Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 189/2012

Mánudaginn 11. ágúst 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 8. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 24. september 2012 þar sem umsókn hans um heimild til að leita greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 10. október 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 27. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 27. nóvember 2012 og var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi 25. febrúar 2013 var kæranda enn gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi 30. september 2013 var kæranda tilkynnt með vísan til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að afgreiðsla málsins myndi tefjast. Engar athugasemdir bárust en skattframtali kæranda 2012 fyrir tekjuárið 2011 var skilað 31. október 2012.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1949 og býr samkvæmt umsókn ásamt eiginkonu sinni í fasteign þeirra að B götu nr. 21 í sveitarfélaginu C. Í greinargerð kæranda kveður hann þó dóttur sína og fjölskyldu hennar leigja húsnæðið. Þau hjónin búi ásamt annarri dóttur þeirra og kærasta hennar í leiguíbúð að D gptu nr. 7 í sveitarfélaginu C. Heildarskuldir kæranda nema 135.132.607 krónum samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara og falla þær allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga kæranda var stofnað á árinu 2005 vegna fasteignakaupa hans. Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis og veikinda auk þess sem efnahagshrunið haustið 2008 hafi leitt til hruns á verðmæti eigna hans. Kærandi hafi fengið hjartaáfall í desember 2009 og þegið endurhæfingarlífeyri um þriggja mánaða skeið en ekki sóst eftir bótum eftir það þó hann telji sig að hluta óvinnufæran.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að 19. júní 2012 hafi kæranda verið send beiðni um skil á skattframtali 2012 fyrir tekjuárið 2011 og honum verið gefin vika til að skila því inn. Ekkert skattframtal hafi borist og því hafi aftur verið send beiðni um umrætt skattframtal 19. júlí og aftur gefin vika til að skila því, en ekkert skattframtal hafi borist. Kærandi hafi haft samband við embætti umboðsmanns skuldara 31. júlí og sagt að skattframtalið væri í vinnslu og að vinnu við það myndi ljúka um verslunarmannahelgina 2012. Hafi kæranda enn á ný verið send beiðni um framlagningu á skattframtalinu 27. ágúst 2012 og jafnframt hafi honum verið tjáð að ekki yrðu veittir frekari frestir. Þá hafi endurskoðandi kæranda haft samband við umboðsmann skuldara og upplýst að hann væri að vinna í umræddu skattframtali. Töf væri hins vegar á skilum þar sem beðið væri eftir gögnum. Í ljósi þess hafi kæranda verið veittur tveggja vikna frestur, eða til 19. september 2012, en ekkert skattframtal hafi borist.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 24. september 2012 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru er gerð krafa um að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði endurskoðuð og að umsókn um greiðsluaðlögun verði tekin fyrir að nýju.

Kærandi segir að erfiðlega hafi gengið að afla gagna til þess að ganga frá skattframtali ársins 2012 vegna tekna ársins 2011. Nú hafi tekist að fá öll gögn og grunnvinnu á þeim sé lokið. Gögnunum hafi verið komið til endurskoðanda og verði skattframtali skilað fljótlega. Í ljósi þessa sé farið fram á að kæran verði tekin fyrir og afgreidd á jákvæðan hátt.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í greinargerð umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á umsókn beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef þær aðstæður sem tíundaðar séu í stafliðum ákvæðisins eigi við. Í hinni kærðu ákvörðun sé synjun umsóknar byggð á ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Í kæru óski kærandi eftir endurskoðun ákvörðunar en hann hafi nú skilað inn umræddu skattframtali. Kveðji kærandi erfiðleikum hafa verið bundið að afla gagna til að ganga frá framtalinu. Verði að leggja þær skyldur á kæranda að hann leggi fram upplýsingar og gögn sem fylgja eigi með umsókn um greiðsluaðlögun, sbr. 4. gr. lge. Þá hafi kæranda verið í lófa lagið að skila inn skattframtali á lögmæltum framtalsfresti. Hafi hann mátt vita um nauðsyn þess að rétt framtal lægi fyrir í ljósi þess að hann hafi verið að sækja um úrræði er varðaði fjárhag hans. Ákvörðun í máli kæranda hafi verið tekin einu ári og þremur mánuðum eftir að hann lagði inn umsókn sína um greiðsluaðlögun. Hafi um þrír mánuðir liðið frá því að kærandi hafi fyrst verið hvattur til þess að skila framtalinu, þar til ákvörðun hafi verið tekin. Kærandi hafi því haft mjög rúman frest til að skila framtalinu. Þess megi geta að í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 6/2011 frá 4. júlí 2011 hafi nefndin talið að kæranda hafi verið veittur nægur tími til að skila gögnum í máli sínu. Í því máli hafi kærandi haft tæpa fjóra mánuði til að skila inn umbeðnum gögnum þegar umsókn hans hafi verið tekin til afgreiðslu og rúma tvo mánuði til að skila gögnum eftir að óskað hafi verið sérstaklega eftir þeim gögnum sem um ræddi. Þar hafi kærandi heldur ekki skilað gögnum og því sé um sams konar mál að ræða og hér sé til umfjöllunar.

Rétt sé að árétta að aðeins sé á færi kæranda að leggja fram þau gögn sem óskað hafi verið eftir við vinnslu málsins, en samkvæmt 4. mgr. 4. gr. lge. beri skuldara að útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Hafi þetta meðal annars verið staðfest í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011 frá 21. júní 2011.

Ekkert hafi komið fram á síðari stigum sem breytt geti þeim forsendum sem synjun á heimild kæranda til greiðsluaðlögunar sé byggð á.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist vera nægilega glögg mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist, eins og áður segir, á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Kærandi sinnti ekki óskum umboðsmanns um framlagningu gagna sem voru til þess fallin að gefa gleggri og skýrari mynd af fjárhagsstöðu kæranda, en þetta voru upplýsingar sem kærandi einn gat látið í té að mati umboðsmanns skuldara.

Þau gögn sem umboðsmaður óskaði eftir var skattframtal frá 2012 vegna tekna ársins 2011. Kæranda voru veittir ítrekaðir frestir til að skila framtalinu til umboðsmanns skuldara, en þennan drátt á því að koma framtalinu til skila segir kærandi mega rekja til þess að erfiðlega gekk að afla gagna til þess að ganga frá framtalinu. Vegna þess að umrætt skattframtal vantaði synjaði umboðsmaður skuldara kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Við meðferð málsins hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála hefur umræddu skattframtali verið skilað, en kærandi gerði það 31. október 2012. Þá skilaði kærandi nánari skýringum við ýmis atriði í skattframtalinu. Því liggja fyrir þau gögn sem vantaði upp á að mati umboðsmanns skuldara.

Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, eins og gert var í máli kæranda, getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt þeim lögum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar.

Þar sem það er einungis á valdi umboðsmanns skuldara að veita heimild til að leita greiðsluaðlögunar, og þar sem nú liggja fyrir þau gögn sem áður vantaði, verður eðli máls samkvæmt að fella ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi og vísa málinu aftur til meðferðar hjá embættinu.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum