Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 241/2012

Fimmtudaginn 19. febrúar 2015


A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 27. desember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 19. desember 2012 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 30. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 18. febrúar 2013.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 21. febrúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 1. apríl 2011. Umboðsmaður skuldara taldi að nauðsynlegar upplýsingar skorti til að umsókn kæranda gæti talist fullbúin í samræmi við 4. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Nokkuð hafi verið gengið á eftir upplýsingum frá kæranda en með ákvörðun 15. nóvember 2012 var kæranda synjað um heimild til greiðsluaðlögunar. Sú ákvörðun var afturkölluð og var málið tekið fyrir að nýju.

Við áframhaldandi meðferð málsins komu í ljós atvik sem þóttu geta leitt til synjunar á heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Kæranda var boðið að leggja fram frekari gögn í málinu og láta álit sitt í ljós með bréfi 23. nóvember 2012. Svar kæranda barst með bréfi 11. desember 2012. Með ákvörðun 19. desember 2012 var kæranda synjað um greiðsluaðlögun með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að umboðsmanni verði gert að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi hafnar því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hans. Fyrir hendi séu allar upplýsingar um skuldir, ábyrgðir og tekjur. Vísað sé til fyrirliggjandi gagna þessu til stuðnings. Hafi umboðsmaður skuldara ekki talið að öll nauðsynleg gögn lægju fyrir, þá hefði hann átt að óska þeirra eða leita eftir þeim, enda hafi hann fullt umboð til þess.

Á því sé jafnframt byggt að ekki hafi verið gætt andmælaréttar og vísar kærandi til greinargerðar sinnar í málinu þessu til stuðnings.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Þá sé miðað við að hann geti ekki eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skuldanna, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 2. gr. lge. Við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í máli kæranda liggi fyrir að nokkuð hafi verið gengið eftir upplýsingum af hálfu embættisins. Þann 1. apríl 2011 hafi kærandi sótt um greiðsluaðlögun en umsóknin sjálf hafi um margt verið ófullbúin þar sem skort hafi upplýsingar um tekjur, framfærslu og skuldir auk þess sem undirskrift maka vantaði. Þá hafi greinargerð vantað. Kvaðst kærandi koma gögnunum áleiðis til embættisins strax eftir komandi helgi. Þann 17. maí 2011 hafi kærandi sagst ætla að koma fullbúinni umsókn ásamt greinargerð til umboðsmanns skuldara 23. maí. Engin gögn höfðu borist þegar haft var samband við kæranda símleiðis 29. júlí 2011, en þá hafi hann sagst geta skilað greinargerð rúmlega viku síðar. Enn hafi ekkert borist frá kæranda og þegar embættið hafi orðið þess áskynja í júní 2012, eða tæpu ári síðar, hafi honum verið sendur tölvupóstur þar sem honum var gefinn þriggja daga frestur til að skila ítarlegri greinargerð, undirskrift maka og skattframtali 2012.

Þann 15. júní 2012 hafi kæranda verið sent bréf sem hafi borist honum 18. júní 2012 þar sem fyrri beiðni var ítrekuð og honum gerð grein fyrir að upplýsingaskortur gæti leitt til synjunar á umsókn hans á grundvelli ónógra gagna, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þann 21. júní 2012 hafi verið hringt í kæranda sem þá hafi upplýst embættið um að hann myndi skila greinargerð strax helgina þar á eftir. Í kjölfarið hafi kæranda verið sendur tölvupóstur á ný með ítrekun um að skila þyrfti frumriti umsóknar með undirskrift maka.

Þann 25. júní 2012 hafi kærandi sent afrit af umsókn með undirskrift maka og hafi hann jafnframt tekið fram að greinargerð hans yrði skilað tveimur dögum síðar og skattframtali í vikunni þar á eftir. Þann 24. júlí 2012 hafi umbeðin gögn ekki enn borist og hafi kæranda verið veittur frestur til 1. ágúst 2012. Með símtali og tölvupósti 31. júlí 2012 hafi kæranda enn verið veittur frestur til 9. ágúst 2012 og hafi greinargerð kæranda ásamt skattframtali borist þann dag. Þann 27. ágúst 2012 hafi verið sendur tölvupóstur til kæranda þar sem farið var fram á að hann fyllti út yfirlit yfir framfærslukostnað sinn á umsókn en þeim tölvupósti hafi ekki verið svarað. Í kjölfarið hafi verið tekin ákvörðun 15. nóvember 2012 um synjun á grundvelli b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þann 19. nóvember 2012 hafi kærandi sent embættinu beiðni um að ákvörðunin yrði felld úr gildi, mál hans tekið upp á ný og honum gefið færi á að andmæla. Á umrædda beiðni hafi verið fallist og fyrri ákvörðun afturkölluð. Þann 26. nóvember 2012 hafi kæranda verið sent ítarlegt bréf og honum gefinn frestur til 11. desember til að skila gögnum og láta í ljós álit sitt á þeim álitaefnum sem uppi hafi verið. Þann 11. desember hafi andmæli kæranda borist ásamt tölvupósti þar sem fylgt hafi staðfesting á verktakastarfsemi kæranda fyrir N ehf. Í sama tölvupósti hafi kærandi hafi sagst mundu koma afritum af reikningi til embættisins í framhaldinu.

Í andmælum kæranda hafi fyrst og fremst verið að finna stöðuyfirlit yfir lán og ábyrgðarskuldbindingar, ásamt skýringum á persónulegum skattskuldum hans og félagsins E ehf.

Í bréfi embættisins frá 26. nóvember 2012 hafi ítarlega verið farið yfir þau gögn sem nauðsynleg þóttu til að hægt væri að leggja mat á umsókn kæranda. Hafi sérstaklega verið vikið að því að nauðsynlegt væri að fylla út upplýsingar á umsókn um launatekjur, framfærslu, eignir og skuldir. Hafi afrit af umsókninni fylgt bréfinu. Þá hafi einnig verið lögð rík áhersla á að glöggar upplýsingar lægju fyrir um tekjur, þar á meðal síðustu þrír launaseðlar til staðfestingar á tekjuupplýsingum. Þessi gögn hafi ekki borist.

Eftir að hafa skoðað upplýsingar frá kæranda og framkomin gögn hafi það verið niðurstaða embættisins að fyrirliggjandi gögn gæfu ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda, enda hafi aðeins verið á færi kæranda að afla og gefa umbeðnar upplýsingar. Hafi því borið að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, og umboðsmanni skuldara verði gert að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda úr gildi sem leiðir til þess að umboðsmanni skuldara beri að taka ákvörðun að nýju.

Kærandi byggir á því að andmælaréttar hafi ekki verið gætt í máli hans. Verður það ekki skilið á annan hátt en að kærandi telji að ekki hafi verið gætt andmælaréttar um þau atriði sem ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á. Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi ekki veitt embættinu upplýsingar og gögn um tekjur sínar.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 23. nóvember 2012 var óskað eftir upplýsingum frá kæranda. Í bréfinu segir að talsvert skorti á upplýsingagjöf kæranda, meðal annars varðandi tekjur, framfærslu, eignir og skuldir. Varðandi tekjur kæranda segir í bréfi umboðsmanns skuldara:

„Að þessu sögðu verður að leggja ríka áherslu á nauðsyn þess að glöggar upplýsingar liggi fyrir um tekjur þínar, þ.e. síðustu 3 launaseðlar enda eru upplýsingar um tekjur lykilgögn í samningaumleitunum er varðar fjárhag þinn og án þeirra telst fjárhagur þinn óumflýjanlega óglöggur.“

Var kæranda veittur frestur til að tjá sig skriflega um efni málsins og styðja með gögnum. Í svari kæranda 11. desember 2012 kemur fram að hann starfi sem verktaki og fái að jafnaði greiddar 625.000 krónur á mánuði í laun að meðtöldum virðisaukaskatti. Kærandi lagði fram tölvupóst frá stjórnarformanni N ehf. þar sem tilgreindar voru mánaðartekjur kæranda þessu til stuðnings. Að mati kærunefndarinnar var beiðni umboðsmanns skuldara um upplýsingar og gögn skýr. Í bréfinu kom skýrt fram að mikilvægt væri að kærandi legði fram þrjá síðustu launaseðla sína. Verður því að telja að við meðferð málsins hafi andmælaréttar gagnvart kæranda verið gætt að þessu leyti.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. þar sem kveðið er á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu. Í 2. mgr. 4. gr. segir að upplýsingar samkvæmt 1. mgr. skuli einnig gefa um maka skuldara og þá sem teljast til heimilis með honum. Í 3. mgr. 4. gr. kemur meðal annars fram að umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjendur um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í 3. mgr. 4. gr. lge. segir að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma, vottorð um hjúskaparstöðu og fjölskyldu og síðustu fjögur skattframtöl skuldara. Þá kemur fram í niðurlagi 4. mgr. sömu lagagreinar að skuldari skuli að jafnaði útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara.

Í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 23. nóvember 2012 var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um tekjur kæranda. Einu upplýsingarnar um tekjur kæranda er yfirlýsing í tölvupósti frá stjórnarformanni N ehf. þar sem segir að kærandi hafi á árinu 2012 starfað hjá félaginu og hafi „að jafnaði“ fengið greiddar 625.000 krónur á mánuði fyrir þá vinnu. Engin frekari gögn styðja þessa yfirlýsingu. Upplýsingar um tekjur eru mikilvægar og þurfa þær að varpa ljósi á fjárhag og greiðslubyrði skuldara, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Eru þetta grundvallarupplýsingar sem þurfa að liggja fyrir til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu. Það er mat kærunefndarinnar að fyrirliggjandi gögn og upplýsingar um tekjur kæranda séu ekki fullnægjandi. Samkvæmt skattframtölum kæranda hefur hann verið nánast tekjulaus, og er ekki að finna fullnægjandi skýringar á því í gögnum málsins.

Að mati kærunefndarinnar skortir því á að kærandi hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem gefi nægilega glögga mynd af fjárhag hans eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur. Var því umboðsmanni skuldara rétt samkvæmt lagaákvæðinu að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum