Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 208/2012

Fimmtudagurinn 20. nóvember 2014


A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. nóvember 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. október 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 12. nóvember 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 24. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. febrúar 2013 og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur árið 1976. Hann býr í eigin fasteign að B götu nr. 9 í sveitarfélaginu C. Kærandi er öryrki en starfar í hlutastarfi hjá X ehf. Útborgaðar tekjur hans og laun nema 184.395 krónum á mánuði en kærandi fær einnig vaxtabætur að fjárhæð 33.333 krónur á mánuði og sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 16.667 krónur á mánuði. Heildarráðstöfunartekjur kæranda eru því 234.395 krónur á mánuði.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 80.817.830 krónur. Þar af falla 34.826 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Ábyrgðarskuldir kæranda eru 1.750.000 krónur. Til helstu skulda var stofnað á árunum 2005 og 2007 til 2008.

Ástæða skuldasöfnunar að mati kæranda eru tekjulækkun, veikindi og ábyrgðarskuldbindingar. Kærandi kveðst vera öryrki eftir tvö bílslys og hafi vinnugeta hans minnkað í kjölfar þeirra. Þá hafi lyfjakostnaður hans aukist. Kærandi kveðst áður hafa starfað við að gera upp eignir og selja en eftir að heilsa hans versnaði hafi hann ekki getað stundað vinnu. Kærandi var með gengistryggt lán á fasteign sinni ásamt gengistryggðu láni hjá Arion banka sem hann segir að séu með veði í fjármunum hans í bankanum. Þegar afborganir af lánum hækkuðu vegna gengisbreytinga hafi fjárhagur hans versnað töluvert.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 10. mars 2011. Með bréfi umboðsmanns skuldara 27. september 2012 óskaði embættið skýringar og gagna um ráðstöfun á 12.100.000 krónum af reikningi kæranda fjórum dögum eftir að hann sótti um greiðsluaðlögun og komst í greiðsluskjól samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II. lge. Einnig óskaði embættið skýringa og gagna vegna ráðstöfunar söluhagnaðar að fjárhæð 4.756.423 krónur sem kærandi fékk í sinn hlut fyrir sölu á fasteigninni D götu nr. 5.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. október 2012 var umsókn kæranda hafnað með vísan til þess að óhæfilegt væri að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála felli úr gildi hina kærðu ákvörðun umboðsmanns skuldara og veiti heimild til greiðsluaðlögunar.

Kærandi byggir mál sitt aðallega á því að umboðsmaður skuldara hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga (ssl.). Samkvæmt inntaki ákvæðisins beri stjórnvaldi að leiðbeina aðilum máls ef fyrirhugað sé að taka ákvörðun um réttindi og skyldur. Í slíkri leiðbeiningarskyldu felist að stjórnvaldi sé skylt að svara spurningum frá málsaðilum með fullnægjandi hætti og veita þeim leiðbeiningar eða upplýsingar þegar aðilar hafi bersýnilega þörf fyrir slíkar leiðbeiningar, hafi misskilið réttarreglur eða ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum.

Kærandi hafi útskýrt að umrædd fjárhæð, 12.100.000 krónur, er hann millifærði af reikningi sínum 14. mars 2011, hafi ekki verið hans eign heldur hafi hún tilheyrt félaginu Y ehf. Umræddir fjármunir hafi verið hluti veðláns sem tekið hafi verið til fjármögnunar, kaupa og framkvæmda við fasteign. Þeir hafi verið greiddir inn á reikning kæranda þar sem hann hafi á þeim tíma er lánið var greitt út enn verið eigandi viðkomandi fasteignar og hafi því greitt persónulega kostnað við framkvæmdir á henni. Eftir að félagið Y ehf. tók yfir fasteignina 17. nóvember 2010, hafi umræddir fjármunir því í raun orðið eign félagsins og það hafi átt að sjá um greiðslu alls kostnaðar vegna eignarinnar frá þessum tíma. Við ársuppgjör 2010 hafi komið í ljós að félagið hafi greitt kæranda útlagðan kostnað sem nam 12.100.000 krónum hærri fjárhæð en kærandi hafi raunverulega greitt fyrir félagið. Kærandi hafi endurgreitt félaginu þetta fé.

Þessu til staðfestingar liggi fyrir yfirlýsing bókara sem hafi frá upphafi séð um allt bókhald og reikningsuppgjör félagsins. Kærandi hafi í samskiptum við umboðsmann skuldara óskað eftir því að honum yrði leiðbeint um það með hvaða hætti honum væri best að sýna fram á að umræddir fjármunir hefðu ekki tilheyrt honum. Kærandi hafi ekki fengið nein svör við þeim spurningum og hafi því ekki lagt annan skilning í málið en að umboðsmaður skuldara hefði tekið gildar þær skýringar og rök sem kærandi hefði veitt með munnlegum andmælum 4. október 2012. Kærandi kveðst hæglega hafa getað staðfest tilurð umræddra fjármuna með gögnum. Ljóst sé að umboðsmaður skuldara hafi ekki fullnægt leiðbeiningar skyldu sinni gagnvart kæranda og þar með hafi hann brotið gegn 7. gr. ssl. Vanræksla umboðsmanns skuldara hafi leitt til synjunar umsóknar um greiðsluaðlögun og beri því að ógilda þá ákvörðun.

Kærandi byggir mál sitt í fyrsta lagi á því að honum hafi ekki verið fullkunnugt um að greiðsluskjól hafi komist á sama dag og umsókn hans barst umboðsmanni skuldara.

Í öðru lagi hafi kærandi ætlað að vera búinn að endurgreiða umrædda upphæð til félagsins áður en umsókn hans var skilað til umboðsmanns skuldara. Það breyti þó ekki þeirri staðreynd að umræddir fjármunir hafi ekki verið hans eign líkt og sýnt hafi verið fram á. Kærandi hafi því hvorki látið af hendi eignir né verðmæti sem gæti hafa gagnast lánardrottnum sem greiðsla, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hann hafi heldur ekki með millifærslu sinni látið undir höfuð leggjast á ámælisverðan hátt að standa við fjárskuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í þriðja lagi byggir kærandi á því að í umfjöllun um 2. mgr. 6. gr. í frumvarpi er varð að lge. komi eftirfarandi fram; „…hafa í huga að þegar skuldari glímir við verulegan fjárhagsvanda hlýtur vissulega eitt og annað að hafa farið úrskeiðis hjá honum án þess þó að framangreind atriði verði talin eiga við þannig að girt sé fyrir greiðsluaðlögun“. Af þessu megi ráða að það sé ekki vilji löggjafans að hafna beri greiðsluaðlögun á þeim forsendum að umsækjandi hafi gert mistök eða gjörninga sem mögulega gætu leitt til höfnunar samkvæmt þröngri túlkun laganna, sér í lagi ef um sé að ræða atvik sem leiði ekki til þess að minni verðmæti komi til greiðslu lánardrottna líkt og hér um ræði.

Af þeim sökum telur kærandi að hvorki sé hægt að fella ráðstafanir hans undir f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. né c-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Beri því að ógilda synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 24. október 2012 kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Í c-lið 1. mgr. 12. gr. sé jafnframt kveðið á um að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í ákvæði til bráðabirgða II komi fram að hafi umsækjandi lagt fram umsókn um greiðsluaðlögun fyrir 1. júlí 2011 hefjist tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, við móttöku umsóknarinnar.

Kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun 10. mars 2011 og þá hafi hafist tímabundin frestun greiðslna. Á kæranda hafi því hvílt fyrrnefndar skyldur 12. gr. og því hafi hann ekki mátt láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali kæranda 2011, vegna tekjuársins 2010, hafi innstæða á innlánsreikningi hans í Landsbankanum verið 12.442.445 krónur. Samkvæmt bankayfirliti hafi kærandi tekið 12.100.100 krónur út af reikningnum 14. mars 2011, fjórum dögum eftir að hann sótti um heimild til greiðsluaðlögunar.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið tilkynnt með bréfi 27. september 2012 um hugsanlega synjun umsóknar hans með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fram kemur að varðandi fasteignina að D götu nr. 5 hafi kærandi lagt fram fullnægjandi skýringar og gögn vegna söluhagnaðar af fasteigninni.

Kærandi kveðst ekki hafa átt þær 12.100.000 krónur sem hann tók út af reikningi sínum. Fjármunirnir hafi verið í eigu félags sem hann var stjórnarmaður í. Hann hafi gengið úr félaginu og því hafi verið eðlilegt að hans mati að félagið fengi fjármunina afhenta. Kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þeirri fullyrðingu að peningarnir hafi ekki verið í hans eigu.

Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að 12.100.000 krónur hafi verið teknar út af reikningi kæranda þegar hann hafði lagt inn umsókn um greiðsluaðlögun og tímabundin frestun greiðslna því hafin. Á kæranda hafi því hvílt skyldur 12. gr. lge. og að mati umboðsmanns skuldara varði framferði kæranda við f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fram komi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Umboðsmaður skuldara fallist ekki á þá skýringu kæranda að hann hafi ekki verið raunverulegur eigandi umræddra fjármuna, enda hafi kærandi ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings og því eingöngu um órökstudda fullyrðingu kæranda að ræða.

Að ofangreindu virtu og með sérstöku tilliti til f-liðar 2. mgr. 6. gr., sbr. c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. sé það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Hvað varði athugasemdir kæranda um að embætti umboðsmanns skuldara hafi vanrækt leiðbeiningarskyldu sína samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga er af hálfu embættisins bent á að í bréfi 27. september 2012 komi skýrt fram að kærandi þyrfti að koma með skýringar og leggja fram gögn sem sýndu fram á hvert umræddir fjármunir hefðu farið. Kærandi hafi haft samband við embættið símleiðis 1. október 2012 og hafi hann verið upplýstur um hvaða gögn hann þyrfti að leggja fram. Að auki hafi kæranda verið bent á að eingöngu væri hægt að byggja á opinberum gögnum en ekki almennum fullyrðingum. Í svari kæranda 4. október 2012 komi hvergi fram staðfesting á þeirri fullyrðingu kæranda um að umrædd fjárhæð hafi ekki verið í eigu kæranda sjálfs.  Í ljósi ofangreinds hafni umboðsmaður skuldara staðhæfingum kæranda um að embættið hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga. Þvert á móti hafi embættið ítrekað skriflega og munnlega við kæranda að gögn vantaði til stuðnings almennum fullyrðingum hans.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Krafa kæranda er að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og honum veitt heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til f-liðar, en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt. Þá er ákvörðunin einnig byggð á því að kærandi hafi ekki sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge., sbr. c-lið ákvæðisins.

Ákvæði 12. gr. lge. snúa að því hvernig skuldari skuli haga fjármálum sínum á meðan leitað er greiðsluaðlögunar. Víki skuldari frá þessum skyldum með vísvitandi hætti getur slíkt leitt til þess að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður á grundvelli 15. gr. lge. Í 5. mgr. II. bráðabirgðaákvæðis lge. er kveðið á um að skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. laganna, eigi einnig við þegar umsókn hafi verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið. Umboðsmaður skuldara getur því hafnað umsókn skuldara á grundvelli þess ákvæðis, sinni skuldari ekki skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge.

Í c-lið 12. gr. er kveðið á um að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir eða verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt skýringum kæranda var 12.100.100 krónum, sem voru á reikningi hans á þeim tíma er hann sótti um heimild til greiðsluaðlögunar, ráðstafað til félagsins Y ehf. Samkvæmt skriflegri yfirlýsingu bókara félagsins 26. október 2012 sem barst með kæru voru umræddir fjármunir á reikningi kæranda eign félagsins Y ehf. og hafi tímabundið verið vistaðir á bankareikningi kæranda. Kærandi hafi síðan greitt fjármunina aftur til félagsins í mars 2012.

Að mati kærunefndarinnar verður að fallast á mat umboðsmanns skuldara þess efnis að eingöngu sé hægt að byggja á viðhlítandi opinberum gögnum við mat á því hvort tilgreind ráðstöfun kæranda á peningum af bankareikningi sínum sé brot á c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Fyrirliggjandi yfirlýsing bókara um að fjármunirnir hafi í raun verið eign Y ehf. er að mati kærunefndarinnar ekki viðhlítandi gögn í þessu sambandi.

Með vísan til alls framangreinds staðfestir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun með vísan til c-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

 

Eggert Óskarsson

 

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum