Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 130/2012

Mánudaginn 18. ágúst 2014

 


 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Lára Sverrisdóttir.

Þann 15. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 2. júlí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 25. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 7. ágúst 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 9. ágúst 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1972 og 1975. Þau eru gift og búa ásamt fjórum börnum sínum í eigin 281 fermetra einbýlishúsi að C götu nr. 1 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er förðunar- og snyrtifræðingur og rekur fyrirtækið Z. Kærandi B er smiður. Mánaðarlegar tekjur þeirra eru 435.350 krónur og eru vegna launa, atvinnuleysisbóta, barnabóta, vaxtabóta og meðlagsgreiðslna.

Kærendur telja atvinnuleysi, samdrátt í rekstri, hækkun lána og lækkun eignaverðs helstu ástæður fjárhagserfiðleika sinna. Árið 2004 hafi þau keypt hús í sveitarfélaginu E. Kærandi A hafi þá verið sjálfstætt starfandi og leigt húsnæði í sveitarfélaginu E undir starfsemi sína. Hún hafi misst leiguhúsnæðið árið 2007 þannig að hún hafi þurft að flytja starfsemina. Hafi hún keypt húsnæði sem í var snyrtivöruverslun og keypt rekstur verslunarinnar með húsnæðinu með það fyrir augum að reka eigin starfsemi samhliða versluninni. Kærandi B hafi orðið atvinnulaus árið 2006. Þá hafi hann byrjað byggingu hússins að C götu nr. sem átti að verða nýtt heimili fjölskyldunnar. Hafi þeim ekki tekist að selja eldra húsnæði fyrr en árið 2009 og þá flutt í nýju eignina. Kærandi B hafi verið atvinnulaus áfram og verkefni dregist talsvert saman hjá kæranda A.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 65.560.952 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2007 og 2008.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara eru 57.181.698 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 5. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 2. júlí 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur krefjast þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja þeim um heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Árið 2004 hafi kærendur keypt sér hús í sveitarfélaginu E fyrir 16.000.000 króna en þau hafi tekið 10.000.000 króna lán vegna kaupanna. Árið 2006 hafi kærandi B misst atvinnuna en hann starfaði sem smiður. Þar sem fjölskyldan hafi farið stækkandi hafi kærendur þurft á stærra húsnæði að halda. Því hafi þau ákveðið að kærandi B myndi byggja fyrir þau nýtt hús við C götu  í stað þess að leita strax að öðru starfi. Þar sem mikil hækkun hafði orðið á fasteignaverði á þessum tíma hafi kærendur talið þessa ráðstöfun góða fjárfestingu auk þess sem þau hafi með þessu móti talið sig geta eignast húsnæði sem hentaði án þess að skuldsetja sig um of. Á þessum tíma hafi einnig verið næg störf fyrir iðnaðarmenn og því hafi kærandi B talið auðvelt að fá samstundis aðra atvinnu er húsbyggingunni lyki. Rekstur kæranda A hafi einnig verið í miklum vexti og hafi kærendur því séð fram á að tekjur hennar yrðu mjög góðar á komandi árum.

Árið 2007 hafði orðið nokkur samdráttur í byggingariðnaði og því hafi kæranda B ekki tekist að finna sér starf. Kæranda A hafi verið sagt upp því húsnæði er hún leigði undir rekstur sinn og húsnæðið selt. Henni hafi ekki tekist að finna hentugt leiguhúsnæði á sama svæði og því hafi hún keypt húsnæði og rekstur snyrtivöruverslunar við F götu í sveitarfélaginu E og sameinað sínum eigin rekstri. Hafi kærandi A talið kaupverðið hagstætt og álitið verslunarreksturinn fara vel með þeim rekstri sem hún stundaði. Fyrir kaupunum hafi kærandi A fengið skuldabréfalán að fjárhæð 12.500.000 krónur og yfirdráttarlán að fjárhæð 4.000.000 króna. Til tryggingar lánunum hafi verið gefið út tryggingarbréf með veði í verslunarhúsnæðinu. Hafi kærandi A talið að veð í verslunarhúsnæðinu væri eina tryggingin fyrir lánunum en ekki áttað sig á því að þau tryggingarbréf sem hafi hvílt á húsnæðinu við C götu væru einnig til tryggingar lánunum. Rekstur kæranda A hafi gengið vel eftir flutningana enda hafi hún greitt af þeim lánum sem hún tók vegna þessa þar til í byrjun árs 2010. Fljótlega eftir efnahagshrunið, eða í byrjun árs 2009, hafi farið að fjara undan rekstrinum.

Á þessum tíma hafi kærendur einnig átt í erfiðleikum með að selja íbúðarhúsnæði sitt í sveitarfélaginu E en ætlunin hafi verið að selja húsið þegar þau gætu flutt að C götu. Eignin hafi ekki selst fyrr en árið 2009 og þá á mun lægra verði en þau höfðu gert ráð fyrir. Því til viðbótar höfðu áhvílandi lán hækkað nokkuð.

Árin 2009 og 2010 hafi reynst kærendum þungbær en rekstur kæranda A hafði gengið verr en hún hafði áætlað sökum efnahagsástandsins. Kæranda B hafi enn ekki tekist að finna sér starf.

Kærendur lýsa undrun á ákvörðun umboðsmanns skuldara. Í II. kafla frumvarps er varð að lge. komi fram að tilgangur lge. sé að gefa einstaklingum færi á að koma skipulagi á fjármál sín og að þeir fari frekar þá leið en hina þvinguðu leið skuldaskilaréttarins. Eigi hagsmunir skuldara fremur en kröfuhafa að vera hafðir að leiðarljósi við túlkun á lge. Í þessu hljóti að felast að ef hagsmunum einstaklinga sé betur borgið með því að leita greiðsluaðlögunar fremur en gjaldþrots eigi að velja þá leið. Ljóst sé þó að slíkt geti ekki orðið án skilyrða, sbr. 6. gr. lge., en kærendur telji að það hafi hvorki verið vilji né tilgangur löggjafans að þessi skilyrði yrðu túlkuð jafn þröngt og gert sé í tilviki þeirra. Telja verði að skilyrði 6. gr. lge. séu varnagli, til þess ætluð að koma í veg fyrir að þeir einstaklingar fái greiðsluaðlögun sem hafi hagað fjármálum sínum með áberandi hætti gegn því sem ætlast hafi mátt til af þeim með tilliti til stöðu, almennra viðmiða og venja. Í þessu sambandi þyki kærendum rétt að taka tillit til þátta eins og eignastöðu, framtíðartekna og fjölskyldustærðar.

Við ákvörðun sína virðist umboðsmaður hafa notað þá aðferð að stilla upp tekjum, eignum og skuldum kærenda á tímabilinu eftir því sem komi fram í skattframtölum. Slík vinnubrögð séu með engu móti ásættanleg. Umboðsmaður hafi ekki horft til þess að í þeim tölum er fram komi í skattframtölum séu skuldir metnar að fullu en eignir einungis metnar að fasteignamati. Vitað sé að verðmæti eldri eigna sé oft mun hærra en fasteignamat segi til um. Þá hafi umboðsmaður ekki tekið tillit til þess að kærendur hafi stærstan hluta þess tímabils sem skipti máli átt tvö íbúðarhúsnæði þar sem þeim hafi reynst erfitt að selja eignina í sveitarfélaginu E sökum efnahagsástandsins. Leiði þetta til þess að bæði eigna- og skuldastaða verði hærri en ella.

Kærendur gera athugasemd við að ekki hafi verið tekið tillit til þess að áður en þau hafi ráðist í byggingu C götu hafi þau farið til útibússtjóra Landsbankans til að fá mat á fjárhagslegri stöðu sinni. Hafi mat útibússtjórans verið að þau ættu að skulda um 10.000.000 króna þegar byggingu hússins við C götu væri lokið og jafnframt eiga 5.000.000 til 10.000.000 króna sparnað. Forsendur útibússtjórans hafi verið að kærandi B myndi aðstoða við byggingu hússins. Einnig hafi verið gert ráð fyrir að eldri fasteign kærenda myndi seljast á 37.900.000 krónur.

Umboðsmaður hafi byggt synjun samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. á því að kærendur hafi verið með lágar tekjur á þeim árum sem talin eru skipta máli og þær hafi naumlega dugað til framfærslu á árunum 2007 til 2010. Kærandi B hafi verið atvinnulaus og rekstur kæranda A ekki gengið vel. Einnig hafi tekjur kærenda verið lágar þegar þau hafi stofnað til skuldbindinga á þessum árum. Með þessari túlkun virðist umboðsmaður hvorki hafa litið til forsögu kærenda né til þess efnahagsástands sem vofði yfir á þessum tíma. Umboðsmaður virðist hafa gefið sér þær forsendur að áhrif efnahagshrunsins hafi á þessum tíma verið orðin þekkt og að kærendur hefðu átt að taka mið af því. Það sé rétt að kærandi B hafi nýlega misst atvinnuna á þessum tíma. Á hinn bóginn verði að teljast skynsamleg ákvörðun hjá kærendum að ráðast í húsbyggingu á þessum tíma þar sem þá hafi verið mjög auðvelt fyrir iðnaðarmenn að fá vel launað starf. Hafi kærendur því talið að kærandi B gæti fengið starf þegar húsbyggingunni lyki. Þannig hafi þau talið sig getað eignast húsnæði er hentaði fjölskyldustærð á mun hagstæðara verði en með því að kaupa húsnæði.

Umboðsmaður skuldara hafi talið rekstur kæranda A gengið illa og ekki verið vissa um framtíð hans. Ekki liggi fyrir á hverju umboðsmaður hafi byggt þetta en rekstur kæranda A hafi verið í miklum vexti á árunum 2007 og 2008 og fyrirséð að hann myndi skila henni miklum tekjum í framtíðinni. Þótt bókhaldslegt tap eða hagnaður sé af rekstri segi það ekkert um gengi hans. Það sé heldur ekki vísbending um að reksturinn hafi gengið illa að kærandi A hafi ekki greitt sér há laun. Þvert á móti sýni það að reksturinn hafi vaxið mikið, hún hafi ákveðið að sýna ráðdeild og viljað nota fjármagnið til að byggja upp reksturinn í stað þess að greiða sér hærri laun.

Í þessu samhengi verði einnig að taka tillit til þess að kærandi B hafi misst atvinnuna árið 2006 og gefi tekjur kærenda á því ári og síðar ekki rétta mynd af raunverulegum tekjum þeirra þar sem hann hafi haft mun minni tekjur en gera megi ráð fyrir miðað við stöðu hans frá árinu 2006. Ef ekki hefði verið fyrir efnahagshrunið hefði mátt gera ráð fyrir því að kærandi B hefði fengið starf seinni hluta ársins 2007 eða í byrjun ársins 2008 sem hefði gefið góðar tekjur og því hefðu kærendur hæglega getað staðið undir skuldum sínum í dag.

Umboðsmaður skuldara hafi byggt synjun á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. á því að kaup kærenda á húsnæði hafi talist áhættusöm skuldbinding og ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma er kaupin hafi farið fram. Í þessu samhengi hafi umboðsmaður skuldara vísað bæði til kaupanna á atvinnuhúsnæðinu við F götu og byggingu íbúðarhússins að C götu. Kærendur hafna þessari túlkun umboðsmanns skuldara. Fyrir það fyrsta hafi verið og sé enn almennt talið að kaup á húsnæði séu ein öruggasta og tryggasta fjárfesting sem völ sé á. Með því að hafa framangreint fyrirkomulag á byggingu íbúðarhússins hafi kærendur talið að þau gætu bæði komist í hentugt húsnæði og skuldað minna en ef þau hefðu keypt húsnæði. Þegar byggingunni væri lokið og fyrra íbúðarhúsnæði væri selt hafi þau aðeins gert ráð fyrir að skulda Íbúðalánasjóði 20.000.000 króna. Verði það að teljast mjög lág skuld miðað við verðmæti hússins og stærð fjölskyldunnar. Kærendur hafi að þessu leyti einnig séð byggingarframkvæmdina sem ákveðinn sparnað.

Efnahagsástandið hafi síðan orðið til þess að eldri fasteign kærenda hafi selst mun síðar en ætlað var og fyrir lægra verð en gert hafi verið ráð fyrir. Af þessum sökum hafi þeim ekki tekist að greiða niður brúarlán að fullu en það lán hafi þau nýtt til skammtímafjármögnunar við húsbygginguna. Sé því hæpið að telja þessar eignir áhættusama skuldbindingu sem hafi ekki verið í samræmi við fjárhagsstöðu kærenda þegar í þær var ráðist.

Segja má að kærendur hafi litið á kaup á húsnæðinu við F götu sem sparnað enda hafi verðið verið mjög hagstætt á þeim tíma. Einnig hafi þau viljað tryggja rekstur kæranda A með kaupunum og að auki hafi þau talið tækifæri til að víkka starfsemina út þannig að reksturinn fælist bæði í snyrtimeðferðum og sölu á snyrtivörum. Kærendur fái ekki séð hvernig umboðsmaður skuldara hafi komist að þeirri niðurstöðu að „atvinnurekstri sem þessum fylgi alltaf töluverð áhætta“ eins og komist sé að orði í ákvörðuninni. Þessu séu kærendur ekki sammála. Kærandi A sé menntuð á þessu sviði og hafi hún talið sig eiga betri tekjumöguleika eftir kaupin á eigninni. Þess vegna sé ekki hægt að sjá hvernig umboðsmaður skuldara komist að þeirri niðurstöðu að venjulegri atvinnustarfsemi einstaklinga, sem snúist um að skapa sér lífsviðurværi, fylgi töluverð áhætta.

Hafa verði í huga að kærandi A hafi ekki talið sig vera að veðsetja íbúðarhúsnæði fjölskyldunnar með kaupum á atvinnuhúsnæðinu. Hafi hún ekki áttað sig á því að tryggingabréfi, sem hún hafi undirritað vegna kaupanna, yrði einnig þinglýst á fasteignina að C götu.

Það gefi auga leið að ef kærendur hefði órað fyrir því ástandi sem síðar varð og þeirri stöðu sem þau séu nú í, hefðu þau hvorki ráðist í húsbyggingu né húsnæðiskaup. Stafi nefndar skuldbindingar kærenda frá árunum 2006 og 2007 þegar fjárhagsstaða þeirra og framtíðarhorfur í fjármálum hafi verið góðar. Því sé ekki hægt að miða við þá fjárhagsstöðu er síðar hafi komið upp hjá þeim þegar mat sé lagt á það hvort skuldbindingar þeirra hafi falið í sér fjárhagslega áhættu eða verið í samræmi við greiðslugetu þeirra, enda felist í orðalagi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. að slíkt mat eigi að miðast við þann tíma er til skuldbindinga sé stofnað. Það virðist umboðsmaður skuldara ekki hafa gert við ákvörðun sína heldur miði hann aðeins við aðstæður kærenda eftir að þau hafi stofnað til skuldanna. Þetta sé í beinni andstöðu við b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge.

Af framangreindum ástæðum telja kærendur að hvorki sé unnt að fella ráðstafanir þeirra undir b-lið né c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Beri því að ógilda ákvörðun umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattframtölum var fjárhagur kærenda eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

Tekjuár 2006 2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur* alls á mánuði 277.571 166.868 99.724 482.405 273.122 339.491
Barnabætur alls 259.542 268.012 439.937 129.771 409.342  
Vaxtabætur alls 280.372   80.017 140.186 600.000  
Eignir 26.300.000 44.591.000 73.651.000 77.651.000 55.376.000 65.114.000
Skuldir 21.303.057 24.681.846 51.784.255 70.869.190 60.073.307 64.970.582
Skuld umfram eign í atv.rekstri   1.923.545 5.044.877 8.560.620 8.560.620 8.560.620
Nýjar ábyrgðarskuldbindingar   16.000.000 15.000.000      

* Þar með taldar fjármagnstekjur og leigutekjur.

Kærendur hafi gert athugasemdir við tekjuframsetningu umboðsmanns skuldara vegna ársins 2006. Hafi þau bent á að þau hafi selt bifreið og fengið fyrir hana um 2.000.000 króna. Af þeirri fjárhæð hafi þau varið 750.000 krónum í 10% útborgun á lóð við C götu nr. 1. Það sem eftir hafi staðið hafi farið til framfærslu. Af þessu tilefni bendi umboðsmaður á að söluverð bifreiðarinnar komi hvergi fram á skattframtali kærenda.

Einnig hafi kærendur gert athugasemdir við tekjuframsetningu umboðsmanns vegna ársins 2008. Kváðust þau hafa selt peningabréf fyrir um 1.500.000 krónur og hafi peningarnir meðal annars verið notaðir til framfærslu.

Þá kváðust kærendur hafa haft leigutekjur í kringum 120.000 krónur á mánuði á árinu 2009 en ekki 715.000 krónur fyrir allt árið eins og umboðsmaður gerði ráð fyrir. Við mat sitt verði umboðsmaður skuldara að taka mið af opinberum upplýsingum og miði umboðsmaður því við þá fjárhæð sem fram komi í skattframtölum kærenda; 715.000 krónur fyrir allt árið eða 59.583 krónur á mánuði. Loks kváðust kærendur hafa fengið greiddar 13.500.000 krónur við sölu á fasteign sinni við G götu nr.  8 og 3.823.970 krónur við sölu á íbúð við H götu. Þau hafi meðal annars notað þessa fjármuni til að framfleyta fjölskyldunni.

Að því er varði b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. hafi kærendur skuldsett sig verulega á árunum 2007 til 2010. Gögn málsins beri með sér að kærendur hafi haft lágar tekjur þegar þau hafi tekist á hendur þessar skuldbindingar. Sé miðað við þær tekjur sem kærendur hafi gefið upp hafi þær rétt nægt fyrir framfærslukostnaði og öðrum kostnaði á þessum árum, hvað þá fyrir afborgunum af skuldum þeirra.

Á árinu 2004 hafi kærendur keypt fasteignina að G götu nr. 8 en þau hafi ekki selt eignina fyrr en 2009. Árið 2006 hafi þau keypt lóð að C götu nr. 1 fyrir 7.500.000 krónur en bygging húss á lóðinni hafi reynst kostnaðarsöm fyrir kærendur. Árið 2007 hafi þau keypt atvinnuhúsnæði við F götu á 10.000.000 króna. Þrátt fyrir ágæta eignastöðu á þeim tíma er kærendur hafi stofnað til skuldbindinga sinna hafi kærandi B verið atvinnulaus og þar af leiðandi óvíst hverjar atvinnutekjur hans yrðu í náinni framtíð. Einnig hafi rekstur kæranda A gengið erfiðlega og ekki fyrirséð hver framtíð hans yrði. Að auki hafi framtíðarforsendur kærenda að hluta til miðast við að ákveðið verð myndi fást fyrir G götu nr. 8 en það verð hafi engan veginn verið fast í hendi.

Með hliðsjón af þessu, tekjum og eiginfjárstöðu sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Að því er varðar ákvæði c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. telji umboðsmaður að tilteknar skuldbindingar kærenda hafi verið áhættusamar. Á árinu 2007 hafi kærendur keypt atvinnuhúsnæði við F götu fyrir 10.000.000 króna. Kaupin hafi verið fjármögnuð með lánum frá Landsbankanum að fjárhæð alls 12.500.000 krónur. Það af lánsfénu sem var umfram kaupverð hafi verið notað til að lagfæra húsnæðið og kaupa lager. Ásamt húsnæðiskaupunum hafi kærandi A tekið yfir rekstur snyrtivöruverslunar sem fyrir var í húsnæðinu. Kærendur hafi greint frá því að auðvelt hafi verið að fá lán fyrir kaupunum. Fasteignin hafi fengist á góðu verði og verslunin ávallt gengið vel. Eignin hafi verið veðsett bankanum fyrir lánunum en jafnframt hafi heimili kærenda að G götu nr. 8 verið veðsett. Kærandi A hafi þó ekki áttað sig á því að veðsetningin hafi einnig tekið til eignarinnar að G götu.

Tekjur kærenda á árinu 2006 hafi samtals verið 277.571 króna á mánuði og 166.868 krónur á mánuði árið 2007. Fram komi í skattframtölum áranna 2007 til 2009 að eigin rekstur kæranda A hafi gengið erfiðlega, sbr. neðangreindar rekstrartölur í krónum:

Ár 2007 2008 2009
Tap ársins 298.606 1.233.641 6.139.720
Tap á rekstri til skatts 665.116 1.898.807 6.988.527
Hreinar skuldir   1.923.545 5.044.877

Þegar upplýsingar í skattframtölum kærenda vegna tekjuáranna 2006 til 2010 séu virtar þyki ljóst að rekstur kæranda A hafi ávallt skilað tapi, eignastaða í rekstrinum verið neikvæð og reiknað endurgjald verið lágt. Meti umboðsmaður skuldara það svo að reksturinn hafi ekki verið fallinn til þess að standa undir greiðslu af miklum skuldum.

Telja verði að atvinnurekstri sem þessum fylgi ávallt töluverð áhætta. Einnig hafi lán sem tekin hafi verið til að fjármagna kaup á rekstrinum og atvinnuhúsnæðinu verið með veði í íbúðarhúsnæði kærenda. Þegar litið sé heildstætt á tekjur kærenda, kaupverð, áhættu fólgna í atvinnurekstri og þá staðreynd að kærendur hafi verið að byggja hús á þessum tíma, meti umboðsmaður málið þannig að um hafi verið að ræða áhættusama skuldbindingu í ljósi aðstæðna.

Árið 2006 hafi kærendur fengið úthlutað lóð við C götu í sveitarfélaginu D. Þau hafi ákveðið að byggja þar íbúðarhús fyrir sig og hafi vinna við húsnæðið staðið yfir á árunum 2007 til 2009. Kærendum hafi ekki tekist að selja fasteignina á G götu fyrr en árið 2009 og hafi söluverðið verið talsvert lægra en vonast hafi verið eftir. Þau lán kærenda sem séu vegna byggingarinnar séu samkvæmt gögnum málsins skuldabréfalán að fjárhæð 25.599.874 krónur og yfirdráttarlán sem nemi 16.551.183 krónum. Yfirdráttarlánið hafi verið hugsað sem framkvæmdafjármögnun og hafi smám saman hækkað eftir því sem húsbyggingunni hafi undið fram. Á þeim tíma er yfirdráttarskuldin hafi orðið til hafi kærendur enn átt fasteignina að G götu nr. 8. Hafi þau gert ráð fyrir að þeim hagnaði sem yrði af sölu þeirrar eignar yrði ráðstafað inn á yfirdráttarskuldina. Að mati umboðsmanns skuldara hafi talsverð áhætta verið fólgin í því að hefja byggingu á nýrri húseign þegar framtíðartekjumöguleikar kærenda hafi verið í töluverðri óvissu og að auki hafi verið óvíst hvaða verð myndi fást fyrir fasteignina að G götu. Þá hafi tekjur kærenda verið lágar og óvíst að þau gætu staðið við gerðar skuldbindingar í náinni framtíð.

Um framkvæmd b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. í greiðsluaðlögunarmálum hjá umboðsmanni skuldara og kærunefnd greiðsluaðlögunarmála megi vísa til úrskurða kærunefndarinnar í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011. Af þeim verði ráðið að ef ljóst þyki að skuldarar hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar þegar til þeirra var stofnað sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar.

Með hliðsjón af þessu og með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Af skattframtölum og öðrum gögnum málsins má sjá að fjárhagsstaða kærenda var eftirfarandi árin 2006 til 2010 í krónum:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 256.050 215.707 139.154 460.625 328.091
Eignir alls 26.300.000 44.591.000 73.757.501 79.256.332 56.575.047
· Fasteignir 23.910.000 44.591.000 73.651.000 77.238.000 55.106.000
· Ökutæki 2.390.000     300.000 270.000
· Hlutir í félögum       500.000 500.000
· Bankainnstæður     106.501 1.218.332 699.047
Skuldir 21.303.057 14.105.391 56.829.132 79.429.810 68.633.927
Nettóeignastaða 4.996.943 30.485.609 16.928.369 -173.478 -12.058.880

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kærenda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Landsbankinn 2007 Skuldabréf 6.500.000 8.535.284 2011
Landsbankinn 2007 Skuldabréf 6.000.000 7.811.808 2010
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 20.000.000 26.413.095 2011
Landsbankinn 2009 Yfirdráttur   21.081.381 2009
Landsbankinn 2010 Greiðslukort   51.760 2010
Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda 2010 Launatengd gjöld 54.000 115.832 2010
Borgun 2010 Lán 53.269 69.758 2010
Íslandsbanki 2011 Bílalán 1.089.087 1.084.209 -
Ýmsir 2011 Reikningar 84.028 85.580 2011
sveitarfélagið D 2011 Fasteignagjöld 354.451 312.245 2011
    Alls kr. 34.134.835 65.560.952  

Til tryggingar hluta af ofangreindum skuldum veðsettu kærendur fasteignir sínar sem hér segir árin 2007 og 2008:

Kröfuhafi Útgefið Eign Upphafleg Staða Skuldari
      fjárhæð 2012  
Landsbankinn 2007 C gata nr. 1 6.000.000 8.077.093 A
Landsbankinn 2007 C gatanr. 1 10.000.000 13.602.531 B
Landsbankinn 2007 F gata 32 10.000.000 14.071.219 A
Landsbankinn 2008 C gata nr. 1 15.000.000 19.455.287 B


Alls 41.000.000 55.206.130

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árinu 2007 tókst kærandi A á hendur nýjar skuldbindingar að fjárhæð 12.500.000 krónur vegna kaupa á fasteign undir rekstur sinn. Sjá má af gögnum málsins að tekjur rekstrarins voru tæplega 10.100.000 krónur árið 2007. Rekstrargjöld námu rúmlega 9.500.000 krónum fyrir fjármagnsliði en þar af var reiknað endurgjald aðeins 480.000 krónur eða að meðaltali 40.000 krónur á mánuði. Hagnaður af rekstrinum var 545.000 krónur fyrir fjármagnsliði samkvæmt skattframtali. Mánaðarleg greiðslubyrði þeirra lána sem tekin voru vegna nefndra fasteignakaupa var í upphafi áætluð um 154.000 krónur eða 1.848.000 krónur á ári. Hlýtur kæranda A þannig að hafa verið ljóst að hún myndi þurfa að auka rekstrarhagnað sinn verulega til að reksturinn gæti staðið undir lánunum en ganga ella á eignir, en á þessum tíma var eignastaða kærenda jákvæð og áttu þau nokkrar eignir umfram skuldir.

Í lok október 2008, þ.e. í þann mund er efnahagshrunið varð, tóku kærendur lán hjá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 20.000.000 króna og var greiðslubyrði lánsins um 107.000 krónur á mánuði. Var lánið tryggt með veði í nýbygginu þeirra við C götu en fasteignamat eignarinnar var þá tæpar 40.000.000 króna. Í lok ársins 2008 var eignastaða þeirra jákvæð um tæplega 17.000.000 króna samkvæmt skattframtali. Á árinu 2009 hækkuðu skuldir kærenda sem nam yfirdráttarláni að fjárhæð um 17.000.000 króna en yfirdrátturinn var hugsaður sem brúarlán og hugðust kærendur nota þessa fjármuni til að brúa bilið þannig að þau gætu lokið við nýbygginguna þótt eldri fasteign þeirra væri enn óseld. Söluandvirði eldri eignarinnar átti svo að fara til greiðslu yfirdráttarlánsins en það gekk ekki eftir þar sem kærendur fengu minna fyrir hana en gert var ráð fyrir. Í lok árs 2009 voru eignir og skuldir kærenda álíka miklar.

Að framangreindu virtu liggur fyrir að jafnvel þótt launatekjur kærenda hafi verið lágar á því tímabili sem hér skiptir máli, áttu þau eignir fyrir þeim skuldum er þau tókust á hendur á árunum 2007 til 2009. Utanaðkomandi aðstæður urðu svo til þess að þær eignir reyndist ekki unnt að selja þegar til átti að taka. Verður því ekki fallist á það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar eða að þau hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Með vísan til þessa, svo og atvika málsins að öðru leyti, telur kærunefndin að ekki hafi verið efni til að synja kærendum um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli ákvæða b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar án þess að fyrir því væru viðhlítandi lagarök. Ber því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum