Hoppa yfir valmynd
5. mars 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 16/2013

Fimmtudaginn 5. mars 2015

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 23. janúar 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 16. janúar 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 31. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 14. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir og gögn frá kærendum bárust með tölvupósti 20. febrúar 2013. Með bréfi 21. febrúar 2013 sendi kærunefndin umboðsmanni skuldara athugasemdir og gögn kærenda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1953 og 1960. Þau búa ásamt syni sínum í eigin 103,6 fermetra húsnæði að D götu nr. 8 í sveitarfélaginu E. Kærendur eru bæði öryrkjar. Samanlagðar útborgaðar tekjur þeirra eru að meðaltali 364.919 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 31.752.216 krónur og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2009.

Kærendur rekja skuldasöfnun sína til veikinda kæranda B sem hefur verið óvinnufær síðan í september 2010.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 9. júní 2011. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. febrúar 2012 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Umsjónarmaður tilkynnti umboðsmanni skuldara með greinargerð 24. ágúst 2012 að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum um að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. þrátt fyrir jákvæða greiðslugetu um 170.000 krónur á mánuði. Umsjónarmaður lagði til við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 5. september 2012 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur komu á fund starfsmanns umboðsmanns skuldara þar sem þau lögðu fram gögn um óvæntan kostnað umfram framfærslu vegna bílaviðgerða, tannlækninga, lækninga og viðhalds á húsnæði. Þá kom fram á fundinum að kærendur hefðu greitt afborganir af láni sonar þeirra sem var í námi erlendis.

Með bréfi til kærenda 16. janúar 2013 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að mál þeirra verði endurskoðað. Skilja verður þetta svo að kærendur krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur telja flestar tölur í ákvörðun umboðsmanns skuldara rangar. Einnig er því haldið fram af hálfu kærenda að samningsferli við bankanna hafi ekki verið fullnægjandi. Þá fara kærendur fram á að lánum verði breytt, hluti þeirra felldur niður og þeim gert kleift að borga af þeim.

Að mati kærenda hafi það verið óraunhæft að leggja fyrir þá fjárhæð sem umboðsmaður skuldara hafi farið fram á. Ef hægt hefði verið að leggja þá fjárhæð fyrir hefðu kærendur alveg eins getað greitt af lánum.

Kærendur kveðast ítrekað hafa lagt fram læknisvottorð fyrir kæranda B sem sé óvinnufær. Einnig hafi kærandi A verið óvinnufær vegna veikinda.

Kærendur benda á að bæklunarlæknir telji batahorfur kæranda B frekar litlar og því sjái kærendur ekki fram á að eiga mikla möguleika á að auka tekjur sínar.

Með kæru barst meðal annars eftirfarandi yfirlit kærenda um kostnað vegna ársins 2012 í krónum:

 

  Á ári Á mánuði
Rafmagn          108.000          9.000 
Matur       1.204.080      100.340 
Tryggingar          228.000       19.000 
Hússjóður og hiti          140.640        11.720 
Eldsneyti á bifreið          360.000        30.000 
Rekstur á bifreið            95.000          7.917 
Varahlutir og viðgerðir á bifreið          180.000        15.000 
Kostnaður vegna skóla            50.000          8.300 
Fasteignagjöld            75.000          7.500 
Sími          240.000        20.000 
Tómstundir          360.000        30.000 
Föt og skór          206.880        17.240 
Jólagjafir 6 börn og 5 barnabörn            55.000          4.583 
Samtals     3.302.600    280.600 

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í c-lið sama ákvæðis komi fram að skuldari megi ekki á sama tíma láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Kærendur hafi sótt um heimild til greiðsluaðlögunar 9. júní 2011 og þá hafi frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. hafist auk þess sem skyldur samkvæmt 12. gr. hafi einnig tekið gildi frá þeim degi. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun hafi verið kynntar skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. við umsókn. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun 3. febrúar 2012 sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjenda. Umræddar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Hafi kærendum því mátt vel vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 18 mánuði en miðað sé við tímabilið 1. júlí 2011 til 30. nóvember 2012. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft eftirfarandi tekjur á framangreindu tímabili í krónum:

 

Launatekjur 1. júlí 2011–30. nóvember 2012 að frádregnum skatti 7.810.997
Vaxtabætur, barnabætur og sérstök vaxtaniðurgreiðsla 2011 og 2012 að teknu tilliti til frádráttar vegna opinberra gjalda 121.414
Samtals 7.949.189
Mánaðarlegar meðaltekjur 441.662
Framfærslukostnaður á mánuði -290.104
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 151.518
Samtals greiðslugeta í 18 mánuði 2.727.317

 

Samkvæmt þessu verði lagt til grundvallar að kærendur hafi haft 441.662 krónur í meðaltekjur á mánuði hið minnsta á 18 mánaða tímabili greiðsluskjóls.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. beri umsjónarmanni að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Framfærsluviðmiðin séu tengd vísitölu og byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við aðra og hærri framfærslu en þá sem reiknuð hafi verið fyrir umsækjendur. Að auki sé umsækjendum jafnan gefið nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. sem umsækjendur geti fært sönnur á með haldbærum gögnum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 290.104 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið í því skyni að kærendum sé veitt svigrúm til að bregðast við óvæntum minni háttar útgjöldum. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað desembermánaðar 2012 fyrir tvo fullorðna og eitt barn, en sonur kærenda sé fæddur 1991, í námi og búi hjá kærendum. Samkvæmt þessu sé gengið út frá því að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir um 2.727.317 krónur á fyrrnefndu tímabili sé miðað við meðalgreiðslugetu að fjárhæð 151.518 krónur á mánuði í 18 mánuði.

Kærendur hafi lagt fram reikninga til umsjónarmanns vegna eftirfarandi útgjalda í krónum:

 


Fjárhæð Gögn
Tannlæknakostnaður 304.300 Reikningur
Viðgerð á bifreið 240.503 Reikningur
Viðhald á baðherbergi 28.782 Reikningur
Samtals 573.585  

 

Einnig hafi kærendur framvísað gögnum um kostnað vegna lækninga að fjárhæð 74.375 krónur en embættið taki ekki tillit til þessa kostnaðar við útreikning á sparnaði þar sem í framfærsluviðmiðum hafi þegar verið gert ráð fyrir kostnaði vegna lyfja- og lækniskostnaðar allt að fjárhæð 14.828 krónur í hverjum mánuði.

Kærendur hafi ekki lagt fram gögn sem veitt gætu tæmandi skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar fé í námunda við 2.727.317 krónur á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Að frátöldum þeim óvænta kostnaði sem kærendur hafi tilgreint og telja mætti til nauðsynlegra heimilisútgjalda að fjárhæð 573.585 krónur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hafi kærendur ekki veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt fyrir 2.153.732 krónur.

Útskýringar kærenda vegna aukins kostnaðar skýri aðeins sem nemi 21% af þeirri fjárhæð sem kærendum hefði alla jafna átt að hafa verið kleift að leggja til hliðar samkvæmt fyrirmælum a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur hafi upplýst að þau hafi greitt afborganir af láni uppkomins sonar síns sem búi erlendis. Reiknast kærendum til að þau hafi samtals greitt afborganir að fjárhæð 432.000 krónur. Verði að telja að með því að greiða af umræddu láni, hafi kærendur látið af hendi fjármuni sem gagnast hefðu lánardrottnum sem greiðsla í skilningi c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með greinargerð til umboðsmanns skuldara 24. ágúst 2012 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Fór hann þess á leit við umboðsmann að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 16. janúar 2013.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist í fyrsta lagi á því að kærendur hafi ekki lagt til hliðar þá fjármuni sem þeim hafi verið unnt á því tímabili sem þau nutu greiðsluskjóls og í öðru lagi að kærendur hafi greitt af láni sonar þeirra á sama tímabili.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kærendum því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara. Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur verið upplýst um skyldur sínar í samræmi 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja til hliðar 2.727.317 krónur frá því að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var lögð fram, eða allt frá 9. júní 2011 til 16. janúar 2013. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á greiðsluaðlögunarumleitunum kemur fram að greiðslugeta kærenda hafi að meðaltali verið 151.518 krónur á mánuði í greiðsluskjóli. Tekið hafi verið tillit til útlagðs óvænts kostnaðar að fjárhæð 573.585 krónur. Því hafi kærendur ekki veitt haldbærar skýringar á ráðstöfun 2.153.732 króna.

Kærendur telja að útreikningar umboðsmanns skuldara séu rangir og óraunhæft hafi verið að þau gætu lagt fyrir fjármuni í greiðsluskjóli.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2011: 6 mánuðir
Nettótekjur A 1.258.508
Nettómánaðartekjur A að meðaltali 209.751
Nettótekjur B 1.418.944
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 236.491
Nettótekjur alls 2.677.452
Mánaðartekjur alls að meðaltali 446.242


Tímabilið 1. janúar 2012 til 16. janúar 2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.466.614
Nettómánaðartekjur Aað meðaltali 205.551
Nettótekjur B 2.666.931
Nettómánaðartekjur B að meðaltali 222.244
Nettótekjur alls 5.133.545
Mánaðartekjur alls að meðaltali 427.795

 

Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.810.997
Nettómánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 433.944

 

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

 

Tímabilið 1. júlí 2011 til 31. desember 2012: 18 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 7.810.997
Bætur og vaxtaniðurgreiðsla í greiðsluskjóli 121.414
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 7.932.411
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 440.690
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 290.104
Greiðslugeta kærenda á mánuði 150.586
Alls sparnaður í 18 mánuði í greiðsluskjóli x 150.586 2.710.539

 

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur sé gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur lögðu fram gögn vegna viðgerða á bifreið, tannlæknakostnaðar og viðgerða á húsnæði sem umboðsmaður skuldara hefur tekið tillit til og nemur 573.585 krónum. Á sparnað kærenda skortir því 2.136.954 krónur. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. er skuldurum óheimilt, á saman tíma og leitað er greiðsluaðlögunar, að láta af hendi verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt gögnum málsins þá greiddu kærendur á tímabili greiðsluskjóls um 432.000 krónur af láni sonar þeirra. Umrædd ráðstöfun var ekki nauðsynleg til að sjá kærendum eða fjölskylda þeirra farborða, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., og telst því brot á skyldum kærenda samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Það er mat kærunefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem kærendur fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til að leggja til hliðar af tekjum sínum á tímabilinu og að ráðstafa ekki fjármunum sem gagnast gætu kröfuhöfum við gerð samnings um greiðsluaðlögun.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að kærendur hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. og að umboðsmanni skuldara hafi því borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum