Hoppa yfir valmynd
2. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 168/2012

Fimmtudaginn 2. október 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 31. ágúst 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 14. ágúst 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 4. september 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 17. september 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 19. september 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 25. október 2012. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1960. Hann er fráskilinn og býr í eigin 79 fermetra íbúð að B götu nr. 27 í sveitarfélaginu C. Kærandi á 19 ára gamlan son sem dvelur stundum hjá honum.

Kærandi var sjálfstætt starfandi þangað til í mars 2009 er verkefnum fækkaði. Hann sótti þá um hlutfallslegar atvinnuleysisbætur og fékk þær þangað til í janúar 2011 er hann hætti rekstri og skráði sig atvinnulausan. Tekjur hans nú eru eingöngu atvinnuleysisbætur að fjárhæð 135.123 krónur á mánuði.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til veikinda og atvinnuleysis.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 35.573.060 krónur og falla 15.340.915 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þær skuldir sem falla utan samnings um greiðsluaðlögun eru alls 20.232.145 krónur. Þar af eru 10.754.768 krónur vegna námslána, 4.013.915 krónur vegna virðisaukaskatts, 627.882 krónur vegna lífeyrissjóðsiðgjalda og meðlagsskuld að fjárhæð 4.835.580 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2001 vegna fasteignakaupa.

Kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 14. ágúst 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hans svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Fram kemur í kæru að ekki hafi verið tekið tillit til leiðréttingarskýrslna vegna áætlunar á virðisaukaskatti á árunum 2006 til 2012. Með kæru fylgi leiðréttingarskýrslur vegna áranna 2006, 2008 og 2011 en skýrslur vegna 2007 og 2009 þurfi kærandi að nálgast hjá endurskoðanda sínum.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem þar séu talin upp í stafliðum a–g.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lge. sé tekið fram um 2. mgr. 6. gr. að þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta til við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Sé þar byggt á þeirri meginreglu að skuldari skuli ekki eiga kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála nr. 10/2011.

Á skuldayfirliti og greinargerð kæranda verði ráðið að fjárhagur hans sé erfiður vegna mikilla skulda. Heildarskuldir hans séu ríflega 35.000.000 króna. Eignir hans séu fasteign að B götu nr. 27 í sveitarfélaginu C að verðmæti 19.650.000 krónur samkvæmt fasteignamati og bifreið að verðmæti um 206.000 krónur samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Alls nemi eignir kæranda því 19.856.672 krónum. Í því ljósi verði að telja eignir kæranda óverulegar með tilliti til skulda.

Ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvílt hafi á kæranda til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Telja verði fjárhæð virðisaukaskattskuldarinnar verulega háa þrátt fyrir að einungis sé tekið tillit til þess hluta sem byggi á álagningu. Einnig sé ljóst að eignastaða kæranda sé neikvæð. Þyki þannig ófært að líta svo á að virðisaukaskattskuld sé smávægileg með hliðsjón af fjárhag kæranda.

Í fyrirliggjandi gögnum frá Tollstjóra komi fram að kærandi hafi ekki staðið skil á opinberum gjöldum sem nemi nú samtals 4.013.915 krónum. Til skuldanna hafi stofnast á árunum 2006 til 2011. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum byggi neðangreindur hluti skuldanna á áætlun ríkisskattstjóra í krónum:

Ár Fjárhæð*
2009 122.500
2010 250.000
2011 505.000
2012 255.000
Alls 1.132.500

*Höfuðstóll.

Heildarfjárhæð með dráttarvöxtum nemur 1.383.467 krónum.

Ógreiddur virðisaukaskattur sem byggi á álagningu nemi eftirfarandi í krónum:

Ár Fjárhæð*
2006 102.401
2007 71.493
2008 1.032.713
2009 257.831
2010 33.733
2011 21.861
Alls: 1.520.032

*Höfuðstóll.

Heildarfjárhæð með dráttarvöxtum nemur 2.630.448 krónum.

Einnig skuldi kærandi 707.857 krónur vegna þing- og sveitarsjóðsgjalda, 289.030 krónur vegna staðgreiðslu tryggingagjalds og bifreiðagjald að fjárhæð 15.256 krónur. Alls nemi því skuldir kæranda vegna opinberra gjalda 5.026.058 krónum sem sé 14% af skuldum kæranda.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi rétturinn tekið 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d til umfjöllunar. Af niðurstöðu dómsins megi ráða að skuldbinding sem stofnað sé til með þeirri háttsemi sem ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. tiltaki geti varðað synjun á heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 hafi nefndin fallist á þá túlkun umboðsmanns skuldara að óhæfilegt væri að samþykkja greiðsluaðlögun þar sem kærandinn hafi ekki staðið skil á vörslusköttum. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 hafi verið skilið svo að „skattaskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei“.

Umboðsmaður skuldara hafi sent kæranda bréf 14. maí 2012 þar sem fram komi að hluti skulda hans vegna virðisaukaskatts sé byggður á áætlun. Hafi kæranda verið bent á að ef hann teldi að áætlun ríkisskattstjóra endurspeglaði ekki rétta skattskyldu gæti hann farið fram á það við ríkisskattstjóra að álagning virðisaukaskatts væri leiðrétt. Var kæranda veittur 15 daga frestur en hann hafði samband við embættið 4. júní 2012. Kvaðst hann hafa móttekið bréfið og hefði beðið endurskoðanda sinn um að skila leiðréttingarskýrslum vegna áætlunar virðisaukaskatts. Kærandi hafi einnig verið í símasambandi við embættið 13. og 18. júní 2012 vegna þessa. Þá hafi komið fram í símtali við kæranda 26. júní 2012 að endurskoðandi hans hefði sent leiðréttingarskýrslu í liðinni viku. Umboðsmaður hafi sent fyrirspurn til Tollstjóra 28. júní 2012 en engar breytingar hafi þá verið gerðar á áætlun virðisaukaskatts kæranda. Þá hafi verið hringt í kæranda 9. júlí s.á. þar sem enn höfðu hvorki borist afrit af leiðréttingarskýrslum né hafði áætlun Tollstjóra verið leiðrétt. Þegar ákvörðun hafði verið tekin í málinu 14. ágúst s.á. hafi leiðréttingarskýrslur enn ekki borist.

Hafi ekki verið á færi annarra en kæranda að leggja umbeðnar upplýsingar fram en þessar upplýsingar hafi einnig verið nauðsynlegar til þess að hægt væri að leggja mat á hvort kærandi uppfyllt skilyrði laga um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars 4. gr. lge. Hafi þetta verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011.

Í kæru fjalli kærandi um að ekki hafi verið tekið tillit til leiðréttingarskýrslna vegna áætlunar á virðisaukaskatti en með kæru hafi fylgt leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts 22. ágúst 2012. Á leiðréttingarskýrslunum sé ekki að finna móttökustimpil ríkisskattstjóra. Samkvæmt yfirliti Tollstjóra 14. september 2012 sé heldur ekki að sjá að opinber gjöld kæranda hafi verið leiðrétt. Einnig sé rétt að taka fram að kærandi hafi ekki skilað skattframtali 2012.

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Af gögnum málsins verði ráðið að hluti skulda kæranda sé einmitt þess eðlis að líta verði til sjónarmiða að baki g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., þ.e. skuldir við sjóði sem ætlaðir séu til samneyslu eða samtryggingar og vangreidd opinber gjöld, en til viðbótar við þau opinberu gjöld sem nefnd séu að framan hafi kærandi einnig látið undir höfuð leggjast að greiða meðlag að fjárhæð 4.835.580 krónur.

Leiði mat umboðsmanns skuldara til þess að óhæfilegt þyki að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Sú skuldbinding sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er skuld vegna virðisaukaskatts samtals að fjárhæð 4.013.915 krónur frá árunum 2006 til 2012.

Kærandi hefur lagt fram leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts fyrir árin 2006, 2008 og 2011 en samkvæmt þeim lækkar höfuðstóll virðisaukaskattskuldar hans um 1.035.443 krónur eða úr 2.652.532 krónum í 1.617.089 krónur. Undir rekstri málsins aflaði kærunefndin upplýsinga hjá Tollstjóra um álagningu virðisaukaskatts miðað við leiðréttingarskýrslur. Af upplýsingum Tollstjóra má sjá að ekki hefur verið tekið tillit til lækkana kæranda nema að litlu leyti og í sumum tilvikum hefur skuld hans verið hækkuð. Neðangreind tafla sýnir skuldir kæranda vegna virðisaukaskatts en miðað er við þær breytingar sem gerðar hafa verið á álagningu. Fjárhæðir eru miðaðar við höfuðstól í krónum:

Ár Skv. ákvörðun Staða hjá
  umboðsmanns Tollstjóra eftir leiðr.
2006 102.401 220.592
2007 71.493 460.264
2008 1.032.713 972.657
2009 380.331 380.331
2010 283.733 286.589
2011 526.861 247.096
2012 255.000 255.000
Alls 2.652.532 2.822.529

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Fyrir liggur að kærandi skuldar virðisaukaskatt. Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var kærandi spurður að því hvort hann teldi áætlunina endurspegla rétta skattskyldu. Einnig var honum bent á að hann gæti farið fram á leiðréttingu álagningar teldi hann svo ekki vera. Loks var honum bent á að heimilt væri að synja umsókn um greiðsluaðlögun vegna vanskila á virðisaukaskatti. Leiðréttingarskýrslur kæranda leiddu til þeirra breytinga á virðisaukaskattskuld hans sem að ofan er getið en skuld hans hefur ekki lækkað. Af þessu leiðir að ákvæði 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 eiga við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Að því er varðar nefnda virðisaukaskattskuld verður að líta til þess að ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu í skilningi d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sbr. 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins er eignastaða kæranda neikvæð um liðlega 15.700.000 krónur og tekjur hans afar lágar. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi nemur að minnsta kosti 4.013.915 krónum með vöxtum eða 11,3% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja Snorra Ægissyni um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum