Hoppa yfir valmynd
12. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 110/2012

Fimmtudaginn 12. júní 2014

 

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 14. júní 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 1. júní 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 22. júní 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 11. júlí 2012. Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 25. júlí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust frá kærendum með bréfi 9. ágúst 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1962 og 1964. Þau búa í 123,4 fermetra eigin einbýlishúsi að C götu nr. 54 í sveitarfélaginu D.

Kærandi A er í hlutastarfi en mánaðarlega hefur hún til ráðstöfunar 164.702 krónur að meðaltali. Kærandi B starfar samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá hjá X ehf. og samkvæmt reiknivél ríkisskattstjóra eru útborguð laun hans að meðaltali um 180.000 krónur á mánuði. Alls nema mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kærenda því 355.436 krónum.

Að mati kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til atvinnuleysis, tekjulækkunar og veikinda. Kærendur kveða upphaf fjárhagserfiðleika sinna mega rekja til ársins 1997 er þau hafi keypt gamalt hús af sveitarfélaginu D. Þeim hafi yfirsést fjölmargir gallar á húsnæðinu sem síðan hafi valdið skemmdum á því. Á árunum 1995 til 2006 hafi kærendur rekið auglýsingastofu sem gengið hafi vel allt til ársins 2006 er þau hafi misst stærsta viðskiptavin hennar. Hefðu þau þá nýlega keypt dýran tækja- og tölvubúnað og átt í kjölfarið erfitt með greiðslur af lánum vegna þess. Kærendur hafi þá ráðið sig til annarra starfa. Kærandi B hefur haft stopula atvinnu frá því í ágúst 2008 en hefur nú hlutastarf. Kærandi A hefur nýlega fengið hlutastarfi eftir að hafa verið atvinnulaus í tæpt ár.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru 50.027.408 krónur en þar af falla 11.249.066 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2004 til 2008.

Ábyrgðarskuldbindingar kærenda eru samkvæmt gögnum málsins 14.653.132 krónur.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 18. nóvember 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 1. júní 2012 var umsókn þeirra hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita þeim heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur kæra synjun umboðsmanns skuldara á greiðsluaðlögun. Skilja verður það þannig að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi. Einnig er það kært að embætti umboðsmanns skuldara hafi brugðist upplýsingaskyldu sinni og hafi ekki veitt þeim aðstoð við að virkja önnur úrræði. Þau krefjast þess að fá lögfræðileg svör við réttmæti þeirrar kröfu sem þau telja umboðsmann skuldara nota sem ástæðu til að synja þeim um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Einnig krefjast þau þess að embættið uppfylli skyldur sínar lögum samkvæmt og aðstoði þau í baráttunni gegn lánastofnunum sem hafi ekki sýnt fram á að vera lögmætir eigendur krafna á hendur þeim. Loks fara kærendur fram á að vera í greiðsluskjóli þar til öll úrræði embættis umboðsmanns skuldara eru fullreynd.

Að mati kærenda byggist synjun umboðsmanns skuldara á skuld við Landsbankann sem þau hafi talið greidda. Hafi þau bæði útskýrt málið fyrir umboðsmanni og óskað eftir svörum embættisins um lögmæti þess að innheimta þessa skuld en beiðni þeirra hafi ekki verið svarað. Hafi þeim annars staðar verið sagt að ef krafa væri ekki innheimt bréflega í mörg ár sé hún ekki lengur lögleg. Telja kærendur að embætti umboðsmanns skuldara noti greinda skuld sem fyrirslátt til að hafna umsókn þeirra. Greina þau frá því að auðvelt hefði verið fyrir þau að greiða skuldina á sínum tíma þar sem kærandi B hafi átt fé bundið í verkfærum, hljóðfæra- og hljómplötusafni, antikhúsgögnum og fleiru sem auðvelt hefði verið að selja.

Gera kærendur athugasemdir við að heildarskuldir þeirra séu gagnrýnislaust tilteknar út frá því sem kröfuhafar leggi fram án þess að þær séu sannreyndar. Telja kærendur umboðsmann skuldara eiga að ganga úr skugga um að lánastofnanir fari að lögum við innheimtu krafna, sbr. e- og f-liði 1. gr. laga um umboðsmann skuldara nr. 100/2010.

Þar sem embætti umboðsmanns skuldara synji kærendum um greiðsluaðlögun vegna nefndrar kröfu, sem sé lág í ljósi heildarskulda, og taki skýringar kærenda ekki gildar megi spyrja að því fyrir hvern stofnunin vinni í raun og veru. Hún fái laun sín greidd frá þeim fjármálafyrirtækjum sem sett hafi landið á hausinn og vinni með tölvur og búnað frá bönkum sem hættu að vera til fyrir áratugum, sbr. tölvur merktar Búnaðarbankanum.

Kærendur telja sig komast úr skuldavanda sínum á fjórum til fimm árum með réttu úrræðunum ef þau haldi atvinnu. Ef raunhæfir samningar takist við bankann telji þau sig geta yfirstigið aðrar skuldir. Með því að hafna kærendum um greiðsluaðlögun og frekara greiðsluskjól, án þess að leita annarra leiða til að kærendur geti samið við kröfuhafa, sé umboðsmaður skuldara að brjóta gegn skyldum sínum, lögum um tilgang sinn og lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins nr. 107/2009.

Í málinu reyni í hnotskurn á það hvort embætti umboðsmanns skuldara hafi sinnt hlutverki sínu. Embættið hafi „gefið“ sér að lögmæti innheimtu Landsbankans sé fyrir hendi. Einnig hafi umboðsmaður „gefið“ sér að vaxta- og verðbótaútreikningar kröfuhafa séu samkvæmt reglugerð um þau mál án þess að hafa kannað það. Þetta telji kærendur vafasamt. Það versta sé þó að umboðsmaður virtist eingöngu líta á það sem hlutverk sitt að meta hvort fólk hafi farið varlega eða óvarlega í fjármálum en ekki að aðstoða fólk.

Í athugasemdum kærenda til kærunefndarinnar taka kærendur fram að undanfarnar tvær vikur hafi þau bæði verið í fullu starfi og annað þeirra úti á landi. Hafi þau því haft lítinn tíma til andsvara. Hefðu þau haft meiri tíma hefðu þau getað rökstutt mál sitt betur til dæmis varðandi lögmæti verðtryggingar og útreikning bankanna á henni sem samkvæmt upplýsingum þeirra sé ekki í samræmi við reglugerð.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge.

Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans séu þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Á skattframtali vegna ársins 2008 komi fram að ráðstöfunartekjur kæranda A hafi að meðaltali verið 296.744 krónur á mánuði og ráðstöfunartekjur kæranda B 112.994 krónur að meðaltali á mánuði. Það ár hafi kærandi A tekið lán hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum að fjárhæð 2.800.000 krónur. Lánið sé nú í vanskilum frá september 2008. Í greinargerð með umsókn kærenda komi fram að lánið hafi verið tekið til að greiða upp vanskil og kosta endurbætur á íbúðarhúsnæði þeirra. Á þessum tíma hafi kærandi A verið komin í vanskil með lán hjá Landsbankanum en það hafi verið í vanskilum frá því í maí 2007.

Á árinu 2008 hafi tvö skuldabréf kærenda hjá Íslandsbanka farið í vanskil. Hafi kærandi A tekið annað þessara lána árið 2007 en þá hafi ráðstöfunartekjur hennar verið 177.300 krónur á mánuði að meðaltali og ráðstöfunartekjur kæranda B verið 6.091 króna á mánuði að meðaltali.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hvíli meðlagsskuld á kæranda B. Nemi skuldin 8.495.047 krónum og séu vanskil frá 1. maí 1988.

Í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi kærendum verið tilkynnt um hugsanlega synjun á umsókn þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Hafi það verið gert með tveimur ábyrgðarbréfum. Í fyrra bréfinu hafi verið fjallað um hugsanlega synjun á grundvelli d- og f-liða 2. mgr. 6. gr. lge. og vísað til meðlags- og skattskulda kæranda B. Í síðara bréfinu hafi verið vísað til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. vegna þeirrar skuldsetningar sem greind er hér að framan. Í svörum kærenda hafi komið fram að kærandi B hafi áður verið gerður gjaldþrota. Eftir það hafi ekki skipt hann máli hvort skattar væru áætlaðir á hann eða kröfur söfnuðust upp vegna meðlags. Hann hafi alltaf ætlað að taka á meðlagsskuldinni þegar hann væri búinn að koma stöðu sinni gagnvart skattyfirvöldum í lag. Hafi kærendur nú látið leiðrétta stöðu skattskulda. Einnig hafi komið fram að kærandi B teldi sig þurfa að hafa örugga atvinnu til að geta samið um meðlagsskuldina en það hefði hann ekki haft undanfarin ár. Að því er varðaði lántökur kærenda árin 2007 og 2008 hafi kærendur vísað til þess að kærandi B hefði átt inni margra mánaða ógreidd laun hjá auglýsingastofu þeirra árið 2007. Einnig vísi kærendur til þess að fyrrnefnt lán við Landsbankann hafi átt að vera greitt. Þau hafi ekki fengið innheimtubréf, ítrekun eða yfirlit vegna þess í mörg ár og hafi ekki vitað að þessi skuld væri enn til staðar. Skuldin hafi verið tilkomin vegna þess að þau hafi ákveðið að lána systur kæranda A og manni hennar peninga þegar þau síðarnefndu voru að byggja sér sumarbústað. Hafi þau ekki getað greitt kærendum til baka og því hafi kærendur ekki getað haldið skuldabréfinu í skilum. Hafi það að lokum leitt til þess að fjárnám hafi verið gert hjá systur kæranda A en hún hafi verið ábyrgðarmaður á skuldinni.

Gögn málsins beri með sér að kærendur hafi verið greinilega ófær um að standa í skilum með fyrri skuldir sínar þegar kærandi A hafi tekið lán hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum enda hafi fyrrnefnt lán hjá Landsbankanum þá verið í vanskilum í eitt ár. Ekki sé hægt að fallast á þær útskýringar kærenda að þau hafi haldið að skuldin við Landsbankann væri greidd og vísi embættið meðal annars til þess að skuldin sé tilgreind á skattframtali kæranda A árið 2010. Einnig verði að telja þá ákvörðun kærenda að taka lán til að lána ættingjum peninga feli í sér áhættutöku í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Á þeim tíma sem kærendur tóku lán árið 2007 hafi samanlagðar ráðstöfunartekjur þeirra verið 123.391 króna. Samkvæmt bráðarbirgðaneysluviðmiði Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna hafi framfærslukostnaður kærenda að meðtöldum rekstri bifreiðar verið 94.544 krónur á mánuði. Að auki hafi kærendur þá verið að greiða af veðlánum og því ljóst að þau hafi stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.

Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Af úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 18/2011 verði ráðið að við mat samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé miðað við hátterni og stöðu skuldara á þeim tíma er til skulda sé stofnað. Þau atriði sem kærendur nefni í athugasemdum sínum með kæru er varði svokallaða 110% leið vegna íbúðarlána hafi því ekki áhrif á það mat sem fram hafi farið samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Í athugasemdum sínum geti kærendur þess að þau dragi í efa lögmæti kröfu Landsbankans og að þeim hafi verið bent á að ef krafa sé ekki innheimt bréflega í mörg ár sé hún ekki lengur lögleg. Umboðsmaður vilji af þessu tilefni taka fram að krafa þessi komi fram í þeim gögnum sem embættið hafi fengið frá Landsbankanum og á skattframtali kæranda A árið 2010. Ekki verði því annað ráðið af þessum gögnum en að nefnd krafa sé gild á hendur kærendum. Krafa samkvæmt skuldabréfi fyrnist á tíu árum, sbr. 4. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 14/1905 og 5. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007. Verði því ekki ályktað að krafan sé niður fallin fyrir fyrningu.

Af athugasemdum kærenda verði ráðið að þau telji að auk þess sem þeim hafi verið hafnað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi þeim einnig verið hafnað um frekara greiðsluskjól. Umboðsmanni þyki rétt að benda á að hið svokallaða greiðsluskjól samkvæmt 11. gr. lge. sé ekki sjálfstætt úrræði heldur sé það hluti af greiðsluaðlögun sem slíkri. Þegar fyrir liggi að synja beri umsækjanda um greiðsluaðlögun verði slíkri ákvörðun ekki frestað með vísan til þess hagræðis sem skuldarinn njóti vegna greiðsluskjólsins. Að fresta töku ákvörðunar með vísan til slíkra sjónarmiða væri ólögmætt og óheimilt.

Í máli þessu reyni ekki á hvort embætti umboðsmanns skuldara hafi sinnt hlutverki sínu samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara nr. 100/2010 eða því hlutverki sem kærendur telja embættið gegna samkvæmt lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins nr. 107/2009. Í málinu reyni einungis á lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Þess skuli þó getið að þeir umsækjendur sem fengið hafa synjun um heimild til greiðsluaðlögunar geti, líkt og aðrir, leitað til umboðsmanns skuldara varðandi ráðgjöf um önnur úrræði sem þeim kunni að bjóðast.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til b-, c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kærendum heimild til greiðsluaðlögunar. Byggist sú ákvörðun á heildstæðu mati á fjárhag kærenda og fjárhagslegum ráðstöfunum þeirra á tilteknu tímabili.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærendur telja að embætti umboðsmanns skuldara hafi brugðist upplýsingaskyldu sinni og hafi ekki veitt þeim aðstoð við að virkja önnur úrræði. Þau krefjast þess að fá lögfræðileg svör við réttmæti þeirrar kröfu sem þau telja umboðsmann skuldara raunverulega byggja synjun sína á. Einnig krefjast þau þess að embættið uppfylli skyldur sínar lögum samkvæmt og aðstoði þau í baráttunni gegn lánastofnunum sem hafi ekki einu sinni sýnt fram á að vera lögmætir eigendur krafna á hendur þeim. Loks fara kærendur fram á að vera í greiðsluskjóli þar til öll úrræði embættis umboðsmanns skuldara eru fullreynd.

Samkvæmt 32. gr. lge. er heimilt að skjóta til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála ákvörðunum í samræmi við ákvæði lge. Kærunefndina skortir hins vegar lagaheimildir til að úrskurða um önnur atriði en þau sem falla undir valdsvið hennar samkvæmt lögum. Í samræmi við það getur kærunefndin ekki tekið til skoðunar kvartanir kærenda er snúa að öðrum úrræðum er embætti umboðsmanns skuldara kann að búa yfir samkvæmt lögum eða kröfu þeirra um aðstoð embættis umboðsmanns skuldara í baráttu við ótilteknar lánastofnanir. Sama gildir um kröfu kærenda þess efnis að kærunefndin veiti þeim lögfræðilegt álit á réttmæti krafna á hendur þeim.

Að því er varðar kröfu kærenda um greiðsluskjól þeim til handa þar til öll úrræði embættis umboðsmanns skuldara eru fullreynd vísar kærunefndin til 1. mgr. 11. gr. lge. Þar kemur fram að þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabundin frestun greiðslna, öðru nafni greiðsluskjól. Í bráðabirgðaákvæði II við lge. kemur fram að frá gildistöku laganna og til 1. júlí 2011 hefjist tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður hefur móttekið umsókn um greiðsluaðlögun. Samkvæmt þessu geta skuldarar átt rétt til greiðsluskjóls við tvenns konar aðstæður. Í fyrsta lagi þegar umsókn um greiðsluaðlögun hefur verið samþykkt. Í öðru lagi við móttöku umsóknar um greiðsluaðlögun hafi umsóknin verið móttekin fyrir 1. júlí 2011. Samkvæmt 6. mgr. bráðabirgðaákvæðis II við lge. fellur greiðsluskjólið niður að loknum kærufresti ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist greiðsluskjól þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir. Staðfesti kærunefnd greiðslu­aðlögunarmála niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur greiðsluskjólið þá þegar niður. Skortir því lagaskilyrði til að framlengja greiðsluskjól kærenda og er kröfu þeirra þar að lútandi því hafnað.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b-, c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til atriða sem talin eru upp í töluliðum a–g. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Af gögnum málsins verður ráðið að skuldir kærenda séu eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð 2012 frá
Íslandsbanki 2004 Veðskuldabréf 14.206.304 23.504.641 2009
Íslandsbanki 2005 Skuldabréf 5.000.000 9.622.084 2008
Íslandsbanki 2007 Skuldabréf 3.550.000 3.509.475 2008
Sameinaði lífeyrissjóðurinn 2008 Veðskuldabréf 2.800.000 4.529.201 2008
Innheimtustofnun sveitarfélaga 1988–2012 Meðlag 4.944.299 8.495.047 1988
Ýmsir 2006–2011 Reikningar 251.521 366.960 2006
    Alls 30.752.124 50.027.408  

Samkvæmt yfirlitum ríkisskattstjóra og framlögðum skattskýrslum voru tekjur kærenda, eignir og skuldir þessar í krónum á því tímabili sem er til skoðunar:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 98.830 138.813 431.321 403.002 379.377
Eignir alls 26.262.240 29.902.648 28.536.088 33.602.115 30.484.064
· Fasteignir 26.088.000 29.515.000 27.793.000 32.814.000 29.844.000
· Ökutæki     220.000 100.000  
· Verðbréf o.fl. 174.240 174.240 306.948 406.713 402.085
· Bankainnstæður   213.408 216.140 281.402 237.979
Skuldir 16.081.351 28.243.284 29.022.297 30.309.013 31.304.710
Nettóeignastaða 10.180.889 1.659.364 -486.209 3.293.102 -820.646

Meðlagsskuldir kæranda B eru ekki tilteknar á skattskýrslum en þær stafa frá tímabilinu 1998 til 2012 og námu 8.495.047 krónum þegar umboðsmaður skuldara tók ákvörðun í málinu. Þegar tekið hefur verið tillit til meðlagsskuldanna liggur fyrir að eignastaða kærenda hefur verið neikvæð allt frá árinu 2007.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. grundvallast öll á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Meðal þeirra atriða eru b-, c- og g-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kærendum um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þeirra ákvæða.

Að því er varðar b- og c-liði 2. mgr. 6. gr. lge. telur kærunefndin að meta þurfi stöðu kærenda á þeim tíma er þau tóku lán að fjárhæð 3.550.000 krónur hjá Íslandsbanka árið 2007 og lán að fjárhæð 2.800.000 krónur hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum árið 2008.

Á árinu 2007 voru ráðstöfunartekjur kærenda að meðaltali tæpar 140.000 króna á mánuði en árið 2006 voru ráðstöfunartekjur þeirra enn lægri eða tæpar 99.000 krónur að meðaltali á mánuði. Skuldir þeirra í lok árs 2006 námu 16.081.351 krónu auk meðlagsskulda. Í febrúar 2007 tóku kærendur fyrrgreint lán hjá Íslandsbanka að fjárhæð 3.550.000 krónur. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var mánaðarleg greiðslubyrði lánsins í upphafi um 62.000 krónur. Samkvæmt því höfðu kærendur tæplega 77.000 krónur til að framfleyta sér, greiða af meðlagsskuldum kæranda B og greiða af ríflega 16.000.000 króna skuldum sínum, eftir að þau hefðu greitt af þessu nýja láni. Telur kærunefndin því að kærendur hafi tekið lánið á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Vanskil hófust á láninu í september 2008.

Skuldir kærenda í lok árs 2007 námu 28.243.284 krónum. Í júní 2008 tóku kærendur fyrrgreint lán hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum að fjárhæð 2.800.000 krónur. Kærendur hafa ekkert greitt af þessu láni. Sé litið til þess sem að framan er rakið og til meðlagsskulda kæranda B telur kærunefndin að kærendur hafi einnig tekið þetta lán á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhags­skuldbindingar sínar.

Eins og fram er komið hefur kærandi B ekki greitt meðlag frá árinu 1998 eða um tólf ára skeið. Í bréfi umboðsmanns skuldara 6. febrúar 2012 var óskað eftir skýringum hans á þessum vanskilum. Með tölvupósti 13. febrúar 2012 svaraði kærandi því til að á sínum tíma hafi hann verið gerður gjaldþrota. Síðan þá hafi það litlu máli skipt hann að fá á sig meðlagskröfur. Einnig segist hann alltaf ætlað að „taka á meðlagsmálunum þegar [hann] gæti og væri búinn að laga skattamálin“.

Að mati kærunefndarinnar verður að teljast ámælisvert að virða lögbundna greiðslu meðlags að vettugi með þeim hætti sem kærandi B hefur gert og stofna þannig til óhóflegrar meðlagsskuldar. Er þá litið til fjárhæðar skuldarinnar, hins langa tíma sem vanskilin hafa varað og til þess að samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi Baldrei greitt inn á meðlagsskuldina.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærendur stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. og þar með tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, sbr. c-lið 2. mgr. lge. Einnig telur kærunefndin að kærandi B hafi með langvarandi og umtalsverðum vanskilum sínum á meðlagsgreiðslum stofnað til óhóflegra skuldbindinga á ámælisverðan hátt í skilningi g-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A og B hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b-, c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A og B um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum