Hoppa yfir valmynd
9. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 158/2012

Fimmtudaginn 9. október 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 10. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. ágúst 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 13. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 12. september 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 12. september 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 25. október 2012. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1962. Hann er einstæður og býr í eigin 79 fermetra íbúð að B götu nr. 14 í sveitarfélaginu C. Kærandi á 15 ára gamla dóttur sem kemur til hans hálfsmánaðarlega.

Kærandi hefur lengst af starfað sem verktaki en er nú atvinnulaus. Hann á ekki rétt til atvinnuleysisbóta og þiggur því styrk frá Reykjavíkurborg. Ráðstöfunartekjur hans eru 145.217 krónur á mánuði.

Að sögn kæranda starfaði hann lengi í eigin nafni meðal annars fyrir Kópavogsbæ. Við efnahagshrunið 2008 hafi verkefnum fækkað mikið. Á þessum tíma hafi kærandi einnig glímt við sjúkdóm sem hafði áhrif á vinnufærni hans. Í kjölfar þessa hafi kærandi verið orðinn tekjulaus á árinu 2010. Hann hafi ekki átt rétt til atvinnuleysisbóta vegna vangoldins tryggingagjalds og áætlaðra skatta. Frá mars 2011 hafi hann þegið fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 56.096.423 krónur og falla 42.102.811 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað 2005, 2008 og 2011.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 27. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. ágúst 2012 var umsókn hans hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun um synjun á greiðsluaðlögun verði endurskoðuð. Skilja verður það svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst mótmæla því sem fram komi hjá umboðsmanni skuldara að hann hafi ekki sýnt viðleitni til að standa í skilum með barnsmeðlag og fleiri skuldir. Hann kveðst hafa greitt inn á meðlagsskuld en ekki náð að standa í skilum. Í nóvember 1994 hafi hann greitt þáverandi vanskil og í ágúst 2006 hafi hann gert samning við Innheimtustofnun sveitarfélaga. Nú liggi umsókn fyrir Innheimtustofnun um nýjan samning um greiðslu meðlagsskulda. Kærandi eigi einnig dóttur í Bandaríkjunum sem hann hafi greitt meðlag með beint en þær greiðslur hafi ekki farið fram í gegnum Innheimtustofnun.

Kærandi segist ekki hafa haldið nægilega vel utan um bókhald sitt og skil á skatt- og virðisaukaskattskýrslum. Hafi það orðið til þess að skattar hafi verið áætlaðir á hann í byrjun. Hann hafi gert samning við Embætti tollstjóra og greitt inn á eldri áætlanir. Ekki hafi tekist að koma skuldum í skil þar sem áætlanir hafi verið hærri en tekjur á þeim tíma svo að nú sé skuldin komin úr böndunum. Kærandi hafi gert tilraun til að gera greiðslusamning við Tollstjóra í júlí 2012 en honum hafi verið sagt að hann gæti ekki gert samning þar sem hann hafði sótt um greiðsluaðlögun.

Áður en kærandi hafi farið í greiðsluskjól hafi hann skilað fjórum skattframtölum. Þau hafi ekki verið gerð eins og best hafi verið á kosið á þeim tíma sem hann hafi haft til að vinna þau, til dæmis hafi enginn frádráttur verið vegna kostnaðar. Gefi þetta ranga mynd af tekjum hans og gjöldum kæranda í óhag.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Í gögnum málsins liggi fyrir kröfur á kæranda frá Tollstjóra vegna ógreiddra vörsluskatta. Um sé að ræða staðgreiðslu tryggingagjalds að fjárhæð 688.921 króna og virðisaukaskatt að fjárhæð 7.058.906 krónur. Meðal gagna málsins sé einnig ógreidd sekt samkvæmt viðurlagaákvörðun dómara vegna virðisaukaskattbrots en fjárhæð sektarinnar sé 3.830.000 krónur. Samtals nemi ofangreindar kröfur alls 11.557.827 krónum. Virðisaukaskattskuld kæranda byggi á álagningu og sé því óumdeild.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf 27. apríl 2012 þar sem fram hafi komið upplýsingar um hugsanlega synjun á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í bréfinu hafi komið fram að sú háttsemi að skila ekki vörslusköttum varði refsingu bæði samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Þá sé nefnd skuld allstór hluti af heildarskuldum kæranda eða um 20,6%. Í ljósi þess að eignir kæranda séu metnar á 17.111.195 krónur og eignastaða hans neikvæð um 38.985.228 krónur séu þessar skuldbindingar ekki smávægilegar miðað við fjárhag kæranda.

Kæranda hafi verið veittur 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig skriflega um efni þess og styðja gögnum áður en umboðsmaður tæki ákvörðun um synjun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Kærandi hafi tvisvar sinnum óskað eftir fresti til að andmæla. Í fyrra skiptið hafi hann fengið frest til 15. júní 2012 og í seinna skiptið til 15. júlí 2012. Engin andmæli hafi borist.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 13/2011 hafi meðal annars verið fjallað um g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og það ákvæði skýrt nánar. Þar hafi verið vísað til þess að ef um væri að ræða opinber gjöld eða skuldir við sjóði sem ætlaðir væru til samneyslu eða samtryggingar gætu slíkar skuldir leitt til synjunar á heimild til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu heildarskuldir kæranda 56.096.423 krónur en þar af séu ógreidd þing- og sveitarsjóðsgjöld 11.393.424 krónur eða 20,31% af heildarskuldum hans. Þó svo að þessi fjárhæð sé ein og sér töluverður hluti af heildarskuldum kæranda verði einnig að taka inn í matið á g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. að kærandi skuldi virðisaukaskatt að fjárhæð 7.058.906 krónur og staðgreiðslu tryggingagjalds að fjárhæð 688.921 króna. Langstærstur hluti skulda kæranda sé því vegna opinberra gjalda eða 19.141.251 króna eða sem nemi 35,05% af heildarskuldum hans.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kæranda verið sent ábyrgðarbréf 18. júlí 2012 um hugsanlega synjun á grundvelli g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Þá hafi embættið skorað á kæranda að koma fram með ný gögn og/eða upplýsingar eða leita leiðréttingar hjá skattyfirvöldum teldi hann framangreindar upplýsingar rangar. Að öðrum kosti yrði byggt á fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum við ákvörðun í málinu.

Kærandi hafi svarað með bréfi 30. júlí 2012. Þar hafi komið fram að kærandi hafi ekki talið sig halda nægilega vel utan um bókhald og skil á skattaframtölum. Vegna þessa hafi verið áætlaðir á hann skattar. Kærandi hafi gert samning við Tollstjóra um að greiða inn á eldri áætlanir. Hann hafi þó ekki getað komið fjármálum sínum á réttan kjöl þar sem áætlanir hafi verið hærri en innkomnar tekjur. Hann hafi þá reynt að gera samning við Tollstjóra í júlí 2012 en þar hafi honum verið sagt að það gæti hann ekki gert þar sem hann hefði óskað greiðsluaðlögunar hjá umboðsmanni skuldara. Áður en kærandi hafi sótt um greiðsluaðlögun og farið í greiðsluskjól hafi hann skilað fjórum skattframtölum sem ekki hafi verið eins vel unnin og æskilegt hefði verið oghefðu því ekki gefið rétta mynd af fjárhag hans.

Kærandi hafi farið fram á að tekið yrði tillit til þeirra skýringa sem fram hafi komið í bréfi hans 30. júlí 2012. Ekki verði annað séð en að við ákvörðunartöku hjá umboðsmanni skuldara 1. ágúst 2012 hafi verið tekið tillit til nefndra skýringa kæranda. Í bréfinu fjalli kærandi um að hann hafi skilað fjórum skattframtölum áður en hann sótti um heimild til greiðsluaðlögunar. Hann hafi ekki vandað framtölin nægilega vel og telji að þau gefi hvorki rétta mynd af heildartekjum hans né gjöldum. Af þessu tilefni taki umboðsmaður fram að taka verði mið af opinberum gögnum svo sem skattframtölum og staðgreiðsluskrá. Kærandi hafi ekki skilað skattframtali ársins 2012 vegna tekjuársins 2011.

Með vísan til þess sem komið hafi fram sé það ákvörðun umboðsmanns skuldara að synja beri umsókn kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. en ekkert hafi komið fram hjá kæranda sem gefi tilefni til annarrar niðurstöðu.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d- og g-liða.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Sú skuldbinding sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru skuldir vegna virðisaukaskatts að fjárhæð 7.058.906 krónur og skattsektar að fjárhæð 3.830.000 krónur, samtals að fjárhæð 10.888.906 krónur. Stafa skuldirnar frá árunum 2007 til 2009.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrir liggur að kærandi skuldar virðisaukaskatt og sekt vegna vanskila á skatti. Af þessu leiðir að ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 eiga við um kæranda sem virðisauka­skattskyldan aðila.

Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem eru tilkomnar vegna háttsemi sem refsing liggur við girði fyrir að veitt verði heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. fortakslaus ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld kæranda nemi einhverju miðað við fjárhag hans. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um tæplega 39.000.000 króna og tekjur hans afar lágar. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur 10.888.906 krónum eða 19,4% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi miðað við fjárhag hans og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum