Hoppa yfir valmynd
17. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2012

Mánudaginn 17. mars 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 5. mars 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 3. janúar 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var synjað.

Með bréfi 14. mars 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 20. mars 2012. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 23. mars 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 7. nóvember 2012.

Með bréfi 8. nóvember 2012 voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara til kynningar og óskað eftir afstöðu embættisins. Engar frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni skuldara.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1974, einhleypur og býr einn í eigin 78,8 fermetra íbúð að B götu nr. 13 í sveitarfélaginu C.

Kærandi kveðst hafa tekið þátt í rekstri fjölskyldufyrirtækis í heildsölurekstri undanfarin ár. Eftir að þeim rekstri var hætt var kærandi atvinnulaus um skeið en starfar nú hjá X í fullu starfi.

Mánaðarlegar nettótekjur kæranda nema 291.351 krónu að meðaltali.

Að mati kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til hækkana lána og ábyrgða sem fallið hafi á hann. Kærandi hafi rekið heildsölufyrirtækið Z ehf. frá árinu 2005 og gengist í sjálfskuldarábyrgðir vegna birgðaláns til félagsins árið 2007. Lánið, sem var í erlendri mynt, hafi þrefaldast og verið orðið óviðráðanlegt í lok árs 2008. Um áramótin 2008/2009 hafi verið orðið ómögulegt að flytja inn vörur vegna hækkana og hafi hann þá hætt rekstrinum. Þá hafi ábyrgðirnar fallið á hann. Einnig hafi kærandi lent í erfiðleikum með að greiða af íbúðarlánum sínum. Hann hafi reynt að ná samningum við kröfuhafa en það hafi ekki tekist. Hann hafi orðið atvinnulaus í kjölfar lokunar fyrirtækisins og hafi verið atvinnulaus í um tvö ár. Á þeim tíma hafi hann stundað nám í eitt og hálft ár og vinnu sem ekki hafi verið gefin upp til skatts. Nú starfi hann hjá X í fullu starfi.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 20.980.099 krónur og falla allar innan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þá hvíla á kæranda ábyrgðarskuldbindingar vegna Z ehf. að fjárhæð 24.247.575 krónur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 26. maí 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 3. janúar 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi telur sig uppfylla skilyrði um heimild til greiðsluaðlögunar og óskar eftir endurmati á ákvörðun umboðsmanns skuldara. Skilja verður málatilbúnað kæranda á þann veg að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Að mati kæranda hefur umboðsmaður skuldara gefið sér forsendur í málinu sem séu í grundvallaratriðum rangar.

Í fyrsta lagi sé rangt farið með verðmæti fasteignar kæranda. Mat fasteignasala á eigninni hafi verið 24.500.000 krónur árið 2007 en ekki 15.610.000 krónur eins og umboðsmaður telji. Skuldir hafi verið 18.000.000 króna. Eignin hafi því ekki verið yfirveðsett eins og umboðsmaður haldi fram. Í öllu falli hefði það átt að vera hlutverk bankans að leggja mat á veðrými.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við mat umboðsmanns skuldara á því að kærandi hafi gert sér grein fyrir að fjárhagsskuldbindingar hans hefðu ekki verið í samræmi við laun hans á þeim tíma sem til þeirra var stofnað. Að sögn kæranda hafi fyrirtæki hans staðið undir greiðslum lána og hann hafi ekki haft þá forspárhæfileika að sjá fyrir að allur rekstrargrundvöllur myndi bresta árið 2008.

Í þriðja lagi greinir kærandi frá því að fjárhagsleg áhætta hans hafi engin verið árið 2007 þar sem fyrirtækið hafi staðið vel og reksturinn hefði átt að standa undir lánum. Það hafi verið bæði mat kæranda og bankans á sínum tíma að hverfandi líkur væru á að nefndar ábyrgðir myndu falla á kæranda.

Í fjórða lagi hafi uppgefin laun kæranda verið lág vegna þess að hann hafi ekki viljað taka meira fé út úr rekstrinum en hann hafi þurft á að halda meðan hann væri að byggja fyrirtækið upp, enda hafi hugsunin verið sú að reksturinn yrði lifibrauð hans til langs tíma.

Í fimmta lagi sé það kæranda hulin ráðgáta hvers vegna umboðsmaður skuldara átti sig ekki á því hvað hrunið á krónunni hafi haft skelfileg og óútreiknanleg áhrif á litla heildsölu hans sem hafi byggt allt sitt á erlendum innflutningi.

Loks geri kærandi alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð tiltekinna starfsmanna embættis umboðsmanns skuldara. Greinilegt sé að ekki hafi verið eytt miklum tíma í málið. Einnig geri hann athugasemdir við að ómannúðlega sé haldið á málinu með því að láta það vofa yfir honum árum saman. Hann hafi ítrekað sýnt vilja til að hefja greiðslur til kröfuhafa til að þeir fái þó eitthvað í sinn hlut og hann skilji ekki kerfi sem vilji frekar hafa menn óvirka á hliðarlínunni en að gefa þeim tækifæri til að verða virkir þjóðfélagsþegnar að nýju. Kærandi sé í tölvunarfræðinámi með vinnu og vilji fá tækifæri til að ljúka málinu með einum eða öðrum hætti svo hann geti gert áætlanir byggðar á þeirri stöðu sem uppi verði.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á því skuli taka tillit til þeirra atriða sem nefnd eru í stafliðum ákvæðisins.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Í janúar 2007 hafi kærandi stofnað til sjálfskuldarábyrgða fyrir lánum einkahlutafélagsins Z við Spron. Ábyrgðirnar hafi verið í erlendri mynt að andvirði 8.000.000 króna. Með sama gerningi hafi hann veðsett fasteign sína fyrir umræddri skuld. Af skattframtali vegna ársins 2007 verði ráðið að veðsetningin hafi valdið því að eign kæranda varð yfirveðsett miðað við verðmæti hennar í lok árs 2006 sem hafi verið 15.610.000 krónur. Samkvæmt framtalinu hafi hvílt á eigninni lán að fjárhæð 10.678.082 krónur. Eftir veðsetninguna hafi eignin verið veðsett fyrir skuldum sem numið hafi að minnsta kosti 18.678.082 krónum. Af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hefði getað staðið skil á þessari skuld með tekjum sínum. Þessu til viðbótar hafi kærandi verið í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrætti Z ehf. en yfirdrátturinn hafi verið gjaldfelldur 8. desember 2008.

Af skattframtölum megi ráða að á árinu 2006 hafi mánaðarlegar nettótekjur kæranda verið 125.763 krónur en á árinu 2007 hafi þær verið 90.833 krónur. Í lok ársins 2006 hafi skuldir kæranda numið 12.891.014 krónum en til viðbótar við afborganir skulda hafi kærandi þurft að greiða almennan framfærslukostnað. Samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara hafi framfærslukostnaður einstaklings verið 42.160 krónur í desember 2006. Inn í þá fjárhæð hafi verið reiknaður kostnaður við fæði, klæði, tómstundir og læknisþjónustu. Auk þessa muni hafa fallið á kæranda ýmis annar kostnaður, svo sem vegna trygginga, fasteignagjalda og fleiri útgjalda. Vart verði séð að tekjur kæranda hafi hrokkið til greiðslu framfærslukostnaðar og afborgana af lánum. Þyki því ljóst að fjárhagur kæranda hafi ekki gefið honum tilefni til að takast á hendur miklar viðbótarskuldbindingar.

Með því að taka á sig nefndar ábyrgðir hafi kærandi lýst því yfir að hann ætlaði að standa undir viðkomandi skuldbindingum kæmi til þess að á ábyrgðirnar myndi reyna. Þar með hafi hann tekið á sig alla áhættuna sem þeim hafi fylgt. Í því sambandi þurfi ástæður greiðslufalls aðalskuldara ekki að skipta máli.

Telja verði að atvinnurekstri og persónulegum ábyrgðum vegna lántöku sem honum tengist fylgi almennt fjárhagsleg áhætta. Það sé þó matsatriði í hverju tilviki fyrir sig hvort sú áhætta eigi að girða fyrir heimild til greiðsluaðlögunarumleitana. Í tilviki kæranda sé ljóst að fjárhæð ábyrgðarskuldbindinga sé talsvert há, sérstaklega þegar höfð sé hliðsjón af fjárhag hans þegar til skuldbindinganna var stofnað.

Þegar litið sé til tekna kæranda, eigna- og skuldastöðu þegar hann stofnaði til nefndra skuldbindinga sé það mat umboðsmanns skuldara að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans.

Í úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hafi niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takist á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur séu á að þeir geti staðið undir miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárhagsskuldbindinga á þeim tíma sem lán séu tekin, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun. Vísist í þessu sambandi til úrskurða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í málum nr. 11/2011, 17/2011 og 23/2011.

Með hliðsjón af framangreindu og að teknu tilliti til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. er það mat umboðsmanns skuldara að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um synjun byggist á c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Samkvæmt gögnum málsins eru skuldir kæranda eftirtaldar:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil Trygging
      fjárhæð 2011 frá  
Lífeyrissjóður verzlunarm. 2004 Veðskuldabréf 2.000.000 3.072.706 2011 D gata nr. 31
Arion banki 2004 Veðskuldabréf 10.000.000 16.943.507 2008 B gata nr. 13
Söfnunarsj. lífeyrisréttinda 2008 Iðgjöld v/2007 129.600 411.910 2008 -
Reikningar 2010 Annað 43.074 51.787 2010 -
Húsfélag 2010 Húsgjöld 143.688 382.082   -
Söfnunarsj. lífeyrisréttinda 2011 Iðgjöld v/2011 104.400 118.107 2011 -


Alls kr. 12.420.762 20.980.099

Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi gengist í neðangreindar ábyrgðarskuldbindingar:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll

Staða

 2011

Aðrar
            tryggingar
Drómi 2007 Z ehf. Erlent skuldabréf 8.141.959 17.877.834 Veð í B götu nr. 13
Drómi 2007 Z ehf. Greiðslukort 500.000 641.425  
Drómi 2008 Z ehf. Yfirdráttarheimild 3.000.000 3.455.889 Lánsveð í fasteignum
      Alls kr. 11.641.959 21.975.148  

Skuldari þessara lána er félag kæranda en um var að ræða birgða- og rekstrarfjármögnun. Kærandi lánaði félaginu einnig veð í fasteign sinni vegna húsaleiguábyrgðar en tókst ekki á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna ábyrgðarinnar:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða 2011 Tryggingar
Drómi 2007 Z ehf. Húsaleiguábyrgð 1.279.000 2.272.427 Trbr. í B götu nr. 13

Á því tímabili sem hér er til skoðunar voru tekjur kæranda, eignir og skuldir samkvæmt skattframtölum þessar:

  2006 2007 2008 2009 2010
Meðaltekjur á mánuði (nettó) 125.763 90.833 88.795 84.130  
Eignir alls: 15.842.558 17.592.565 17.588.195 18.067.057 16.202.586
· B gata nr. 13 15.610.000 17.420.000 17.420.000 17.650.000 15.950.000
· Bifreið T       250.000 225.000
· Hlutir í félögum 166.667 166.667 166.667 166.667  
· Bankainnstæður 65.891 5.898 1.528 390 27.586
Skuldir kr. 12.891.014 13.462.852 15.141.089 17.450.861 20.332.020
Nettóeignastaða kr. 2.951.544 4.129.713 2.447.106 616.196 -4.129.434
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 0 8.641.959 11.641.959 11.641.959 11.641.959

Markmið lge. er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. gr. laganna. Í því skyni getur sá einstaklingur leitað greiðsluaðlögunar sem sýnir fram á að hann sé eða verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að standa í skilum með fjárskuldbindingar sínar.

Samkvæmt núgildandi lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga girða skuldir vegna atvinnurekstrar ekki fyrir heimild til greiðsluaðlögunar en takmörkun af því tagi var í 2. mgr. 63. gr. a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem felld var úr gildi með lögum nr. 101/2010. Þar kom fram að ákvæði laganna um nauðasamning til greiðsluaðlögunar næði ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hefðu borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hefðu lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hefði verið hætt og þær skuldir sem stöfuðu frá atvinnurekstrinum væru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra. Þó bendir umfjöllun í greinargerð með frumvarpi til núgildandi laga til þess að tilgangur þess að fella slíkar takmarkanir úr gildi hafi fyrst og fremst verið sá að greiða fyrir greiðsluaðlögun þeirra einstaklinga sem eru með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Segir í greinargerð með lögunum að það sé ekki ætlun löggjafans að þeir sem eigi í greiðsluerfiðleikum fyrst og fremst vegna atvinnurekstrar nýti sér þetta úrræði og jafnframt bent á að líta megi til ákvæða í 2. mgr. 6. gr. lge. varðandi fjárhagslega áhættu í þessu sambandi. Framangreindar ábyrgðarskuldbindingar kæranda og veðskuld vegna húsaleiguábyrgðar eru tilkomnar vegna atvinnurekstrar.

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef augljóst má vera að óhæfilegt sé að veita hana. Í 2. mgr. 6. gr. eru taldar upp ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki getur verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi að lge. Í framhaldinu eru í sjö liðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Eitt þeirra atriða er í c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sem þegar hefur verið gerð grein fyrir en umboðsmaður skuldara hafnaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þess ákvæðis.

Í máli nr. 198/2010 skýrði Hæstiréttur ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaga sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli voru 81% heildarskulda vegna ábyrgðaskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara og á sama tíma og þegar til skuldbindinganna var stofnað voru tekjur skuldara litlar sem engar. Hæstiréttur leit einnig til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinganna var stofnað og hafnaði heimild til greiðsluaðlögunar og taldi ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Á fasteign kæranda hvíldu eftirtalin veðbönd eftir að hún var veðsett vegna skuldbindinga Z ehf.:

Kröfuhafi Ár Skuldari Tegund Höfuðstóll Staða 2011 Tryggingar
Arion banki 2004 Kærandi Skuldabréf 10.000.000 16.943.507 Veð í B götu nr. 13
Drómi 2007 Z ehf. Erlent skuldabréf 8.141.959 17.877.834 Veð í B götu nr. 13
Drómi 2007 Z ehf. Húsaleiguábyrgð 1.279.000 2.272.427 Tr.br. í B götu nr. 13
      Alls kr. 19.420.959 37.093.768  

Það er mat umboðsmanns skuldara að með veðsetningu á árinu 2007 hafi kærandi yfirveðsett fasteign sína. Miðar umboðsmaður í þessu sambandi við fasteignamat eignarinnar sem var 15.610.000 krónur. Kærandi kveður fasteign sína á hinn bóginn hafa verið að verðmæti 24.500.000 krónur á þessum tíma. Hafi veðsetningin því ekki valdið því að eignin varð yfirveðsett. Kærandi hefur þó ekki lagt fram verðmat eða önnur gögn þessu til staðfestingar. Heildarskuldir kæranda á þessum tíma, þar með taldar ábyrgðarskuldbindingar, námu alls 25.050.559 krónum að höfuðstól.

Í samantekt Fasteignamats ríkisins yfir fermetraverð íbúða í fjölbýli innan Hringbrautar og Snorrabrautar í Reykjavík á árinu 2007 kemur fram að meðalsöluverð á hvern fermetra í 80 fermetra íbúðum hafi verið 294.588 krónur. Miðað við þessar forsendur hefði söluverð á íbúð kæranda á árinu 2007 getað verið 23.213.534 krónur. Með hliðsjón af þessu er það mat kærunefndarinnar að kærandi hafi skuldsett sig umfram eignir á árunum 2007 til 2008 jafnvel þótt miðað sé við hærra fasteignaverð en umboðsmaður skuldara gerir í ákvörðun sinni.

Í máli þessu liggur fyrir að 51,1% skulda kæranda eru vegna sjálfskuldarábyrgða sem hann hefur tekist á hendur. Við stofnun ábyrgðanna voru þær 48,3% heildarskuldbindinga kæranda. Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Umboðsmaður skuldara telur að vart verði séð að tekjur kæranda hafi hrokkið til greiðslu framfærslukostnaðar og afborgana af lánum. Kærandi segir að uppgefin laun hans hafi verið lág þar sem hann hafi ekki viljað taka meira fé út úr rekstrinum en þörf væri á meðan verið væri að byggja upp fyrirtækið. Á árinu 2007 voru uppgefin laun kæranda 90.833 krónur að meðaltali á mánuði. Samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara í desember 2006 var framfærslukostnaður einstaklings 42.160 krónur, þ.e. kostnaður við fæði, klæði, lækniskostnað og fleira. Þá stóðu eftir hjá kæranda 48.673 krónur sem auk kostnaðar við fasteign, tryggingar og fleira hefðu þurft að standa undir afborgunum lána. Mánaðarlegar afborganir af stærsta láni kæranda, íbúðarláni að höfuðstólsfjárhæð 10.000.000 króna, voru um 70.000 krónur.

Að mati kæranda var áhætta hans vegna ábyrgðarskuldbindinganna engin þar sem fyrirtæki hans hafi staðið vel og reksturinn hefði átt að standa undir lánum. Kærandi hefur ekki stutt þessa fullyrðingu með neinum gögnum en fyrir liggur að félagið skilaði ekki ársreikningum eftir rekstrarárið 2005. Í því ljósi telur kærunefndin ekki unnt að fallast á málflutning kæranda að þessu leyti.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat kærunefndarinnar að skuldbindingar sem kærandi ábyrgðist á árunum 2007 og 2008 hafi verið það miklar að líta verði svo á að þær hafi út af fyrir sig verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Ekki verður séð að kærandi hafi haft raunhæfa möguleika til að greiða af þessum skuldbindingum ef á þær reyndi. Miðað við eignastöðu kæranda átti hann ekki eignir til að greiða nema hluta þessara skuldbindinga. Að mati kærunefndarinnar tókst kærandi því á hendur miklar sjálfskuldarábyrgðir í trausti þess að hagnaður af rekstri félags hans myndi nægja til greiðslu skuldbindinganna og að félagið myndi ekki lenda í greiðsluvanda.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldasöfnunar á því tímabili sem til skoðunar er, sbr. það sem greinir hér að ofan. Í fyrri úrskurðum kærunefndar hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindingar er stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Þegar allt framaritað er virt telur kærunefndin að með skuldasöfnun sinni hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum