Hoppa yfir valmynd
4. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 150/2012

Fimmtudaginn 4. desember 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 27. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. júlí 2012 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda  voru felldar niður.

Með bréfi 11. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. nóvember 2012. Greinargerð umboðsmanns var send kæranda með bréfi 7. nóvember 2012 þar sem honum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við greinargerðina. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. september 2011 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar og var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar­umleitunum. 

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. mars 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Taldi umsjónarmaðurinn að skuldir vegna vangoldins virðisaukaskatts að fjárhæð 1.640.791 króna hindruðu það að greiðsluaðlögun yrði samþykkt, sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Með bréfi 27. mars 2012 var kæranda tilkynnt um mögulega niðurfellingu greiðsluaðlögunarumleitana og var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós og leggja fram frekari gögn innan tilskilins frests. Engin efnisleg andmæli bárust frá kæranda.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. júlí 2012 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda felldar niður með vísan til 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði felld úr gildi.

Í kæru er vísað til þess að kæranda hafi verið veittur frestur til þess að kæra og til að skila inn rökstuðningi til kærunefndarinnar síðar. Engar athugasemdir eða röksemdir bárust frá kæranda.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að sá einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar er sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Sé þá miðað við að hann geti ekki staðið við eða eigi í verulegum erfiðleikum með að standa við fjárskuldbindingar sínar um fyrirséða framtíð með tilliti til eðlis skulda, eigna og fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hans að öðru leyti, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. laganna. Komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Í d-lið sömu greinar segi að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Fyrir liggi að kærandi gæti þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 vegna vanskila á virðisaukaskatti. Í máli umsækjanda nemi fjárhæð virðisaukaskattskuldarinnar 1.640.791 krónu. Um sé að ræða kröfur byggðar á innsendum skýrslum til tollstjóra og sé því um rétta álagningu umræddra gjalda að ræða.

Að mati umboðsmanns skuldara sé það ekki skilyrði þess að skuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til greiðsluaðlögunarumleitana að refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. verið staðfestur með úrskurði kærunefndarinnar í máli nr. 10/2011 þar sem segi að framangreint ákvæði lge., sem sé samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei.

Af orðalagi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. verði ráðið að við beitingu þess skuli borin saman umfang skuldbindinga sem varði refsingu og fjárhagur skuldara. Ekki verði séð að hátt hlutfall skulda sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu eigi eitt og sér að ráða úrslitum við matið.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009 hafi umsækjanda verið synjað um greiðsluaðlögun samkvæmt samhljóða ákvæði eldri laga vegna virðisaukaskattskuldar að fjárhæð 1.780.437 krónur. Í dóminum hafi farið fram heildarmat á aðstæðum skuldara þar sem umfang vörsluskattskuldarinnar hafi verið borið saman við fjárhag hans, þ.e. eigna- og skuldastöðu. Í niðurstöðukafla dómsins vísi Hæstiréttur meðal annars til þess að skuldin nemi 8,3% af heildarskuldum skuldara. Ekki verði séð að það atriði hafi eitt og sér ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins. Hæstiréttur vísi þannig einnig til þess að vörsluskattskuldin, sem nam 1.780.437 krónum, hafi ein og sér verið allhá auk þess sem samanburður á umfangi skuldarinnar við fjárhag skuldara að öðru leyti hafi þótt leiða í ljós að fjárhagur hans væri ekki slíkur að skuldin gæti talist smávægileg með hliðsjón af fjárhag hans. Að þessu virtu hafi umboðsmaður skuldara ekki talið hjá því komist að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar segir að greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge. sé tiltölulega nýtt úrræði og því hafi ýmsir þættir þess skýrst eftir því sem meðferð mála hjá embættinu og umsjónarmönnum með greiðsluaðlögunarumleitunum hafi undið fram. Þannig þætti nú ljóst að Tollstjóri telji sér að mestu leyti óheimilt að semja um eftirgjöf skulda vegna vangoldins virðisaukaskatts í tengslum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að Tollstjóri hafi ekki fallist á að semja um greiðsludreifingu í þeim tilfellum ef skuld vegna vörsluskatts sem þessi nemi hærri fjárhæð en 1.000.000 króna. Hafi Tollstjóri krafist þess að fá allar skuldir sem nemi slíkri fjárhæð greiddar með eingreiðslu. Þessi afstaða Tollstjóra hafi ekki legið fyrir með jafn skýrum hætti við meðferð umsóknar kæranda um greiðsluaðlögun.

Við töku ávörðunar um heimild til greiðsluaðlögunar hafi heldur ekki legið fyrir skilningur kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem birtist í máli nr. 17/2011 um samspil f-liðar 3. gr. lge. og d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Þannig þyki hafa komið fram upplýsingar sem hindri að greiðsluaðlögun nái fram að ganga. Kæranda hafi verið veitt tækifæri til að leggja fram gögn og láta álit sitt í ljós. Að mati umboðsmanns skuldara hafi þótt rétt að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar, sbr. 15. gr. lge.

Frekari rökstuðningur hafi ekki borist frá kæranda þrátt fyrir að hann hafi verið boðaður. Með vísan til framangreinds og forsendna hinnar kærður ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr., sbr. 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í 15. gr. lge. segir að ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna um slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun. Í athugasemdum með frumvarpi til lge. segir að samkvæmt 15. gr. skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana komi upp tilvik eða aðstæður sem hann telji að muni hindra að greiðsluaðlögun verði samþykkt. Þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þegar nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt I. og II. kafla lge. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 16. mars 2012 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge.

Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til ákvæða d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, og hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem leitt geta til refsingar girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. fortakslaus ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld kæranda nemi einhverju miðað við fjárhag hans. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Eftir því sem ráðið verður af gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um 17.682.773 krónur. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi, þ.e. ógreiddum virðisaukaskatti, nemur samkvæmt gögnum málsins alls 1.640.791 krónu eða um 4,3% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er getur varðað refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem hafði bakað sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur, sem nam um 8,3% af heildarskuldum og var ekki smávægileg með hliðsjón af eignum skuldara, með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar. Uppfyllir kærandi þar með ekki skilyrði lge. til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum