónur á mánuði í 24 mánuði.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. ber umsjónarmanni einungis að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Þegar metið sé hvort umsækjandi hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé jafnan gert ráð fyrir nokkru svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum í hverjum mánuði. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi borið því við að ýmis útgjöld hafi komið til á tímabili greiðslufrestunar og hafi þau því ekki séð sér fært að leggja til hliðar. Hafi þau auk þess greitt af bílaláni í tiltekinn tíma, greitt til baka lán frá vinum og ættingjum og keypt sumarleyfisferð. Þessar skýringar hafi kærendur ekki stutt með fullnægjandi gögnum en samkvæmt þeim gögnum sem kærendur hafi lagt fram vegna hinna óvæntu útgjalda sé um að ræða vangoldna tryggingu auk læknis- og tannlæknakostnaðar. Tveir reikningar hafi verið frá Tryggingarmiðstöðinni hf. vegna vangoldinna trygginga frá árinu 2008 og 2009 en þeir hafi verið greiddir 21. október 2010, þ.e. áður en tímabil greiðslufrestunar hófst. Þriðji reikningurinn frá Tryggingarmiðstöðinni hf. sé vegna tryggingar sem þegar hefði verið gert ráð fyrir í framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara. Því hafi ekki verið tekið tillit til þessara reikninga. Kærendur hafi einnig lagt fram kvittanir og yfirlit vegna lækniskostnaðar, samtals að fjárhæð 29.559 krónur, en reikningar vegna lækniskostnaðar falli undir liðinn „læknis- og lyfjakostnaður“ samkvæmt fyrrgreindum framfærsluviðmiðum. Umsjónarmaður hafi þegar fallist á að tekið yrði tillit til tannlæknakostnaðar að fjárhæð 83.958 krónur. Kærendur hafi einnig lagt fram gögn vegna afborgana af bílaláni, sem greitt hafi verið í samráði við fyrri umsjónarmann, samtals að fjárhæð 328.000 krónur. Tekið sé tillit til þeirra greiðslna.

Samkvæmt framangreindu lækki sú fjárhæð sem kærendur hafi átt að geta lagt til hliðar á meðan greiðufrestun stóð yfir um samtals 411.958 krónur. Þá hafi kærendur átt samtals 606.313 krónur á bankareikningi sínum samkvæmt bankayfirliti. Kærendur hafi því gert grein fyrir alls 1.018.271 krónu af þeim 6.612.990 krónum sem miðað hafi verið við að þau hefðu getað lagt til hliðar á tímabili greiðslufrestunar. Ljóst þyki að útskýringar kærenda veiti aðeins upplýsingar um hluta þess fjár sem þau hafi átt að leggja til hliðar, eða því sem nemi um 15% af þeirri fjárhæð sem kærendum hefði alla jafna átt að hafa verið kleift að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Sú háttsemi kærenda að greiða vinum og ættingjum fé á meðan greiðslufrestun stóð yfir verði að teljast fela í sér mismunun kröfuhafa þar sem fjármunir sem ráðstafað var með þessum hætti hefðu getað gagnast lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Breyti þar engu um þótt greiðslurnar hafi verið til að endurgreiða lán frá umræddum aðilum.

Almennt sé talið að kaup á sumarleyfisferðum feli í sér brot á skyldum skuldara samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. þar sem um sé að ræða ráðstöfun sem skaðað gæti hagsmuni lánardrottna. Við mat á slíkri ráðstöfun skuli líta til þess hvort skuldbinding sem stofnað var til hefði verið nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Kærendur hafi útskýrt umrædda ráðstöfun með þeim hætti að ferðin hafi verið nauðsynleg til styrkingar heilsu annars kæranda. Embættið telur að ekki hafi verið nauðsynlegt að afla læknisfræðilegra gagna um nauðsyn slíkrar ferðar, þar sem ráðstöfun þessi hafi ekki ráðið úrslitum við mat á því hvort kærendur hafi staðið við skyldur sínar samkvæmt 12. gr. lge. Enda þótt embættið hefði fallist á að umrædd ráðstöfun hefði verið nauðsynleg sé ljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og framangreindum útreikningum að töluvert beri á milli annars vegar þeirrar fjárhæðar sem lögð hafi verið til hliðar eða sýnt hafi verið fram á með gögnum að hafi verið nauðsynleg útgjöld og hins vegar þeirrar fjárhæðar sem reiknað hafi verið með að kærendur gætu lagt til hliðar á tímabili greiðslufrestunar. Breyti því útgjöld vegna sumarleyfis engu þar um.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 12. apríl 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Fór umsjónarmaður þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 4. janúar 2012.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls og í öðru lagi að kærendur hafi greitt ættingjum og vinum fé á sama tímabili.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldu sína til að leggja fjármuni til hliðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafa kærendur átt að leggja til hliðar 6.612.990 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 25. október 2010 til 4. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 244.445 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Kærendur hafi lagt fram skýringar og kvittanir vegna ýmiss kostnaðar, samtals að fjárhæð 411.958 krónur, auk bankayfirlits sem sýni fram á sparnað sem nemi 606.313 krónum.

Kærendur kveðast ekki hafa haft tök á því að leggja fyrir í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem þau hafi greitt vinum og ættingjum lán, keypt sumarleyfi og greitt ýmsan kostnað.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2010: 2 mánuðir
Nettótekjur A 408.612
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 204.306
Nettótekjur B 636.881
Nettómánaðartekjur Bað meðaltali 318.441
Nettótekjur alls 1.045.493
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 522.747
   
Tímabilið 1. janúar 2011 til 31. desember 2011: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.409.173
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 117.431
Nettótekjur B 3.640.710
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 303.393
Nettótekjur alls 5.049.883
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 420.824
   
Tímabilið 1. janúar 2012 til 31. desember 2012: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.528.634
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 210.720
Nettótekjur B 3.888.003
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 324.000
Nettótekjur alls 6.416.637
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali 534.720

 
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.512.013
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 500.481

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. nóvember 2010 til 31. desember 2012: 26 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 12.512.013
Bótagreiðslur 788.339
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 13.300.352
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 511.552
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 277.869
Greiðslugeta kærenda á mánuði 233.683
Alls sparnaður í 26 mánuði í greiðsluskjóli x 233.683 6.075.758

 

Kærendur hafa gefið viðhlítandi skýringar og lagt fram gögn vegna útgjalda að fjárhæð 411.958 krónur auk bankayfirlits sem sýndi fram á sparnað að fjárhæð 606.313 krónur, samtals 1.018.271 króna.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra um tekjur kærenda á tímabilinu 1. nóvember 2010 til 31. desember 2012 auk upplýsinga um vaxtabætur, barnabætur og sérstakar vaxtaniðurgreiðslur var greiðslugeta kærenda 233.683 krónur á mánuði að teknu tilliti til áætlaðs framfærslukostnaðar frá því að þau lögðu inn umsókn um greiðsluaðlögun 25. október 2010 og þar til greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður 4. janúar 2013.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að teknu tilliti til sparnaðar og óvænts kostnaðar, samtals að fjárhæð 1.018.271 króna, vantar 5.057.487 krónur upp á sparnað kærenda. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. er skuldurum óheimilt, á saman tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt skýringum kærenda þá greiddu þau á tímabili greiðsluskjóls vinum og ættingjum ótilgreinda fjárhæð vegna endurgreiðslu lána. Sú ráðstöfun var ekki nauðsynleg til að sjá kærendum eða fjölskyldu þeirra farborða, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., og telst því brot á skyldum kærenda samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem söfnuðust fyrir í greiðsluskjóli sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum