Hoppa yfir valmynd
23. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 78/2012

Miðvikudaginn 23. apríl 2014

 

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Eggert Óskarsson.

Þann 12. apríl 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 28. mars 2012 þar sem felld var niður ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 13. apríl 2011 um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með bréfi 23. apríl 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 15. maí 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 6. júní 2012.

Með bréfi 14. júlí 2012 óskaði kærunefndin eftir athugasemdum umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 16. júlí 2012.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. júlí 2012 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kærenda bárust með bréfi 9. ágúst 2012.

 

I. Málsatvik

Kærendur eru fædd 1955 og 1951. Þau eru gift og búa ásamt tveimur sonum sínum í eigin fasteign að C götu í sveitarfélaginu D. Kærandi B starfar hjá X hf. og kærandi A starfar sem kennari. Samanlagðar ráðstöfunartekjur kærenda eru 564.203 krónur á mánuði að frádregnum sköttum og byggist á greiðsluáætlun umboðsmanns skuldara frá 13. apríl 2011.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 81.503.249 krónur og falla þar af 240.058 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Kærendur seldu fasteign árið 2010 og átti kaupverðið að greiðast með yfirtöku á áhvílandi láni á 1. veðrétti að fjárhæð 14.300.000 krónur. Umboðsmaður skuldara mat það svo að sú ráðstöfun væri til þess fallin að auðvelda kærendum að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Veitti embættið því samþykki fyrir ráðstöfuninni 2. mars 2011 samkvæmt bráðabirgðaákvæði lge., sbr. 11. gr. laga nr. 135/2010. Heildarskuldir kærenda hafa því lækkað sem framangreindu nemur.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til ársins 2004 þegar þau ákváðu að kaupa sumarhúsalóð og byggja sumarhús. Fjármál þeirra hafi þá verið í föstum skorðum en kostnaður við byggingu hússins hafi farið fram úr áætlun og hafi þau að lokum misst stjórn á fjármálum sínum. Árið 2008 hafi þau sett íbúðarhúsnæði sitt á sölu. Kærandi B hafi selt fyrirtæki sitt sama ár og kveðast kærendur hafa notað söluhagnaðinn til að greiða afborganir og vexti skuldbindinga. Kærandi B hafi verið atvinnulaus um tíma, vann síðar sem leigubílstjóri en hafi síðan fengið starf hjá X hf. haustið 2009. Að sögn kærenda hafi þau eftir fremsta megni reynt að greiða af skuldbindingum sínum. Þau hafi selt eignir og leitað úrræða til að leysa greiðsluvanda sinn.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 13. apríl 2011 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og þeim í kjölfarið skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum.

Með bréfi umsjónarmanns 22. desember 2011 lagði umsjónarmaður til við umboðsmann skuldara að heimild kærenda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður á grundvelli 15. gr. lge. Mat umsjónarmanns var að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. sömu laga með því að leggja ekki til hliðar fjármuni í samræmi við greiðslugetu á því tímabili sem frestun greiðslna hafi staðið yfir. Fram kemur í bréfi umsjónarmanns að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi mátt gera ráð fyrir greiðslugetu sem nemur 225.748 krónum á mánuði frá því kærendur fóru í greiðsluskjól.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 8. febrúar 2012 voru kærendur upplýst um afstöðu umsjónarmanns. Var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunarumleitana. Umboðsmanni skuldara bárust athugasemdir kærenda með bréfi 16. febrúar 2012. Þar greindu kærendur frá ýmsum óvæntum útgjöldum vegna bifreiðar sem og vegna atvinnustarfsemi kæranda B.

Með bréfi til kærenda 28. mars 2012 felldi umboðsmaður skuldara niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar frá 13. apríl 2011 með vísan til 15. gr., sbr. a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge., og með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kærenda

Í kæru kemur fram að niðurfelling umboðsmanns á heimild kærenda sé kærð vegna þess að ekki hafi verið tekið tillit til þeirra óvæntu útgjalda sem fjölskyldan hafi orðið fyrir. Ekki hafi verið tekið tillit til þess að leigubifreið hafi jafnframt verið til afnota fyrir fjölskylduna og ekki hafi verið tekið tillit til veikinda sonar og móður kæranda. Að lokum sé kært vegna þess að ekki hafi verið tekið tillit til þess hversu lengi vandamál kærenda hafi verið að veltast um í kerfinu án þess að þau hafi fengið úrlausn.

Að mati kærenda sé það ótrúlegt að umboðsmaður skuldara skuli ekki hafa tekið tillit þeirra útgjalda sem bilun á bifreið kæranda hafi haft í för með sér. Kærendur hafi lagt fram reikninga vegna þessa en vél bifreiðar kærenda hafi bilað og hafi þau þurft að kaupa aðra vél á 450.000 krónur. Þá hafi sjálfskipting bilað oftar en einu sinni. Kærendur hafi ekki getað keypt annan bíl þar sem þau hafi ekki átt fjármuni til að staðgreiða og ekki getað tekið lán. Í ákvörðun umboðsmanns hafi verið fjallað um að kærendur hefðu ekki sýnt fram á hvernig þau hefðu fjármagnað kaup á umræddri bifreið. Kærendur töldu það vera skýrt að þau hefðu keypt bifreiðina með yfirtöku á láni frá SP fjármögnun. Kærendur kveðast hafa greitt af láninu þrátt fyrir að vera í greiðsluskjóli.

Kærendur telja að umboðsmaður skuldara hefði átt að taka tillit til þess að leigubifreið kærenda hafi einnig verið fjölskyldubifreiðin þar sem kærandi B noti hann til þess að fara til vinnu. Kærandi A hafi lengi verið að berjast við þunglyndi. Hún sé í veikindaleyfi og óvíst hvort hún hefji aftur störf. Vegna veikinda sonar kærenda hafi þau þurft að sjá fyrir honum. Hann hafi verið í námi og eigi því ekki rétt á bótum og hann geti ekki unnið.

Kærendur telja það ótrúlegt að mál þeirra hafi verið í kerfinu í svo langan tíma. Fyrst hafi það verið Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að kærendur gætu ekki borgað alla reikninga sína. Síðan hafi kærendur komist að því að þau fengju ekki aðstoð nema þau losuðu sig við eignir. Kærendur hafi unnið að því og losað sig við eignir og skuldir. Kærendur kveðast vera komin á efri ár, séu veik og búið sé að blóðmjólka þau með sköttum. Þau séu nú eignalaus og ekkert meira af þeim að hafa.

Kærendur krefjast þess að staðið verði við greiðsluaðlögun sem búið var að heimila og þau voru búin að undirbúa sig undir. Rökin fyrir því séu þau að kærendur hafi sýnt fram á óvænt útgjöld við erfiðar aðstæður á heimili sökum veikinda. Það sé þjóðfélagslega hagkvæmara að veita kærendum hjálp. Þá sé kostnaðarsamt að flytja og leigja. Einnig sé ljóst að slíkir flutningar verði erfiðir félagslega fyrir fjölskylduna sökum veikinda sonar kærenda.

Í greinargerð kærenda 6. júní 2012 kemur fram að þau hafi keypt umrædda leigubifreið með yfirtöku lánasamnings árið 2009 af leigubílstjóra sem var í veikindaleyfi. Kærendur hafi greitt af lánasamningnum meðan þau nutu greiðsluskjóls enda bifreiðin atvinnutæki. Um 200.000 krónur hafi verið ógreiddar af lánasamningum þegar greiðsluseðlar hættu að berast frá kröfuhafa. Kaupin hafi verið gerð þar sem kærendur vantaði heimilisbíl og leigubíl sem kærandi B gæti notað í akstri um helgar og á kvöldin. Bifreiðin hafi hins vegar bilað með tilheyrandi kostnaði sem hafi numið 1.538.735 krónum. Allir þessir reikningar hafi verið sendir til umboðsmanns skuldara en auk viðgerðarkostnaðar hafi kærandi B aflað sér leyfis til að aka leigubifreið og hafi það kostað kærendur 98.500 krónur.

Í viðbótargreinargerð kærenda 9. ágúst 2012 koma fram skýringar kærenda á því hvernig þau hafi ráðstafað 1.500.000 krónum sem upp á vanti í sparnað þeirra. Kærendur vísa til skýringa sem þau hafi veitt umboðsmanni skuldara með bréfi 16. febrúar 2012. Þar komi fram að kærandi B hefði lengi barist fyrir því að fá atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar. Hann hafi fyrst unnið stopult við leigubílaakstur fyrir aðra en hann hafi síðan keypt leigubíl af leigubílstjóra sem var í veikindaleyfi og fengið að keyra á hans leyfi gegn greiðslu. Kærandi B hafi greitt 90.000 krónur á mánuði til ónafngreinds einstaklings án þess að fá kvittun fyrir. Einnig hafi bifreiðin verið rekin á kostnað kæranda B. Kærendur fullyrða að ætluðum sparnaði hafi verið ráðstafað til umrædds einstaklings fyrir afnot af leyfinu. Kærandi B hafi síðan sjálfur fengið leyfi til leiguaksturs í nóvember 2011.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar kemur fram að einstaklingur geti leitað greiðsluaðlögunar sem sýni fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar. Ef fram komi upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna skuli umsjónarmaður tilkynna slíkt til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 6. gr. lge. séu tilteknar þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. komi fram að synja skuli um heimild ef fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Í 1. mgr. 12. gr. lge. séu skilgreindar tilteknar skyldur við greiðsluaðlögun þegar frestun greiðslna stendur yfir. Í a-lið 12. gr. lge. segi að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Enn fremur segi í c-lið sama ákvæðis að skuldari megi ekki meðan leitað sé greiðsluaðlögunar láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla.

Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hafi greiðslugeta kærenda verið um 225.748 krónur að jafnaði frá því frestun greiðslna hófst í október 2010. Geri megi ráð fyrir að kærendur hafi haft getu til að leggja fyrir sem nemi rúmlega 3.000.000 króna á því tímabili, að einhverju svigrúmi veittu.

Kærendur hafi ekki lagt til hliðar fé á tímabilinu en hafi að miklu leyti veitt haldbærar skýringar á því hvers vegna þau hafi ekki lagt til hliðar fé samkvæmt a-lið 12. gr. lge., eins og gögn málsins gefi til kynna. Líkt og rakið hafi verið í bréfi þeirra 16. febrúar 2012 hafi kærendur staðið frammi fyrir ýmsum óvæntum útgjöldum sem hafi haft neikvæð áhrif á greiðslugetu þeirra.

Kærandi B hafi haft atvinnu við akstur leigubifreiða. Að sögn kærenda hafi þau fest kaup á bifreiðinni NR Y á meðan frestun greiðslna stóð yfir [sic.]. Almennt bryti slík ráðstöfun í bága við c-lið 1. mgr. 12. gr. lge., en sökum starfsvettvangs kæranda B sé ekki útilokað að ráðstöfun af því tagi falli undir nauðsynlegar heimilisþurftir samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafi hins vegar ekki látið af hendi gögn sem varpað geti ljósi á kaupverð bifreiðarinnar. Þó hafi kærendur lagt fram ýmis gögn er sýndu fram á umfangsmiklar viðgerðir á umræddri bifreið, alls að fjárhæð 545.462 krónur. Að sögn kærenda hafi þau alls lagt fé að andvirði 2.000.000 króna til viðgerða á bifreiðinni.

Umboðsmanni skuldara hafi ekki borist önnur nauðsynleg gögn sem varpað gætu ljósi á framangreint. Þá hafi kærendur haldið því fram að kærandi B hafi borgað fyrir afnot af atvinnuleyfi ónefnds einstaklings. Slík háttsemi feli í sér brot á 2. mgr. 6. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001, sbr. einnig 1. mgr. 11. gr. sömu laga. Að sögn kærenda hafi kærandi B greitt þeim aðila því sem nemi um 90.000 krónum á mánuði. Umboðsmaður skuldara hafi farið þess á leit að kærendur sýndu fram á gögn þess efnis í því skyni að unnt væri að varpa ljósi á fjárhag þeirra á meðan frestun greiðslna hafi staðið yfir, sem og til að meta hvort útgjöld hafi fallið innan nauðsynlegra útgjalda sem kærendur hafi þurft að mæta til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Kærendur hafi ekki orðið við þeirri beiðni.

Þar sem gögn hafi vantað um viðgerðir bifreiðarinnar hafi það verið mat umboðsmanns skuldara að ekki hafi verið sýnt fram á útgjöld vegna bifreiðarinnar með haldbærum og sannarlegum hætti. Kærendur hafi því ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. 12. gr. lge. Þá hafi fyrirliggjandi gögn ekki gefið nægilega glögga mynd af fjárhag kærenda meðan á frestun greiðslna stóð yfir og telja verði að ákveðnir óvissuþættir séu fyrir hendi í máli kærenda þess eðlis að ekki hafi verið mögulegt að öðlast heildarmynd af fjárhag þeirra, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í greinargerð umboðsmanns skuldara 15. maí 2012 kemur fram að undir meðferð málsins hafi starfsmaður embættisins óskað ítrekað eftir því að kærendur legðu fram gögn sem styddu fullyrðingar þeirra um útgjöld, bæði vegna viðgerðarkostnaðar af bifreið og framleigðu atvinnuleyfi. Kærendur hafi nú sýnt fram á með gögnum með kæru að kostnaður af viðgerðum á bifreið var samanlagt að fjárhæð 1.538.736 krónur.

Umboðsmaður skuldara hafi metið, að teknu tilliti til hefðbundins framfærslukostnaðar og að nokkru svigrúmi gefnu, að kærendur hafi haft tekjur í greiðsluskjóli til að leggja til hliðar um 3.000.000 króna. Áætlaður kostnaður vegna bifreiðar kærenda sé talinn 82.000 krónur á mánuði. Kærendur hafi sýnt fram á viðbótarkostnað vegna bifreiðar sem nemi 1.538.736 krónum en ekki sé ljóst hvernig þau hafi ráðstafað um 1.500.000 krónum. Umboðsmanni skuldara þyki ekki fært að byggja á fullyrðingum kærenda um útgjöld sem þau geti ekki stutt með gögnum. Að mati umboðsmanns skuldara sé eignastaða kærenda því óljós, auk þess sem telja verði að þau hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara 16. júní 2012 ítrekar embættið að kærendur hafi ekki gert grein fyrir útgjöldum upp á um 1.500.000 krónur. Umboðsmaður skuldara hafi tekið til greina framlagða reikninga kærenda vegna bifreiðar samtals að fjárhæð 1.538.736 krónur. Í þeim útreikningum hafi ekki verið tekið tillit til atvinnuleyfis kæranda B að fjárhæð 98.500 krónum. Ekki verði séð að þau útgjöld nemi nokkru miðað við þá fjárhæð sem upp á vanti hjá kærendum.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a- og c-liða 12. gr. lge. og til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari við greiðsluaðlögun ekki láta af hendi eða veðsetja verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum í heild og takmarkast heimild til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana ekki við þau tilvik þegar skuldari bregst skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna. Í skýringum við frumvarp til laga nr. 101/2010 segir um ákvæði 15. gr. þeirra að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar og er þar sérstaklega vísað til I. og II. kafla laganna. Tekið er fram að umsjónarmaður skuli einnig tilkynna umboðsmanni skuldara um það ef skuldari hefur með vísvitandi hætti brugðist skyldum sínum.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn til greiðsluaðlögunar. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði II í lögunum hófst tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. þegar umboðsmaður tók á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun. Fram kemur einnig í bráðabirgðaákvæðinu að skyldur samkvæmt 12. gr. laganna eigi við þegar umboðsmaður skuldara hefur tekið á móti umsókn. Samkvæmt framangreindu bar kærendum að virða skyldur samkvæmt 12. gr. laganna strax eftir að umsókn þeirra var móttekin hjá umboðsmanni skuldara.

Samkvæmt gögnum málsins hafa kærendur enga fjármuni lagt til hliðar frá því umsókn þeirra um greiðsluaðlögun barst umboðsmanni skuldara 19. október 2010. Samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefur greiðslugeta þeirra verið um 225.748 krónur á mánuði að teknu tilliti til framfærslu. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendum átt að vera mögulegt að leggja til hliðar rúmlega 3.000.000 króna í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt a-lið 12. gr. lge. Kærendur hafa sýnt fram á óvæntan kostnað með gögnum vegna bifreiðar sem nemur 1.578.736 krónum. Í greinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála er fallist á þennan kostnað. Það sem vantar upp á sparnað þeirra kveðast kærendur hafa ráðstafað til ónefnds einstaklings gegn því að fá að aka út á hans leyfi til aksturs leigubifreiðar.

Eins og fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara er atvinnuleyfi til aksturs leigubifreiðar bundið við nafn og óheimilt er samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga um leigubifreiðar nr. 134/2001 að ráðstafa slíku leyfi til þriðja aðila. Samkvæmt 4. mgr. 6. gr. laganna gefur Samgöngustofa að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leyfi til forfallabílstjóra, sbr. 5. gr. laganna. Samkvæmt athugum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála var kærandi B með slíkt leyfi á árunum 2009 til 2011 og allt þar til hann aflaði sér sjálfur leyfis til aksturs leigubifreiðar í nóvember 2011.

Til þess að umboðsmaður skuldara geti lagt mat á hvort undantekningar frá meginreglu eigi við um skyldur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. verða að liggja fyrir viðeigandi gögn sem sýna fram á að fjármunum hafi í raun verið ráðstafað með þeim hætti sem haldið er fram. Kærendur hafa engin gögn lagt fram til stuðnings skýringum sínum á ráðstöfun 1.500.000 króna. Kærendur fullyrða að ætluðum sparnaði hafi verið ráðstafað til ónafngreinds einstaklings fyrir afnot af atvinnuleyfi hans samkvæmt lögum um leigubifreiðar nr. 134/2001. Kærendur telja að ekki hafi verið tekið tillit þessara óvæntu útgjalda sem og annarra útgjalda sem komið hafi í veg fyrir að þau gætu lagt fyrir fjármuni í greiðsluskjóli. Segja kærendur jafnframt að ekki hafi verið tekið tillit til þess að leigubifreiðin væri jafnframt notuð sem fjölskyldubifreið, né heldur til veikinda fjölskyldumeðlima og þess langa tíma sem málið hafi verið til meðferðar.

Í málinu hefur verið tekið tillit til reikninga sem lagðir voru fram vegna viðgerðar á bifreið, samanlagt 1.538.736 krónur eins og að framan greinir. Frekari gögn hafa ekki verið lögð fram um ráðstöfun fjármuna sem gert var ráð fyrir að kærendur gætu lagt til hliðar, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í ljósi þess verður að fallast mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi brugðist skyldu sinni við greiðsluaðlögun samkvæmt greindu lagaákvæði.

Að mati kærunefndarinnar verður einnig að fallast á þær röksemdir umboðsmanns skuldara að óljóst sé hvernig kærendur hafi ráðstafað tekjum sínum á umræddu tímabili. Þannig gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af væntanlegri þróun fjárhags kærenda á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í ljósi alls þessa verður því að líta svo á að fram komnar upplýsingar hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., og er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til að leita greiðsluaðlögunar því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A og B til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Eggert Óskarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum