Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 245/2012

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 28. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. desember 2012 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 30. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. febrúar 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 14. febrúar 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1962. Hún er fráskilin og býr ein í eigin 160,9 fermetra íbúð með bílskúr að B götu nr. 2 í sveitarfélaginu D.

Kærandi hefur háskólamenntun að baki en starfar við afgreiðslustörf. Ráðstöfunartekjur hennar eru að meðaltali 210.166 krónur á mánuði að sérstakri vaxtaniðurgreiðslu meðtalinni.

Að mati kæranda má að mestu rekja fjárhagserfiðleika hennar til tekjulækkunar og hruns íslenska fjármálakerfisins árið 2008. Við hrunið hafi starfsemi þáverandi eiginmanns hennar lagst af. Árið 2008 hafi kærandi og þáverandi eiginmaður hennar keypt íbúð að E götu nr. 25c í sveitarfélaginu D. en kærandi kveður íbúðarkaupin hafa byggst á lánsloforðum sem hafi brostið.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins voru 62.477.458 krónur árið 2011. Þær falla að stærstum hluta innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2008.

Kærandi hefur tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 3. nóvember 2010 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að hún fari fram á að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja henni um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi kveður kaup sín á íbúð við E götu nr. 25c í sveitarfélaginu D. á árinu 2008 hafa verið hugsuð til að einfalda fjárhaginn. Kærandi hafi átt fasteign að B götu nr. 2 og talið hafi verið að hærra verð fengist fyrir þá fasteign en sem næmi kaupverði E götu. Það fé sem kæmi á milli hafi átt að fara í að greiða niður skuldir. Ekki hafi tekist að selja íbúðina við B götu þar sem alger stöðnun hafi orðið á fasteignamarkaði.

Á þeim tíma sem íbúðin að E götu var keypt og misserin þar á undan hafi ekki verið óalgengt að fólk keypti húsnæði án þess að hafa selt það gamla og fasteignasalar hafi óspart hvatt fólk til að kaupa aðra eign með því fororði að enginn vandi væri að selja.

Kærandi mótmælir því mati umboðsmanns skuldara að kaupverð íbúðarinnar að E götu hafi verið of hátt miðað við núverandi mat á eigninni. Þetta sé ekki á ábyrgð kæranda en sýni fremur hvernig „fasteignabólan“ hafi verið á þessum tíma.

Umboðsmaður geri athugasemdir við bílakaup kæranda. Þessi kaup hafi algerlega verið á ábyrgð fyrrum eiginmanns kæranda en hann hafi sent umboðsmanni yfirlýsingu þessa efnis. Öðrum bílnum hafi nú verið skilað. Réttast væri að fella eftirstöðvar bílalánanna niður þar sem fjármögnunarfyrirtæki hafi ekki kannað greiðslugetu skuldara.

Hrun fjármálakerfisins árið 2008 hafi ekki verið fyrirséð þegar kærandi tók á sig ábyrgðarskuldbindingar vegna verktakafyrirtækis fyrrum eiginmanns hennar; Y ehf.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Kærandi hafi stofnað til umtalsverða skuldbindinga árið 2008. Í mars 2008 hafi kærandi keypt 110,7 fermetra íbúð að E götu nr. 25c í sveitarfélaginu D fyrir 32.500.000 krónur. Telji umboðsmaður skuldara að kaupverð íbúðarinnar hafi verið talsvert hátt en til viðmiðunar hafi fasteignamat hennar verið 27.600.000 krónur árið 2012. Samkvæmt kaupsamningi skyldi kaupverð í fyrsta lagt greitt með veðláni að fjárhæð 21.125.000 krónur og í öðru lagi með greiðslum til X ehf. að fjárhæð 11.375.000 krónur í samræmi við sölu á fasteign kæranda við B götu nr. 2 í sveitarfélaginu D en kærandi hafi ekki verið búin að selja þá fasteign er hún keypti íbúðina að E götu. Í skattframtali kæranda 2012 vegna tekjuársins 2011 sé gerð grein fyrir eignabreytingum með svofelldum hætti: Lán vegna E götu og B götu eru bæði talin fram sem lán vegna íbúðarhúsnæðis. „Kaup á E götu (sic.) voru ætluð til íbúðar og síðan átti að selja B götu. Það gekk ekki upp.“

Kærandi hafi keypt bifreiðina F í júní 2008 með yfirtöku á kaupleigusamningi sem þá hafi verið 7.904.936 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði samningsins hafi verið 121.538 krónur. Hafi kærandi verið svipt vörslum bifreiðarinnar vegna vanskila í september 2009.

Í nóvember 2008 hafi kærandi ásamt G, fyrrum eiginmanni sínum, gengist í sólidaríska ábyrgð samkvæmt skilmálabreytingu á erlendu bílaláni. Skyldi mánaðarleg greiðsla vera 90.835 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi tekist á hendur umtalsverðar ábyrgðir fyrir Y ehf. Fyrrum eiginmaður kæranda hafi rekið félagið sem hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í júlí 2010.

Samkvæmt úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 verði ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Fram komi í úrskurðinum að sá sem gangist undir ábyrgðarskuldbindingar þurfi vissulega að gera ráð fyrir því að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild þó ekki verið gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðarmaður gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hafi ábyrgst efndir á. Verði því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær ábyrgðarskuldbindingar kæranda sem til skoðunar komi í málinu séu frá árinu 2008. Um sé að ræða tvær ábyrgðir. Annars vegar sjálfskuldarábyrgð vegna reikningsviðskipta Y ehf. við Byko in solidum með G að fjárhæð 742.427 krónur. Hins vegar sjálfskuldarábyrgð við Landsbankann in solidum ásamt G til tryggingar á yfirdrætti á tékkareikningi allt að fjárhæð 10.000.000 króna að hámarki.

Við mat á því hvort beita skuli ákvæði lge. um heimild til að synja umsókn um greiðsluaðlögun á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til samspils tekna skuldara og skuldbindinga hans á því tímabili sem til skoðunar er, sem í þessu tilviki sé árið 2008. Á þeim tíma hafi fjárhagsstaða kæranda verið sem hér segi í krónum:

 

Tekjuár 2008
Framfærslutekjur* alls á mán. 349.473
Framfærslukostnaður á mán.** 114.300
Greiðslugeta 235.173
Áætluð greiðslubyrði 361.500
Greiðslustaða -126.327
Eignir kæranda og maka 63.903.955
Skuldir kæranda og maka 72.268.589
Nettóeignastaða -8.364.634

*Meðaltekjur kæranda og maka á mánuði.

**Framfærslukostnaður hjóna samkvæmt neysluviðmiðum Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna í ágúst 2008. Ekki meðtalinn kostnaður vegna síma, hita, rafmagns og fasteignagjalda.

 

Við mat á því hvort skuldari hafi verið fær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar geti umboðsmaður skuldara ekki tekið tillit til annarra upplýsinga um tekjur og eignir skuldara en þeirra sem getið sé á skattframtali eða sem gerð hafi verið grein fyrir í samræmi við lög, meðal annars lög um tekjuskatt nr. 90/2003.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið send bréf 28. mars og 8. nóvember 2012 þar sem henni hafi verið tilkynnt um hugsanlega synjun á umsókn um greiðsluaðlögun meðal annars á grundvelli b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í svari kæranda við fyrra bréfinu hafi komið fram að hún hafi stofnað til kaupa á bifreiðinni F í sínu nafni en fyrrum eiginmaður hennar hafi þó verið hvatamaður að kaupunum. Með bréfinu hafi fylgt yfirlýsing fyrrum eiginmanns kæranda þess efnis að bílalán vegna kaupa á bifreiðinni sé á hans ábyrgð. Umboðsmaður leggi áherslu á að yfirlýsing sem þessi hafi ekki lagalegt gildi. Embættið geti ekki tekið tillit til annarra upplýsinga um skuldbindingar en þeirra sem getið sé í opinberum gögnum. Í svari kæranda við seinna bréfinu hafi efnislega komið fram að hún hafi verið í námi á þeim tíma sem íbúðin á E götu hafi verið keypt. Hún hafi þegið námslán á þessum tíma þannig að fé til framfærslu samkvæmt skattframtali sé ekki rétt. Þá hafi hún unnið með náminu og fengið tekjur sem fram komi í skattframtölum. Á sama tíma hafi maki hennar veikst og tekjur þeirra lækkað vegna þess. Kærandi kvað bílakaup og ábyrgðir fyrir Y ehf. hafa verið á ábyrgð fyrrum eiginmanns hennar en slæm fjárhagsstaða hennar sé vegna áhættusækni hans og óreglu.

Samtals hafi kærandi tekist á hendur skuldbindingar og ábyrgðir að fjárhæð 45.180.651 króna á árinu 2008. Að mati umboðsmanns séu skilyrði b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. til staðar í málinu. Með vísan til þess sem fram hafi komið verði að telja ljóst að kærandi hafi stofnað til fjárskuldbindinga og ábyrgðarskulda á árinu 2008 þegar hún hafi greinilega verið ófær um að standa við skuldbindingar sínar miðað við greiðslugetu og uppgefnar tekjur. Einnig verði að telja að kærandi hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu. Sé það í fyrsta lagi með því að kaupa íbúðina að E götu áður en hún seldi íbúð sína að B götu. Í öðru lagi með því að stofna til skuldbindinga vegna tveggja dýrra bifreiða. Og í þriðja lagi með því að takast á hendur sjálfskuldarábyrgðir fyrir Y ehf. eftir að hún hafði stofnað til nefndra fasteigna- og bílakaupa.

Með hliðsjón af þessu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum má sjá að fjárhagsstaða kæranda og þáverandi eiginmanns hennar var eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

 

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mánuði (nettó) 368.902 343.885 349.473 1.188.435 317.500 332.561
Eignir alls 29.363.759 30.839.384 63.837.955 59.290.821 54.696.853 53.231.415
· Fasteignir 22.670.000 25.290.000 52.345.000 53.300.000 49.700.000 52.550.000
· Bifreiðir 2.970.000 3.865.600 9.000.000 4.950.000 4.455.000  
· Önnur ökutæki 3.390.000 750.000 400.000      
· Hlutir í félögum 253.326 542.797 542.616 502.756 500.002 500.002
· Bankainnstæður o.fl. 80.433 390.987 1.550.339 538.065 41.851 181.413
Skuldir 34.710.620 36.779.777 72.268.589 88.843.134 100.946.195 90.407.276
Nettóeignastaða -5.346.861 -5.940.393 -8.430.634 -29.552.313 -46.249.342 -37.175.861

 

Ekki eru fyrirliggjandi fjárhæðir skulda kæranda á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin en samkvæmt gögnum málsins voru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum árið 2011:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2011 frá
LÍN   Námslán   1.955.652  
S24 2006 Lánasamningur 1.015.000 732.058 2009
Z ehf. (X ehf.) 2008 Kaupsamningur 11.375.000 13.031.262 2008
Arion banki 2008 Greiðslukort 271.717 386.594 2009
Arion banki 2008 Yfirdráttur 1.603.144 2.299.623 2009
Lífeyrissjóður verzlunarmanna 2008 Veðskuldabréf 21.125.000 29.595.671 2010
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2008 Bílalán 4.775.716 3.926.452 2011
Íslandsbanki 2008 Bílalán 7.904.936 7.078.772 2009
Arion banki 2009 Greiðslukort 679.647 925.378 2009
Arion banki 2010 Yfirdráttur   277.438 2010
Ýmsir 2008-2011 Greiðslukort 892.652 1.673.693 2008−2010
Ýmsir 2009-2011 Reikningar 139.201 174.338 2009−2011
Húsfélagið E götu 23−25 2009-2011 Húsfélagsgjöld 232.476 420.527  
    Alls 50.014.489 62.477.458  

 

Þá gekkst kærandi í eftirtaldar ábyrgðir á árunum 2005 og 2008 samkvæmt gögnum málsins í krónum:

 

Kröfuhafi Útgefið Upphafleg Skuldari
    fjárhæð  
Landsbankinn 2005 5.000.000 G
Landsbankinn 2008 10.000.000 Y ehf.
Arion banki 2008 6.000.000 Y ehf.
    21.000.000  

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða. Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.

Á árinu 2008 tókst kærandi á hendur ýmsar skuldir samtals að fjárhæð 47.055.513 krónur. Voru það skuldir vegna fasteignakaupa, bílalán og lausaskuldir. Í lok ársins 2008 voru skuldir kæranda og maka hennar 72.268.589 krónur. Eignir þeirra námu 63.837.955 krónum og var eignastaða þeirra því neikvæð um rúmar 8.400.000 krónur samkvæmt skattframtali. Greiðslugeta þeirra var einnig neikvæð. Telur kærunefndin því að á árinu 2008 hafi kærandi tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta hennar og eignastaða gaf tilefni til. Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á viðkomandi tímabili. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kæranda þegar hún stofnaði til skuldbindinga árið 2008. Fyrrnefndum skuldum til viðbótar gekkst kærandi í sjálfskuldarábyrgðir fyrir 16.000.000 króna á árinu 2008. Voru ábyrgðirnar fyrir einkahlutafélag þáverandi eiginmanns kæranda, Y ehf. Félagið var stofnað í júní árið 2005 og úrskurðað gjaldþrota í júlí 2010. Engar rekstrarupplýsingar liggja fyrir um félagið en síðast var ársreikningi þess skilað vegna rekstrarársins 2006.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda á árinu 2008 komu til viðbótar við fyrri ábyrgðir að fjárhæð 5.000.000 króna. Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærandi tókst á hendur ábyrgðarskuldbindingar langt umfram greiðslugetu á árinu 2008. Eignastaða kæranda gaf henni heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar eins og rakið hefur verið. Verður þannig vart séð að kærandi og þáverandi eiginmaður hennar hafi bæði getað framfleytt sér og haldið eigin skuldbindingum í skilum, hvað þá tekið á sig greiðslu ábyrgðarskuldbindinganna ef á reyndi.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist árið 2008 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan.

Þegar allt framanritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að stór hluti ábyrgðarskuldbindinga kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum