Hoppa yfir valmynd
3. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 77/2012

Fimmtudaginn 3. apríl 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 6. apríl 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 20. febrúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 16. apríl 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 14. maí 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 22. maí 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1958. Hann er giftur og býr ásamt eiginkonu sinni í 123 fermetra íbúð að B götu nr. 43 í sveitarfélaginu C, en kærandi á helming í eigninni á móti eiginkonu sinni.

Kærandi er menntaður vélstjóri, með embættispróf í skipamiðlun og meistarapróf í skiparekstrarfræði. Hann starfaði sem vélstjóri hjá X fram í apríl 2011 er honum var sagt upp vegna skipulagsbreytinga. Síðan hefur hann sinnt afleysingarstörfum til sjós sem vélstjóri.

Meðaltal mánaðarlegra ráðstöfunartekna kæranda fyrstu átta mánuði ársins 2011 samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra eru 395.433 krónur. Samkvæmt upplýsingum kæranda hefur hann einnig leigutekjur vegna atvinnuhúsnæðis sem nema 371.300 krónum á mánuði eftir frádrátt fjármagnstekjuskatts. Ráðstöfunartekjur kæranda fyrstu átta mánuði ársins 2011 voru samkvæmt því 766.733 krónur á mánuði.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til þess að lán hafi hækkað frá efnahagshruninu 2008. Einnig hafi bæði kærandi og eiginkona hans orðið fyrir tekjulækkun annars vegar vegna veikinda hennar og hins vegar vegna þess að kærandi hafi ekki haft áætlaðar tekjur af fasteignaviðskiptum sem hann réðist í árið 2008 en þá hafi hann keypt 90 fermetra verslunarhúsnæði að D götu nr. 52 í sveitarfélaginu C, og 112 fermetra íbúð að D götu nr. 54 í sveitarfélaginu C. Kærandi hafi tekið gengistryggð lán til að fjármagna kaupin og hafi hækkun þeirra leitt til þess að kærandi hafi ekki getað staðið í skilum.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt gögnum málsins eru 252.258.591 króna og falla þar af 249.103.645 krónur innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skulda var stofnað á árunum 2005 til 2008.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 10. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 20. febrúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Þess er krafist að kærunefndin felli niður ákvörðun umboðsmanns skuldara og veiti kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Kærandi mótmælir þeirri málsástæðu umboðsmanns skuldara að hann hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinga hafi verið stofnað. Kærandi mótmælir því sérstaklega að lge. sé ekki ætlað að veita skuldurum sem honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Hafa verði í huga að verulegur hluti skulda kæranda sé vegna fasteignakaupa sem einkahlutafélög í hans eigu hafi staðið að en kærandi ábyrgst. Hann hafi verið tekjuhár þegar til skuldbindinganna var stofnað og bæði kærandi og lánveitendur hafi metið það svo, að viðskiptin sem lánað hafi verið til væru þess eðlis að kærandi gæti staðið við skuldbindingar sínar sem ábyrgðarmaður. Með hruni fjármálafyrirtækjanna og falli íslensku krónunnar hafi þessar forsendur brostið. Síðar hafi kröfuhafi farið fram á að kærandi tæki persónulega að sér skuldbindingar félaganna.

Nauðsynlegt sé að gæta að jafnræði skuldara við afgreiðslu umsókna þeirra um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Ljóst sé að þorri þeirra skuldara sem þegar hafi fengið heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi stofnað til fjárhagsskuldbindinga sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu þeirra á þeim tíma. Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga þjóni ekki tilgangi sínum ef þau verði túlkuð á þann hátt sem umboðsmaður skuldara geri. Kærandi telji að 2. mgr. 6. gr. lge. sé ætlað að girða fyrir augljóst ábyrgðarleysi í fjármálum, svo sem þegar skuldari hafi ekki haft neinar tekjur þegar hann hafi stofnað til ábyrgðarskuldbindinga. Mál kæranda sé af allt öðrum toga og verði að mati kæranda ekki fært undir c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eins og umboðsmaður skuldara geri enda hafi kærandi verið með háar tekjur á þeim tíma sem til skuldbindinganna var stofnað. Ekki verði heldur talið ósanngjarnt að heimila kæranda að leita greiðsluaðlögunar hjá kröfuhöfum. Því eigi g-liður 2. mgr. 6. gr. ekki heldur við í málinu. Huga þurfi að því að helstu kröfuhafar kæranda hafi tekið virkan þátt í mati á þeim forsendum sem legið hafi til grundvallar fasteignaviðskiptum þeim sem kærandi hafi stundað. Það sé því ekki ósanngjarnt að knýja þá að samningaborðinu undir formerkjum greiðsluaðlögunarumleitana.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á því skuli taka tillit til þeirra atriða sem nefnd eru í stafliðum ákvæðisins.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda, eignir og skuldir í krónum voru eftirfarandi árin 2007 til 2009 samkvæmt skattframtölum:

  2007 2008 2009
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur 216.276 239.912 595.580
Eignir alls: 56.530.000 98.729.298 91.801.522
Skuldir 68.351.768 108.846.242 280.148.830

Í október 2008 hafi kærandi keypt verslunarhúsnæði og íbúðarhúsnæði við D götu í sveitarfélaginu C. Til að fjármagna kaupin hafi verið tekin bankalán en á árinu 2008 hafi kærandi tekið á sig eftirtalin lán:

Lánveitandi Fjárhæð kr.
Landsbankinn 15.500.000
Landsbankinn 68.000.000
Íslandsbanki 14.273.134
Íslandsbanki 18.100.000
Samtals: 115.873.134

Upphaflegir lántakar þessara lána hafi verið einkahlutafélög í eigu kæranda en lánin hafi verið færð á nafn kæranda 2008. Með því hafi kærandi tekið á sig alla áhættu af skuldbindingunum. Ekki verði séð að það skipti máli fyrir niðurstöðu málsins að kærandi hafi þegar á árinu 2007 gengist í ábyrgðir fyrir þessum lánum enda hafi staða hans til að standa við skuldbindingarnar ekki verið skárri þá.

Í greinargerð með kæru komi fram að kærandi hafi verið tekjuhár þegar til umræddra skuldbindinga hafi verið stofnað. Sú fullyrðing sé ekki rökstudd en í ákvörðun umboðsmanns skuldara hafi verið byggt á upplýsingum um tekjur úr skattframtölum kæranda.

Önnur lán kæranda séu eftirfarandi í krónum:

Kröfuhafi Ár Upphafleg Trygging
    fjárhæð  
Arion banki 2005 14.000.000 B gata nr.  43
Arion banki 2007 5.970.000 Ábyrgðarmaður
Arion banki 2009 7.104.596 Ábyrgðarmaður
  Samtals: 27.074.596  

Telja verði að atvinnurekstri og lántöku honum tengdum fylgi ávallt fjárhagsleg áhætta. Það sé matsatriði í hverju tilviki hvort hún eigi að girða fyrir heimild til að leita samninga um greiðsluaðlögun. Í þessu máli sé ljóst að aðeins tæplega fjórðungur af skuldum kæranda séu persónuleg lán hans eða stafi frá kaupum hans á íbúðarhúsnæði. Aðrar skuldir stafi að langmestu leyti frá atvinnurekstri en telja verði þær skuldir mjög miklar.

Á árinu 2008 hafi kærandi stofnað til skulda að fjárhæð 115.873.134 krónur vegna einkahlutafélaga í hans eigu. Gögn málsins beri með sér að meðaltekjur kæranda á árinu 2008 hafi verið 239.912 krónur á mánuði. Einnig hafi eignastaða kæranda verið neikvæð um 11.821.768 krónur í lok árs 2007. Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram að það sé ekki vilji löggjafans að einstaklingar sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar nýti sér úrræðið.

Það verði að teljast til fjárhagslegrar áhættu að taka há lán sem tengd séu við erlenda gjaldmiðla, einkum ef litið sé til þess að kærandi hafi fengið laun greidd í íslenskum krónum á þeim tíma er til lánanna var stofnað. Af skattframtölum kæranda verði ráðið að hvorki launa- né fjármagnstekjur hans hafi gefið tilefni til að ætla að hann gæti staðið undir afborgunum lánanna auk þess sem eignir hans hafi verið talsvert skuldsettar. Því verði að telja að ekki hafi mikið mátt út af bregða til að kærandi lenti í verulegum fjárhagserfiðleikum. Ýmsir áhættuþættir tengist skuldsettum kaupum á fasteignum til útleigu, svo sem eftir atvikum gengissveiflur, verðbólga, sveiflur á fasteigna- og leigumörkuðum og innheimta leigu. Telja verði að áhættan sé þeim mun meiri þegar umsvifin séu mikil, til dæmis þegar keyptar séu fleiri en ein fasteign. Þá sé til þess að líta að mikil útgjöld fylgi mikilli fasteignaeign auk fjármagnskostnaðar, svo sem skattar, þjónustugjöld, iðgjöld vegna trygginga og viðhaldskostnaður. Gögn málsins beri með sér að húsfélagsgjöld hafi ekki verið greidd frá 2008 en krafa húsfélags sé 1.800.514 krónur.

Í fyrri úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú að þegar skuldari takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að hann geti staðið undir afborgunum af miðað við tekjur að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárhagsskuldbindinga á þeim tíma sem lán séu tekin, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Vísað sé til úrskurða kærunefndarinnar í máli nr. 23/2011, sbr. úrskurði í málum nr. 11/2011 og 17/2011.

Með hliðsjón af framangreindu sé það heildstætt mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, og að skuldir hans séu þess eðlis og svo miklar að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra. Þyki því óhæfilegt að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. Einnig verði að telja þau sjónarmið sem fram komi í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að kærunefndin felli niður synjun umboðsmanns skuldara og veiti kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til að leita greiðsluaðlögunar getur skuldari kært þá ákvörðun til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála samkvæmt 4. mgr. 7. gr. lge. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að samþykki umboðsmanns skuldara fylgi ákveðin réttaráhrif, sbr. annars vegar 8. gr. laganna, þar sem segir að með samþykki umboðsmanns skuldara á umsókn um greiðsluaðlögun hefjist tímabil greiðsluaðlögunarumleitana, og sbr. hins vegar 1. mgr. 11. gr., en þar segir að þegar umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn hefjist tímabundin frestun greiðslna. Umboðsmaður skuldara gegnir því hlutverki að veita heimild til greiðsluaðlögunar samkvæmt því sem kveðið er á um í lge. Getur þar af leiðandi ekki komið til þess að kærunefnd greiðsluaðlögunarmála veiti kæranda heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Við úrlausn málsins fyrir kærunefndinni getur því aðeins komið til þess að kærunefndin felli synjun umboðsmanns skuldara úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju. Með tilliti til þessa verður að skilja kröfugerð kæranda þannig að farið sé fram á að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir umboðsmann skuldara að taka ákvörðun að nýju.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað. Samkvæmt g-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga eða skuldir hans eru þess eðlis að bersýnilega sé ósanngjarnt að heimild til greiðsluaðlögunar nái til þeirra.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
      fjárhæð   frá
LÍN 1993 Námslán   3.154.946 2010
Íslandsbanki 2005 Erlent lán 15.007.802 35.642.921 2008
Arion banki 2005 Erlent lán 14.000.000 27.120.846 2011
Arion banki 2007 Erlent lán 5.970.000 7.921.180 2011
Landsbankinn 2008 Erlent lán 15.500.000 23.801.910 2011
Landsbankinn 2008 Skuldabréf 68.000.000 97.141.040 2009
Landsbankinn 2008 Yfirdráttur   870.275 2008
Íslandsbanki 2008 Skuldabréf 18.100.000 32.479.259 2008
Byr 2008 Greiðslukort 641.581 1.349.289 2008
Arion banki 2009 Skuldabréf 7.104.596 7.457.472 2011
Íslandsbanki 2009 Yfirdráttur   155.061 2009
Húsasmiðjan 2009 Skuldabréf 475.000 880.610 2009
Byr 2009 Skuldabréf 5.162.000 7.322.301 2010
SP-fjármögnun 2009 Bílasamningur 2.546.679 2.004.786  
Byr 2010 Yfirdráttur 19.086 19.086 2010
Ýmsir 2010 Reikningar 2.239.811 3.097.954 2010
Tollstjóri 2011 Þing- og sveitarsjóðsgjöld 11.932 12.117 2011
Tollstjóri 2011 Bifreiðagjöld 25.990 27.024 2011
Húsfélagið D gata nr. 52 2008‒2011 Húsfélagsgjöld 1.090.109 1.800.514 2008‒2011
    Alls: 155.894.586 252.258.591  

Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þykir að veita hana. Í ákvæðinu eru talin upp atriði sem líta skal til við matið, en þau bera það með sér að ekki sé talið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. einnig athugasemdir með frumvarpi að lge.

Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi.

Samkvæmt skattframtölum kæranda voru tekjur hans, eignir og skuldir eftirfarandi árin 2007 til 2010 í krónum:

  2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mán. (nettó) 216.276 239.912 595.580 673.905
Eignir alls: 34.710.000 66.849.104 65.847.213 58.127.401
· B gata nr. 43,50% 21.820.000 21.820.000 23.575.000 20.750.000
· D gata nr. 52   15.280.000 14.100.000 12.510.000
· D gata nr. 54   26.980.000 24.750.000 22.500.000
· Bifreiðin R 1.890.000 1.701.000 2.000.000 1.800.000
· Hlutir í félögum 11.000.000 1.000.000 500.000 500.000
· Bankainnstæður o.fl. 0 68.104 922.213 67.401
Skuldir 68.351.768 175.500.469 246.088.932 210.336.225
Nettóeignastaða -33.641.768 -108.651.365 -180.241.719 -152.208.824

Fram er komið að einkahlutafélög á vegum kæranda hafi keypt tvær fasteignir á árinu 2007 og hafi félögin tekið til þess lán. Að sögn kæranda var hann sjálfskuldarábyrgðarmaður á lánunum og tók þau síðan yfir, ásamt eignunum, árið 2008. Ef litið er til skattframtala kæranda voru skuldir hans ríflega 107.000.000 króna hærri í lok árs 2008 en í lok árs 2007. Eignastaða kæranda var neikvæð um ríflega 33.000.000 króna árið 2007 og áfram árin á eftir. Á árinu 2007 voru meðalráðstöfunartekjur kæranda 216.276 krónur á mánuði en 239.912 krónur á mánuði árið 2008.

Af gögnum málsins má ráða að stærstur hluti skulda kæranda er vegna nefndra fasteignakaupa. Fyrir liggur að á þeim tíma er kærandi tókst á hendur þessar skuldbindingar var eignastaða hans neikvæð og laun hans lág. Verður ekki séð að hann hafi getað staðið í skilum með fyrri skuldbindingar sínar, hvað þá tekið á sig þær viðbótarskuldbindingar sem hann gerði. Ræður þá ekki úrslitum að mati kærunefndarinnar hvort um var að ræða sjálfskuldarábyrgðir kæranda á skuldum fyrirtækja sinna eða beinar lántökur kæranda. Ekki verður því séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika til að greiða af þessum skuldbindingum ef á þær reyndi. Telur kærunefndin að líta verði svo á að skuldbindingar þessar hafi verið óhóflegar og ekki í samræmi við fjárhagsstöðu kæranda á þeim tíma er til þeirra var stofnað.

Í máli nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Við mat á því hvort beita skuli c- og g-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Þegar skuldasöfnun er veruleg verður að telja að stofnað hafi verið til óhóflegra skuldbindinga í skilningi g-liðar sama lagaákvæðis. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem litlar eða engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við eignastöðu og tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Að öllu framangreindu virtu telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi á ámælisverðan hátt stofnað til óhóflegra skuldbindinga, sbr. g-lið 2. mgr. 6. gr. lge., svo og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað, í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt því telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c- og g-liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum