Hoppa yfir valmynd
11. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 220/2012

Fimmtudaginn 11. desember 2014


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 26. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. nóvember 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 11. desember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 5. febrúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. febrúar 2013 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda 25. mars 2013.

Með bréfi 26. mars 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1960. Hann er fráskilinn og býr í leiguhúsnæði að B götu nr. 15 í sveitarfélaginu C en húsnæðið var áður í eigu kæranda. Kærandi á þrjú börn og deilir forsjá með barnsmóður sinni. Kærandi er í 25% starfi sem framkvæmdastjóri X ehf. Útborguð laun hans eru að meðaltali 76.800 krónur á mánuði.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til tekjulækkunar, ábyrgðarskuldbindinga og hækkunar lána eftir hrun á fjármálamarkaði.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda alls 106.341.170 krónur. Einnig hefur kærandi gengist í umtalsverðar ábyrgðarskuldbindingar. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005 til 2010.

Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 19. maí 2011. Umsókninni var synjað með ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 12. nóvember 2012 með vísan til c-, e-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að kærunefndin felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi.

Kærandi telur ákvörðun umboðsmanns skuldara ranga, illa rökstudda, óljósa, ómálefnalega og villandi og taka hvorki mið af málsatvikum né staðreyndum. Einnig telur kærandi að embættið hafi ekki tekið tillit til framkominna sjónarmiða hans. Af þessum sökum sé ákvörðun umboðsmanns hvorki í samræmi við tilgang né markmið lge., sér í lagi 1. mgr. 1. gr. þar sem segi að tilgangur laganna sé að gefa skuldara kost á að endurskipuleggja fjármál sín. Þá er það mat kæranda að umboðsmaður skuldara meti málið út frá seinni tíma aðstæðum í stað þess að miða við þær aðstæður sem uppi voru í íslensku efnahagslífi frá árinu 2003 og fram að efnahagshruni 2008. Loks álítur kærandi að umboðsmaður hafi ekki gætt rannsóknarreglu 5. gr. lge. við meðferð málsins. Sé þetta sérlega ámælisvert þar sem um mjög íþyngjandi stjórnsýsluákvörðun sé að ræða.

Umboðsmaður byggi ákvörðun sína meðal annars á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Komist umboðsmaður að þeirra niðurstöðu að ekki verði hjá því komist að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til þessa stafliðs.

Allir stafliðir 2. mgr. 6. gr. lge. séu heimildarákvæði en ekki skylduákvæði en kærandi vísar til úrskurðar kærunefndarinnar í máli nr. 4/2010 þessu til staðfestingar. Hvað þennan staflið varði virtist umboðsmaður byggja niðurstöðu sína á ábyrgðar-skuldbindingum og hlutabréfakaupum kæranda. Kærandi bendi á að ábyrgðar-skuldbindingar hans hafi allar verið gerðar á árunum 2006 til 2008 þegar eignir hans hafi verið milljónir króna og tekjur hans miklar. Kærandi hafi ekki getað séð það fyrir frekar en aðrir að eignir hans myndu rýrna á sama tíma og skuldir ykjust vegna ólögmætra gengislána. Kærandi hafi ítrekað bent á að ekki sé nægilegt að horfa til nafnverðs þess hlutafjár sem skráð hafi verið eign kæranda á þessum tíma Y ehf. sé hér sérstaklega nefnt en umboðsmaður hafi kosið að láta hjá líða að kanna þetta atriði og þar með hafi hann brotið gegn rannsóknarreglu 5. gr. lge. Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hafi slík afgreiðsla embættisins leitt til ógildingar á ákvörðun umboðsmanns.

Y ehf. hafi átt miklar eignir. Í ársreikningi félagsins vegna ársins 2007 hafi komið fram að eigið fé þess væri 1.325.000.000 króna. Kærandi hafi átt 50% hlut og því hafi eign hans í félaginu verið 662.500.000 krónur. Kærandi hafi einnig átt 40% eignarhlut í Z ehf. en það félag hafi átt margar fasteignir. Á árinu 2007 hafi hluthafar félagsins fengið skriflegt kauptilboð í allt hlutafé félagsins að fjárhæð 479.132.926 krónur. Samkvæmt þessu hafi hlutur kæranda í félaginu verið að verðmæti 191.653.170 krónur. Hafi eignarhlutar kæranda í þessum tveimur félögum því verið metinn á ríflega 850.000.000 krónur. Umboðsmanni skuldara hafi verið í lófa lagið að kanna raunvirði hlutafjáreigna kæranda en embættið hafi þó kosið að horfa á nafnverð hlutafjárins. Hefði þetta getað haft úrslitaáhrif í málinu þar sem það hefði sýnt fram á miklu betri eignastöðu kæranda. Á árinu 2007 hafi kærandi átt eftirfarandi eignir í innstæðum og skráðum hlutabréfum í krónum:

Innstæður í bönkum og sparisjóðum 63.333.684
Hlutabréf í Kaupþingi hf. 23.230.063
Hlutabréf í Exista hf. 1.223.671
Hlutabréf í Hlutabréfasjóðnum hf. 470.085
Hlutabréf í Föroya Banka 3.056.002

Embætti umboðsmanns hafi ekki reynt að finna verðmæti í þessum opinberlega skráðu félögum sem hefði átt að vera einfalt. Ljóst sé að verðmæti þessara hlutafjáreigna hlaupi á tugum milljóna króna. Hafi kærandi talist stórefnaður á íslenskan mælikvarða á þessum tíma.

Í hinni kærðu ákvörðun sé fjallað um „ábyrgðarskuldbindingar“ vegna hlutabréfakaupa. Að langstærstum hluta hafi kærandi nýtt lánsféð til kaupa á hlutabréfum í Z hf. sem á þeim tíma hafi verið talið sterkt félag, skráð í Kauphöll Íslands. Umboðsmaður skuldara telji að fjárfestingum í hlutabréfum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Að mati kæranda séu röng sjónarmið lögð hér til grundvallar og byggt á þeirri vitneskju sem nú sé til staðar um hvað gerst geti við kerfishrun á fjármálamörkuðum. Hafi kærandi mótmælt þessu sjónarmiði umboðsmannns skuldara en embættið hafi í engu sinnt þeim mótmælum. Fallist æðra stjórnvald á þessa túlkun umboðsmanns skuldara jafngilti það því að öllum sem keyptu skráð hlutabréf fyrir hrun hafi mátt vera ljóst að þau gætu orðið verðlaus og skuldir vegna kaupanna gætu stigmagnast. Kærandi telji þessa niðurstöðu útilokaða. Einnig spyrji kærandi hvort ekki sé að sama skapi áhætta að geyma peninga í banka en hrunið hafi einmitt sýnt fram á það. Sama gildi um áhættu vegna ábyrgðarskuldbindinga. Hvernig eigi eigendur fyrirtækja að styðja við fyrirtæki sín ef ekki með því að taka ábyrgð á stundum. Umboðsmaður geri sér ekki grein fyrir því að annað hafi ekki verið í boði til að félög fengju lán. Hér sé umboðsmaður í raun að segja að ekki eigi að kaupa hlutabréf eða gangast í ábyrgðir þar sem eitthvað geti farið úrskeiðis síðar. Að mati kæranda sé eina rétta viðmiðið að meta þessa áhættu út frá skynsamlegum mælikvarða á þeim tíma er ákvörðun sé tekin. Kærandi telur að ef kærunefndin taki undir þetta sjónarmið umboðsmanns sé vandséð hver tilgangur lge. sé.

Með hliðsjón af miklum eignum og háum tekjum kæranda árin 2006 og 2007 sé vandséð hvernig umboðsmaður skuldara hafi komist að því að það hafi falið í sér fjárhagslega áhættu að taka á sig skuldbindingar vegna ofangreindra lána en skuldbindingarnar hafi aðeins numið broti af eignum kæranda. Kærandi hafi einnig átt eignir sem hafi verið miklum mun meiri en skuldir árið 2009. Fram hjá þessu líti umboðsmaður skuldara.

Umboðsmaður skuldara kveðist aðeins byggja á opinberum gögnum. Fyrir liggi að eignastaða kæranda hafi verið jákvæð í opinberum gögnum. Þá komi fram hjá umboðsmanni að ávallt sé litið til nafnvirðis hlutafjár nema einstaklingar geti lagt fram gögn er staðfesti raunvirði þeirra. Hér taki umboðsmaður ekki tillit til þess að kærandi hafi margítrekað bent umboðsmanni á að tiltekin félög, sem áður hafi verið að hluta í hans eigu, hafi verið margfalt verðmætari en nafnverð þeirra hafi gefið til kynna. Jafnframt að kærandi hefði ekki aðgang að þeim vegna gjaldþrots þeirra eftir hrun. Þrátt fyrir þetta hafi umboðsmaður kosið að hundsa þessar athugasemdir kæranda. Kærandi telur umboðsmann hér hafi brotið rannsóknarreglu 5. gr. lge.

Kærandi hafi gengist í ábyrgðir vegna atvinnurekstrar. Í fyrsta lagi hafi þær verið vegna Y ehf. Meðeigandi kæranda hafi einnig gengist í ábyrgðir fyrir félagið. Þá hafi félagið sjálft lagt fram veðtryggingar fyrir þessum skuldum. Á þessum tíma hafi verið talið að veðsetning að baki ábyrgðunum væri innan við 50% af matsvirði eignanna auk þess sem fjárhagsstaða félagsins hafi verið mjög góð eins og að framan sé rakið. Hafi umboðsmaður ekki kynnt sér þetta og þvert á móti byggt umfjöllun sína á því að félagið sé nú gjaldþrota. Hafi engu breytt þó að við meðferð málsins hafi kærandi upplýst að ekki sé víst að félagið sé í raun gjaldþrota en niðurstaðan ráðist af uppgjöri ólögmætra gengislána og niðurstöðu búskiptanna. Sé niðurstaða umboðsmanns að þessu leyti brot á reglu c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem segi orðrétt „...á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.“

Af því tilefni að umboðsmaður skuldara vísi til rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem fjallað sé um áhættuskuldbindingar Y ehf. og tengdra félaga, bendi kærandi á að í skýrslunni komi ekkert fram um að þessi útlán hafi verið óeðlileg. Í forsendum umboðsmanns skorti á að embættið hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 5. gr. lge. um að finna út hver hafi verið eigna- og skuldastaða Y ehf. á árunum fyrir hrun eða á þeim tíma er kærandi hafi gengist í ábyrgðir fyrir félagið. Sé það sérstaklega ámælisvert þar sem kærandi hafi ítrekað óskað eftir því að þetta yrði kannað að höfðu samráði við skiptastjóra félagsins. Þó að félagið sé í gjaldþrotameðferð í dag segi það ekkert um stöðu þess fyrir hrun. Kærandi fullyrði að auðvelt hefði verið að fá vissu fyrir staðhæfingum kæranda með því að skoða ársreikninga félagsins. Hafi kærandi ekki getað haft frumkvæði að þessari gagnaöflun þar sem bókhald félagsins og gögn séu nú hjá skiptastjóra. Umboðsmaður hafi skýra lagaheimild til að kalla eftir þeim upplýsingum sem þurfa þyki. Kjarni málsins sé sá að Y ehf. hafi átt eignir fyrir milljarða þegar kærandi gekkst í ábyrgðir fyrir félagið. Nafnvirði þeirra ábyrgðarskulda, sem kærandi hafi gengist í fyrir félagið á árunum 2005 til 2007, hafi verið 125.500.000 krónur. Hluti ábyrgðanna hafi verið pro rata.

Í öðru lagi hafi kærandi gengist í ábyrgðir fyrir Þ ehf. Hafi ábyrgðin numið 42.910.497 krónum að höfuðstól. Til tryggingar hafi einnig verið veð í fasteign félagsins. Ábyrgðin hafi verið að kröfu viðskiptabanka félagsins en kærandi hafi ekki haft önnur tengsl við félagið en venjulegt viðskiptasamband.

Í bréfum umboðsmanns skuldara til kæranda hafi þessi ábyrgð ekki verið tiltekin. Því hafi kæranda ekki gefist færi á að skýra þetta fyrir umboðsmanni áður en málið var afgreitt. Þar sem umfjöllun umboðsmanns um ábyrgð fyrir Þ ehf. hafi ekki átt sér stað fyrr en eftir að ákvörðun umboðsmanns var tekin, telji kærandi að lögboðinn andmælaréttur sinn hafi verið virtur að vettugi.

Í þriðja lagi hafi kærandi gengist í ábyrgðir fyrir V ehf. fyrir skuld að fjárhæð 8.064.040 krónur. Ásamt kæranda hafi tveir meðeigendur hans að félaginu gengist í ábyrgðina. Þó að bókfært eigið fé félagsins hafi verið neikvætt á þessum tíma hafi legið fyrir að mikið eigið fé hafi í raun verið í félaginu. Embætti umboðsmanns skuldara hafi ekki haft áhuga á að fá nánari upplýsingar um fjárhag félagsins. Á þessum tíma hafi kærandi átt verulegar eignir og því hafi ákvörðun hans um að gangast í ábyrgðir fyrir V ehf. verið fullkomlega réttlætanleg. Hafi allar forsendur verið til þess, þá sem nú, að aðalskuldari gæti staðið við skuldbindingar sínar.

Ekkert af skilyrðum c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé fyrir hendi í málinu. Á þeim tíma er kærandi hafi gengist í fyrrgreindar ábyrgðarskuldbindingar hafi fjárhæð ábyrgðanna aðeins verið brot af eignum hans. Hann hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að hann gæti fyllilega staðið undir þeim. Í fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi þetta atriði þótt skipta miklu máli og ráðið niðurstöðum.

Umboðsmaður skuldara byggi ákvörðun sína einnig á e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Virðist umboðsmaður byggja á því að sala kæranda á fasteignum sínum að B götu nr. 15 og D götu nr. 7 í sveitarfélaginu C árið 2009 sé riftanleg í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 (gþl.). Einnig telji umboðsmaður að jafna megi móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun við frestdag í skilningi laganna. Fyrir því síðarnefnda færi umboðsmaður engin rök, engin lögskýringarsjónarmið, enga stjórnsýsluúrskurði og engin dómafordæmi.

Kaupsamningur vegna fyrrnefndra fasteigna hafi verið undirritaður 23. janúar 2009 og afsal gefið út 7. ágúst 2009. Kaupverð eignanna hafi verið 90.000.000 króna en þar af hafi kaupverð B götu nr. 15 verið 53.000.000 króna. Af þeirri fjárhæð hafi 9.600.000 krónur verið greiddar vegna endurgjaldslausra afnota af eigninni sem hafi verið og sé heimili kæranda. Mismunurinn hafi verið greiddur með yfirtöku áhvílandi lána á báðum eignunum.

Kærandi hafi keypt eignina að B götu nr. 15 árið 2007 fyrir 65.000.000 króna. Umsamið söluverð árið 2009 hafi aðeins verið um 17% lægra. Alkunna sé að fasteignaverð hafi fallið hratt í aðdraganda hrunsins og þar á eftir. Af gögnum málsins sé ljóst að söluverð eignarinnar hafi verið eðlilegt og í samræmi við markaðsaðstæður. Hafa beri í huga að árið 2009 hafi engar umræður að ráði verið hafnar um ólögmæt gengislán, engin lög um skuldaaðlögun hafi verið til eða önnur úrræði fyrir skuldara sem hafi skyndilega mátt þola tvöföldun skulda sinna og mikla lækkun eignaverðs. Hafa beri í huga að á þessum tíma hafi verið erfitt að selja fasteignir og eignirnar að D götu og B götu hafi verið seldar á verði sem hafi verið hærra en fasteignamat. Engu skipti í málinu þótt kaupandinn hafi verið félag sem tengt var kæranda.

Kaupandi eignanna hafi tekist á hendur skriflega skuldbindingu gagnvart kæranda um að standa skil á áhvílandi veðskuldum og hafi báðir aðilar undirritað yfirlýsingu um að allar áhvílandi veðskuldir væru kæranda óviðkomandi. Hér hafi verið um að ræða ólögmæt gengislán sem ekki hafi verið mögulegt að fá að skuldskeyta. Umboðsmaður sneiði hjá þessu mikilvæga atriði í umfjöllun sinni. Hvað sem öðru líði sé ljóst að kaupandi eignanna sé skuldbundinn af undirritun sinni um yfirtöku veðskulda. Virðist umboðsmaður skuldara komast að því að gjafagerningurinn felist í því að kaupandi hafi ekki tekið við veðskuldum. Þessi skoðun umboðsmanns standist engan veginn. Þá sé ekki ljóst hvað umboðsmaður eigi við þegar hann kveði engin gögn hafa borist sér um að núverandi veðhafar hafi samþykkt kaupanda sem nýjan skuldara áhvílandi veðlána. Umboðsmaður hafi ekki beðið kæranda um að afla þeirra. Kærandi spyrji hvort umboðsmaður hafi óskað skriflega eftir þessum upplýsingum. Umboðsmaður átti sig ekki á því að kaupandi hafi ekki verið háður samþykki vegna skuldaraskipta þar sem hann hefði allt eins getað tekið nýtt lán til að greiða áhvílandi veðskuldir. Sé þetta augljóst, ekki síst í ljósi þess að það hafi verið tryggingabréf sem hvílt hafi á eignunum en ekki hefðbundin húsnæðislán.

Tvö af meginskilyrðum 131. gr. gþl. séu þau að um gjafagerning sé að ræða og að þrotamaður hafi verið ógjaldfær. Í málinu sé hvorugt þessara skilyrða uppfyllt. Að því er varði fyrra atriðið hafi eðlilegt verð komið fyrir eignirnar og því ekki um gjöf að ræða. Að því er varði síðara atriðið sé fráleitt að halda því fram að kærandi hafi verið ógjaldfær á þessum tíma þó að hrunið hafi haft áhrif á samsetningu eigna hans og skulda. Rétt sé að miða við skattframtal kæranda fyrir árið 2008, enda hafi sala eignanna farið fram þremur vikum síðar. Á þeim tíma hafi kærandi átt mikið af eignum og hafi fjárhagur hans enn verið sterkur þrátt fyrir áföll. Kærandi hafi á hinn bóginn gert sér grein fyrir því að hann hefði orðið fyrir fjárhagslegu tjóni í kjölfar hrunsins. Hafi honum verið ljóst að veðhafar á fasteignunum gætu krafist uppgreiðslu veðskulda og erfitt gæti orðið að endurfjármagna þær.

Kærandi mótmæli því mati umboðsmanns skuldara að fjárhagsstaða hans hafi verið þröng í kjölfar bankahrunsins. Það sé ekki að sjá í skattframtali 2009 vegna ársins 2008 en þar komi eftirfarandi fram í krónum:

Eignir* 157.173.683
Mánaðarlegar meðaltekjur eftir skatt 1.342.861
Skuldir 85.921.089

*Hlutabréf aðeins talin á nafnverði.

Að mati kæranda hafi umboðsmaður skuldara komist að rangri niðurstöðu að því er varði e-lið 2. mgr. 6. gr. lge., ekki áttað sig á málavöxtum eða staðreyndum, ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni og þar af leiðandi dregið rangar ályktanir.

Loks styðji umboðsmaður ákvörðun sína við ákvæði f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hér sé litið til vanskila kæranda á opinberum gjöldum að fjárhæð 25.398.399 krónur. Gjöldin séu vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra frá 30. desember 2010 fyrir gjaldaárin 2005 til 2009 vegna tekju- og fjármagnstekjuskatts. Næstum ⅔ hlutar af fjárhæðinni varði viðskipti frá 2005. Endanleg niðurstaða málsins hafi þó ekki verið ljós fyrr en með úrskurði yfirskattanefndar sem kveðinn hafi verið upp 22. febrúar 2012 eða næstum 7 árum eftir að nefnd viðskipti hafi átt sér stað og eftir að kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun. Því sé vandséð að hægt sé að ræða um eiginleg vanskil á skuldinni. Ekki sé um refsimál að ræða heldur túlkun skattyfirvalda sem hafi ákveðið að taka upp framtöl kæranda mörg ár aftur í tímann. Kærandi hafi fram að því verið í góðri trú um að álagningar skattyfirvalda stæðu.

Kærandi telji tilvísun umboðsmanns skuldara í kærumáli nr. 25/2011 óskiljanlega. Umboðsmaður færi engin rök fyrir því hvað sé sammerkt með þessum málum. Í nefndu kærumáli hafi skuldarinn safnað upp skuldum vegna opinberra gjalda andstætt því sem eigi við um kæranda í þessu máli. Ekki sé hægt að telja kæranda sekan um óhóflega skuldasöfnun. Á þessum tíma hafi tekjur kæranda numið rúmlega 150.000.000 króna og hann hafi átt eignir fyrir hundruðir milljóna. Í því samhengi sé nefnd skattskuld, sem orðið hafi til eftir á, og hafi verið aðeins brot af tekjum hans og eignum.

Grundvallarskilyrði fyrir beitingu f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eða á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga. Hvorugt þessara skilyrða eigi við í málinu.

Umboðsmaður telji hlutfall vangreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda 23,8% af heildarskuldum kæranda og verði það að teljast verulegt. Því sé óhjákvæmilegt annað en að synja umsókn kæranda. Hér bendi kærandi á að ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. séu heimildarákvæði en ekki skylduákvæði. Því sé rangt að telja synjun „óhjákvæmilega“. Styðjist það að auki við lögskýringargögn og fyrri úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Loks sé á það minnt að fjárhæð skattskuldar sé með dráttarvöxtum langt aftur í tímann og 25% álagi að auki en það gefi skakka mynd af höfuðstól skuldarinnar.

Loks mótmælir kærandi tilvísun umboðsmanns skuldara til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011. Málin séu mjög ólík en í fyrrnefndum úrskurði hafi skuldarinn gengist í skuldbindingar sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagslega getu hans. Eignastaða kæranda hafi á hinn bóginn verið mjög sterk eins og fram hafi komið.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að við mat á umsókn um greiðsluaðlögun beri að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 2. mgr. 6. gr. lge. Þar séu í sjö stafliðum raktar heimildir til að synja um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að veita hana. Allar þær ástæður sem raktar séu í nefndri lagagrein eigi það sameiginlegt að ekki geti talist viðeigandi að skuldari eigi kost á að njóta greiðsluaðlögunar ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Í frumvarpi með lge. segi meðal annars að úrræðinu sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga þótt mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Enn fremur að mikilvægt sé að einstaklingum sé gert kleift að halda áfram atvinnurekstri sem sé til þess fallinn að skapa heimili einstaklings raunhæfan grundvöll til tekjuöflunar til framtíðar. Jafnframt komi þar fram að vilji löggjafans sé ekki sá að einstaklingar, sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar, nýti sér úrræði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Fjárhagur kæranda hafi verið sem hér segi á árunum 2006 til 2011 í krónum:

Tekjuár 2006 2007** 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur á mánuði nettó* 1.605.235 8.039.437 1.342.861 689.729 310.729 71.350
Fasteignir o.fl. 35.430.000 145.469.445 157.173.683 0 0 0
Eignarhlutir í félögum (nafnverð) 43.550.000 72.049.821 51.099.462 50.291.460 48.879.502 48.879.502
Innstæður og kröfur   68.330.684 39.085.734 49.776.963 6.550.354 3.597.347
Skuldir kæranda 72.754.078 125.779.215 85.921.089 125.984.725 153.750.052 107.718.483

*Ráðstöfunartekjur kæranda að meðaltali, þ.m.t. fjármagnstekjur.

**Tekjuaukning milli ára er einkum vegna hækkunar fjármagnstekna sem voru alls 102.636.561 króna á árinu.

Persónulegar skuldir kæranda séu meðal annars tvö lán sem hann hafi tekið hjá SPRON á árunum 2006 og 2007. Lánin séu í erlendri mynt og hafi samanlögð fjárhæð þeirra í upphafi verið 50.000.000 króna. Annað lánið hafi verið tryggt með handveði í bankareikningi og fjórum tryggingabréfum sem hvílt hafi á fasteigninni D götu nr. 7. Hitt lánið hafi verið tryggt með þremur tryggingabréfum sem hvílt hafi á fasteigninni B götu nr. 15. Samkvæmt bréfum kæranda 20. júlí og 27. ágúst 2012 til umboðsmanns skuldara hafi helmingi lánanna verið ráðstafað til kaupa á hlutabréfum og hafi stærstur hluti þeirra verið í Straumi-Burðarási hf.

Kærandi telji að umrædd veð tryggi lánin með fullnægjandi hætti. Fasteignirnar hafi verið seldar árið 2009 og í kaupsamningi hafi verið gert ráð fyrir að kaupandi yfirtæki áhvílandi veðskuldir. Enn liggi ekki fyrir endanlegt uppgjör þar sem deilur séu um hin ólögmætu gengislán. Kærandi bendi á að Straumur-Burðarás hf. hafi verið stórt og öflugt félag, skráð á opinberum markaði. Engin sjáanleg áhætta hafi verið til staðar vegna viðskiptanna og á þessum tíma hafi eignastaða kæranda verið afar góð. Kærandi haldi því fram að á þeim tíma sem kaupin hafi verið gerð hafi hann ekki geta vitað hvað var fram undan í íslensku efnahagslífi.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að hlutabréfaviðskiptum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta, enda geti kaupandi hlutabréfa almennt hvorki gengið út frá því að viðskiptin skili hagnaði eða tapi. Það sé matsatriði í hverju tilviki hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun, en í máli kæranda sé mestur hluti skulda hans vegna kaupa á hlutabréfum og peningamarkaðsbréfum. Ýmsir áhættuþættir felist í slíkum skuldsettum fjárfestingum svo sem eftir atvikum hvernig lán þróist vegna gengissveiflna eða verðbólgu svo og sveiflur á hlutabréfamörkuðum. Telja verði að kærandi hafi tekið talsverða fjárhagslega áhættu er hann gekkst í umræddar skuldbindingar, sérstaklega þegar litið sé til þess að fjárhæðir skuldbindinganna hafi verið mjög háar. Þá sé lántaka í erlendri mynt áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum vegna gengisáhættu. Hún lýsi sér meðal annars í því að höfuðstóll láns í erlendri mynt geti hækkað umtalsvert á lánstímanum, en það sé samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggi á sögulegum sveiflum á áhættu slíkra lána. Jafnframt sé um að ræða vaxtaáhættu sem sé vegna þess að lánin séu með breytilegum vaxtagrunni. Slíkir vextir séu aðeins ákveðnir fyrir hvert vaxtatímabil í senn og geti því breyst með vaxtaákvörðun í heimaríki viðkomandi myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geti haft áhrif til hækkunar.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda nemi 287.284.003 krónum. Ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila verði ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Verði því að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 19/2011 komi fram að við þetta mat verði að líta til eðlis og fjárhæðar skuldbindinga. Í því felist að annars vegar verði að meta hvort raunhæft hafi verið að skuldari gæti greitt af ábyrgðarskuldbindingunum ef á reyndi og hins vegar hvort skuldara hafi mátt vera ljóst að nokkrar líkur væru á að á ábyrgðirnar myndi reyna.

Ábyrgðarskuldbindingar kæranda séu allar vegna atvinnurekstrar. Telja verði að í atvinnurekstri, lántöku og ábyrgðarskuldbindingum honum tengdum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé þó matsatriði í hverju tilviki fyrir sig hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til samninga um greiðsluaðlögun.

Á árunum 2005 til 2007 hafi kærandi gengist í ábyrgðir fyrir Y ehf. fyrir samtals 125.500.000 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi félagið verið í helmingseigu kæranda og að auki hafi kærandi verið framkvæmdastjóri félagsins. Í dag sé félagið í skiptameðferð. Í júlí 2007 hafi kærandi gengist í ábyrgð fyrir Þ ehf. fyrir 42.910.497 krónur.

Af gögnum málsins sé ljóst að umsvif í atvinnurekstri kæranda hafi aukist talsvert á árunum 2006 til 2008, en ábyrgðarskuldbindingar kæranda stafi að langmestu leyti frá atvinnurekstri sem falist hafi í byggingum og kaupum á fasteignum til útleigu eða sölu. Þrátt fyrir góða eignastöðu kæranda og félaga honum tengdum á þessum tíma verði ekki fram hjá því litið að ýmsir áhættuþættir tengist viðskiptum sem felist í skuldsettum fjárfestingum í ofangreindum tilgangi svo sem eftir atvikum gengissveiflur, verðbólga og sveiflur á fasteigna- og leigumörkuðum. Telja verði að áhættan sé þeim mun meiri þegar umfang viðskipta sé mikið. Einnig sé til þess að líta að mikil útgjöld fylgi mikilli fasteignaeign svo sem skattar, iðgjöld vegna trygginga og viðhaldskostnaður.

Í rannsóknarskýrslu Alþingis komi fram að áhættuskuldbindingar Y ehf. og tengdra félaga hafi í október 2008 verið um 4.100.000.000 króna. Á tímabilinu janúar 2007 til október 2008 hafi skuldir Y ehf. og tengdra félaga hækkað um 2.700.000.000 króna. Í evrum hafi skuldirnar hækkað um 13.200.000 eða 86%. Nýjar lánveitingar hafi numið 1.400.000.000 króna á tímabilinu. Lánsfénu hafi verið ráðstafað til kaupa á fasteignum og til rekstrar. Fasteignir félaganna hafi verið til tryggingar nýjum lánveitingum.

Kærandi hafi gengist í ábyrgð fyrir V ehf., áður U ehf., 29. október 2009. Hafi ábyrgðarskuldbindingin numið 8.064.040 krónum. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda hafi starfsemi félagsins verið bygging á atvinnuhúsnæði til leigu eða sölu. Samkvæmt upplýsingum frá Fyrirtækjaskrá felist starfsemi félagsins í framleiðslu á gosdrykkjum, ölkelduvatni og öðru átöppuðu vatni. Af gögnum málsins megi ráða að kærandi sé stofnandi, meðstjórnandi og prókúruhafi félagsins. Árið 2009 hafi [fast]eignir kæranda engar verið og skuldir hafi verið 125.984.725 krónur en að auki hafi gengi hlutabréfa í eigu kæranda lækkað verulega í kjölfar bankahrunsins. Mánaðarlegar nettótekjur kæranda hafi að meðaltali verið 689.729 krónur. Samkvæmt ársreikningi V ehf. fyrir árið 2009 hafi skuldir umfram eignir verið 75.081.000 króna og tap ársins hafi verið 33.560.000 krónur. Í ljósi þessa sé það mat umboðsmanns skuldara að óraunhæft væri að kærandi gæti greitt af ábyrgðarskuldinni á þeim tíma er hann gekkst í hana. Sé það í ljósi mikilla skulda kæranda, sér í lagi vegna persónulegra lána og ábyrgðarskuldbindinga, sem hafi fallið á kæranda vegna Y ehf. Einnig sé það mat umboðsmanns að nokkrar líkur væru á því að á ábyrgðirnar myndi reyna.

Því sé það mat umboðsmanns skuldara að ákvörðun kæranda um að gangast í ofangreindar ábyrgðir hafi falið í sér fjárhagslega áhættu í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og sé ekki hjá því komist að synja kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar.

Að því er varði riftanlegar ráðstafanir kæranda vísi umboðsmaður til ákvæða XX. kafla gþl. Í 131. gr. sé fjallað um gjafagerninga en þar segi í 2. mgr. að krefjast megi riftunar á gjafagerningi hafi gjöfin verið afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag. Í 194. gr. laganna komi meðal annars fram að að því leyti sem ákvæði 131. gr. laganna kveði á um tuttugu og fjögurra mánaða frest skuli sá frestur vera fjörutíu og átta mánuðir í þeim málum sem höfðuð séu fyrir árslok 2012. Nákominn teljist, sbr. 3. gr. laganna, meðal annars félag sem skuldari eigi verulegan hlut í eða félag þar sem hann eða maður honum nákominn sitji í stjórn eða stýri daglegum rekstri.

Í 1. mgr. 2. gr. gþl. sé fjallað um frestdag en það sé sá dagur sem héraðsdómara berist beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum gþl. Samkvæmt þessu þyki rétt að líta svo á að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl.

Samkvæmt skattframtali [2010] hafi kærandi ráðstafað fasteignunum B götu nr. 15 og D götu nr. 7 til X ehf. með afsali 7. ágúst 2009. Samkvæmt upplýsingum hjá fyrirtækjaskrá sé kærandi varamaður í stjórn félagsins og bróðir hans sé stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Samkvæmt kaupsamningi 23. janúar 2009 hafi söluverð beggja fasteignanna verið samtals 90.000.000 króna og hafi verið að fullu greitt með yfirtöku áhvílandi veðskulda samkvæmt tryggingabréfum í eigu SPRON. Samkvæmt kaupsamningnum hafi kæranda verið heimilt að búa endurgjaldslaust að B götu nr. 15 í allt að 4 ár eða til 1. febrúar 2013 gegn greiðslu á rekstrarkostnaði eignarinnar. Séu afnotin metin á 200.000 krónur á mánuði eða samtals allt að 9.600.000 krónur. Kaupsamningnum hafi ekki verið þinglýst.

Í bréfum kæranda til umboðsmanns skuldara 20. júlí 2013 og 27. ágúst 2013 greini kærandi frá því að honum hafi mikið legið á að selja fasteignirnar þar sem á þessum tíma hafi honum verið ljóst að hann gæti ekki eða gæti illa staðið við skuldbindingar sínar. Í síðarnefndu bréfi kæranda hafni hann því að um riftanlegar ráðstafanir hafi verið að ræða. Kærandi bendi einnig á að hann hafi talið að eðlilegt verð hafi fengist fyrir eignirnar en á þessum tíma hafi markaðsverð fasteigna verið mjög lágt og erfitt að finna kaupendur. Fasteignirnar hafi verið yfirveðsettar og seldar á verði sem hafi verið talsvert yfir fasteignamati.

Af gögnum málsins megi ráða að fjárhagur kæranda hafi orðið mjög erfiður í kjölfar hruns hins íslenska bankakerfis haustið 2008. Það sé mat embættisins að á þessum tíma hafi kærandi í raun verið ógjaldfær. Í afsali 7. ágúst 2009, vegna sölu framangreindra fasteigna, komi fram að allar veðskuldir séu seljanda óviðkomandi. Ljóst sé þó af gögnum málsins að skuldaraskipti hafi ekki farið fram og því sé kærandi skuldari. Í afsali felist að kaupandi hafi efnt þær skyldur sem á honum hvíli samkvæmt kaupsamningi og sé afsalið yfirlýsing um að kaupandi sé réttur og löglegur eigandi fasteignarinnar. En jafnvel þótt kærandi hafi samið við kaupanda eignanna um að hinn síðarnefndi skuli yfirtaka áhvílandi veðskuldir sé sú meginregla í kröfurétti skýr að seljandi eignar sé áfram ábyrgur gagnvart kröfuhöfum veðskuldanna og í samræmi við reglur kröfuréttarins um skuldaraskipti verði seljandinn að afla sérstaks samþykkis kröfuhafa til þess að losna undan greiðsluskyldu. Í 2. mgr. 20. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997 komi fram að skuldaraskipti verði aðeins skuldbindandi fyrir veðhafa að hann samþykki þau í samningi við nýjan eiganda veðsins. Engin gögn hafi borist frá kæranda þar að lútandi. Sé því ljóst að kærandi sé enn ábyrgur fyrir umræddum skuldum og endurgjald hafi því ekki komið fyrir eignirnar. Mat embættisins sé því að um sé að ræða riftanlegar ráðstafanir í skilningi 131. gr. gþl., sbr. e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Hluti krafna á hendur kæranda sé þess eðlis að líta verði til ákvæða f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Um sé að ræða skuldir við opinbera sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar og vangreidd opinber gjöld. Nemi skuldirnar samtals 25.398.399 krónum og séu vegna endurákvörðunar ríkisskattstjóra 30. desember 2010 á tekju- og fjármagnstekjuskatti fyrir gjaldaárin 2005 til 2009. Kærandi hafi kært ákvörðun ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar sem hafi hafnað kröfum hans, sbr. úrskurð nr. 35/2012. Nemi þessi skuld 23,8% af heildarskuldum kæranda sem að mati umboðsmanns skuldara sé verulega hátt hlutfall.

Í fyrrnefndu bréfi kæranda 27. ágúst 2012 bendi hann á að skattskuldirnar grundvallist á endurálagningu fimm ár aftur í tímann. Fram til ársins 2010 hafi hann talið að álagning hans stæði óbreytt. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 25/2011 komi fram að þegar fjárhagsráðstafanir kæranda séu virtar í heild og einkum horft til óhóflegrar skuldasöfnunar vegna opinberra gjalda á þeim tíma er tekjur kæranda hafi verið þokkalegar og jafnvel góðar, verði að líta til sjónarmiða að baki f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í málinu hafi það verið mat kærunefndarinnar að eðli skulda kærandans og fjárhæð þeirra hafi verið þannig að umboðsmanni hafi verið rétt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði yfirskattanefndar, sem staðfesti ákvörðun ríkisskattstjóra í máli kæranda, hafi ríkisskattstjóri hækkað skattstofn kæranda til fjármagnstekjuskatts um samtals 11.153.419 krónur vegna sölu hlutabréfa. Einnig hafi ríkisskattstjóri fært reiknuð bifreiðahlunnindi kæranda vegna áranna 2005 til 2008 honum til tekna, en þau hafi numið 2.847.872 króna. Loks hafi ríkisskattstjóri ákveðið að virða bæri hagnað kæranda af viðskiptum með fasteignir að fjárhæð 37.314.235 krónur sem tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi en ekki sem fjármagnstekjur einstaklings utan rekstrar.

Að mati umboðsmanns sé því óhjákvæmilegt að synja umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt gögnum málsins verði greiðsluerfiðleikar kæranda að miklu leyti raktir til ábyrgðarskuldbindinga sem stofnað hafi verið til í tengslum við atvinnurekstur. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 56/2011 hafi ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja um heimild til greiðsluaðlögunarumleitana á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. verið staðfest. Niðurstaða úrskurðarins sé meðal annars rökstudd á eftirfarandi hátt: „Þá er þess enn fremur að gæta að tæplega 70% af skuldbindingum kæranda stafa frá skuldum vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a. gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Hins vegar bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.”

Þegar metið sé hvort óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar verði samkvæmt þessu að telja rétt að horfa til þess að 98,4% ábyrgðarskulda hans verði raktar til atvinnurekstrar.

Varðandi beitingu heimildarákvæðis 2. mgr. 6. gr. lge. sé vísað til þess er fram komi í frumvarpi til lge. Þar segi að aðstæðurnar sem taldar séu upp í ákvæðinu eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Þrátt fyrir að fallast megi á að eignastaða kæranda hafi verið sterk á árunum fyrir hrun sé ljóst að ávallt sé um að ræða fjárhagslega áhættu þegar hlutabréf séu keypt. Hið sama gildi þegar gengist sé í ábyrgð fyrir einstakling eða félag, sama hve fjárhagslega sterkur viðkomandi aðili kunni að vera.

Umboðsmaður skuldara mótmæli harðlega þeirri gagnrýni kæranda að hin kærða ákvörðun sé ómálefnaleg og taki ekki mið af staðreyndum og málsatvikum. Einnig mótmæli umboðsmaður þeirri staðhæfingu kæranda að rannsóknarreglu 5. gr. lge. hafi ekki verið framfylgt. Að því er varði eigna- og skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja verði einungis byggt á opinberum gögnum. Alltaf sé litið til nafnverðs hlutafjár nema einstaklingar geti lagt fram gögn er staðfesti raunvirði þeirra. Hafi kæranda verið í lófa lagið að leggja fram gögn um annað en hann hafi komið á fund hjá embættinu, verið í reglulegum samskiptum við starfsmenn þess auk þess sem honum hafi verið send tvö bréf þar sem honum hafi verið gefinn kostur til andmæla.

Telji umboðsmaður skuldara óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-, e-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun fer umboðsmaður fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en ákvörðun er tekin í því. Í þessu er talinn felast réttur aðila til að koma að viðbótargögnum, upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Þessi skylda varðar eingöngu upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir mat á staðreyndum málsins eða sönnun um hverjar þær eru.

Samkvæmt 5. gr. lge. hefur umboðsmaður skuldara heimild til að krefjast þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Með bréfum umboðsmanns skuldara til kæranda 20. júní 2012 og 23. júlí 2012 var óskað eftir upplýsingum frá kæranda. Í bréfunum voru rakin þau lagaákvæði sem leitt gætu til synjunar á umsókn hans um greiðsluaðlögun. Einnig var kærandi upplýstur um að fyrir lægju upplýsingar sem leitt gætu til synjunar á beiðni hans um greiðsluaðlögun. Voru þær upplýsingar skilmerkilega tíundaðar í bréfunum og kæranda boðið að tjá sig um þær innan frests. Þá var hann upplýstur um þá ráðgjöf og aðstoð sem í boði væri hjá embætti umboðsmanns skuldara en ráðgjöfin væri umsækjendum um greiðsluaðlögun að kostnaðarlausu. Kærandi svaraði með bréfum 20. júlí og 27. ágúst 2012. Í bréfum kæranda kom fram það mat hans að þegar eignastaða hans væri metin væri ekki nægilegt að horfa til nafnverðs þeirra hluta og hlutabréfa sem kærandi hafi átt í einkahlutafélögum og hlutafélögum en kærandi nefnir einkum félagið Y ehf. og hlutafélög sem skráð voru á markaði. Að því er varði Y ehf. hafi verðmæti eignarhluta kæranda í því félagi verið margfalt verðmætari en nafnverð þeirra hafi gefið til kynna.

Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er styðja fullyrðingar hans um verðmæti ofangreindra eigna en í máli hans hefur komið fram að hann telji það hlutverk umboðsmanns skuldara að afla upplýsinga um markaðsvirði eigna hans, þar með talið verðmæti eignarhluta hans í nefndu einkahlutafélagi. Þótt umboðsmanni skuldara beri skylda til að afla frekari upplýsinga eftir að umsókn um greiðsluaðlögun er lögð fram, samkvæmt 5. gr. lge., verður einnig að líta til þess að skuldara ber að taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við vinnslu máls. Verður með engu móti fallist á að það sé hlutverk umboðsmanns skuldara að verðmeta eignir umsækjanda um greiðsluaðlögun á þann hátt sem kærandi krefst, enda samrýmist það ekki því hlutverki sem embættinu er ætlað að hafa að lögum. Með vísan til þessa telur kærunefndin að kæranda hafi sjálfum borið að sýna fram á verðmæti eigna sinna, hafi hann talið þær verðmeiri en skattframtöl áranna 2006 og 2007 gáfu til kynna. Í þessu sambandi verður sú skýring kæranda talin ótrúverðug að hann hafi ekki getað haft frumkvæði að þessu þar sem bókhald félagsins og gögn hafi verið hjá skiptastjóra.

Í ofangreindu ljósi er það mat kærunefndar greiðsluaðlögunarmála að embætti umboðsmanns skuldara hafi uppfyllt rannsóknarskyldu sína á þann hátt sem lög mæla fyrir um.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á c-, e-, f- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Í e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun ef skuldari hefur efnt til fjárfestinga sem hefðu verið riftanlegar við gjaldþrotaskipti eða gert ráðstafanir sem hefðu verið riftanlegar. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að umboðsmanni sé heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er umboðsmanni skuldara heimilt að synja umsókn um greiðsluaðlögun ef óhæfilegt þyki að heimila hana vegna þess að skuldari hafi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kæranda var eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* á mánuði (nettó) 1.605.253 8.039.437 1.342.861 689.190 310.729 71.350
Eignir alls 99.179.840 261.823.221 247.358.879 100.068.423 55.429.856 52.476.849
· B gata nr. 15 0 48.170.000 48.170.000 0 0 0
· D gata nr. 7 32.550.000 36.310.000 36.310.000 0 0 0
· Aðrar innlendar fasteignir 2.880.000 13.730.000 3.117.000 0 0 0
· Erlendar fasteignir 0 40.959.445 63.906.683 0 0 0
· Ökutæki 0 6.300.000 5.670.000 0 0 0
· Hlutir í einkahlutafélögum (nafnverð) 43.550.000 44.070.000 47.173.500 47.173.500 45.823.500 45.823.500
· Hlutabréf í hlutafélögum (nafnverð) 0 897.090 869.960 61.958 0 0
· Eign í erlendum félögum (nafnverð) 0 3.056.002 3.056.002 3.056.002 3.056.002 3.056.002
· Bankainnistæður ofl. 20.199.840 68.330.684 39.085.734 49.776.963 6.550.354 3.597.347
Skuldir 72.754.078 125.779.215 85.921.089 125.984.725 153.750.052 107.718.483
Nettó eignastaða 26.425.762 136.044.006 161.437.790 -25.916.302 -98.320.196 -55.241.634







Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 68.300.000 121.210.497 121.210.497 129.274.537 129.274.537 129.274.537

*Tekjur kæranda, þ.m.t. fjármagnstekjur.

Helstu skuldir kæranda stafa frá árunum 2005 til 2009 en í neðangreindri töflu má sjá skuldir hans samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Lánstími Tryggingar Upphafleg Staða Vanskil
          fjárhæð 2011 Frá
Tollstjóri 2005-2011 Opinber gjöld     21.477.512 25.398.399 2010
Spron 2006 Erlendur lánasamningur 1 ár 4 trygg.bréf í D götu 25.000.000 42.372.347 2011
        og handveð í bankareikn.      
Spron 2007 Erlendur lánasamningur 1 ár 3 trygg.bréf í B götu 25.000.000 38.570.424 2011
    Alls     71.477.512 106.341.170  

Á árunum 2006 og 2007 voru fjármagnstekjur, aðallega söluhagnaður af fasteignum, stærsti hluti tekna kæranda. Þannig voru fjármagnstekjur um 83% af tekjum kæranda árið 2006 og um 95% á árinu 2007. Á árinu 2008 voru fjármagnstekjur um 28% tekna kæranda.

Af skattframtölum kæranda má ráða að bókfært virði eigna hans hafi verið umtalsvert á árunum 2006 til 2008. Nokkur hluti eigna kæranda voru hlutir í einkahlutafélögum sem tengdust starfsemi hans að nokkru leyti. Þannig voru hlutir í þessum félögum um 164% nettóeigna kæranda á árinu 2006, um 32% á árinu 2007 og um 29% árið 2008. Eignastaða kæranda var neikvæð á árinu 2009. Að mati kærunefndarinnar verður að setja fyrirvara við bókfært virði þessarar hlutafjáreignar þegar eignastaða kæranda er metin. Markaður með hluti í þessum félögum var ekki virkur, eigendur stærsta félagsins, Y ehf., voru aðeins tveir og félögin voru að einhverju marki háð sömu áhættuþáttum, þ.e. áhætta eða óvissa var um verðmæti þeirra fasteignaverkefna sem félögin stóðu að. Eignastöðu kæranda verður að meta út frá þessu.

Í málinu liggja fyrir eftirtaldar rekstrarupplýsingar í krónum úr óendurskoðuðum ársreikningum Y ehf. vegna áranna 2006 og 2007:

Y ehf. Ársreikningur
Y ehf. Ársreikningur
  2006
  2007
Tekjur 31.547.000
Tekjur 86.473.000
Hagnaður/tap -50.100.000
Hagnaður/tap 48.775.000
Eignir 402.350.000
Eignir 2.746.625.000
Skuldir 458.418.000
Skuldir 1.420.995.000
Eigið fé -56.068.000
Eigið fé 1.325.630.000

Ekkert í gögnum málsins styður þá fullyrðingu kæranda að fjárhagsstaða félagsins hafi verið önnur en ársreikningarnir bera með sér.

Fyrir utan opinber gjöld stafa helstu skuldir kæranda frá árunum 2006 og 2007 en hvort ár um sig tókst hann á hendur skuld til eins árs að fjárhæð 25.000.000 króna, eða alls 50.000.000 króna, auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð um 71.200.000 krónur. Bættust þær við eldri ábyrgðarskuldbindingar sem námu 50.000.000 króna. Hér má sjá yfirlit yfir ábyrgðarskuldbindingar kæranda í krónum:

Skuldari Útgefið Kröfuhafi Tegund Upphafleg Fjárhæð
        fjárhæð 2012
E   LÍN Námslán   4.506.166
Y ehf*. 2005 Spron Tryggingavíxill 50.000.000 50.000.000
Y ehf.** 2006 Spron Erlendur lánasamningur 4.000.000 11.647.505
Y ehf. 2006 Spron Tryggingavíxill 14.300.000 15.911.414
Y ehf.*** 2007 Spron Erlendur lánasamningur 10.000.000 37.183.475
Þ ehf. 2007 Frjálsi fjárfestingarbankinn Erlendur lánasamningur 42.910.497 69.429.719
V ehf. 2009 Íslandsbanki Skuldabréf 8.064.040 9.427.810
    Alls   129.274.537 198.106.089

*Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjárhæð skuldarinnar árið 2011 og því er miðað við höfuðstól.

**Ábyrgð er pro rata og samkvæmt því er miðað við 12,5% lánsfjárhæðar.

***Ábyrgð er pro rata og samkvæmt því er miðað við 50% lánsfjárhæðar.

Y ehf. var úrskurðað gjaldþrota í nóvember 2011, Þ ehf. var úrskurðað gjaldþrota í desember 2008 og V ehf. var úrskurðuð gjaldþrota í febrúar 2014.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. kemur fram að séu þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni. Við sérstakt mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna, eigna og skulda á því tímabili sem til skoðunar er.

Af því sem rakið hefur verið má sjá að á árinu 2006 var eignastaða kæranda jákvæð um 26.425.762 krónur. Er þá miðað við nafnverð hluta kæranda í félögum enda hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem sýna fram á annað verðmæti. Á sama tíma voru heildartekjur kæranda all háar en mikill meirihluti þeirra voru fjármagnstekjur. Sama ár stofnaði kærandi til skulda að fjárhæð tæplega 25.000.000 króna. Er þá ekki meðtalin skuld að fjárhæð rúmlega 9.300.000 krónur vegna opinberra gjalda en skattskuld kæranda samkvæmt endurálagningu ríkisskattstjóra stafar frá árinu 2010. Þessu til viðbótar tókst kærandi á hendur sjálfskuldarábyrgðir að fjárhæð tæplega 18.300.000 króna á þessu ári til viðbótar við eldri ábyrgðarskuldbindingar. Í lok ársins 2006 voru ábyrgðarskuldbindingar hans alls 68.300.000 krónur og allar fyrir Y ehf. Þar af voru 64.300.000 króna víxilskuldir vegna tryggingavíxla en víxlarnir hefðu verið aðfararhæfir innan skamms tíma hefði á þá reynt. Á þessum tíma var eigið fé Y ehf. neikvætt um ríflega 56.000.000 króna og tap af rekstrinum 50.100.000 krónur.

Mat á áhættu verður að fara fram á þeim tíma sem til skuldbindinga var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt því sem rakið hefur verið hér að framan gaf þáverandi eignastaða kæranda ekki tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir þeim skuldum sem hann ábyrgðist árið 2006. Í því ljósi telur kærunefndin að kærandi hafi tekist á hendur ábyrgðarskuldbindingar umfram greiðslugetu það ár en ábyrgðarskuldbindingar hans voru orðnar svo miklar að litlar líkur voru á því að hann gæti greitt þær, myndi á þær reyna.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. gþl. sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðarskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar þær sem kærandi ábyrgðist árið 2006 hafi verið svo miklar að líta verði svo á að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils eigna, tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í máli þessu eru um 65% skulda kæranda vegna sjálfskuldarábyrgða.

Þegar allt framanritað er virt telur kærunefndin að með því að takast á hendur nefndar sjálfskuldarábyrgðir hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá verður einnig að líta til þess að nánast allar ábyrgðarskuldbindingar kæranda eru skuldir vegna atvinnurekstrar. Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a. gþl. sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Að því er varðar e-lið 2. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að kærandi hafi gert riftanlegar ráðstafanir með því að selja fasteignirnar B götu nr. 15 og D götu nr. 7 til X ehf. með kaupsamningi 23. janúar 2009. Teljist þessar ráðstafanir gjafagerningar í skilningi 131. gr. gþl., en kærandi hafi verið varamaður í stjórn félagsins og bróðir hans stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi. Söluverð beggja fasteignanna hafi verið samtals 90.000.000 króna og hafi verið greitt með yfirtöku áhvílandi veðskulda og endurgjaldslausri búsetu kæranda að B götu nr. 15 í allt að 4 ár gegn greiðslu á rekstrarkostnaði eignarinnar. Hafi afnotin verið metin á 200.000 krónur á mánuði eða samtals allt að 9.600.000 krónur. Skilja verður málatilbúnað umboðsmanns skuldara svo að um riftanlegan gjafagerning sé að ræða, annars vegar vegna þess að kaupandi eignanna var tengdur kæranda og hins vegar vegna þess að kærandi sé enn skuldari áhvílandi lána þar sem skuldaraskipti hafi ekki farið fram og því hafi ekkert endurgjald komið fyrir eignirnar.

Í 1. og 2. mgr. 131. gr., sbr. 194. gr. gþl., sbr. 1. gr. laga nr. 31/2010, kemur fram að krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Krefjast megi riftunar á gjafagerningi ef gjöfin var afhent sex til tólf mánuðum fyrir frestdag nema leitt sé í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Þetta gildi einnig um gjafir til nákominna sem hafa verið afhentar fjörutíu og átta mánuðum fyrir frestdag í þeim málum sem höfðuð séu fyrir árslok 2012.

Umboðsmaður skuldara telur að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Í 1. mgr. 2. gr. gþl. er fjallað um frestdag en það er sá dagur sem héraðsdómara berst beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti, svo og dánardagur manns ef farið er með dánarbú hans eftir reglum laga um gjaldþrotaskipti.

Tímamark frestdags hefur verið miðað við fyrsta hugsanlega tímamarkið sem ógjaldfærni skuldara liggi fyrir skráð hjá opinberu yfirvaldi. Tilgangur lge. er meðal annars sá að skuldari, sem er eða verður um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar, fái heimild til að leita greiðsluaðlögunar með samningi við kröfuhafa að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Takist slíkir samningar ekki hefur skuldari möguleika á því að óska eftir nauðasamningi við kröfuhafa á grundvelli lge. Þannig er grundvöllur lge. byggður á ógjaldfærni skuldarans og samningsumleitunum hans til að aðlaga skuldir að greiðslugetu, eftir atvikum með því að fá skuldir að öllu leyti eða hluta felldar niður. Til þess ber einnig að líta að 15. október 2010 hófst tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, samkvæmt 11. gr. lge., sbr. bráðabirgðaákvæði II, um leið og umboðsmaður skuldara tók á móti umsókn um greiðsluaðlögun. Merkir það að tilteknar aðgerðir til innheimtu á kröfum skuldara eru óheimilar og kröfuhafi getur ekki fengið bú skuldara tekið til gjaldþrotaskipa, sbr. d-liður 1. mgr. 11. gr. lge. Ljóst er að tilgangurinn er öðrum þræði sá að koma í veg fyrir mismunun kröfuhafa við þær aðstæður þegar skuldari er orðinn ógjaldfær án þess þó að ganga megi að honum. Tilgangurinn er á hinn bóginn ekki sá að valda því að kröfur fyrnist á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Með vísan til þessa telur kærunefndin að við beitingu e-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. beri að jafna móttökudegi umsóknar um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. við frestdag í skilningi gþl. Í tilviki kæranda er frestdagur því 19. maí 2011.

Að því er varðar tengsl kæranda við kaupanda fasteignanna vísar umboðsmaður skuldara til þess að X ehf. hafi verið nákominn aðili í skilningi 4. tl. 3. gr. gþl. þar sem segir að hugtakið nákominn eigi við mann og félag eða stofnun sem hann eða maður honum nákominn á verulegan hluta. Kærandi var varamaður í stjórn X ehf. frá árinu 2001 og bróðir hans var eigandi, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins frá sama tíma. Er því augljóst að félagið taldist nákomið kæranda í skilningi gþl.

Riftunarreglu 131. gr. gþl. að því er varðar gjafagerninga er beint gegn því að ráðstöfun verðmæta sé að einhverju leyti eða öllu á kostnað kröfuhafa gefandans. Gjafahugtak 131. gr. gþl. hefur verið talið fela í sér þrjú meginatriði: Að gjöfin rýri eignir skuldara, að gjöfin leiði til eignaaukningar hjá móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Gjafahugtakið rúmar margs konar ráðstafanir og byggist á hlutlægu mati á því hvort þessi skilyrði séu fyrir hendi. Einnig er í ákveðnum tilvikum gerð krafa um að skuldari sé gjaldfær á þeim tíma er ráðstöfun var gerð.

Vangeta skuldara til að standa við skuldbindingar sínar getur verið vegna þess að skuldir hans eru meiri en eignir en líka vegna ógreiðslufærni. Síðarnefnda hugtakið veit að framtíðinni, þ.e. hvort skuldari muni geta staðið í skilum þegar kröfur á hendur honum falla í gjaldaga og hvort telja megi að greiðsluerfiðleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma. Við mat á verðmæti eigna skuldarans verður almennt að miða við söluverð þeirra.

Umboðsmaður skuldara rökstyður ekki ályktun sína um ógjaldfærni skuldara í byrjun árs 2009. Samkvæmt skattframtali kæranda 2009 vegna ársins 2008 voru bókfærðar eignir hans í lok ársins ríflega 161.000.000 króna. Þar af voru innlendar fasteignir metnar á tæpar 87.600.000 króna og bankainnstæður voru rúmlega 40.000.000 króna eða samtals tæpar 126.700.000 króna. Erlendar fasteignir kæranda voru metnar á 63.900.000 króna og hlutir kæranda í einkahlutafélögum á tæpar 47.200.000 króna. Skuldir kæranda voru tæpar 86.000.000 króna. Af þessu má sjá að aðgengilegar eignir kæranda hefðu nægt til greiðslu skulda hans í lok árs 2008 en það var um þremur vikum áður en kærandi ráðstafaði nefndum fasteignum sínum. Telur kærunefndin því að umboðsmaður skuldara hafi ekki sýnt fram á ógjaldfærni skuldara á þessum tíma og því hafi ráðstafanir kæranda ekki verið í andstöðu við e-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar loks til f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. að því er varðar opinber gjöld kæranda samkvæmt endurálagningu ríkisskattstjóra 30. desember 2010 sem staðfest var af yfirskattanefnd í febrúar 2012. Er höfuðstólsfjárhæð skuldarinnar 21.477.512 krónur og sundurliðast sem hér segir:

Ár Fjárhæð
2005 1.824.964
2006 9.300.692
2007 75.592
2008 4.930.512
2009 5.103.274
2010 26.000
2011 216.478
Alls: 21.477.512

Samkvæmt þessu voru 43% skattskuldanna vegna ársins 2006 og tæpur helmingur eða 47% vegna áranna 2008 og 2009, þ.e. einu til tveimur árum fyrir endurálagningu. Stafa skattskuldirnar að mestu leyti af fasteignaviðskiptum kæranda. Í fyrrnefndum úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að þær fasteignir sem um ræði hafi í öllum tilvikum verið keyptar í hagnaðarskyni og til endursölu. Yfirskattanefnd lítur meðal annars til fjárhæða og umfangs viðskiptanna.

Af skattframtölum kæranda verður ráðið að hann hafi haft til ráðstöfunar fjárhæð söluhagnaðar fasteigna að frádregnum fjármagnstekjuskatti. Verður að mati kærunefndarinnar því ekki annað talið en að hann hafi getað staðið við greiðslu þeirra opinberu gjalda sem á hann voru lögð. Lítur kærunefndin þá sérstaklega til þess að hluti endurálagðra opinberra gjalda stafar frá tekjum ársins 2009 en úrskurður ríkisskattstjóra um endurálagningu er frá árinu 2010. Er endurálagningin því aðeins einu tekjuári eftir að kærandi hafði umræddar tekjur. Skiptir þá ekki máli í því sambandi þótt endurálagningin hafi ekki verið staðfest fyrr en með úrskurði yfirskattanefndar í febrúar 2012. Samkvæmt þessu telur kærunefndin að kærandi hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt og því eigi f-liður 2. mgr. 6. gr. lge. við í málinu.

Í g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eru sett viðmið um að skuldari hafi stofnað til óhóflegra skuldbindinga, að það hafi hann gert á ámælisverðan hátt eða að skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Við mat á því hvort beita skuli g-lið  telur kærunefndin að líta beri meðal annars til atvika sem skuldari beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með 6. gr. lge.

Ber samkvæmt þessu að leggja mat á fjárhæð skuldbindingar. Kærunefndin lítur svo á að við það mat skuli notaður almennur mælikvarði og miðað við hvaða fjárhæð teljist út af fyrir sig há. Kærunefndin lítur svo á að ekki verði hjá því komist að telja 21.477.512 króna skattskuld háa fjárhæð. Þá er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi stofnað til þessara óhóflegu skattskulda með ámælisverðum hætti í skilningi g-liðar enda vangreiddi hann opinber gjöld vegna fyrrnefndra fasteignaviðskipta sinna.

Að því er varðar það skilyrði g-liðar um að skuldir séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra hefur kærunefndin túlkað ákvæðið þannig að kröfur sem séu vegna opinberra gjalda eða greiðslna í sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar falli þar undir.

Að framangreindu virtu er það álit kærunefndarinnar að ákvæði g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í tilviki kærenda.

Í ljósi alls þessa sem hér greinir telur kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli c-, f- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum