Hoppa yfir valmynd
12. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 113/2012

Fimmtudaginn 12. júní 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 19. júní 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. júní 2012 þar sem umsókn þeirra um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi 22. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. júlí 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 23. júlí 2012 og var kærendum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum 29. ágúst 2012. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara með bréfi 4. september 2012 og embættinu boðið að koma að frekari athugasemdum. Með tölvupósti 13. september 2012 lýsti embættið því yfir að það myndi ekki gera frekari athugasemdir.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1940 og 1944. Þau eru gift en ekki skráð í samvistum samkvæmt þjóðskrá. Kærandi B á lögheimili að C stað við sveitarfélagilð D en kærandi A að E götu nr. 22 í sveitarfélaginu F. Kærendur eiga alls fimm fasteignir.

Kærandi A þiggur ellilífeyri frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði verzlunarmanna að meðaltali að fjárhæð 142.636 krónur á mánuði miðað við þrjá síðustu mánuði áður en ákvörðun umboðsmanns skuldara var tekin. Samkvæmt greinargerð kærenda með umsókn þeirra um greiðsluaðlögun fær kærandi A einnig greidda húsaleigu að fjárhæð 103.200 krónur á mánuði eftir frádrátt skatts en þær tekjur koma ekki fram á skattframtölum. Kærandi B þiggur ellilífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóða að meðaltali að fjárhæð 173.300 krónur á mánuði. Samkvæmt þessu nema ráðstöfunartekjur kærenda að meðaltali 419.136 krónum á mánuði.

Að mati kærenda má helst rekja fjárhagserfiðleika þeirra til afleiðinga efnahagshrunsins 2008. Þá höfðu þau keypt jörð í sveitarfélaginu D og ætluðu að selja núverandi húsnæði og flytja á jörðina. Hafi það ekki gengið eftir þar sem fasteignamarkaðurinn hafi hrunið. Kveðast kærendur hafa reynt að selja aðrar eignar sínar, svo sem sumarbústað en án árangurs. Kærendur reka útgerð í sveitarfélaginu G og eiga þar sumarbát.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt gögnum málsins eru 63.183.230 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Allar skuldirnar eru veðkröfur sem hvíla á fasteignum kærenda. Til helstu skuldbindinga var stofnað árið 2007.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru 14.046.776 krónur. Þær eru frá árunum 2006 til 2009.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 4. júní 2012 var umsókn þeirra hafnað með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera þá kröfu að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi og að kærunefndin samþykki greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda.

Að sögn kærenda duga tekjur þeirra ekki til greiðslu skulda og þurfi þau því á aðstoð að halda. Þau séu boðin og búin að gera hvað það sem umboðsmaður skuldara eða umsjónarmaður leggi til. Hafi fjárhagslegt hrun kærenda haft gríðarleg áhrif á líf þeirra og líðan. Til að mynda hafi kærandi B fengið heilablóðfall vegna álags en hann hafi ekki átt von á að það hefði aukið álag í för með sér fyrir hann að eiga í samskiptum við embætti umboðsmanns skuldara sem ætti að hafa hagsmuni hans að leiðarljósi.

Kærendur segjast eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Erfiðleikana megi rekja til þess að kærendum hafi ekki tekist að selja sumarbústaði og jörð sem þau hafi fengið sem greiðslu í fasteignaviðskiptum. Við hrun íslensku bankanna hafi áhvílandi lán á jörð kærenda hækkað mjög mikið og hafi kærendur þurft að veðsetja aðrar eignir til að eiga fyrir skuldum. Séu allar þeirra eignir veðsettar langt umfram söluverðmæti og því hafi sala eignanna reynst ómöguleg. Undanfarin ár hafi kærendur árangurslítið reynt að ná samkomulagi við veðhafa.

Kærendur hafi vonast eftir aðstoð umboðsmanns skuldara til þess að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi á milli skulda og greiðslugetu þannig að þau gætu staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Umsókn sína hafi þau lagt fram 29. júní 2011 en það hafi svo verið 20. mars 2012 að umboðsmaður hafi sent þeim bréf með ábendingu um að kærandi A hefði ekki sótt um ellilífeyri. Hefði kærandi A fyrir misskilning álitið að hún ætti ekki rétt til ellilífeyris en eftir bréf umboðsmanns hafi hún óskað eftir ellilífeyri sem hún þiggi í dag. Í bréfi umboðsmanns segi einnig að kærendur hefðu samkvæmt upplýsingum frá þeim sjálfum tekjur af útleigu eigna en þær væru ekki taldar fram á skattframtölum. Þau hafi þó greitt fjármagnstekjuskatt af leigugreiðslum. Að mati kærenda sé vandséð hvernig þessi tvö atriði eigi að valda því að umsókn um greiðsluaðlögun sé hafnað. Kærendur hefðu einmitt talið að þarna væri umboðsmaður skuldara að sinna lögbundnu leiðbeiningarhlutverki sínu.

Í fyrrnefndu bréfi umboðsmanns skuldara segi einnig að af gögnum málsins megi ráða að eignir séu að verðmæti 86.278.648 krónur og skuldir að fjárhæð 63.183.230 krónur og að í framhaldinu hafi umboðsmaður spurt hvort kærendur hafi reynt að selja eignir. Kærendur séu komin á efri ár og ekki vön tölvum eða bréfaskriftum. Hafi þau þó haft samband við embætti umboðsmanns og rætt við starfsmann. Það sé ekki rétt sem fram komi í greinargerð umboðsmanns að þau hafi þvertekið fyrir sölu á fasteignum. Þvert á móti vilji þau gera það sem umboðsmaður eða eftir atvikum umsjónarmaður ráðleggi þeim, þar á meðal selja fasteignir. Ástæða þess að fasteignir kærenda hafi ekki selst sé sú að þær séu yfirveðsettar og veðhafar hafi ekki verið tilbúnir til að gefa eftir það sem sé umfram söluverð. Kærendur geti ekki skilið hvernig unnt sé að byggja synjun á umsókn um greiðsluaðlögun á því.

Umboðsmaður leggi mikið upp úr því að kærendur hafi ekki svarað fyrirspurnum í títtnefndu bréfi. Kærendur spyrja hverjar þær fyrirspurnir hafi verið. Fyrir utan athugasemdir varðandi ellilífeyri og leigutekjur hafi verið spurt um tilraunir til sölu á fasteignum. Kærendur viti ekki betur en að þeim sem sækja um greiðsluaðlögun sé meinað að selja eignir sínar. Þess utan hafi engar formlegar sölutilraunir átt sér stað nema á eign kærenda í sveitarfélaginu H  Það sé vegna þess að veðhafar hafi ekki verið tilbúnir að gefa eftir. Spyrja kærendur hvert þessara atriða skipti máli svo umboðsmaður skuldara geti tekið ákvörðun um greiðsluaðlögun. Ekki sé hægt að fallast á þann skilning umboðsmanns að þetta séu upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að kærendur uppfylli skilyrði laga til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011. Þessar upplýsingar eigi heldur ekkert skylt við það sem skorti í nefndu kærumáli þar sem þar hafi verið um að ræða upplýsingar sem kærandi hafi einn getað veitt.

Það mat umboðsmanns skuldara að eignir kærenda séu umfram skuldir segja kærendur ekki rétt enda séu eignir kærenda yfirveðsettar. Í því sambandi megi benda á að Landsbankinn, sem sé veðhafi, hafi ekki viljað yfirtaka eignirnar þar sem hann telji þær ekki næga tryggingu fyrir skuldum.

Vilji umboðsmaður skuldara frekari upplýsingar, gögn eða annað sem hann telji skipta máli sé þess óskað að hann hringi í kærendur og leiðbeini þeim þar sem þau komi ekki af þeirri kynslóð sem alist hafi upp við tölvur og mikli mjög fyrir sér að handskrifa bréf. Telji kærendur að umboðsmaður skuldara geti metið það í hverju tilviki fyrir sig hvernig best sé að haga samskiptum við umsækjendur.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara einkum að kanna hvort fyrir liggi aðstæður sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Mat umboðsmanns skuldara á gögnum með umsókn kærenda hafi leitt í ljós að þau hafi ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hafi embættið því óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum með bréfi 20. mars 2012. Í bréfinu hafi komið fram að fyrirliggjandi gögn leiddu í ljós að kærandi A hefði ekki sótt um ellilífeyri og væri því tekjulaus þrátt fyrir að eiga rétt á ellilífeyri, en hún hafi orðið 67 ára í mars 2011. Þá hafi kærendur greint frá því að tekjur þeirra vegna útleigu íbúðarinnar að J götu nr. 27 væru um 120.000 krónur á mánuði. Þær tekjur séu ekki taldar fram til skatts þrátt fyrir að vera skattskyldar eins og aðrar fjármagnstekjur. Íbúðin að J götu nr. 27 hafi verið keypt árið 2007. Í bréfinu hafi einnig komið fram að af gögnum málsins verði ráðið að eignir kærenda séu alls að verðmæti 86.278.648 krónur, skuldir 63.183.230 krónur og eignir umfram skuldir því 23.095.418 krónur. Í framhaldi af því hafi þess verið óskað að kærendur upplýstu um hvort þau hefðu reynt að selja eignir til að létta á greiðslubyrði. Hafi kærendum verið veittur 15 daga frestur frá móttöku bréfsins til að tjá sig skriflega um málið og útvega viðhlítandi gögn samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi A hafi haft samband við þjónustumiðstöð embættisins 4. apríl 2012. Hafi hún sagst vera í Danmörku en að hún kæmi heim 12. apríl og myndi þá svara bréfinu. Þegar ekkert svar hafi borist frá kærendum 30. apríl hafi verið haft samband við þau símleiðis. Kærandi A hafi greint frá því að hún hafi sótt um ellilífeyri og hefði þegar fengið fyrstu greiðslu. Starfsmaður umboðsmanns hafi rætt við hana um sölu eigna ef heimild til greiðsluaðlögunar fengist þar sem kærendur ættu eignir sem næmu 23.000.000 króna umfram skuldir. Hafi kærandi A sagst vera ósammála því að selja eignir en sagst vilja leiðréttingu á skuldum. Þá hafi hún óskað eftir afriti af bréfinu sem hún hafi sagst hafa glatað og kveðist mundu hafa samband við embættið á næstu dögum. Hafi bréfið verið sent kærendum með umbeðnum hætti. Ekkert svar hefði borist 22. maí 2012.

Gera verði þá kröfu til umsækjenda um heimild til greiðsluaðlögunar að þeir afli þeirra gagna sem nauðsynleg séu til að flýta vinnslu málsins enda umsókn lögð fram að frumkvæði umsækjenda. Kveðið sé á um það í 2. málsl. 4. mgr. 4. gr. lge. að skuldari skuli jafnan sjálfur útvega nauðsynleg gögn og koma þeim til umboðsmanns skuldara. Einnig sé til þess að líta að kærendur hafi notið greiðsluskjóls samkvæmt 11. gr. lge. frá 27. október 2010 en umboðsmaður skuldara telji ekki rétt að það vari lengur en nauðsyn krefji. Samkvæmt gögnum málsins sé ljóst að kærendur hafi ekki hlutast til um að veita umbeðnar upplýsingar þrátt fyrir að þeim hafi ítrekað verið gefinn ríflegur frestur til þess. Hafi þannig liðið tveir mánuðir og tvær vikur frá því að umboðsmaður hafi sent bréf sitt 20. mars 2012 og þar til ákvörðun í málinu hafi verið tekin. Telji umboðsmaður því að kærendum hafi gefist svigrúm til að veita umbeðnar upplýsingar fyrir töku ákvörðunar 4. júní 2012.

Umboðsmaður vísar til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 5/2011. Þar hafi synjun umboðsmanns skuldara verið staðfest en hún hafi byggst á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Við meðferð málsins hafi umboðsmaður skuldara óskað eftir upplýsingum og útskýringum frá kæranda um fjárhagsstöðu hans. Í úrskurðinum segi meðal annars: „Upplýsingar þær og útskýringar sem umboðsmaður skuldara óskar eftir í framangreindu bréfi eru þess eðlis að það er ekki á færi annarra en kæranda sjálfs að leggja þær fram. Jafnframt er ljóst að þessi gögn eru nauðsynleg til að unnt sé að leggja mat á það að kærandi uppfylli skilyrði laga til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. meðal annars 4. gr.“

Umboðsmaður telji að kærendur hafi ein getað varpað ljósi á þau atriði sem óljós hafi þótt og vakin hafi verið athygli á með bréfinu 20. mars 2012. Nauðsynlegt hafi þótt að kærendur leggðu fram frekari upplýsingar svo hægt væri að leggja mat á hvort þau uppfylltu skilyrði laga til að fá heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Í bréfinu sé sérstaklega bent á það skilyrði að skuldari sýni fram á að hann sé ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Ekki hafi komið fram fullnægjandi upplýsingar um tekjur kærenda. Einnig verði að telja fyrirætlanir kærenda varðandi þær eignir sem þau eigi það óljósar að á þeim verði ekki byggt.

Þegar fyrirliggjandi gögn séu metin í heild sé það mat umboðsmanns skuldara að þau gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhagsstöðu kærenda til að unnt sé að taka ákvörðun varðandi heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að synja kærendum um heimild til að leita eftir greiðsluaðlögun verði staðfest með vísan til forsendna hennar.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur krefjast þess að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra verði samþykktar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. 8. gr. laganna þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og 1. mgr. 11. gr. en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Samkvæmt því gegnir umboðsmaður skuldara því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála samþykki slíka umsókn. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara á umsókn kærenda úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kærenda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 1. mgr. 6. gr. lge. með sérstakri vísun til b-liðar. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Við mat á því hvað teljist gefa nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara telur kærunefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge. Í 4. gr. er talið upp í ellefu liðum hvaða upplýsingar skuli koma fram í umsókn skuldara um greiðsluaðlögun, auk þess sem umsókn skulu fylgja gögn til staðfestingar á þeim upplýsingum, sbr. 3. mgr. greinarinnar. Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og að embættið geti krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara grundvallast á því að þar sem fyrirliggjandi gögn gefi ekki rétta mynd af fjárhag kærenda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar sé ekki unnt að taka ákvörðun um greiðsluaðlögunarumleitanir. Metur umboðsmaður skuldara það svo að skattframtöl og önnur framlögð gögn veiti ófullnægjandi upplýsingar um tekjur kærenda. Einnig telur umboðsmaður að fyrirætlanir kærenda með fasteignir sínar séu það óljósar að á þeim verði ekki byggt.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Bréf sem umboðsmaður skuldara sendi kærendum 20. mars 2012 ber yfirskriftina „andmælabréf, beiðni um upplýsingar og gögn“. Í bréfinu kemur í fyrsta lagi fram að kærandi A sé tekjulaus þrátt fyrir að eiga rétt á ellilífeyri. Í öðru lagi kemur þar fram að tekjur þær sem kærendur kveðast hafa af útleigu fasteignar hafi ekki verið gefnar upp til skatts. Í þriðja lagi segir: „Af gögnum ykkar verður ráðið að eignir ykkar eru samtals að verðmæti 86.278.648 krónur og heildarskuldir eru 63.183.230 krónur. Samkvæmt framangreindu eru eignir umfram skuldir 23.095.418 krónur. Spurningin er hvort þið hafið reynt að selja eignir, umfram sölu á eignarhluta í I götu nr. 23 í sveitarfélaginu H, til að létta greiðslubyrði ykkar. Ef svo er er óskað eftir söluyfirlitum eða auglýsingum frá fasteignasölum.“ Þá er greint frá því að við synjun umsóknar falli niður tímabundin frestun greiðslna og loks að embættið bjóði upp á ráðgjöf vegna umsóknar um greiðsluaðlögun og almenna ráðgjöf, umsækjendum að kostnaðarlausu.

Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. kemur fram að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram sundurliðaðar upplýsingar um eignir skuldara. Í 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. segir að í umsókn skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Í 3. mgr. 4. gr. kemur fram að með umsókn um greiðsluaðlögun skuli fylgja gögn til staðfestingar þeim upplýsingum sem hún hefur að geyma. Í athugasemdum með 4. gr. lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Kærendur telja vandkvæðum bundið að sjá hvernig ábendingar umboðsmanns skuldara, um að kærandi A hafi ekki sótt um ellilífeyri og að leigutekjur kærenda komi ekki fram á skattskýrslum, eigi að koma í veg fyrir að umsókn um greiðsluaðlögun sé samþykkt. Að mati kærunefndarinnar eru þessar ábendingar umboðsmanns liður í því að fá réttar upplýsingar um tekjur kærenda til framtíðar en þær upplýsingar þurfa að liggja fyrir svo að mögulegt sé að fá heildarmynd af fjárhag kærenda og meta greiðslugetu þeirra. Í tilviki kærenda hafa þau ekki lagt fram gögn er sýna fram á húsaleigutekjur, svo sem húsaleigusamning, en í þeim skattskýrslum er liggja fyrir í málinu eru húsaleigutekjur ekki taldar til fjármagnstekna. Kærendur hafa heldur ekki framvísað gögnum til stuðnings því að kærandi A þiggi nú ellilífeyri. Af þessu leiðir að kærendur hafa ekki lagt fram þau gögn er nauðsynleg eru til að sýna fram á hverjar tekjur þeirra eru. Að mati kærunefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. að sínu leyti grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda byggir greiðsluaðlögun öðrum þræði á því að skuldari greiði af skuldum sínum að því marki sem greiðslugeta hans leyfir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að tekjur skuldara liggi ljósar fyrir, ella er ekki mögulegt að leggja mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt til kröfuhafa á grundvelli samnings um greiðsluaðlögun.

Að því er varðar fasteignir kærenda deila aðilar um hvort þær teljist yfirveðsettar eða ekki. Í fyrrnefndu bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda kom fram að af gögnum málsins verði ráðið að kærendur eigi eignir umfram skuldir. Miðar umboðsmaður skuldara þar við fasteignamat eignanna. Kærendur kveða eignirnar verðminni og telja þær yfirveðsettar. Í nefndu bréfi umboðsmanns var kærendum boðið að tjá sig skriflega um málið og útvega viðhlítandi gögn samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur útveguðu engin gögn er studdu fullyrðingu þeirra um verðmæti eignanna, hvorki verðmat né söluyfirlit fasteignasala. Það kom svo fram í greinargerð kærenda með kæru að fyrir utan ráðstafanir varðandi fasteign kærenda í sveitarfélaginu H hefðu engar „formlegar sölutilraunir“ á fasteignum þeirra átt sér stað. Engu að síður halda kærendur því fram að sala eignanna hafi reynst ómöguleg. Einnig greina þau frá því að veðhafi hafi ekki viljað „yfirtaka eignirnar, þar sem bankinn telji eignirnar ekki næga tryggingu fyrir skuldum“. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins sem styður þessar fullyrðingar kærenda. Kærunefndin telur því, í ljósi fullyrðinga kærenda, að þau hafi ekki sýnt fram á eignastöðu sína en telja verður þær upplýsingar nauðsynlegar til þess að umboðsmaður skuldara geti lagt mat á það hvort fjárhagserfiðleikar kærenda séu þess eðlis að þau fullnægi skilyrðum lge. um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Eins og málið er vaxið verður að telja að hér sé um að ræða upplýsingar sem ekki sé á færi annarra en kærenda sjálfra að afla.

Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin að það skorti á að kærendur hafi lagt fram nauðsynlegar upplýsingar til að fyrir liggi nægilega glögg mynd af fjárhag þeirra eða væntanlegri þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, svo sem ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. áskilur.

Það er því mat kærunefndarinnar að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum