Hoppa yfir valmynd
20. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 188/2012

Fimmtudaginn 20. mars 2014


 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 11. október 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. september 2012 þar sem heimild til greiðsluaðlögunar var felld niður.

Með bréfi 7. janúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 29. janúar 2013.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 6. febrúar 2013 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust kærunefndinni 15. febrúar 2013.

Með bréfi 19. febrúar 2013 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála athugasemda umboðsmanns skuldara. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

I. Málsatvik

Kærandi lagði inn umsókn um greiðsluaðlögun 21. júní 2010. Kærandi er fædd 1959. Samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara þar sem kæranda var veitt heimild til greiðsluaðlögunar starfaði hún hjá X sem stuðningsfulltrúi.

Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hennar til nokkurra samverkandi þátta. Gengishrun krónunnar hafi valdið því að bílalán hennar hafi hækkað umtalsvert. Fyrrum sambýlismaður hennar hafi misst vinnuna 1. nóvember 2009 og þar sem hann var verktaki fékk hann ekki atvinnuleysisbætur. Þá hafi dóttir hennar lent í bílslysi í Danmörku í desember 2009. Kærandi fór því til Danmerkur ásamt fyrrverandi sambýlismanni sínum til að aðstoða dóttur sína. Þetta hafði í för með sér mikið vinnutap og kostnað fyrir kæranda. Kærandi keypti íbúð árið 2007 en hún og fyrrum sambýlismaður hennar gátu ekki staðið við afborganir eftir að hann missti vinnuna. Ýmis gjöld og kostnaður hafi síðan safnast fyrir sem hafi gert skuldastöðu kæranda enn verri. Einnig hafi skuldastaða kæranda þyngst umtalsvert þegar hún tók á sig skattskuldir fyrrverandi sambýlismanns.

Samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru heildarskuldir kæranda 42.948.725 krónur og eru þær allar innan samnings, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Til helstu skuldbindinga var stofnað árin 2006 til 2007.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 7. mars 2011 var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun samþykkt. Þann 10. mars 2011 var umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda. Með bréfi umsjónarmanns 3. maí 2012 til umboðsmanns skuldara var lagt til að heimild kæranda til greiðsluaðlögunar yrði felld niður þar sem kærandi uppfyllti ekki skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. um búsetu.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. september 2012 var heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 2. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Málatilbúnað kæranda verður að skilja svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærandi telji að ákvörðun umboðsmanns skuldara um búsetu hennar erlendis sé ekki rétt en hún hafi sent gögn sem sýni fram á það. Kærandi sé ósátt við málsmeðferð umsjónarmannsins sem henni hafi verið skipaður þar sem hann hafi lagt til að bifreið hennar væri skilað til kröfuhafa en lánið hafi síðan reynst ólöglegt. Þá sé kærandi almennt ósátt við embætti umboðsmanns skuldara og að heimild hennar til greiðsluaðlögunar hafi verið felld niður. 

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að umsjónarmaður hafi tilkynnt embættinu að kærandi hafi flust búferlum til Noregs. Hún hafi sagt upp vinnu sinni á Íslandi og haldið til Noregs án þess að hafa þar trygga atvinnu. Að mati umsjónarmanns hafi undanþáguákvæði a- og b-liða 4. mgr. 2. gr. lge. ekki átt við um kæranda, enda hafi hún ekki lagt fram haldbær gögn sem sýndu fram á að búseta hennar erlendis væri tímabundin. Að mati umsjónarmanns hafi kærandi enn fremur skert aflahæfi sitt með flutningunum og þar með möguleika á því að greiða niður skuldir sínar. Lagði umsjónarmaður til við embættið að greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda væru felldar niður samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga, enda hafi undantekningarákvæði 4. mgr. 2. gr. lge. ekki átt við í tilviki kæranda.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 21. maí 2012 hafi embættið óskað eftir skýringum kæranda áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu. Umboðsmanni hafi borist skýringar kæranda þar sem fram komi að hún hafi flutt lögheimili sitt til Noregs í júní 2011. Einnig hafi kærandi framvísað afriti af ráðningarsamningi sínum við sveitarfélagið Y í Noregi frá 23. október 2011. Fram komi í ráðningarsamningum að kærandi sinni tímabundnu afleysingarstarfi. Samkvæmt samningnum starfi kærandi við aðhlynningu í afleysingum en með öllu sé ómögulegt að ráða af efni samningsins hvaða tekjur kærandi hafi haft.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni skuldara að líta til þeirra aðstæðna sem geti komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. skuli synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar.

Með tímabundinni búsetu í skilningi 2. mgr. 4. gr. lge. sé átt við að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar kærandi flytjist til annars lands vegna starfa sinna verði að miða við að það starf sem um ræði sé tímabundið. Ekki verði litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða nema sú staðhæfing sé studd haldbærum gögnum.

Ljóst sé að kærandi hafi ekki verið búsett á Íslandi um langa hríð, eða síðan síðla árs 2011. Einnig hafi hún lýst því yfir að hún hafi flutt lögheimili sitt til Noregs í júní 2011. Þrátt fyrir að kærandi hafi sýnt fram á að ráðningarsamningur hennar við vinnuveitanda sinn ytra sé tímabundinn, verði ekki talið að það ígildi staðfestingu á því að búseta hennar í Noregi sé tímabundin enda hafi kærandi ekki lýst því yfir að hún hygðist dvelja þar til ákveðins tíma. Enn fremur verði að telja að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag hennar á tímabili greiðsluaðlögunar og því óljóst hver raunveruleg greiðslugeta hennar sé.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið komist hjá því að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 2. gr. lge.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og eru búsettir hér á landi. Frá þessu má þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leitar greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfellt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Framangreind ákvörðun umboðsmanns byggist á því að kærandi sé búsettur erlendis. Ekki sé unnt að líta svo á að búseta hennar sé tímabundin vegna náms, starfa eða veikinda í skilningi undantekningarákvæðis 4. mgr. 2. gr. lge. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge., var því heimild sem kærandi hafði fengið til greiðsluaðlögunar felld niður.

Í málinu er ágreiningur um hvort líta eigi á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að áðurnefnd undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnuleitar. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Að mati kærunefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd viðhlítandi gögnum. Samkvæmt þjóðskrá flutti kærandi lögheimili sitt til Noregs 11. júlí 2011. Hún flutti aftur til Íslands 14. desember 2011. Kærandi flutti í annað sinn til Noregs 21. maí 2012 en flutti aftur til Íslands 18. desember 2012. Þann 28. nóvember 2013 flutti kærandi lögheimili sitt í þriðja sinn til Noregs og nú búsett þar í landi samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands átti kærandi fyrir ofangreindan tíma lögheimili og var búsett hér á landi samfellt að minnsta kosti frá árinu 2007.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi muni koma aftur til Íslands í nóvember 2012. Einnig kemur fram að kærandi hafi ekki verið með fasta vinnu í Noregi heldur sinni hún íhlaupavinnu. Meðal gagna málsins eru tveir tímabundnir ráðningarsamningar kæranda við Y kommune. Fyrri tímabundni samningurinn gilti frá 23. október 2011 til 23. nóvember 2011. Síðari samningurinn gilti frá 1. febrúar 2012 til 1. febrúar 2013. Með vísan til framangreinds og gagna málsins verður ekki annað ráðið en kærandi sé í raun tímabundið búsett erlendis vegna vinnu.

Að mati kærunefndarinnar þykir sýnt fram á að rétt sé að víkja frá skilyrði 4. mgr. 2. gr. lge. vegna tímabundinnar búsetu kæranda í Noregi samkvæmt undantekningu í a-lið lagaákvæðisins.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara virðist sem niðurfelling heimildar til greiðsluaðlögunar sé einnig byggð á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag kæranda á tímabili greiðsluaðlögunar og því óljóst hver raunveruleg greiðslugeta hennar sé. Í ákvörðun umboðsmanns er ekki vísað til þess lagaákvæðis varðandi það atriði en að mati kærunefndarinnar er hér átt við aðstæður sem lýst er í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur ekki fram á hvaða gögn skorti í málinu. Kærunefndin getur ekki tekið afstöðu til niðurstöðu umboðsmanns hvað þetta atriði varðar enda er hún að þessu leyti óljós, órökstudd og henni ekki gerð viðhlítandi skil í hinni kærðu ákvörðun. Einnig ber að líta til þess að umboðsmaður skuldara gætti ekki að andmælarétti kæranda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hvað þennan hluta ákvörðunarinnar varðar, þegar óskað var eftir athugasemdum kæranda í bréfi 21. maí 2012 en bréfið var sent henni í tilefni af tilkynningu umsjónarmanns um upplýsingar sem gætu leitt til niðurfellingar greiðsluaðlögunarumleitana samkvæmt 15. gr. lge.

Með vísan alls framangreinds er ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kæranda til greiðsluaðlögunar felld úr gildi.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild A til greiðsluaðlögunar er felld úr gildi.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum