Hoppa yfir valmynd
3. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2014

Mánudaginn 3. febrúar 2014

 

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B hrl.

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Arndís Anna K. Gunnardóttir og Lára Sverrisdóttir.

Þann 2. janúar 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hæstaréttarlögmanns, sem tilkynnt var með bréfi 11. desember 2013, þar sem umsjónarmaður mælir gegn því að nauðasamningur komist á með vísan til 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010 (lge.).

I. Málsatvik

Umboðsmaður skuldara samþykkti umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 12. maí 2011. B hrl. var skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda 17. maí 2011.

Frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi var sent kröfuhöfum 21. janúar 2013. Leiðrétt og endurbætt frumvarp var sent kröfuhöfum 22. janúar 2013.

Sýslumannsembættið á Blönduósi andmælti frumvarpinu vegna gjaldfallinna krafna utan greiðsluaðlögunar. Kröfur sýslumanns eru vegna sektar, sakarkostnaðar og vegna endurkröfu á hendur kæranda samkvæmt lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995. Taldi sýslumannsembættið að ráða mætti af frumvarpinu að greiðslugeta væri ekki til staðar hvað þessar kröfur varðaði. Af þeim sökum væri ekki talið unnt að samþykkja framkomið frumvarp til greiðsluaðlögunar hvað varðaði kröfur um sakarkostnað, enda ein forsenda þess að gjaldfallnar kröfur utan samnings væru greiddar. Án þessa hafi greiðsluaðlögun ekki tilætluð áhrif.

Með tölvupósti 20. febrúar 2013 var kærandi upplýstur um framkomin andmæli og að frumvarpi um greiðsluaðlögun hafi verið hafnað vegna krafna utan greiðsluaðlögunar. Óskað var eftir afstöðu kæranda til þess að leitað yrði nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Beiðnin var ítrekuð með bréfi 21. mars og var kæranda veittur frestur til þess að upplýsa umsjónarmann um afstöðu sína.

Á fundi með umsjónarmanni 9. apríl 2013 óskaði kærandi eftir því að leitað yrði nauðasamnings í samræmi við ákvæði V. kafla lge. Á fundinum kom fram að kærandi fengi mánaðarlega greiddar örorkubætur að fjárhæð 160.000 krónur. Hann teldi líklegt að tekjur sínar myndu hækka um 25%. Greiðslugeta sé því neikvæð og ekki fyrirséð að breytingar yrðu á því í bráð.

Umsjónarmaður sendi kæranda bréf 7. október 2013. Þar var kæranda tilkynnt að vegna afstöðu sýslumannsins á Blönduósi til frumvarps til greiðsluaðlögunar hafi umsjónarmaður 5. júní 2013 beint sérstöku erindi til bótanefndar samkvæmt lögum nr. 69/1995 til að fá endurkröfu vegna greiddra bóta lækkaðar eða felldar niður á grundvelli laganna. Erindinu hafi verið hafnað með bréfi nefndarinnar 23. september 2013. Fram komi í bréfi umsjónarmanns að í ljósi afstöðu sýslumanns, sem staðfest hafi verið af bótanefnd, þyki sýnt að ekki sé unnt að ljúka greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda með samningi við kröfuhafa. Óski umsjónarmaður á ný eftir afstöðu kæranda til þess að leitað verði nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Láti kærandi ekki afstöðu sína í ljós innan frests sjái umsjónarmaður sér ekki fært að halda áfram greiðsluaðlögunarumleitunum og muni því leggja til við umboðsmann skuldara að þeim umleitunum verði hætt.

Með bréfi 11. desember 2013 tilkynnti umsjónarmaður kæranda um ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að fjárhagserfiðleika kæranda megi rekja til nokkurra þátta. Hann hafi gengið í gegnum skilnað á árinu 2005 en það hafi að hans sögn verið honum andlega og fjárhagslega þungbært. Hann hafi greinst með þunglyndi árið 2007 sem að einhverju leyti hafi mátt rekja til atvinnumissis á því ári. Síðar á árinu 2007 hafi kærandi verið valdur að umferðarslysi þar sem hann ásamt fleirum slasaðist. Kærandi hafi verið dæmdur til greiðslu skaðabóta og sakarkostnaðar vegna slyssins. Fram kemur að kærandi sé öryrki vegna slyssins og ekki fyrirséð að tekjur hans muni aukast nokkuð á næstu árum vegna takmarkaðrar getu hans til að stunda vinnu.

Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur kæranda vegna örorkubóta séu 160.000 krónur. Mánaðarleg framfærsla kæranda samkvæmt neysluviðmiðum umboðsmanns skuldara og gögnum frá kæranda sjálfum sé 279.803 krónur. Mánaðarleg greiðslugeta sé því neikvæð um 119.803 krónur.

Heildarkröfur á hendur kæranda séu 18.187.403 krónur, þar af séu 2.153.762 krónur vegna skaðabóta, sakarkostnaðar og dómsekta sem greiðsluaðlögun tekur ekki til samkvæmt f-lið 1. mgr. 3. gr. lge. Kærandi sé eignalaus.

Við töku ákvörðunar um hvort umsjónarmaður mæli með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á skuli umsjónarmaður, í samræmi við 1. mgr. 18. gr. lge., líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til sín taka.

Mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé neikvæð um 119.803 krónur og mjög ólíklegt að sú staða muni breytast til batnaðar í fyrirsjáanlegri framtíð svo nokkru nemi. Kröfur utan greiðsluaðlögunar nemi 2.153.762 krónum. Sé tekið mið af greiðslugetu kæranda og afstöðu sýslumannsins á Blönduósi, sem hafi ekki samþykkt niðurfellingu á sinni kröfu, sem sé um helmingur þeirrar fjárhæðar sem standi utan greiðsluaðlögunar, sé að mati umsjónarmanns útilokað að kærandi geti greitt þessa kröfu. Eigi þetta við jafnvel þótt til kæmi algjör niðurfelling á öðrum kröfum með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar. Með vísan til þess sé það ákvörðun umsjónarmanns að mæla gegn því að nauðasamningur komist á samkvæmt 1. og 2. mgr. 18. gr. lge.

Fram kemur í ákvörðun að kærandi hafi að öllu leyti staðið heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, sýnt mikinn vilja til samstarfs og úrlausnar gagnvart kröfuhöfum og umsjónarmanni og staðið við skyldur sínar í samræmi við ákvæði lge.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer þess á leit við kærunefnd greiðsluaðlögunarmála að ákvörðun umsjónarmanns verði endurskoðuð sérstaklega í ljósi nýrra upplýsinga.

Kærandi bendi á að þrátt fyrir að umsjónarmaður hafi verið skipaður 17. maí 2011 hafi hann ekki haft samband við sig fyrr en í ágúst sama ár. Kærandi hafni því sem fram komi í ákvörðun að ábyrgðarmönnum og samskuldurum hafi verið send tilkynning um greiðsluaðlögunarumleitanir. Þeir hafi engar tilkynningar fengið. Þá segi í ákvörðun að fyrsti fundur umsjónarmanns með kæranda hafi verið 15. ágúst 2013. Kærandi telur þetta rangt og vísar til tölvupóstsamskipta hans við umsjónarmann þar sem fram komi að þeirra fyrsti fundur hafi verið haldinn 13. júní 2012. Auk þess geri kærandi athugasemdir við að hann hafi ekki fengið að velja hvaða fasteignasala annaðist sölu á fasteign hans. Fasteign hans hafi verið seld að kröfu umboðsmanns skuldara.

Kærandi segir að upplýsingar um ráðstöfunartekjur sem fram komi í ákvörðun séu ekki réttar. Mánaðarlegar tekjur hans séu örorkubætur að fjárhæð 171.000 krónur og húsaleigubætur að fjárhæð 57.000 krónur. Samtals séu mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hans 228.000 krónur. Neikvæð mánaðarleg greiðslugeta kæranda sé því ekki nema rúmar 50.000 krónur sem kærandi telji að hægt sé að vinna úr og finna til mánaðarlega. Að lokum geri kærandi athugasemdir við upplýsingar sem fram komi í ákvörðun um skuldir innan samnings og segir þær ekki samrýmast samantekt frá umsjónarmanni 23. mars 2012.

 

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar eða greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Ákvörðun umsjónarmanns um að mæla gegn nauðasamningi byggist annars vegar á afstöðu kröfuhafa og hins vegar að kærandi geti ekki staðið við skuldbindingar sem nema 2.153.762 krónum að fenginni greiðsluaðlögun. Skuldir þessar séu vegna skaðabóta, sakarkostnaðar og dómsekta. Mánaðarlegar tekjur kæranda séu 160.000 krónur en mánaðarleg framfærsla 279.803 krónur. Greiðslugeta kæranda sé því neikvæð og útilokað að kærandi geti greitt þessar kröfur. Þetta eigi við jafnvel þó allar aðrar kröfur á hendur honum yrðu felldar niður. Í kæru kemur fram að upplýsingar um ráðstöfunartekjur séu rangar í ákvörðun umsjónarmanns. Ráðstöfunartekjur kæranda séu í reynd hærri en umsjónarmaður geri ráð fyrir, eða um 228.000 krónur á mánuði.

Samkvæmt gögnum málsins eru kröfur sem falla utan greiðsluaðlögunar dómsekt að fjárhæð 109.000 krónur og skaðabótakrafa að fjárhæð 918.351 króna, samtals 1.027.351 króna. Greiðsluaðlögun tekur aftur á móti til sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 3. gr. lge. Staðhæfing umsjónarmanns um að skuldir kæranda, sakarkostnaður, dómsekt og skaðabætur, samtals að fjárhæð 2.153.762 krónur falli utan greiðsluaðlögunar er því ekki að öllu leyti rétt.

Þrátt fyrir framangreindan annmarka á ákvörðun umsjónarmanns er ljóst að greiðslugeta kæranda er neikvæð jafnvel þótt miðað sé við að ráðstöfunartekjur kæranda séu 228.000 krónur á mánuði. Verður því að fallast á það mat umsjónarmanns að kærandi geti ekki staðið við skuldbindingar sínar utan greiðsluaðlögunar að fjárhæð 1.027.351 króna að fenginni greiðsluaðlögun.

Með vísan til framangreinds verður að fallast á að þau sjónarmið sem umsjónarmaður lagði til grundvallar mati sínu þess efnis að ekki sé raunhæft að kærandi geti staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun. Ber því með vísan til 18. gr. lge. að staðfesta ákvörðun umsjónarmanns um að mæla ekki með nauðasamningi kæranda.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B hrl., um að mæla gegn nauðasamningi A er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir

Lára Sverrisdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum