Hoppa yfir valmynd
13. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 101/2012

Fimmtudaginn 13. mars 2014

 

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnarsdóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 30. maí 2012 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. maí 2012 þar sem umsókn um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 31. maí 2012 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. júní 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 8. júní 2012 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 23. október 2012. Athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

I. Málsatvik

Kærandi er fæddur 1964. Hann er fráskilinn og á eitt barn sem hann greiðir meðlag með. Hann býr í leiguhúsnæði að B götu nr. 94 í sveitarfélaginu D. Kærandi á iðnaðarhúsnæði að C götu nr. 3 í sveitarfélaginu D.

Kærandi starfar nú sem vagnstjóri hjá X en hann vinnur einnig ýmis tilfallandi verkefni. Mánaðarlega fær hann útborgaðar að meðaltali 265.000 krónur að meðtöldum húsaleigutekjum.

Kærandi kveðst hafa starfað sjálfstætt sem kvikmyndagerðarmaður undanfarin 13 ár. Hann hafi sótt sér réttindi til meiraprófs til að auka atvinnumöguleika sína. Að sögn kæranda má rekja fjárhagserfiðleika hans til atvinnuleysis, tekjulækkunar vegna minnkandi atvinnu og skilnaðar árið 2009. Eftir fjármálahrunið 2008 hafi atvinna verið takmörkuð og hafi tekjur kæranda því lækkað. Hafi skuldir því hlaðist upp og orðið óviðráðanlegar. Vegna þessa, en einnig vegna ógreiddra launa, hafi kærandi ekki haft tök á að standa skil á virðisaukaskatti.

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 9.154.540 krónur. Þar af falla 1.973.587 krónur utan samnings um greiðsluaðlögun, sbr. 3. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.), en það eru skuldir vegna virðisaukaskatts. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 1996, 2000 og 2007 til 2011.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 27. júní 2011 en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. maí 2012 var umsókn hans hafnað með vísan til þess að óhæfilegt þótti að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstaka kröfu í málinu en skilja verður málatilbúnað hans á þann veg að hann krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi greinir frá því að þegar hann hafi staðið frammi fyrir fjárhagserfiðleikum hafi orðið erfitt að ákveða hvaða skuldir skyldi greiða og hvað yrði að bíða. Hafi kærandi ákveðið að greiða skuldir við banka áður en hann greiddi virðisaukaskatt þar sem hann taldi sig ná samningum við ríkissjóð eins og aðra. Eftir að umsókn hans hafi verið nær eitt ár hjá umboðsmanni skuldara og honum meinað að greiða nokkrar aðrar skuldir þyki honum ósanngjarnt að vera meinaður aðgangur að greiðsluaðlögun á þeim forsendum að ekki séu allar skuldir hans settar undir sama hatt.

Kærandi tekur fram að hann hafi dregið úr öllum útgjöldum. Á árinu 2011 hafi hann haft litlar tekjur en nú hafi hann atvinnu og vilji að mál hans komist á hreint. Verði synjun umboðsmanns staðfest sé hann verr settur en ef hann hefði aldrei leitað til umboðsmanns skuldara.

 

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana. Í ákvæðinu sé það tekið fram að við mat á því skuli taka sérstakt tillit til atvika sem talin séu upp í stafliðum ákvæðisins.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lge. sé tekið fram um 2. mgr. 6. gr. að þau atriði sem umboðsmaður skuldara skuli sérstaklega líta til við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita heimild til greiðsluaðlögunar miði að hluta til við þágildandi 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, enda sé nokkur reynsla komin á framkvæmd og dómvenju við beitingu ákvæðisins. Enn fremur sé tekið fram að ástæður þær sem taldar séu upp í 2. mgr. 6. gr. lge. eigi það sameiginlegt að ekki geti verið viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun ef vandi hans verður að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann beri sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni.

Samkvæmt d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varði refsingu eða skaðabótaskyldu. Ákvæðið hafi verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi. Hafi þessi skilningur verið staðfestur með úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 10/2011.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. sé samhljóða 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem nú sé fallið brott. Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 hafi rétturinn meðal annars tekið til umfjöllunar nefnt ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Af niðurstöðunni megi ráða að skuldbinding sem stofnað hafi verið til með þeirri háttsemi sem tilgreind sé í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. geti varðað synjun um heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé umrædd skuldbinding tiltölulega há með tilliti til fjárhæðar og hlutfalls af heildarskuldbindingum skuldara samanborið við eignastöðu hans bæði á þeim tíma sem ákvörðun er tekin og á þeim tíma sem til skuldbindingarinnar er stofnað. Í ofangreindum dómi Hæstaréttar hafi heildarfjárhæð skuldar vegna háttsemi er varðaði refsingu numið alls 1.780.437 krónum, sem hafi út af fyrir sig þótt allhá fjárhæð, en hún hafi numið 8,3% af heildarskuldum viðkomandi skuldara. Hafi niðurstaða Hæstaréttar verið sú að umsókn um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar hafi verið synjað.

Í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 sé refsivert ef skattskyldur maður afhendi eigi á lögmæltum tíma virðisaukaskattskýrslu eða virðisaukaskatt sem hann hafi innheimt eða honum hafi borið að innheimta. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi heildarskuldir kæranda alls 9.154.540 krónum og þar af sé skuld vegna virðisaukaskatts 1.427.618 krónur eða 15,59% af heildarskuldum. Einnig komi fram í gögnum málsins að skattskuldir kæranda stafi frá árunum 2010 til 2011 og séu byggðar á innsendum skýrslum kæranda til skattyfirvalda vegna atvinnurekstrar í eigin nafni.

Hið opinbera geri ríka kröfu til þess að gjöldum sem einstaklingar og fyrirtæki eigi að innheimta, svo sem virðisaukaskatti, sé skilað. Að teknu tilliti til jafnræðis borgaranna sé það mjög sterk tilhneiging hjá opinberum aðilum að semja ekki um ívilnandi úrræði vegna slíkra skulda nema til komi lögbundið úrræði eins og lög um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri nr. 24/2010 sem nú séu fallin úr gildi. Hafi opinberir aðilar iðulega talið sér óheimilt að semja um ívilnandi úrræði vegna þessara gjalda í tengslum við samning um greiðsluaðlögun samkvæmt lge. Einnig verði að hafa í huga afstöðu ríkisvaldsins til þessara krafna en hún birtist í því að það varði fangelsisrefsingu og/eða háum sektum að standa ekki skil á þessum gjöldum. Þannig sé gert ráð fyrir því að í ábyrgum atvinnurekstri sé það ávallt í forgangi að skila lögbundnum gjöldum til réttra aðila.

Þegar tekið sé tillit til þess að tekjur kæranda hafi undanfarin ár verið tiltölulega lágar og aðstæðna að öðru leyti sé það mat umboðsmanns skuldara að skuldir kæranda sem stofnað hafi verið til með refsiverðum hætti verði að teljast verulegur hluti heildarskulda kæranda. Því telji umboðsmaður að óhæfilegt sé að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr .lge.

Með vísan til forsendna hinnar kærðu ákvörðunar fer umboðsmaður skuldara fram á að hún verði staðfest.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 2. mgr. 6. gr. lge., með sérstakri tilvísun til d-liðar.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemur miðað við fjárhag hans með háttsemi sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu.

Þær skuldbindingar sem umboðsmaður vísar til í þessu sambandi er skuld vegna virðisaukaskatts frá árunum 2009 og 2011 samtals að fjárhæð 1.973.587 krónur samkvæmt yfirliti frá tollstjóra.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal sá, sem er skattskyldur og hefur innheimt virðisaukaskatt en stendur ekki skil á honum af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi á lögmæltum tíma, greiða fésekt sem nemur allt að tífaldri þeirri skattfjárhæð sem ekki var greidd og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri þessari fjárhæð. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt þessu ber skattskyldum aðila að sjá til þess að virðisaukaskattur sé greiddur að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu. Eiga ofangreind ákvæði því við um kæranda sem virðisaukaskattskyldan aðila.

Ákvæði d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggi við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei, að því tilskildu að skuldbindingin nemi einhverju miðað við fjárhag skuldara. Liggur þessi skilningur ekki síður í orðalagi ákvæðisins en athugasemdum með frumvarpi að lge. og 63. gr. d laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991. Með því að láta hjá líða að skila virðisaukaskatti hefur kærandi bakað sér skuldbindingu samkvæmt fortakslausum ákvæðum 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Samkvæmt framansögðu hefur kærunefndin í máli þessu ekki annað svigrúm til mats að því er varðar aðstæður d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en að kanna hvort vörsluskattskuld nemi einhverju miðað við fjárhag kæranda. Við það mat telur kærunefndin að líta verði heildstætt á eigna- og skuldastöðu, tekjur og greiðslugetu. Samkvæmt gögnum málsins voru eignir kæranda liðlega 1.800.000 krónur umfram skuldir. Skuld sem kærandi hefur stofnað til með framangreindri háttsemi er ógreiddur virðisaukaskattur alls að fjárhæð 1.383.806 krónur að teknu tilliti til leiðréttingarskýrslna frá kæranda. Verður að telja þetta allháa fjárhæð en skuldin er 15,1% af heildarskuldum hans. Þetta eru skuldir sem ekki falla undir samning um greiðsluaðlögun samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi hefur stofnað til þessara skulda með háttsemi er varðar refsingu eins og tiltekið er hér að framan.

Með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 721/2009 var skuldara synjað um nauðasamning til greiðsluaðlögunar vegna vangreiddra vörsluskatta. Komst rétturinn að þeirri niðurstöðu að skuldari sem bakað hafði sér skuldbindingu að fjárhæð 1.780.437 krónur sem nam um 8,3% af heildarskuldum með háttsemi er varðaði refsingu, hefði skapað sér skuldbindingu sem einhverju næmi og því bæri að synja honum um heimild til nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Er það mat kærunefndarinnar, eins og á stendur í máli þessu, með tilliti til þess sem rakið hefur verið og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 721/2009, að skuldir sem stofnað hefur verið til með framangreindum hætti falli undir d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. og að þær verði að telja verulegar miðað við fjárhag kæranda þannig að ekki sé hæfilegt að veita honum heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi verið rétt að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum