Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 158/2013

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. október 2013 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. september 2013 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 17. október 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 19. desember sama ár.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 13. janúar 2014 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með tölvupósti 18. mars 2014.

Þann 14. apríl 2014 voru umboðsmanni skuldara sendar athugasemdir kærenda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1985 og 1983, þau eru í hjúskap og eiga saman tvíbura fædda árið 2010. Kærendur búa í 112,9 fermetra eigin húsnæði að D götu nr. 29f, sveitarfélaginlu E. Kærandi A hefur þegið endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins en kveðst eiga rétt á 70% atvinnuleysisbótum. Hún hefur verið í fjarnámi til öflunar réttinda sem leikskólakennari. Kærandi B starfar sem keyrslustjóri hjá X.

Mánaðarlegar tekjur kærenda eru samkvæmt gögnum málsins 405.799 krónur sem eru launatekjur, bótagreiðslur frá Tryggingastofnun og barnabætur. Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara nema 38.314.256 krónum. Allar skuldir kærenda falla innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007 vegna fasteignakaupa.

Kærendum var veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar með samningum við kröfuhafa með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. júní 2012 og þeim skipaður umsjónarmaður.

Umsjónarmaður taldi fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda og að þau hefðu ekki upplýst um fjárhag sinn með fullnægjandi hætti þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi. Með bréfi 17. apríl 2013 tilkynnti umsjónarmaður að þar sem kærendur hefðu hvorki skýrt fjárhag sinn nægilega né staðið skil á fasteignagjöldum á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana teldi hann rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 4. september 2013 þar sem þeim var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós. Með hinni kærðu ákvörðun 23. september 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda felldar niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge. Svar kærenda við bréfi umboðsmanns skuldara barst embættinu með tölvupósti eftir að ákvörðun lá fyrir.

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur óski eftir því að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði endurskoðuð á grundvelli þeirra gagna sem þau hafi lagt fram með kæru.

Þau óski þess að málið verði tekið upp að nýju þar sem óvissa varðandi tekjur sé að minnka. Kærandi A þiggi nú endurhæfingarlífeyri sem nemi 188.000 krónum á mánuði og svo verði áfram næstu 14 mánuði. Hún sé þátttakandi í úrræðinu „atvinna með stuðningi“ og megi fara í 40−50% starf en þá myndu þær tekjur bætast við áðurnefndan endurhæfingarlífeyri. Hún ætti að vera með tekjur upp á 300.000 til 350.000 krónur á mánuði þegar hún hafi valið úr þeim atvinnutilboðum sem hún hafi fengið þar sem hún haldi lífeyrinum líka. Kærendur hafi lagt fram öll þau gögn sem þau hafi haft í höndum en þau hafi ekki verið talin nægileg. Þau vilji að gögnin verði endurskoðuð.

Kærendur segjast mjög óánægð með meðferð á málinu. Upplýsingaflæði til þeirra hafi verið lítið sem ekkert, þau hafi þurft að ganga á eftir öllum upplýsingum og reka á eftir málinu. Þær upplýsingar sem þau hafi um greiðsluaðlögun séu upplýsingar sem þau hafi sjálf aflað.

Í sambandi við laun kæranda A hafi kærendur tekið skýrt fram í umsókn að hún stundaði svarta atvinnu, þ.e. innflutning á vörum frá H&M til endursölu. Þetta hafi ekki verið miklar tekjur, eða um 20.000 til 60.000 krónur á mánuði. Kærendur hafi tekið skýrt fram að nefnd fjárhæð væri ekki nákvæm þar sem engar kvittanir væru fyrir hendi vegna viðskiptanna. Kærendur hafi margoft óskað svara frá umboðsmanni skuldara um það hvort þau þyrftu að skrá upplýsingar um þessar tekjur, en þau hafi alltaf fengið þau svör að það þyrftu þau ekki að gera. Kærandi A hafi því haldið áfram starfseminni.

Sumarið 2012 hafi salan aukist, og hafi kærandi A átt von á stórri vörusendingu í september það ár en sendingin hafi aldrei komið. Hún hafi verið búin að greiða hluta af vörunum og jafnframt hafi hún verið búin að taka við greiðslum frá viðskiptavinum. Kærendur hafi haft samband við umsjónarmann og spurt hvernig þau ættu að snúa sér í þessu. Hafi þau fengið þau svör að þau réðu því sjálf hvað þau gerðu. Því hafi kærandi A ákveðið að endurgreiða viðskiptavinum. Hafi þau sent umsjónarmanni yfirlit af bankareikningum vegna þessa. Á svipuðum tíma hafi þau haft samband við umboðsmann skuldara og spurt hvort nýtilkomin sala kæranda A á Tupperware vörum yrði fyrirstaða í málinu. Hafi þeim verið tjáð að þau þyrftu ekki að gefa tekjur af þeirri starfsemi upp þar sem áætlað hafi verið að engar tekjur yrðu af starfseminni. Hafi kærendur því ekkert frekar gert í málinu.

Í janúar 2013 hafi kærendur loksins fengið fund hjá embætti umboðsmanns skuldara á Akureyri eftir að hafa óskað eftir fundi síðan í ágúst 2011. Fyrst hafi kærandi A þurft að afboða fundinn vegna veikinda, og því hafi verið ákveðinn nýr fundartími. Fundurinn hafi síðan verið „þriggja tíma yfirheyrsla“ um öll þeirra mál síðastliðin ár.

Kærendur segja að þau hafi reynt að svara fyrirspurnum umsjónarmanns eftir bestu getu. Umsjónarmaður hafi spurt um endurgreiðslur vegna kaupa á H&M vörum og hvaða tekjur kærandi A hafi haft af þeim viðskiptum. Kærandi A hafi greint frá því að þessar tekjur væru lauslega reiknaðar „því hún hefði líka borgað tolla og eins endurgreiðslu með peningum“. Samkvæmt því hafi tekjurnar verið 55.000 krónur í janúar 2012, 12.000 krónur í febrúar 2012, 15.000 krónur í mars 2012, engar í apríl og maí 2012, 14.000 krónur í júní 2012 og 26.000 krónur í júlí 2012. Eftir þetta hafi salan aukist verulega en kærandi A hafi ekki fengið nema brot af þeim vörum sem pantaðar voru svo allur þessi hagnaður hafi farið til þess að endurgreiða kaupendum fyrirframgreiddar vörur. Hagnaðurinn hafi þannig farið til að endurgreiða viðskiptavinum.

Kærendur telja fráleitt að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra séu felldar niður vegna þess að fyrir hendi sé óglögg mynd af fjárhag þeirra vegna framangreindra tekna af innflutningi og sölu á H&M vörum. Segja kærendur að umboðsmaður skuldara hafi ekkert viljað vita um þessar tekjur. Síðan hefði verið eðlilegast að fundað hefði verið með kærendum, farið betur yfir þessi atriði og þeim gerð almennilega grein fyrir því hvaða gögn vantaði.

Kærendur telja að enginn skilningur hafi verið á stöðu þeirra hjá embætti umboðsmanns skuldara og engin svör hafi verið að fá.

Á yfirliti yfir bankareikning þeirra hjóna sé ljóst hvað hafi verið lagt inn og tekið út. Á fyrrnefndum fundi í janúar hafi komið í ljós að fyrirliggjandi tölur hafi verið rangar, hvort sem það voru tekjur eða útgjöld, og því hafi verið reiknað með kolröngum sparnaði.

Hefðu kærendur viljað meira samstarf og fleiri fundi þar sem betur hefði verið farið yfir mál þeirra.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna auk fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna sinna að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. lge.

Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lge. sé eitt helsta markmið greiðsluaðlögunarsamninga að einstaklingum í verulegum fjárhagserfiðleikum sé gert kleift að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu svo raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar í náinni framtíð. Eigi umsjónarmanni að vera unnt að gera drög að raunhæfu frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun, verði að leggja þær skyldur á skuldara að hann leggi fram þau gögn sem óskað sé eftir og skipti máli við gerð þess. Einnig sé þörf á að afla sömu gagna þegar komi að mati umboðsmanns skuldara á því hvort fella skuli niður greiðsluaðlögunarumleitanir samkvæmt 15. gr. lge.

Ákveðið misræmi sé á milli þess sem fram komi í gögnum málsins og staðhæfinga kærenda um tekjur þeirra. Við eftirgrennslan embættis umboðsmanns skuldara hafi komið í ljós bankareikningur í eigu kæranda A en töluverð velta hafi verið á honum. Embættið hafi kallað eftir yfirliti yfir þennan reikning frá því að greiðsluskjól hófst en kærendur hafi ekki sinnt þeirri beiðni. Þegar af þeirri ástæðu sé óhjákvæmilegt annað en að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar þar sem ekki liggi fyrir nægilega glögg mynd af fjárhag þeirra.

Kærendur hafi ekki komið andmælum sínum á framfæri fyrr en eftir að þau tóku á móti ákvörðun um niðurfellingu. Kváðust þau hafa sent þessi sömu gögn með pósti en gögnin hefðu ekki borist embættinu. Starfsmaður embættisins hafi því tekið afstöðu til andmæla kærenda og þeirra gagna sem hafi borist eftir að hin kærða ákvörðun var tekin en hann hafi ekki talið þau breyta neinu varðandi hana. Þau andmæli hafi veitt upplýsingar um tekjur þeirra af sölu á Tupperware varningi, sem ekki hefðu komið fram í málinu áður. Telur embættið ámælisvert að umsjónarmaður hafi ekki verið upplýstur strax um allar tekjur kærenda en kærendur hafi ítrekað verið beðin um að gera grein fyrir tekjum sínum á fullnægjandi máta.

Hin kærða ákvörðun byggi á heildstæðu mati á aðstæðum kærenda, miðað við þau gögn sem hafi legið fyrir við töku ákvörðunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Er hér gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt í og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Byggist ákvörðun umboðsmanns skuldara á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem kærendur hafi ekki sinnt beiðni umboðsmanns skuldara um yfirlit yfir tiltekinn bankareikning á tímabili greiðsluskjóls. Kærendur sendu umboðsmanni skuldara umbeðið yfirlit eftir að ákvörðun embættisins lá fyrir en embættið taldi að ekki væri tilefni til að taka málið upp að nýju. Einnig barst umrætt yfirlit með kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Eins og fyrr segir barst umbeðið yfirlit vegna reiknings kærenda með kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Þetta eru þau gögn sem umboðsmaður skuldara óskaði eftir en ákvörðun um niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana kærenda byggist á vöntun þeirra. Yfirlitið nær yfir tímabilið júlí 2012 til september 2013. Óhjákvæmilegt er því að lagt verði mat á málið að nýju og leyst úr því hvort engu að síður beri að fella niður greiðsluaðlögunarumleitnir kærenda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi þannig að umboðsmanni skuldara verði unnt að meta málið að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga, er samkvæmt framansögðu felld úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum