Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 243/2012

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015

 


A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 31. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. desember 2012 þar sem umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 7. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 31. janúar 2013. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 13. febrúar 2013 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send með bréfi 13. mars 20113. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1962 og 1965. Þau eru í sambúð og búa ásamt uppkominni dóttur sinni í eigin 268,6 fermetra einbýlishúsi með bílskúr.

Kærandi B starfar fyrir Y ehf. en kærandi A er atvinnulaus. Mánaðarlegar nettótekjur kærenda eru 399.837 krónur á mánuði.

Að mati kærenda stafa fjárhagserfiðleikar þeirra einkum af tekjulækkun. Þau hafi rekið fyrirtækið X ehf. í 11 ár en þegar félagið varð gjaldþrota hafi það strax komið niður á tekjum heimilisins.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 66.832.219 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2007.

Kærendur hafa gengist í ábyrgðarskuldbindingar og veðsett fasteign sína fyrir félögin X ehf. og Y ehf.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 3. febrúar 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. desember 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði ógilt.

Kærendur telja að ákvörðun umboðsmanns skuldara standist ekki. Einnig álíta þau að b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem umboðsmaður vísi til í ákvörðun sinni eigi ekki við um þau. Kveðast þau hafa verið gjaldfær allt þar til í nóvember 2009 og þau hafi greitt af öllum sínum lánum til þess tíma. Umboðsmaður skuldara telji kærendur hafa verið ógjaldfær strax á árinu 2006 en engu að síður hafi þau ráðist í lántökur á árunum 2006 og 2007.

Kærendur segja að lán sem tekið hafi verið árið 2006 hafi verið til að greiða niður eldri skuldir og því hafi ekki verið um nýjar skuldir að ræða. Lán frá árinu 2007 hafi verið tekið til kaupa á hóflegri bifreið og því hafi eign komið á móti skuldinni. Á þessum tíma hafi ekkert bent til annars en að kærendur gætu staðið við skuldbindingar sínar. Kærendur álíta að það styðji fullyrðingu þeirra um að þau hafi verið gjaldfær á þessum tíma að lánveitendur hafi verið fúsir til að lána þeim.

Eignastaða kærenda hafi verið traust á árunum 2005 til 2008. Hafi þau keypt húsnæði á góðu verði árið 2005 og eignamyndun þeirra aukist talsvert með hækkandi húsnæðisverði allt til ársins 2008. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara sé litið til fasteignamats eignarinnar en kærendur telja að verðmæti eignarinnar hafi verið töluvert meira.

Á þeim árum sem hér eru til umfjöllunar hafi kærendur verið hluthafar og stjórnendur X ehf. Starfsemi félagsins hafi mestmegnis verið í ferðaþjónustu. Hafi þau byggt upp rekstur félagsins um nokkurra ára skeið og gert sér raunhæfar væntingar um að hann færi að skila arði og leigugreiðslum fyrir afnot af húsnæði í eigu kærenda. Reksturinn hafi batnað ár frá ári og horfur verið á aukinni veltu. Séu kærendur þeirrar skoðunar að reksturinn hafi gengið vel. Samkvæmt eðlilegum viðskiptaháttum hafi kærendur þurft að gangast undir ábyrgðir vegna skulda félagsins því ella hefði félagið ekki getað starfað. Í þessu ljósi hafi kærendur talið ólíklegt að á ábyrgðirnar myndi reyna. Við efnahagshrunið árið 2008 hafi starfsemi félagsins stöðvast að nær öllu leyti og lán þess hafi hækkað verulega. Einnig hafi félagið orðið af tekjum við truflun á flugsamgöngum vegna eldgosa. Hafi félagið verið úrskurðað gjaldþrota á árinu 2011.

Kærendur meta það svo að ef rekstur félagsins hefði staðið illa eða ef þau hefðu verið ógjaldfær hefðu lán til félagsins ekki verið veitt. Telja kærendur að líta verði til stöðunnar eins og hún hafi verið á þeim tíma er þau gengust undir ábyrgðirnar en ekki núverandi stöðu.

Kærendur hafi veitt eina sjálfskuldarábyrgð árið 2005. Hafi sú ábyrgð verið vegna skuldabréfs sem útgefið hafi verið af X ehf. 19. maí 2005 að fjárhæð 5.100.000 krónur. Þá hafi kærandi B gefið út tryggingarbréf að fjárhæð 2.600.000 krónur með veði í fasteigninni D götu nr. 17. Hafi kærendur talið að þau ættu talsvert eigið fé í eigninni en bréfið hafi upphaflega verið til tryggingar skuldum kæranda B sjálfs en síðar til tryggingar skuldum félagsins. Hafi því ekki verið um ábyrgðarskuldbindingu að ræða eins og umboðsmaður skuldara haldi fram.

Á árinu 2006 hafi kærendur gengist í ábyrgð fyrir skuldabréfi að fjárhæð 1.000.000 króna útgefnu af X ehf. Hafi ástæða lánveitingarinnar verið sú að fá betri vaxtakjör en láninu hafi verið ráðstafað til að greiða niður yfirdráttarheimild á tékkareikningi félagsins. Hafi kærendur talið stöðu félagsins góða á þessum tíma.

Á árinu 2007 hafi kærendur gengist undir eina sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 2.000.000 króna. Hafi ábyrgðin verið veitt vegna heimildar á greiðslukorti. Kveða kærendur heimildina langt frá því að hafa verið nýtta til fulls. Þá hafi kærendur veitt Landsbankanum veð í fasteigninni D götu nr. 17 á árinu 2007. Hafi það verið til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi sem útgefið hafi verið í apríl 2007 upphaflega að fjárhæð 4.200.000 krónur. Hafi lánsfénu verið varið til að greiða upp yfirdráttarheimild.

Árið 2008 hafi kærendur gengist í ábyrgð fyrir láni sem hafi upphaflega verið að fjárhæð 66.000 evrur sem hafi verið jafngildi 7.873.140 krónum samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands á lánsdegi.

Kærandi B hafi loks gengist undir sjálfskuldarábyrgð vegna láns X ehf. frá maí 2009 upphaflega að fjárhæð 2.000.000 króna. Hafi þessu láni verið ráðstafað til að greiða upp vanskil á greiðslukorti og vanskil á skuldabréfum. Hafi lánið því farið til greiðslu á skuldum sem þegar hafi verið til staðar en ábyrgðir höfðu þegar verið veittar vegna tveggja af þremur þessara lána.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara komi fram að það sé mat embættisins að kærendur hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á að þau hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu með því að takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar á árunum 2005 til 2009 á meðan tekjur þeirra hafi verið lágar. Hafi kærendur lagt fram yfirlit yfir afborganir lána en þau sjái ekki hvaða frekari gögn þau gætu lagt fram til stuðnings því að þau hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu enda um huglægan mælikvarða að ræða. Þau hafi gert sitt besta til að reka atvinnustarfsemi og telji að útlitið hafi verið afar bjart þar til seinni hluta árs 2008. Kærendur telji að þau hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað. Vísi þau sérstaklega til hækkandi húsnæðisverðs á árunum 2005 til 2008.

Umboðsmaður skuldara hafi talið vandséð hvernig kærendur hafi getað haldið lánum í skilum miðað við uppgefnar tekjur. Þessu mótmæli kærendur og bendi á að þau hafi verið að byggja upp atvinnurekstur og lifað sparlega. Þau álíti að það eitt og sér að þau hafi getað greitt af skuldum sínum þar til seinni hluta ársins 2009, að lánveitendur hafi veitt þeim lán á sínum tíma og að félaginu hafi verið veitt lán með ábyrgðum þeirra sýni fram á að þau hafi verið fyllilega fær um að standa við skuldbindingar sínar þegar til þeirra var stofnað.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Við mat á því skuli taka mið af stafliðum ákvæðisins.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í skattframtali ársins 2006 vegna tekna ársins 2005 komi eftirfarandi fram um fjárhag kærenda í krónum:

 

Tekjuár 2005
Ráðstöfunartekjur* alls á mán. 186.442
Framfærslukostnaður á mán.** 84.600
Afborganir veðlána 151.152
Eignir í árslok 34.021.000
Skuldir í árslok 35.195.986

*Samanlagðar mánaðarlegar tekjur eftir frádrátt skatts.

**Grunnframfærslukostnaður fjölskyldu með eitt barn samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Ekki er meðtalinn kostnaður vegna reksturs bifreiðar, hita, rafmagns, samskiptakostnaðar, fasteignagjalda, trygginga o.fl.

 

Á árinu 2005 hafi kærendur keypt fasteign að D götu nr. 17 í sveitarfélaginu E fyrir 38.000.000 króna. Hafi þau tekið lán að fjárhæð 34.400.000 krónur til kaupanna. Til viðbótar við fyrri skuldbindingar hafi þau gengist í ábyrgð fyrir X ehf. vegna láns að fjárhæð 5.100.000 krónur og vegna tryggingarbréfs að fjárhæð 2.600.000 krónur en með því hafi þau veðsett fasteign sína.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi greiðslur af lánum vegna fasteignakaupa verið 151.152 krónur í lok árs 2005 og greiðslugeta þeirra eftir greiðslu fasteignalána hafi því verið neikvæð um að minnsta kosti 66.552 krónur. Sé þá ótalin greiðslubyrði vegna annarra lána.

Á árinu 2006 hafi kærendur tekið lán að fjárhæð 2.000.000 króna. Að auki hafi þau gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir X að fjárhæð 1.000.000 króna.

Af skattframtali ársins 2007 vegna tekna ársins 2006 komi eftirfarandi fram um fjárhag kærenda í krónum:

 

  2006
Ráðstöfunartekjur* alls á mán. 224.535
Framfærslukostnaður á mán.** 92.000
Afborganir fasteignalána 192.194
Eignir í árslok 36.518.500
Skuldir í árslok 35.062.995

*Samanlagðar mánaðarlegar tekjur að meðtöldum barna- og vaxtabótum en eftir frádrátt skatts.

**Grunnframfærslukostnaður fjölskyldu með eitt barn samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Ekki er meðtalinn kostnaður vegna reksturs bifreiðar, hita, rafmagns, samskiptakostnaðar, fasteignagjalda, trygginga o.fl.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi greiðslur af lánum vegna fasteignakaupa verið 192.194 krónur í lok árs 2006 og greiðslugeta kærenda eftir greiðslu fasteignalána hafi því verið neikvæð um að minnsta kosti 59.659 krónur. Sé ekki meðtalin greiðslubyrði vegna annarra lána.

Af skattframtali ársins 2008 vegna tekna ársins 2007 komi eftirfarandi fram um fjárhag kærenda í krónum:

 

  2007
Ráðstöfunartekjur* alls á mán. 208.960
Framfærslukostnaður á mán.** 95.200
Afborganir fasteignalána 213.288
Eignir í árslok 43.371.402
Skuldir í árslok 44.634.372

*Samanlagðar mánaðarlegar tekjur að meðtöldum barna- og vaxtabótum en eftir frádrátt skatts.

**Grunnframfærslukostnaður fjölskyldu með eitt barn samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara. Ekki er meðtalinn kostnaður vegna reksturs bifreiðar, hita, rafmagns, samskiptakostnaðar, fasteignagjalda, trygginga o.fl.

 

Á árinu 2007 hafi kærendur tekið lán að fjárhæð 1.900.000 krónur. Einnig hafi þau gengist í ábyrgð fyrir X ehf. Hafi það annars vegar verið vegna greiðslukorts en fjárhæð þeirrar ábyrgðar hafi takmarkast við 2.000.000 króna. Hins vegar hafi þau ábyrgst greiðslu skuldabréfs að fjárhæð 4.200.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi greiðslur af lánum vegna fasteignakaupa verið alls 213.288 krónur í september 2007. Hafi greiðslugeta kærenda því verið neikvæð um að minnsta kosti 99.528 krónur sé einungis tekið tillit til afborgana af fasteignalánum þeirra og grunnframfærslu.

Kærendur hafi einnig gengist í sjálfskuldarábyrgðir fyrir X ehf. 21. apríl 2008 en hámarksfjárhæð ábyrgðarinnar hafi verið 66.900 evrur. Miðað við sölugengi þann dag hafi fjárhæðin numið 8.002.578 krónum. Á árinu 2009 hafi kærendur enn gengist í ábyrgðir fyrir félagið og að þessu sinni hafi ábyrgðarfjárhæðin verið 2.000.000 króna.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið send bréf þar sem þeim hafi verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna framangreindra atriða. Í svörum kærenda hafi komið fram að þau hafi í raun ekki orðið ógjaldfær fyrr en í nóvember 2009 og eignastaða þeirra hafi verið sterk. Þau hafi keypt húsnæði á góðu verði og eignamyndun þeirra hafi aukist talsvert með hækkandi húsnæðisverði. Þau hafi byggt upp starfsemi X ehf. og vonast til að rekstur félagins myndi skila þeim arðgreiðslum, hærri launum og leigugreiðslum fyrir afnotum af húsnæði í þeirra eigu. Á árunum 2005 til 2007 hafi félagið verið í uppsveiflu en vegna efnahagshrunsins haustið 2008 hafi starfsemin stöðvast og lán hækkað verulega. Allar forsendur rekstrarins hafi brostið. Hafi staða kærenda svo versnað verulega í nóvember 2009 þegar þau hafi hætt að greiða af nær öllum lánum en þá fyrst hafi þau orðið ógjaldfær.

Um lán að fjárhæð 2.000.000 króna frá árinu 2006 hafi kærendur greint frá því að það hafi verið til að greiða niður eldri skuldir og því ekki um viðbótarskuldsetningu að ræða. Með vísan til framlagðra gagna fallist umboðsmaður á þessa skýringu kærenda.

Umboðsmaður skuldara telji ljóst samkvæmt fyrirliggjandi gögnum að kærendur hafi orðið ógjaldfær strax á árinu 2005 og sé þá miðað við uppgefnar tekjur þeirra. Kærendur hafi þrátt fyrir það gengist í talsverðar skuldbindingar og ábyrgðarskuldbindingar á árunum 2006 til 2009. Hafi þau tilgreint tekjulækkun sem helstu ástæðu greiðsluvanda síns en samkvæmt skattframtölum þeirra sé ekki að sjá að tekjur þeirra hafi dregist saman sem neinu nemi á því tímabili sem hér skipti máli. Þvert á móti bendi skattframtöl til þess að tekjur þeirra hafi hækkað.

Svör kærenda við fyrrnefndu bréfi umboðsmanns skuldara hafi einungis verið studd yfirlitum yfir greiðslur lána. Þrátt fyrir tilgreinda fjárhagsstöðu kærenda á því tímabili sem skipti máli hafi þau staðið í skilum með afborganir af lánum. Ekki verði séð hvernig þeim hafi tekist það miðað við uppgefnar tekjur. Fullyrðingar kærenda um gjaldfærni séu almennar og ekki studdar öðrum gögnum. Telja verði nauðsynlegt að lögð séu fram gögn ef hrekja eigi upplýsingar sem fram komi í skattframtölum og umboðsmanni skuldara beri að horfa til við mat á fjárhag skuldara.

Umboðsmaður skuldara telji ekki fram hjá því litið að tekjur kærenda á fyrrgreindu tímabili hafi verið afar lágar og hafi þau ekki með neinu móti getað staðið undir þeim skuldbindingum sem þau hafi tekist á hendur. Einnig sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki með fullnægjandi hætti sýnt fram á að þau hafi ekki tekið fjárhagslega áhættu með því að takast á hendur fyrrnefndar ábyrgðarskuldbindingar á árunum 2005 til 2009 á meðan tekjur hafi verið svo lágar.

Að öllu framangreindu virtu og í ljósi þess að kærendur hafi ráðist í talsverðar skuldbindingar og ábyrgðarskuldbindingar þegar tekjur þeirra voru lágar samkvæmt skattframtölum er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2005 til 2010 í krónum:

 

  2005 2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 212.089 224.535 208.960 217.246 228.708 257.171
Eignir alls 34.021.000 37.018.500 43.371.402 41.874.003 47.493.844 42.141.186
· Fasteignir 32.126.000 35.263.000 39.319.000 39.063.000 42.983.000 37.983.000
· Bifreiðir 1.395.000 1.255.500 3.302.402 1.955.206 3.259.685 2.933.716
· Önnur ökutæki     250.000 250.000 500.000 500.000
· Hlutir í félögum 500.000 500.000 500.000 500.000 500.000 500.000
· Bankainnstæður       105.797 251.159 224.470
Skuldir 35.195.986 35.062.995 44.634.372 46.551.787 53.492.978 55.380.047
Nettóeignastaða -1.174.986 1.955.505 -1.262.970 -4.677.784 -5.999.134 -13.238.861

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

 

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Landsbankinn 2005 Veðskuldabréf 30.400.000 53.472.081 2010
Landsbankinn 2006 Skuldabréf 2.000.000 1.552.763 2009
Landsbankinn 2006 Skuldabréf 4.000.000 7.103.455 2009
Landsbankinn 2007 Skuldabréf 1.900.000 1.492.372 2011
Landsbankinn 2009 Yfirdráttur   1.572.455 2009
Landsbankinn 2009 Greiðslukort   385.129 2009
Ýmsir 2008−2011 Reikningar 727.522 1.241.127 2008−2011
Tollstjóri 2011 Opinber gjöld 11.932 12.837 2011
    Alls 39.039.454 66.832.219  

 

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða. Við mat á því hvort beita skuli 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.

Kærendur tókust á hendur neðangreindar sjálfskuldarábyrgðir á þessum tíma í krónum:

 

Kröfuhafi Útgefið Upphafleg Fjárhæð Skuldari
    fjárhæð 2012  
Landsbankinn 2005 5.100.000 6.027.442 X ehf.
Landsbankinn 2006 1.000.000 964.379 X ehf.
Landsbankinn 2007 2.000.000 307.153 X ehf.
Landsbankinn* 2008 7.873.140 10.846.497 X ehf.
Landsbankinn 2009 2.000.000 2.751.770 X ehf.
  Alls  17.973.140 20.897.241  

*66.900 EUR.

 

Þá veittu kærendur veð í fasteign sinni til viðbótar við íbúðarlán sem hér segir í krónum:

 

Kröfuhafi Útgefið Eign Tegund Upphafleg Fjárhæð Skuldari
        fjárhæð 2012  
Landsbankinn 2005* D gata nr. 17 Tryggingarbréf 2.600.000 4.007.664 X ehf.
Landsbankinn 2006 D gata nr.  17 Tryggingarbréf 5.000.000 7.490.989 B
Landsbankinn 2007 D gata nr. 17 Skuldabréf 4.200.000 5.629.515 X ehf.
    Alls   11.800.000 17.128.168  

 

Aðilar deila um hvort kærendur hafi tekist á hendur skuldbindingar í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. á árunum 2005, 2006 og 2007. Á þessum árum voru ráðstöfunartekjur kærenda samkvæmt skattframtölum frá tæpum 209.000 krónum á mánuði til tæplega 225.000 króna á mánuði.

Á árinu 2005 tóku kærendur lán að fjárhæð 30.400.000 krónur til fasteignakaupa. Greiðslubyrði lánsins var rúmar 150.000 krónur á mánuði. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara var framfærslukostnaður fjölskyldunnar 84.600 krónur á mánuði og mánaðarleg greiðslugeta kærenda því neikvæð um tæpar 23.000 krónur miðað við 212.089 króna meðaltekjur á mánuði. Samkvæmt gögnum málsins var kaupverð eignarinnar 38.000.000 króna og eigið fé kærenda í eigninni því 7.600.000 krónur. Sé miðað við kaupverð eignarinnar í stað fasteignamats námu eignir kærenda umfram skuldir tæpum 6.500.000 krónum. Á árinu gengust kærendur í sjálfskuldarábyrgð fyrir 5.100.000 krónur og gáfu út tryggingarbréf með veði í eigninni fyrir 2.600.000 krónur. Samtals er því um að ræða 7.700.000 krónur. Kærendur hafa greint frá því að þegar þau tókust á hendur þessar skuldbindingar hafi þau talið að þau ættu talsvert eigið fé í eigninni. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið námu skuldir kærenda, ábyrgðarskuldir þeirra og veðsetningar í fasteigninni hærri fjárhæð en sem nam eigin fé þeirra sé miðað við kaupverð eignarinnar árið 2005. Getur kærunefndin því ekki tekið undir það með kærendum að eignastaða þeirra hafi verið traust og telur að kærendur hafi tekist á hendur skuldbindingar árið 2005 sem voru umfram greiðslugetu þeirra og eignastöðu.

Árið 2006 tóku kærendur tvö lán samtals að fjárhæð 6.000.000 króna. Kveða kærendur lánin hafi verið nýtt til að greiða eldri skuldir en ekki liggur fyrir í málinu hvaða skuldir voru greiddar. Hvorki er gerð grein fyrir lánum þessum á skattframtali vegna ársins 2005 né ársins 2006 en skuldir kærenda lækkuðu ekki samkvæmt skattframtölum. Verður því að gera ráð fyrir því að skuldir kærenda séu um 6.000.000 króna hærri í lok árs 2006 en fram kemur í skattframtali. Samkvæmt því var eignastaða kærenda þessi í lok árs 2006 í krónum:

 

  2006
Meðaltekjur* á mán. (nettó) 224.535
Eignir 39.755.500
· Fasteign (kaupverð) 38.000.000
· Bifreiðir 1.255.500
· Hlutir í félögum 500.000
Skuldir 41.062.995
Nettóeignastaða -1.307.495

 

Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara var framfærslukostnaður fjölskyldunnar 92.000 krónur á mánuði árið 2006. Þegar framfærslukostnaður fjölskyldunnar hafði verið greiddur nam mánaðarleg greiðslugeta kærenda tæpum 133.000 krónum en það hrökk ekki til greiðslu af fasteignaláni, sbr. það sem þegar hefur komið fram. Þá tókust kærendur á hendur sjálfskuldaábyrgð að fjárhæð 1.000.000 króna og veðsettu fasteigna sína með tryggingarbréfi að fjárhæð 5.000.000 króna.

Á árinu 2007 tóku kærendur lán að fjárhæð 1.900.000 krónur. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur þeirra voru tæpar 209.000 krónur og framfærslukostnaður 95.200 krónur. Greiðslugeta samkvæmt því var 113.800 krónur sem ekki dugði fyrir afborgunum fasteignaláns hvað þá greiðslum annarra skulda. Árið 2007 gengust kærendur í sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 2.000.000 króna og veðsettu fasteign sína fyrir 4.200.000 krónur samkvæmt skuldabréfi. Samkvæmt skattframtali var fasteign kærenda færð á rúmar 38.000.000 króna og eignastaða þeirra neikvæð um tæpar 1.300.000 krónur. Höfuðstóll veðsetninga kærenda samkvæmt skuldabréfi og tryggingarbréfum nam alls 11.800.000 krónum í lok árs 2007. Að því virtu telur kærunefndin ekki mögulegt að líta svo á að þau hafi átt eignir umfram skuldir, jafnvel þótt eign þeirra væri á þessum tíma eitthvað verðmeiri en sem nam fasteignamati.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið telur kærunefndin því að á árunum 2005, 2006 og 2007 hafi kærendur tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta þeirra og eignastaða gaf tilefni til. Með vísan til þessa telur kærunefndin því að kærendur hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. miðað ráðstöfunartekjur þeirra og eignastöðu samkvæmt framansögðu.

Í málinu eru einnig til skoðunar ábyrgðarskuldbindingar og veðsetningar kærenda í þágu X ehf. á árunum 2005 til 2007.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Þær tölulegu upplýsingar sem gerð er grein fyrir hér að framan bera skýrt með sér að kærendur tókust á hendur fjárhagslegar skuldbindingar vegna X ehf. langt umfram greiðslugetu árin 2005 til 2007. Eignastaða kærenda gaf þeim heldur ekki tilefni til að takast á hendur þessar skuldbindingar eins og rakið hefur verið. Verður þannig vart séð að kærendur hafi getað framfleytt sér, haldið eigin skuldbindingum í skilum og tekið á sig greiðslu vegna nefndra ábyrgðarskuldbindinga ef á reyndi.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að þær fjárhagsráðstafanir sem kærendur tókust á hendur í þágu X ehf. árin 2005 til 2007 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með framangreindum ráðstöfunum hafi kærendur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að allar ábyrgðarskuldbindingar kærenda og nokkur hluti veðsetninga á fasteign þeirra eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum