Hoppa yfir valmynd
12. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 121/2012

Fimmtudaginn 12. júní 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 3. júlí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 15. júní 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 17. júlí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 21. september 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 26. september 2012 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1989. Hún býr ásamt unnusta sínum í leiguhúsnæði að B nr. 2 , sveitarfélaginu C en þau greiða alls 35.000 krónur í húsaleigu á mánuði. Kærandi á tvær fasteignir. Önnur þeirra er að D götu nr. 106 í sveitarfélaginu E en hin að F götu nr. 10 í sveitarfélaginu G. Kærandi leigir báðar íbúðirnar út.

Kærandi starfar hjá X hf. og er þar í fullu starfi. Ráðstöfunartekjur hennar eru að meðaltali 211.532 krónur á mánuði. Einnig fær hún greidda húsaleigu að fjárhæð 190.000 krónur á mánuði. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda eru því að meðaltali 401.532 krónur.

Að sögn kæranda má einkum rekja fjárhagserfiðleika hennar til ársins 2008 er hún keypti íbúð að D götu nr.  106 í sveitarfélaginu E. Stuttu síðar hafi hún einnig keypt íbúð að F götu nr. 10 í sveitarfélaginu G. Hún hafi fyrirhugað að selja íbúðina að D götu nr.  en það hafi ekki tekist og því hafi vanskil safnast upp. Um tíma hafi íbúðunum verið þinglýst aftur á nöfn seljanda til að forða þeim frá fjárnámi. Seljendur hafi boðist til að taka íbúðirnar til baka gegn því að fá veðsetningarhlutfall fært niður í 110% en það hafi ekki gengið eftir. Þá hafi kærandi tekið bílalán fyrir móður sína á árinu 2008. Þar sem móðir kæranda hafi ekki getað greitt af láninu hafi það komið í hlut kæranda.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 50.869.944 krónur. Þær falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2007 til 2010.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 30. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 15. júní 2012 var umsókn hennar hafnað þar sem óhæfilegt þótti að veita henni heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki eiginlegar kröfur í málinu en skilja verður málatilbúnað hennar þannig að hún krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segi að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í janúar 2008 hafi kærandi tekið yfir bílasamning að fjárhæð 992.643 krónur fyrir móður sína. Í desember 2008 hafi kærandi keypt íbúð að D götu nr.  106 í sveitarfélaginu E fyrir 18.900.000 krónur. Kaupin hafi verið fjármögnuð með láni frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 15.680.000 krónur og þriggja mánaða víxli. Í greiðslumati sem gert hafi verið hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna komi fram að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið 268.000 krónur og að eigið fé hafi numið 4.800.000 krónum. Af skattframtali kæranda fyrir árið 2007 megi ráða að tekjur hennar hafi numið 96.951 krónu á mánuði og að hún hafi verið eignalaus. Eftir íbúðarkaupin hafi eignastaða kæranda verið neikvæð um 2.058.457 krónur. Afborganir af fyrrnefndu láni Íbúðalánasjóðs hafi að meðaltali verið 84.298 krónur á mánuði en lánið hafi verið í vanskilum frá upphafi. Af skattframtali kæranda vegna ársins 2008 megi ráða að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi að meðaltali numið 171.143 krónum. Framfærslukostnaður kæranda hafi verið áætlaður 118.588 krónur á mánuði samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og upplýsingum frá kæranda.

Í janúar 2009 hafi kærandi keypt íbúð að F götu nr. 10 í sveitarfélaginu G fyrir 24.900.000 krónur en hún hafi þá fyrirhugað að selja eignina að D götu. Kaupin hafi verið fjármögnuð með láni frá Íbúðalánasjóði að fjárhæð 19.920.000 krónur og þriggja mánaða víxli. Af skattframtali kæranda vegna ársins 2009 megi ráða að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi að meðaltali numið 173.743 krónum og að eignastaða hennar hafi verið neikvæð um 12.111.155 krónur eftir kaupin. Afborganir af þessu seinna láni Íbúðalánasjóðs hafi að meðaltali verið 88.441 króna á mánuði en lánið hafi verið í vanskilum frá upphafi. Afborganir beggja lánanna hafi numið um 142.739 krónum á mánuði. Framfærslukostnaður kæranda hafi verið áætlaður 127.493 krónur á mánuði samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara og upplýsingum frá kæranda. Í greiðslumati frá Íbúðalánasjóði vegna kaupanna komi fram að mánaðarlegar tekjur kæranda hafi verið 390.000 krónur og að eigið fé hafi numið 6.800.000 krónum.

Í júlí 2010 hafi kærandi tekið tvö lán hjá Íbúðalánasjóði til að greiða upp vanskil vegna beggja fyrri lána. Þessi lán hafi bæði verið í vanskilum frá janúar 2011.

Umboðsmaður hafi sent kæranda bréf 21. maí 2012 þar sem henni hafi verið gefið færi á að útskýra fasteignakaup sín, einkum með tilliti til tekna og upplýsinga sem fram hafi komið í nefndum greiðslumötum. Einnig hafi verið farið fram á upplýsingar um bifreiðakaup, útleigu á íbúðunum og fleira. Í svari kæranda komi fram að hún hafi keypt fasteignina á D götu nr. 106 til að selja síðar með hagnaði en eignina að F götu hafi hún keypt með búsetu í huga. Þetta sé ekki í samræmi við upplýsingar í greinargerð kæranda en þar komi fram að hún hafi ætlað að búa í eigninni við D götu en hafi stuttu síðar fundið draumaíbúð sína að F götu og því ákveðið að kaupa hana og selja eignina við D götu en sú eign hafi ekki selst. Þá segist kærandi hafa tekið yfir bílasamning fyrir móður sína í þeirri trú að móðir hennar myndi geta greitt af honum. Það hafi ekki gengið eftir og því hafi kærandi þurft að greiða af samningnum.

Kærandi útskýrir tekjumun á skattskýrslum og greiðslumötum á þann veg að löggiltir fasteignasalar hafi séð um sölu á íbúðunum og hafi kærandi afhent þeim síðustu þrjá launaseðla sína vegna greiðslumats. Af staðgreiðsluyfirliti ríkisskattstjóra megi þó ráða að meðaltekjur kæranda í október, nóvember og desember 2008 hafi verið 201.507 krónur og að meðaltekjur kæranda í nóvember og desember 2008 og janúar 2009 hafi verið 203.198 krónur. Sé því ljóst að uppgefnar tekjur í greiðslumati hjá Íbúðalánasjóði hafi ekki verið í neinu samræmi við uppgefnar tekjur kæranda fyrir sömu tímabil.

Að því er varði útleigu á íbúðum kæranda hafi verið óskað upplýsinga um hvers vegna íbúðin að D götu hafi ekki verið í útleigu frá janúar 2009 þegar kærandi flutti í íbúðina að F götu og hvers vegna leigutekjur hafi ekki verið gefnar upp á skattframtali. Að sögn kæranda hafi bæði gengið illa að fá leigjendur og fá leigu greidda og því hafi tekjur ekki verið gefnar upp. Einnig hafi verið óskað upplýsinga um hvenær íbúðin að F götu hafi verið leigð út og hvers vegna tekjur hafi ekki verið tilgreindar á skattframtali. Kærandi hafi gefið þær skýringar að íbúðin að F götu hefði aldrei verið leigð út þar sem seljandinn hafi tekið íbúðina aftur vegna vanskila kæranda á áhvílandi lánum. Þessar útskýringar séu ekki í samræmi við greinargerð kæranda en þar segi að hún hafi þurft að leigja íbúðirnar út til að hlutirnir gengju upp.

Tímabundin eigendaskipti á íbúðunum á árinu 2010 skýri kærandi þannig að hún hafi ekki getað greitt af áhvílandi lánum og til að forða íbúðunum frá fjárnámi hafi þær verið skráðar aftur á seljendur. Fyrirhugað hafi verið að seljendur yfirtækju lánin en það hafi ekki gengið eftir. Hafi lánin því ekki verið færð yfir á nöfn seljenda með íbúðunum. Þegar kærandi lagði fram umsókn sína um greiðsluaðlögun hafi eignirnar verið á nöfnum seljenda en voru færðar aftur yfir á nafn kæranda við vinnslu umsóknarinnar.

Af framangreindu sé ljóst að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á árunum 2008 og 2009 þegar hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Hún hafi einnig hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem hafi ekki verið í neinu samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Þetta sé einkum vegna lágra tekna kæranda enda hafi hún aðeins verið tvítug þegar hún keypti nefndar fasteignir.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. komi fram að ef þær aðstæður sem taldar eru upp í 2. mgr. 6. gr. lge. séu fyrir hendi geti verið óviðeigandi að skuldari eigi möguleika á greiðsluaðlögun ef vandi hans verði að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika er hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Í fyrri úrskurðum kærunefndarinnar hafi niðurstaðan jafnan verið sú, að þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti staðið við miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem lán voru tekin, sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Í þessu sambandi sé sérstaklega vísað til úrskurðar kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Með vísan til þess sem komið hefur fram er það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Við mat á því skal taka sérstakt tillit til atriða sem talin eru upp í töluliðum a–g. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt skattskýrslum og öðrum gögnum málsins var fjárhagsstaða kæranda eftirfarandi árin 2006 til 2011 í krónum:

  2007 2008 2009 2010 2011
Meðaltekjur á mán. (nettó) 96.951 171.143 173.743 214.374 278.304
Eignir alls 0 13.893.985 30.891.079 167.714 30.934.012
· Fasteignir 0 13.890.000 30.850.000 0 30.800.000
· Bankainnstæður o.fl. 0 3.985 41.079 167.714 134.012
Skuldir 0 15.952.442 43.002.234 46.883.514 48.464.350
Nettóeignastaða 0 -2.058.457 -12.111.155 -46.715.800 -17.530.338

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða
      fjárhæð 2012
SP-fjármögnun 2007 Bílasamningur 950.259 527.724
Íslandsbanki 2008 Bílasamningur 992.416 1.595.553
Íbúðalánasjóður 2008 Veðskuldabréf 15.680.000 19.377.087
Íbúðalánasjóður 2009 Veðskuldabréf 19.920.000 24.291.693
Íbúðalánasjóður 2010 Veðskuldabréf 1.935.229 2.115.704
Íbúðalánasjóður 2010 Veðskuldabréf 1.725.582 1.889.884
Síminn 2009 Reikningar 137.234 259.942
Nova 2009 Reikningar 1.351 21.291
Kreditkort 2008 Greiðslukort 304.642 694.670
Sjóvá Alm. tryggingar 2010 Brunatrygging 10.625 96.396


Alls 41.657.338 50.869.944

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Þau atriði sem talin eru upp í 2. mgr. 6. gr. grundvallast öll á því að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Á meðal þeirra eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Á árunum 2008 og 2009 tókst kærandi á hendur nýjar skuldbindingar sem hér segir í krónum:

  2008 2009
Alls nýjar skuldbindingar 16.672.416 19.200.000
Mánaðarleg greiðslubyrði 94.901 97.351
nýrra skuldbindinga    
Samtals mánaðarleg 94.901 192.252
greiðslubyrði    
Mánaðarlegar 171.143 173.743
ráðstöfunartekjur    
Mánaðarlegur kostnaður 118.588 127.493
við framfærslu    
Mánaðarleg greiðslugeta -42.346 -146.002

Af töflunni má sjá að árið 2008 vantaði kæranda alls 42.346 krónur á mánuði til að geta greitt af lánum. Á árinu 2009 tók kærandi nýtt lán að fjárhæð 19.200.000 krónur og bættust afborganir vegna þess við greiðslubyrði þeirra lána sem fyrir voru þannig að á því ári vantaði kæranda alls 146.002 krónur á mánuði til að geta staðið í skilum með þau lán sem hún hafði tekið.

Má af þessu ráða að kærandi var greinilega ófær um að standa við þessar skuldbindingar þegar hún stofnaði til þeirra. Telur kærunefndin því að kærandi hafi stofnað til skulda á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Kærandi er tvísaga að því er varðar fyrirætlanir hennar um íbúðarkaup sín. Annars vegar greinir hún frá því að hún hafi keypt íbúðina að D götu til búsetu. Henni hafi síðan óvænt boðist að kaupa íbúðina að F götu og hafi hún keypti hana með það fyrir augum að búa í henni en selja íbúðina að D götu. Hins vegar kemur fram hjá kæranda að hún hafi keypt eignina að  D götu til að selja seinna meir með hagnaði en hún hafi ætlað að búa í íbúðinni að F götu. Hvað sem þessu líður telur kærunefndin að með því að kaupa íbúðina að F götu án þess að selja áður íbúðina að D götu, hafi kærandi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað. Er þá einkum litið til tekna kæranda og þess að því fór fjarri að kærandi gæti greitt af báðum íbúðunum.

Samkvæmt framangreindu telur kærunefndin að kærandi hafi tekið lán á þeim tíma er hún var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og einnig tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hennar á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum