Hoppa yfir valmynd
11. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 107/2014

Fimmtudaginn 11. desember 2014


A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 6. nóvember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B lögfræðings, sem tilkynnt var með bréfi 23. október 2014, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 16. janúar 2012 var kæranda veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Þann 20. janúar 2012 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum í máli kæranda. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 13. mars 2013. Andmæli bárust frá Íslandsbanka, meðal annars vegna skorts á sparnaði í greiðslu­skjóli.

Umsjónarmaður var í annað sinn skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda og sendi hann frekari upplýsingar og skýringar til Íslandsbanka. Óskaði umsjónarmaður eftir því að frumvarpið yrði borið undir lánanefnd bankans. Þann 21. ágúst 2013 barst umsjónarmanni tölvupóstur frá Íslandsbanka þar sem frumvarpinu var hafnað. Vísaði bankinn til þess að kærandi hefði hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til skuldbindingar var stofnað, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umsjónarmaður óskaði frekari skýringa á afstöðu bankans og bárust honum skýringar Íslandsbanka 20. september 2013. Umsjónarmaður gerði kæranda grein fyrir afstöðu Íslandsbanka og gaf henni færi á að gefa skýringar sem bárust umsjónarmanni 3. október 2013. Umsjónarmaður áframsendi skýringar kæranda til Íslandsbanka. Þrátt fyrir þær breytti bankinn ekki afstöðu sinni til frumvarpsins.

Þann 16. janúar 2014 sendi umsjónarmaður tilkynningu til umboðsmanns skuldara, þar sem lagt var til að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr., sbr. b- og c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

 

Þann 15. september 2014 tók umboðsmaður skuldara ákvörðun um að veita kæranda áframhaldandi heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Byggði umboðsmaður skuldara ákvörðun sína á því að greiðslugeta kæranda hefði verið neikvæð og því hafi henni ekki borið að leggja til hliðar fjármuni í greiðsluskjóli. Varðandi b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. tók umboðsmaður skuldara fram að þar sem engar nýjar upplýsingar hefðu komið fram væri ekki hægt að fella málið niður á grundvelli þeirra ákvæða.

Umsjónarmaður var í þriðja sinn skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Umsjónarmaður hafði samband við Íslandsbanka og kannaði hvort bankinn væri tilbúinn til að endurskoða afstöðu sína. Málið fór að nýju fyrir lánanefnd bankans og var niðurstaðan sú að ekki var fallist á að endurskoða fyrri afstöðu til greiðsluaðlögunar kæranda. Kærandi var upplýst um framkomin mótmæli og að samningar myndu ekki takast í samræmi við IV. kafla lge. þar sem ljóst væri að Íslandsbanki myndi ekki falla frá mótmælum sínum. Skuldari lýsti því yfir í kjölfarið að hún vildi leita nauðasamnings eftir ákvæðum 18. gr. lge.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 23. október 2014 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge. með vísan til 6. gr. lge. og afstöðu kröfuhafa til nauðasamnings.

 

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. lge. skal umsjónarmaður taka rökstudda afstöðu til þess innan tveggja vikna hvort hann mæli með því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á, lýsi skuldari því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings. Við mat á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa greiðsluaðlögunarumleitanir til sín taka.

Það hafi verið mat umsjónarmanns, með hliðsjón af 18. gr. lge. þar sem fram kemur að umsjónarmanni beri að kanna hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, að háttsemi kæranda verði heimfærð undir b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið ákvæðisins sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagskuldbindinganna var stofnað.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi hún gengist í ábyrgð fyrir R ehf., ásamt öðrum, fyrir kröfu að fjárhæð 32.350.000 krónur 30. nóvember 2005. Krafan hafi einnig verið tryggð með veði í C götu nr. 27, sem sé fasteign sem ekki var í eigu kæranda. Þá hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir einkahlutafélagið S ehf., ásamt öðrum, fyrir kröfu að fjárhæð 8.000.000 króna 9. október 2006.

Þann 20. september 2006 hafi kærandi samþykkt veðsetningu á 1. veðrétti á D götu nr. 16, sveitarfélaginu E, vegna kröfu frá Íslandsbanka, upphaflega að fjárhæð 30.000.000 króna, en skuldari kröfunnar var fyrrverandi eiginmaður kæranda. Þá hafi kærandi samþykkt veðflutning frá fyrri fasteign sinni yfir á fasteignina að D götu nr. 16, frá Íslandsbanka, upphaflega að fjárhæð 16.000.000 króna 28. september 2007, en skuldari kröfunnar var einnig fyrrverandi eiginmaður kæranda. Auk þess hafi kærandi tekið 30.500.000 króna húsnæðislán hjá Arion banka 1. október 2007 með fyrrverandi eiginmanni, sem tryggt hafi verið með 3. veðrétti í fasteign kæranda að D götu nr.  16, sveitarfélaginu E.

Einnig hafi kærandi ábyrgst erlenda bankaábyrgð ásamt öðrum 23. mars 2007 fyrir einkahlutafélagið 7. október ehf., upphaflega að fjárhæð 211.250 danskar krónur.

Þann 12. febrúar 2008 hafi kærandi keypt Range Rover bifreið að fjárhæð 8.900.000 krónur og hafi hún tekið bílalán að fjárhæð 7.846.154 krónur fyrir þeim kaupum. Mánaðarleg greiðslubyrði lánsins hafi verið 113.451 króna þrátt fyrir að greiðslugeta kæranda hafi aðeins verið 30.000 króna og aðrar skuldir hennar hafi numið um 138.000.000 króna.

Eignastaða kæranda hafi á þessum tíma verið þannig að hún var þinglýstur eigandi hesthúss að F götu nr. 15, sveitarfélaginu E. Kaupverð hesthússins árið 2004 hafi verið 15.000.000 króna. Á því hafi hvílt lán upphaflega að fjárhæð 15.000.000 króna sem kærandi hafði samþykkt að tryggt yrði með veði í hesthúsinu. Kærandi hafi einnig verið þinglýstur eigandi fasteignarinnar að D götu nr. 16 frá 14. ágúst 2006. Ekki hafi legið fyrir verðmat eignarinnar á árunum 2006 til 2008. Fasteignamat hennar árið 2012 hafi verið 59.500.000 krónur. Fasteignin hafi verið seld í október 2012 á 63.000.000 króna. Fram komi í kauptilboði að fasteignin hafi ekki verið fullkláruð og að áætlaður viðgerðarkostnaður og annar kostnaður við að klára eignina nemi um 15.000.000 króna. Út frá þessu megi ráða að verðmat fasteignarinnar hafi ekki verið mikið meira en 63.000.000 króna. Megi því áætla að skuldir kæranda hafi verið töluvert hærri en eignir hennar.

Þegar litið sé heilstætt á það hvernig kærandi hafi hagað fjármálum sínum telji umsjónarmaður fyrrgreind ákvæði 6. gr. lge. taka til háttsemi kæranda. Ljóst sé að fjárfestingar kæranda hafi verið verulegar og hvorki í samræmi við tekjur né eignir kæranda á þeim tíma.

Auk þess sé ekki hjá því komist að líta til afstöðu kröfuhafa, sbr. 18. gr. lge., en þar sé sérstaklega tekið fram að umsjónarmanni beri að skoða hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa greiðsluaðlögunarumleitanir til sín taka.

Með vísan til þess hafi umsjónarmanni ekki verið annað fært en að mæla gegn því að nauðasamningur komist á, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Engar kröfur eru settar fram í málinu af hálfu kæranda en skilja verður málatilbúnað hennar á þann veg að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að fyrir hrun hafi einbýlishús kæranda að D götu nr.  16 verið að verðmæti 120.000.000-140.000.000 króna. Erlent lán hafi hvílt á húsinu frá Arion banka að fjárhæð 30.000.000 króna. Kærandi hafi ábyrgst lán fyrir fyrrum sambýlismann sem fyrst hafi verið tryggt með veði í nánast skuldlausri íbúð kæranda að G götu nr. 1, sveitarfélaginu E. Veðið hafi verið fært yfir á fasteingina að D götu nr. 16. Lánið hafi verið tekið vegna atvinnurekstrar sambýlismanns. Fleiri lán hafi svo fylgt í kjölfarið, yfirdrættir o.fl. sem fyrrum sambýlismaður kæranda hafi tekið. Þessi lán hafi verið vegna nýs atvinnurekstrar, hestakaupa o.fl. Kærandi kveðst hafa í einfeldni sinni skrifað upp á þessi lán í þeirri trú að hann myndi standa við skuldbindingar sínar, sem hann hafi gert á þeim tíma.

Kærandi kveðst hafa átt Range Rover bifreið á þessum tíma sem metin hafi verið á 8.000.000 króna. Kærandi hafi tekið 4.000.000 króna erlent lán með veði í henni og hafi afborganir af því verið 50.000-60.000 krónur sem sambýlismaður kæranda hafi greitt.

Fyrir hrun hafi kærandi rekið teiknistofuna X ehf. ásamt meðeiganda. Engin lán hafi verið tekin vegna rekstrarins og hafi rekstrarhagnaður verið um 8.000.000 króna árið 2008. Einnig hafi kærandi átt 75% í hesthúsi að F götu nr. 15 sem keypt hafi verið fyrir 15.000.000 króna. Kærandi hafi staðgreitt sinn hluta, 10.000.000 króna, og sambýlismaður hennar hafi tekið 5.000.000 króna erlent lán sem kærandi hafi ábyrgst en lánið hafi einnig verið tryggt með veði í fasteign. Hesthúsinu hafi verið skipt í tvö minni hesthús og annað þeirra selt til Íslandsbanka fyrir 7.500.000 krónur.

Kærandi bendir á að öll lán sambýlismanns hennar hafi verið veitt af hans viðskiptabanka, Íslandsbanka. Bankinn hafi samþykkt ábyrgð kæranda á þessum tíma. Eftirstöðvar láns sem nam 24.000.000 krónum þegar það var tekið sé nú 34.000.000 krónur. Lántakendur hafi verið fjórir einstaklingar og kveðst kærandi hafa boðist til að greiða fjórðung lánsins þegar komið var í óefni. Íslandsbanki hafi þó ekki samþykkt það.

Fasteign kæranda að D götu nr. 16 og hesthúsið að F götu  hafi nú verið seld. Íslandsbanki hafi því fengið í sinn hlut rúmar 70.500.000 krónur. Eftir standi kröfur frá bankanum sem nemi 40.000.000 króna. Það sé rúmlega helmingi meira en upphafleg fjárhæð lánsins. Bankinn hafi því fengið greidd tæplega 70% af kröfum sínum. Kröfur bankans hafi verið „reiknaðar í topp“ og hækkað nánast um helming. Þá hafi verðgildi fasteigna lækkað um helming og atvinnurekstur kæranda hrunið. Einnig hafi rekstur fasteignasölu fyrrverandi sambýlismanns kæranda hrunið. Hann hafi verið úrskurðaður gjaldþrota og sé nú laus allra mála.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á vegna háttsemi kæranda sem teljist varða við b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. og hefði í öndverðu átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Byggist rökstuðningur umsjónarmanns aðallega á þessu mati en einnig vísar umsjónarmaður til grundvallar ákvörðun sinni til viðhorfs þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 18. gr. lge.

Í 18. gr. lge. segir að umsjónarmaður skuli líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar. Að mati kærunefndarinnar er hér átt við að nýjar upplýsingar komi fram sem ekki lágu fyrir þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun um að heimila greiðsluaðlögun. Umboðsmanni skuldara er heimilt en ekki skylt að synja skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli heildstæðs mats með sérstöku tilliti til atriða sem tilgreind eru í stafliðum 2. mgr. 6. gr. lge. Niðurstaða þessa mats umboðsmanns skuldara getur ekki sætt endurskoðun umsjónarmanns þegar ekkert nýtt hefur komið fram. Þær upplýsingar sem tilgreindar eru í hinni kærðu ákvörðun og umsjónarmaður taldi varða 2. mgr. 6. gr. lge. lágu fyrir þegar umboðsmaður skuldara veitti kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Í málinu liggur fyrir að umsjónarmaður sem skipaður var í annað sinn vísaði málinu til umboðsmanns skuldara á grundvelli 15. gr. lge. meðal annars með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Þrátt fyrir þetta ákvað umboðsmaður skuldara að heimild til greiðsluaðlögunar skyldi ekki felld úr gildi enda taldi embættið að ekki væri um nýjar upplýsingar að ræða sem leitt gætu til þess að greiðsluaðlögunarumleitandir kæranda yrðu felldar niður.  

Að þessu virtu verður að telja að sú afstaða umsjónarmanns að mæla gegn því að nauðasamningur komist á verði ekki byggð á því mati sem lagt er til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun. Þar sem engar nýjar upplýsingar hafa komið fram eftir að kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunar kemur ekki til þess að umsjónarmaður eigi mat um það hvort átt hefði að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar. Því kemur slíkt mat ekki til álita á grundvelli 18. gr. lge. eins og vísað er til í hinni kærðu ákvörðun. Verður því að telja að hina kærðu ákvörðun skorti að þessu leyti viðhlítandi lagastoð. 

Þá vísar umsjónarmaður til þess að ekki verði hjá því komist að líta til afstöðu þeirra kröfuhafa sem hafa látið greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda til sín taka. Afstaða Íslandsbanka er sú að ekki verði samið við kæranda þar sem hún hefði hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma er til skuldbindingar var stofnað. Með vísan til þess að kærunefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að engar nýjar upplýsingar hefðu komið fram eftir að kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunar þykir ekki koma til álita að viðhorf Íslandsbanka í þessum efnum skipti máli við mat á því hvort umsjónarmanni sé rétt að mæla með að nauðasamningur komist á.

Samkvæmt framangreindu telur kærunefndin að umsjónarmaður geti ekki mælt gegn nauðasamningi á grundvelli þeirra sjónarmiða sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun þar sem umboðsmaður skuldara hefur þegar ákveðið á grundvelli sömu gagna og upplýsinga sem tilgreind eru í ákvörðun umsjónarmanns að veita beri kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.  Eins og að framan er lýst getur sú afstaða kröfuhafa sem byggt er á í hinni kærðu ákvörðun ekki skipt máli við úrlausn á því hvort umsjónarmanni hafi verið rétt að mæla gegn því að nauðasamningur kæmist á.

Þar sem hina kærðu ákvörðun umsjónarmanns þykir samkvæmt framangreindu skorta viðhlítandi lagastoð ber að fella hana úr gildi.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B um að mæla gegn því að nauðasamningur A komist á, er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum