Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 213/2012

Fimmtudaginn 8. janúar 2015

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 13. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 23. október 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 20. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 10. janúar 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1960 og býr ásamt dóttur sinni í 98 fermetra leiguíbúð að B götu nr. 74 í sveitarfélaginu D. Kærandi var áður eigandi íbúðarinnar en Íbúðalánasjóður eignaðist hana á uppboði árið 2009. Kærandi hefur lokið BA-gráðu í bókasafns- og upplýsingafræði og eins árs námi sem tölvukennari. Hún starfar sem verktaki við kennslu- og ritstörf. Mánaðarlegar heildartekjur hennar árið 2011 voru 283.138 krónur og voru launatekjur, vaxtabætur, barnabætur og húsaleigubætur.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2002 þegar jafnt og þétt hafi dregið úr verkefnum á vinnustað hennar og undir lokin hafi tekjur rétt dugað fyrir nauðsynjum. Þá megi rekja erfiðleika hennar til atvinnuleysis.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 26.739.141 króna og falla þar af 5.790.896 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Kærandi lagði fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 3. ágúst 2010. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. mars 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings var sent kröfuhöfum 27. september 2011. Í frumvarpinu kemur fram að greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 13.299 krónur á mánuði.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 20. mars 2012 tilkynnti umsjónarmaður að hann teldi að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil þar sem kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að 27. september 2011 hafi frumvarp til samnings um greiðsluaðlögun verið sent til kröfuhafa. Mælt hafi verið fyrir um niðurfellingu allra samningsskuldbindinga og hafi engar athugasemdir borist frá kröfuhöfum utan athugasemdir frá Embætti tollstjóra vegna ógreiddra opinberra gjalda að fjárhæð 2.635.894 krónur sem voru tilkomin eftir að sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar. Ljóst væri að samningar myndu ekki nást við Tollstjóra og því væri ekki annað fært en að vísa máli kæranda til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. enda um að ræða upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 9. maí 2012 þar sem henni var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunarumleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Í bréfi umboðsmanns kemur fram að embættinu hafi borist bréf umsjónarmanns þar sem greint hafi verið frá því að kærandi hafi stofnað til skuldar við Tollstjóra eftir að sótt var um heimild til greiðsluaðlögunar. Um hafi verið að ræða þing- og sveitarstjórnargjöld að fjárhæð 1.312.175 krónur, reiknað endurgjald af launum 887.662 krónur auk tryggingagjalds 375.976 krónur. Greiðsluskjól hafi staðið yfir síðan 27. október 2010 og hafi kærandi með því að greiða ekki opinber gjöld frá þeim tíma stofnað til nýrra skulda og þar með skaðað hagsmuni lánardrottna í skilningi d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmanni skuldara bárust skýringar kæranda með bréfum 21. og 30. maí 2012. Í fyrra bréfi kæranda kemur fram að þegar hún sótti um heimild til greiðsluaðlögunar hafi hún verið í vanskilum með leigu til Íbúðalánasjóðs. Hún hafi þurft að greiða vanskilin sem námu um 600.000 krónum til að halda húsnæðinu. Þá hafi hún verið búin að fá fyrirframgreidd laun þegar hún sótti um greiðsluaðlögun og auk þess hafi hún þurft að leita til tannlæknis sem hafi kostað um 500.000 krónur. Kærandi kveðst hafa dregið úr neyslu, hætt að reykja og selt bifreið sína í því skyni að láta allt ganga upp. Í síðara bréfi kæranda kemur meðal annars fram að kærandi hafi greitt skólagjöld fyrir dóttur sína að fjárhæð 209.000 krónur og tannlæknakostnað að fjárhæð 350.000 krónur. Varðandi skattskuldir þá kveðst kærandi hafa talið skuldina um 1.200.000 krónur.

Með bréfi til kæranda 13. ágúst 2012 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður með vísan til 15. gr., sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um greiðsluaðlögun haustið 2010. Íbúð hennar hafi farið á nauðungaruppboð í febrúar 2009, nokkrum vikum áður en heimild til frestunar á þeim tók gildi. Þegar greiðsluskjól komst á hafi kærandi skuldað töluvert í húsaleigu. Í apríl 2011 hafi komið í ljós að kærandi hafi þurft að greiða 600.000 krónur vegna ógreiddrar leigu til Íbúðalánasjóðs. Þetta hafi verið fé sem hafi átt að nota til að greiða Tollstjóra. Einnig hafi kærandi á þessum tíma framfleytt sér á fyrirframgreiddum tekjum. Þá hafi kærandi staðið frammi fyrir töluverðum tannlæknakostnaði.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi ráðstafað 600.000 krónum í leigu til Íbúðalánasjóðs, 455.000 krónur í tannlæknakostnað, 350.000 krónur í tannlæknakostnað fyrir dóttur sína og 209.000 krónum í skólagjöld fyrir dóttur sína.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að í 1. mgr. 12. gr. lge. sé kveðið á um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna, svonefnt greiðsluskjól, stendur yfir. Í d-lið ákvæðisins komi fram að skuldari skuli ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna nema skuldbindingar sem stofnað hafi verið til hafi verið nauðsynlegar til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða.

Kærandi hafi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun í ágúst 2010. Frestun greiðslna hófst í októbermánuði sama ár. Öllum umsækjendum um greiðsluaðlögun sem nutu frestunar greiðslna hafi verið sent bréf 8. apríl 2011, þar sem brýndar hafi verið skyldur þeirra samkvæmt 12. gr. lge. Umræddar upplýsingar sé einnig að finna á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og umsækjanda. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. fylgt með ákvörðun um samþykki á umsókn kæranda 22. mars 2011 sem henni hafi borist með ábyrgðarbréfi.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi ekki staðið skil á greiðslu opinberra gjalda á þeim tíma sem frestun stóð yfir samkvæmt 11. gr. lge. Um sé að ræða ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld samtals að fjárhæð 2.000.887 krónur sem fallið hafi í gjalddaga 2011 og 2012. Frá nóvember 2010 til maí 2012 hafi um 213.619 krónur fallið í gjalddaga vegna staðgreiðslu reiknaðra launa, auk 562.099 króna vegna staðgreiðslu tryggingagjalds. Um sé að ræða álagningu gjaldanna. Ljóst sé að umrædd gjöld teljast til krafna sem hafi orðið til eftir að umsókn um greiðsluaðlögun var móttekin, sbr. a-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Frestun greiðslna nái ekki til krafna sem orðið hafi til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi verið veitt, sbr. 3. mgr. 11. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi mikil óvissa skapast um fjárhag kæranda í nánustu framtíð. Kröfur vegna ógreiddra opinberra gjalda sem fallið hafi til eftir að frestun greiðslna hófst nemi 2.776.605 krónum. Þrátt fyrir skýringar kæranda verði ekki talið að stofnun framangreindra vanskila hafi verið nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hennar farborða. Ekki sé talið að fjárútlát vegna tannviðgerða og annarra útgjalda sem kærandi hafi tilgreint í samskiptum sínum við umboðsmann skuldara veiti fullnægjandi skýringar á þeirri skuldasöfnun sem um ræði. Þá telur umboðsmaður skuldara fjárhæð vanskila svo háa að ekki sé vafi á því að hagsmunir annarra kröfuhafa hafi skaðast af skuldasöfnun kæranda. Telja verði að slík háttsemi feli í sér ótvírætt brot á skyldum skuldara samkvæmt d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara tekur fram að Embætti tollstjóra hafi ávallt krafist þess að opinber gjöld, sem fallið hafi í gjalddaga eftir að frestun greiðslna hefjist, verði greidd með eingreiðslu áður en samningur um greiðsluaðlögun komist á. Þá verði einnig að hafa í huga að fjárhæð þeirra skulda sem kærandi hafi safnað á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir hafi verið veruleg miðað við tekjur hennar og fjárhagsstöðu að öðru leyti. Ekki verði séð að skýringar kæranda útskýri vanskil hennar nema að hluta.

Með vísan til forsenda hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Samkvæmt ákvæðinu skal skuldari ekki stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Sú undanþága er gerð að heimilt er að stofna til nýrra skuldbindinga þegar skuldbinding er nauðsynleg til að sjá skuldara og fjölskyldu hans farborða. Í nefndaráliti félags- og tryggingamálanefndar Alþingis kemur fram að framangreind undanþága sé sett til að tryggt sé að námsmönnum sé heimilt að sækja um fyrirgreiðslu til banka vegna framfærslu. Ákvæðið sé þó ekki einskorðað við námsmenn en því sé ætlað að hafa þröngt gildissvið. Undir það falli til að mynda skuldbindingar vegna húsnæðis og öflunar aðfanga sem séu nauðsynleg heilsu og velferð fjölskyldunnar.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II þeirra laga skyldi tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. hefjast þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun en sú tilhögun gildir um umsóknir sem komu fram fyrir 1. júlí 2011. Bráðabirgðaákvæðið tók þó ekki gildi fyrr en í október 2010 en í hinni kærðu ákvörðun er miðað við að það eigi við um kæranda frá 27. október 2010. Þá kemur einnig fram í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Bar kæranda því að virða skyldur sínar samkvæmt 12. gr. laganna þegar bráðabirgðaákvæðið hafði tekið gildi gagnvart henni en umsókn hennar var móttekin hjá umboðsmanni skuldara 3. ágúst 2010.

Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Það gerði hann með bréfi 20. mars 2012.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á því að kærandi hafi látið hjá líða að greiða opinber gjöld og þannig stofnað til skulda á meðan frestun greiðslna stóð yfir. Um sé að ræða ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld 2.000.887 krónur, staðgreiðslu vegna reiknaðra launa 213.619 krónur og tryggingagjald 562.099 krónur, samtals 2.776.605 krónur. Samkvæmt athugun kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nema skattskuldir kæranda nú alls 13.157.734 krónum að meðtöldum vöxtum. Um er að ræða skattskuldir frá árunum 2003 og 2005 til 2014.

Kærandi kveðst hafa ráðstafað fjármunum, sem hafi átt að fara til greiðslu skatta, til að greiða eftirfarandi útgjöld í krónum:

Húsaleiga 600.000
Tannlæknir 455.000
Skólagjöld f. dóttur 209.000
Tannlæknir f. dóttur 350.000
Samtals 1.614.000

Ákvörðun umboðsmanns miðast við þær skattskuldir sem kærandi stofnaði til meðan leitað var greiðsluaðlögunar og nema 2.776.605 krónum. Kærandi hefur lagt fram skýringar á ráðstöfun 1.614.000 króna og skortir því á fullnægjandi skýringar kæranda á skuldasöfnun sem nemur 1.162.605 krónum.

Í athugasemdum við 12. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að samkvæmt c- og d-liðum skuli skuldari ekki grípa til umfangsmeiri ráðstafana, svo sem að láta af hendi eða veðsetja eignir eða stofna til nýrra skulda eða gera aðrar ráðstafanir sem gætu skaðað hagsmuni lánardrottna. Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana ekki greitt tryggingagjald, þing- og sveitarsjóðsgjöld og reiknað endurgjald sem nemur 2.776.605 krónum. Kærandi hefur ekki lagt fram nema að hluta viðhlítandi skýringar eða gögn á því að henni hafi verið nauðsynlegt að stofna til umræddra skulda. Verður því að fallast á það mat umboðsmanns skuldara að háttsemi kæranda á meðan hún leitaði greiðsluaðlögunar hafi verið brot á d-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum