Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 144/2012

Mánudaginn 11. ágúst 2014

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 23. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A en kærandi tilkynnti með tölvubréfi 18. júlí 2012 að hann hygðist leggja inn kæru. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. júlí 2012 þar sem umsókn hans um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 3. ágúst 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 31. ágúst 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 5. september 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi 10. október 2012.

I. Málsatvik

Kærandi er 46 ára fráskilinn þriggja barna faðir. Hann býr í eigin húsnæði að B götu nr. 41, sveitarfélaginu C, ásamt uppkomnum syni sínum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá umboðsmanni skuldara nema 60.291.299 krónum. Þá hefur kærandi gengist í ábyrgðir fyrir skuldum nokkurra aðila, samtals að fjárhæð 9.100.347 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2005, 2008 og 2011.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika til hjónaskilnaðar, líkamsárásar, hlutabréfakaupa og ábyrgðarskuldbindinga fyrir fyrrum eiginkonu. Í júlí 2008 skildi kærandi og hófst þá erfið forræðisdeila. Í ágúst 2008 varð kærandi fyrir líkamsárás sem hafði miklar afleiðingar fyrir hann bæði andlega og líkamlega. Að sögn kæranda urðu öll hlutabréf hans í SPRON, SpKef og Landsbankanum verðlaus haustið 2008. Verðmæti fasteignar kæranda var þá langt umfram skuldir á þessum tíma. Loks var kærandi í ábyrgðum fyrir fyrrum eiginkonu sína en samkvæmt fjárskiptasamningi átti eiginkonan að vera búin að losa hann undan öllum slíkum ábyrgðum 31. desember 2009.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 10. júlí 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun synjað á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kæranda

Kærð er niðurstaða umboðsmanns skuldara um að synja umsókn kæranda um greiðsluaðlögun. Gerir kærandi þá kröfu að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála snúi við niðurstöðu umboðsmanns skuldara.

Kærandi kveður að ekki liggi fyrir að ábyrgðarskuldbindingar hans muni yfirleitt leiða til peningaskuldar sem falla myndu undir greiðsluaðlögun. Þá telur kærandi rétt að líta til þess að eignastaða hans hafi verið góð þegar hann tókst á hendur umræddar ábyrgðarskuldbindingar.

Kærandi telur að útreikningur umboðsmanns á skuldastöðu hans hafi ekki verið réttur, þ.e. ekki hafi verið litið til þess að húsnæðislán hans hjá Íslandsbanka, sem sé erlent myntkörfulán, hafi verið dæmt ólöglegt í Hæstarétti og hafi einungis verið leiðrétt að hluta til.

Kærandi vísar til þess að sér hafi borist fyrirspurnarbréf frá umboðsmanni skuldara þar sem ítarlega hafi verið spurt út í tilteknar skattskuldir og sé þar sagt að þær séu byggðar á álagningu en ekki áætlunum. Kærandi hafi svarað bréfi þessu og samhliða því skilað inn afritum af tugum núllskýrslna. Telur kærandi raunskuldir þeirra þriggja félaga sem hann sé í fyrirsvari fyrir og umræddar skattskuldir megi rekja til séu á bilinu 1.500.000 til 2.000.000 króna án vaxta. Kærandi telur að langstærstur hluti þessarar skuldar sé byggður á áætlunum, en ekki álagningu.

Kærandi telur að það hafi ekki verið í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að umboðsmaður skuldara hafi ekkert fjallað um svarbréf hans í ákvörðun sinni. Kærandi telur einnig að umboðsmaður hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og rannsóknarreglunni, sbr. 10. gr. sömu laga.

Þá rekur kærandi að umboðsmaður hafi í ákvörðun sinni vísað til þess að íbúðin að B götu nr. 41 í sveitarfélaginu C sé yfirveðsett, en fasteignamat hennar árið 2012 sé 34.600.000 krónur og áhvílandi veðskuldir séu 45.700.000 krónur. Bendir kærandi á það að tryggingarbréf frá Afli-sparisjóði, að fjárhæð 15.000.000 króna, sé tryggt með fjórða veðrétti í íbúðinni. Búið sé að afskrifa þessa fjárhæð út úr lánabók sparisjóðsins, en enn eigi eftir að aflýsa bréfinu af eigninni, og verði það gert muni staðan breytast til muna.

Þá telur kærandi að forsendur ákvörðunarinnar og niðurstaða umboðsmanns skuldara séu í mótsögn hvor við aðra, en kærandi telur að umboðsmaður geti ekki byggt ákvörðun sína um að hafna umsókninni á því orðalagi sem komi fram í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar.

Í athugasemdum við greinargerð umboðsmanns ítrekar kærandi þann rökstuðning sem að framan greinir. Þá vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 81/2011 og telur eðlilegt að kærunefndin taki mið af þessum úrskurði eða skoði a.m.k. mál kæranda í ljósi úrskurðarins.

Kærandi rekur það að rétt sé að þeim núllskýrslum sem hann skilaði til embættis ríkisskattstjóra hafi verið hafnað vegna þess að ársreikningum hafði ekki verið skilað inn. Kærandi segir að enginn rekstur hafi verið í umræddum þremur félögum frá árinu 2008, en hann hafi hætt þessum rekstri í kjölfar líkamsárásar haustið 2008 og hrunsins á íslensku krónunni. Öll staðgreiðsla og virðisaukaskattur hafi verið greiddur og í skilum þegar rekstri hafi verið hætt. Vissulega hefði átt að skila ársreikningum og staðgreiðslu og loka virðisaukaskattsnúmerum þó engin starfsemi hafi verið. Kærandi hafi þó ekki litið á þetta sem forgangsatriði, hvorki þá né síðar eftir þau áföll sem hann hafði gengið í gegnum á stuttum tíma.

Kærandi telur að eignin að B götu nr. 41 seljist á hærra verði en fasteignamat hennar segi til um.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011 þar sem kærunefndin hafi vísað til dóms Hæstaréttar í máli réttarins nr. 721/2009.

Í málinu liggi fyrir að tollstjóri hafi gert kröfur vegna skattskulda á hendur þremur félögum, en kærandi beri stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá gæti kærandi þurft að sæta refsiábyrgð samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 vegna vanskila á umræddum sköttum. Á þessum þremur félögum hvíli skattskuldir samtals að fjárhæð 8.648.476 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá tollstjóra sé um að ræða áfallnar skattskuldir sem byggðust á álagningu að meðtöldum dráttarvöxtum. Sé þá einungis miðað við gjaldfallin og vangoldin opinber gjöld á umrædd félög, sem falli utan samnings um greiðsluaðlögun einstaklinga samkvæmt lge.

Af fjárhagsyfirliti og greinargerð kæranda verði ráðið að fjárhagur hans hafi verið afar þröngur vegna umtalsverðra skuldbindinga, einkum vegna hlutafjárkaupa og ábyrgðarskulda. Heildarskuldir hans nemi 60.291.299 krónum, auk ábyrgðarskuldbindinga að fjárhæð 9.100.347 krónur, en þar af séu 7.655.206 krónur í vanskilum.

Kærandi eigi íbúð að B götu nr. 41 í sveitarfélaginu C. Samkvæmt fasteignamati 2012 hafi íbúðin verið metin á 34.600.000 krónur og áhvílandi veðskuldir séu að nafnverði 45.700.000 krónur auk þess sem tvö fjárnám hafi verið gerð í íbúðinni. Þá sé kærandi með bílasamning vegna bifreiðar af gerðinni Z, árgerð 2005. Verðmæti bifreiðarinnar samkvæmt skattframtali 2011 sé 1.441.800 krónur en eftirstöðvar skulda vegna bílasamnings séu 1.984.065 krónur samkvæmt upplýsingum frá SP fjármögnun hf. Loks sé kærandi skráður eigandi hlutabréfa hjá Medasin ehf., að fjárhæð 250.000 krónur, og Decode Genetics, að fjárhæð 418.080 krónur. Að mati umboðsmanns skuldara séu eignir kæranda óverulegar að teknu tilliti til skulda.

Ekki verði hjá því komist að líta til þeirrar ábyrgðar sem hvíli á kæranda sem forsvarsmanns einkahlutafélaganna þb. V ehf., X ehf. og þb. Y ehf. til að standa skil á vörslusköttum og þeim sektarúrræðum sem hann gæti átt yfir höfði sér fyrir að láta hjá líða að gera þeim skil. Umboðsmaður skuldara telur fjárhæðir skattskuldanna allháar auk þess sem ljóst sé að skuldir kæranda séu talsvert umfram eignir og fjárhagur hans þröngur.

Verði ekki séð eftir heildstætt mat á stöðu kæranda, þar með talið eignastöðu og tekna, samkvæmt fyrirliggjandi gögnum og skattframtölum að umræddar skuldir teljist smávægilegar með hliðsjón af fjárhag kæranda. Með vísan til þessa sé óhæfilegt að veita kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hafi talið að skuldir vegna vangoldins virðisaukaskatts séu þess eðlis að d-liður 2. mgr. 6. gr. lge. komi til skoðunar vegna þeirra. Þetta birtist meðal annars í úrskurði nefndarinnar frá 14. maí 2012 í máli nr. 59/2011. Telja verði að sama eigi við um önnur vangoldin gjöld sem refsing liggi við að standa ekki skil á. Það hlutfall slíkra skulda miðað við heildarskuldir sem tilgreint sé í dómi Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, vegna framkvæmdar greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991 fyrir gildistöku lge., veiti vissa leiðsögn við túlkun á d-lið 2. mgr. 6. gr. lge., en ljóst þyki að aðrir þættir geti haft vægi við matið.

Varðandi þá athugasemd kæranda að svo hafi virst af hinni kærðu ákvörðun að ekki hafi verið tekið tillit til bréfs hans frá 30. maí 2012 og gögnum sem hann hafi skilað til umboðsmanns skuldara með því, þá hafi umboðsmaður skuldara tekið við umræddum gögnum og væru þau hluti af málinu. Hins vegar sé þeirra ekki getið í hinni kærðu ákvörðun. Ástæða þess sé sú að umboðsmaður skuldara hafi leitað staðfestingar á því hjá embætti ríkisskattstjóra hvort kærandi hefði skilað tilteknum gögnum og hvort þau gætu leitt til lækkunar á kröfum þeim sem skiptu máli. Í svari embættis ríkisskattstjóra hafi komið fram að umræddum núllskýrslum hafi verið hafnað. Þannig hafi þótt ljóst að ekki myndi koma til þess að kröfurnar myndu lækka að svo komnu máli. Með þessu hafi helstu atriði málsins þótt liggja fyrir og hafi málið því verið tekið til ákvörðunar. Ekki sé útilokað að þessi málsatvik hefðu betur mátt koma fram í ákvörðuninni, en slíkur annmarki á henni geti þó ekki leitt til ógildingar hennar.

Þá sé ekki ástæða til að draga þá fullyrðingu kæranda í efa að skuldin að baki tryggingarbréfi því sem hvíli á 4. veðrétti á eign hans að B götu, að fjárhæð 15.000.000 króna, hafi verið felld niður. Hins vegar verði að hafa í huga að umrædd fjárhæð hafi ekki verið talin til skulda kæranda, heldur hafi hún aðeins haft vægi þegar skoðuð var eignastaða hans, og hafi þessi veðsetning valdið því að ekki hafi verið hægt að líta svo á að nokkuð eigið fé hafi falist í eigninni að B götu nr. 41. Sé þessi veðsetning ekki lengur fyrir hendi kunni svo að vera að eignin teljist ekki lengur yfirveðsett, en engu að síður hafi fjárhagsstaða kæranda verið með þeim hætti að eignastaða hans í heild hafi verið neikvæð, þ.e. skuldir hans hafi verið hærri en eignir.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að kærunefndin snúi við niðurstöðu umboðsmanns skuldara. Verður að skilja það svo að kærandi krefjist þess að kærunefndin felli niður synjun umboðsmanns skuldara og veiti kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. annars vegar 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og sbr. hins vegar 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Umboðsmaður skuldara gegnir því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt því sem kveðið er á um í lge. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála veiti kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki hafa viðhaft vandaða stjórnsýsluhætti og hafi við meðferð máls kæranda verið brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og jafnframt hafi umboðsmaður ekki sinnt leiðbeiningarskyldu, sbr. 7. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði, svo sem að gera aðila viðvart ef hann hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum eða ekki veitt nægilega ítarlegar upplýsingar. Engar formkröfur eru fyrir hendi varðandi leiðbeiningarskylduna. Þannig geta upplýsingar verið bæði skriflegar og munnlegar, almennar eða sérstakar. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð, svo sem reglur um þá fresti sem gilda við meðferð viðkomandi máls. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en tekin er ákvörðun í því. Í því er talið felast að stjórnvaldi beri að sjá til þess að eigin frumkvæði að nauðsynlegar og réttar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin í máli, meðal annars með hliðsjón af þeim lagareglum sem gilda á viðkomandi sviði. Þegar ákvörðun stjórnvalds byggist á matskenndum grundvelli, svo sem þegar beitt er reglum 2. mgr. 6. gr. lge., skal mismunur á úrlausn mála byggjast á málefnalegum sjónarmiðum. Með öðrum orðum þarf að vera ákveðið samspil á milli málsatvika og þeirra sjónarmiða sem heimilt er að leggja til grundvallar.

Eins og ráða má af gögnum málsins var kæranda sent bréf 8. maí 2012 þar sem honum var gefinn kostur að skila inn skriflegum athugasemdum við þær skattskuldir sem hvíldu á þeim félögum sem hann bar ábyrgð á. Þessar athugasemdir bárust 30. maí 2012 ásamt öðrum gögnum. Þau gögn sem kærandi skilaði inn voru núllskýrslur vegna þeirra skattskulda sem ákvörðun umboðsmanns byggist á. Af greinargerð umboðsmanns skuldara má síðan ráða að embættið hafi leitað staðfestingar hjá embætti ríkisskattstjóra á því hvort viðkomandi núllskýrslum hafi verið skilað og jafnframt hvort þær gætu leitt til lækkunar, en í svari embættis ríkisskattstjóra kom fram að núllskýrslum þessum hefði verið hafnað.

Að þessu virtu er það mat kærunefndarinnar að umboðsmaður skuldara hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni og jafnframt leiðbeiningarskyldu sinni við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ákvörðun sinni víkur umboðsmaður skuldara ekkert að svarbréfi sem honum barst frá kæranda og gögnum sem fylgdu því. Telur kærunefndin að rétt hefði verið að umboðsmaður fjallaði í ákvörðun sinni um umrætt bréf kæranda og gögn þau sem með fylgdu, þrátt fyrir að rannsókn hafi leitt í ljós að kröfurnar myndu ekki lækka að svo komnu máli. Þessi annmarki á ákvörðun umboðsmanns skuldara verður þó ekki talinn slíkur að hann valdi ógildingu hennar enda hefur annmarkinn ekki áhrif á niðurstöðu umboðsmanns.

Sjónarmið kæranda, að ekki sé samræmi í orðalagi og niðurstöðu ákvörðunar umboðsmanns skuldara, er ekki á rökum reist að mati kærunefndarinnar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar. Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hefur verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi eru skuldir vegna virðisaukaskatts, staðgreiðslu launagreiðanda, fésekta ársreikningaskrár og vegna greiðslufrests á tolli samtals að fjárhæð 8.648.476 krónur.

Samkvæmt gögnum frá hlutafélagaskrá gegndi kærandi hlutverki stjórnarmanns og prókúruhafa í félaginu V ehf. og stjórnarformanns og prókúruhafa Y ehf., áður en bú félaganna var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá gegnir kærandi stöðu stjórnarmanns og prókúruhafa X ehf. Því hvíldi á honum sú skylda fyrirsvarsmanns félags sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 að því er varðar fjárreiður og eignir félags.

Kærunefndin aflaði upplýsinga hjá tollstjóra um skuldir umræddra félaga. Í ljós kom að skuldir þeirra allra voru afskrifaðar úr greiðslukerfi embættisins vegna gjaldþrots félaganna. Skuldir vegna vörsluskatta hafa því ekki verið greiddar.

Fyrirsvarsmaður félags skal hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og sjá má af framangreindu ber fyrirsvarsmönnum lögaðila skylda til að sjá til þess að vörsluskattar séu greiddir að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem fyrirsvarsmann viðkomandi félaga.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins voru skuldir kæranda ríflega 25.000.000 króna umfram eignir. Þær skattskuldir sem kærandi hefur stofnað til eru samtals að fjárhæð 8.648.476 krónur. Verður að telja þetta allháa fjárhæð en skuldin er 14,3% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er getur varðað refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari, sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum